Föstudagur 04.11.2011 - 08:50 - 14 ummæli

Einelti

Mikil umræða hefur verið um einelti í skólum.  Foreldrar og börn hafa komið fram opinberlega og sagt frá sárri reynslu af einelti.  Starfsmenn skóla hafa staðið hljóðir hjá og lítið getað tjáð sig. Í gær barst fréttatilkynning frá formanni Skólastjórafélags Íslands og varaformanni Félags grunnskólakennara.  Þar gagnrýndu þær umræðu um einelti í fjölmiðlum og vildu að umræða um tilfelli eineltis haldist innan skóla eða sveitarfélaga, en ekki í fjölmiðlum.

Ég er mjög hugsi yfir þessu.

Einelti er ofbeldi.  Í skilgreiningu vinnuhóps á vegum Velferðar- og menntamálaráðuneytis var einelti skilgreint sem endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að ábyrgðin á ofbeldi er fyrst og fremst þeirra sem beita ofbeldi.  Ábyrgðin okkar hinna er bregðast við og gera það sem við getum til að koma í veg fyrir það.

Umfjöllun fjölmiðla um einelti hefur vakið mig til umhugsunar.  Ég hef velt fyrir mér hvað ég geti gert sem þingmaður til að draga úr líkum á að nokkurt barn þurfi að upplifa þann sársauka sem fylgir einelti.  Ég hef velt fyrir mér hvað ég og félagar mínir á Alþingi geta gert til að hjálpa starfsmönnum skólanna til að fást við þetta erfiða vandamál.

Kannski ekkert…- og þó.

Í samtölum mínum við kennara hafa þeir rætt um hjálparleysið sem þeir upplifa með þau úrræði sem eru til staðar. Afleiðingin er oft að fórnarlambið þarf að flytja sig um skóla. Er möguleiki á að við getum breytt nálguninni, líkt og við gerðum hvað varðar fórnarlömb heimilisofbeldis?  Að í stað þess að fórnarlambið fari þá þurfi sá sem beitir ofbeldinu að flytja sig um set.

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að ræða um mögulegar tillögur.

Því hef ég óskað eftir opnum fundi í allsherjar- og menntamálanefnd um einelti í skólum.  Hef ég óskað eftir að ræddar verði tillögur til úrbóta.  Ég lagði jafnframt fram spurningar fyrir bæði velferðarráðherra og menntamálaráðherra um eftirfylgni við tillögur um einelti í skólum og vinnustöðum frá 2010.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Þú ert nú eini þingmaður flokksins sem virðist hugsa um alvöru mál, hinir bara í megrun eða búa til orðatiltæki til að vekja athygli á sér! Eh… reyndar sakna ég frétta af hlaupaferli þínum 🙂

    Flottar tillögur. Skólarnir hafa ekkert bolmagn til að sinna einstökum nemendum, börn eru agalausari en fjármálastjórnin fyrir 2008, foreldrarnir standa við ginnungargap kreppunar, skólarnir geta ekkert gert. Skólarnir reyna svo að þagga þetta niður. Í raun ætti að vera taskforce sem fer á staðinn (fyrir allt landið) þegar að svona mál koma upp og gæti þá einmitt skikkað þá sem standa fyrir þessu í annan skóla (ok, viðvörun fyrst).

  • Sæl
    Takk fyrir þessa hugleiðingu. Hún er mikilvægt atriði í þeirri umræðu sem þarf að eiga sér stað. Ég tel þessa nálgun sem þú nefnir vera af hinu rétta. Ég tel engu að síður að grundvallaratriði þurfi að vera til staðar í Íslensku þjóðfélagi, sem hefur ekki verið fram til þessa. Þetta atriði kemur fram í flestum þeim vandamálum sem komið hafa upp í voru þjóðfélagi, viðbrögð við þeim og afleiðingar af þeim viðbrögðum.
    Það sem ég á við er skortur á sjálfsgagnrýni, gagnrýnni hugsun og getunni til að taka á móti gagnrýni og viðurkenna að kannski hafi maður sjálfur gert eitthvað rangt. Engin….og þá meina ég enginn af þeim sem stjórnuðu, bankamenn, biskup, eða fólk sem vann og er vinnandi í kerfinu hefur sagt opinberlega eða á fundum að viðkomandi hafi gert mistök, viðurkenni að betur hefði mátt gera og að markmiðið sé að gera betur næst. Flestir benda á alla hina sem gætu átt hlut að máli og gefa frekar í heldur en hitt. Á meðan þetta skortir….munu lausnir vera fáar og árangur þeirra lausna enn minni. Þátttaka almennings verður enginn, því trúverðugleiki og traust á því að eitthvað sé að gerast er ekki til. Ef þjóðinni tekst að læra þetta, á öllu því sem átt hefur sér stað í voru þjóðfélagi, þá er allt hægt í framhaldi af því. AÐ taka ábyrgð, að hlusta á gagnrýni, að viðurkenna og verða auðmjúkur gagnvart þeirri staðreynd að maður er ekki fullkominn og jafnvel að kunna að leita sér ráða eða hjálpar er eitthvað sem Íslendingar þurfa að læra. Fyrr verður ekki hægt að bæta neitt.

  • Ég vil vekja athygli þína, Eygló, að kynferðisleg áreitni fellur einungis undir einelti sé um fullorðinn að ræða, þ.e.a.s. skv. Reglugerð um einelti á vinnustað. Kynferðisleg áreitni sem fullorðinn beitir einstakling undir 18 ára aldri (ímyndum okkur t.d. kennara sem káfar á nemendum) fellur undir brot á almennum hegningarlögum og er mál barnaverndaryfirvalda og lögreglu en ekki skóla. Skólayfirvöldum er að sjálfsögðu skylt að tilkynna öll slík
    til barnaverndarnefnda eða þeirra sem fara með barnaverndarmál í viðkomandi sveitarfélagi og leiðbeina foreldrum um hvert þeir eigi að leita (væntanlega vildu sumir foreldrar kæra til lögreglu).

    Ég er ekki viss hvernig það flokkast ef barn eða ungmenni, (þ.e. einstaklingur undir 18 ára aldri) áreitir annan á sama aldri á kynferðislegan hátt en held að það hljóti einnig að heyra undir barnaverndarnefnd sem fyrsta skref en ekki skóla og flokkist alls ekki sem einelti. Skólayfirvöldum er og væntanlega skylt að tilkynna öll slík tilvik til barnarverndarnefndar (eða ígildi hennar).

    Athugaðu að það er erfitt að spyrða saman einelti í skólum og vinnustaðaeinelti því skilgreining á þessu tvennu er um margt ólík.

    Það er full ástæða til að vekja athygli á vinnustaðaeinelti. Og vekja athygli á að kynferðislegri áreitni einstaklings undir 18 ára aldri af hendi þess sem trúað er fyrir barninu (t.d. til uppfræðslu eða kennslu) er refsiverð háttsemi skv. almennum hegningarlögum en fellur ekki undir einelti. Þú gætir kannski beitt þér í því. Menn virðast nefnilega nokkuð velkjast í vafa um hvað sé einelti, miðað við almenna umræðu, og þ.a.l. hvað sé í verkahring skólanna að leysa. Ég er ekki einu sinni viss um að kennarar eða annað skólafólk geri sér almennt grein fyrir þessu. Kynferðisleg áreitni og alvarlegt ofbeldi gegn barni eru lögbrot en ekki eitthvað sem skólayfirvöld og kennarar eiga að fjalla um undir merkimiðanum „aðgerðir gegn einelti“.

  • Eygló Harðardóttir

    Í greinargerðinni frá ráðuneytunum kemur fram að töluverð umræða hafi verið í starfshópnum um skilgreiningu á einelti og þetta hafi verið niðurstaðan.

    Hópurinn var að vinna með einelti bæði í skólum og á vinnustöðum. Þótt umræða hafi verið mikil hér á landi um einelti í skólum þá hef ég tekið meira eftir umræðu á vinnustöðum t.d. í Noregi og Svíþjóð.

    Ég er ansi hrædd um að staðan sé oft svipuð á vinnustöðum, að fórnarlambið neyðist til að fara annað.

  • Þú hefur eitthvað misskilið skýrsluna, Eygló, því á s. 5 er svokölluð „vinnuskilgreining hópsins“ á einelti og tekið fram í neðanmálsgrein: „Skilgreiningin byggist nánast á óbreyttri skilgreiningu Vinnueftirlits ríkisins á einelti. Þó ber að geta þess að nemendur falla ekki undir Vinnuverndarlög. Breyta þyrfti lögum til þess að nemendur féllu undir lögin.“

    Þetta sem þú vísar í er sem sagt skilgreiningin á vinnustaðaeinelti sem má einnig finna í reglugerð um einelti á vinnustöðum.

    Lögin sem þyrfti að breyta til að einelti sem beinist að ungmennum undir 18 ára aldri félli að þessari skilgreiningu eru m.a. almenn hegningarlög og barnaverndarlög.

    Ég hvet þig eindregið til að kynna þér þessi mál vel, mér finnst það hrósvert, en gættu vel að því hvaða lög gilda um ofbeldi og kynferðisbrot gegn börnum sem og tilkynningaskyldu um slík brot.

    Á s. 18 í skýrslunni frá 2010 kemur fram sjónarmið Barnaverndarstofu:

    „Á fundi með fulltrúa Barnaverndarstofu kom fram að það sé ekki skilgreint verkefni barnaverndar að börn séu örugg í skólum. Barnaverndin hefur ekki stjórnsýsluvald yfir skólunum og getur því ekki haft frumkvæði að viðbrögðum þegar um eineltismál er að ræða. Hlutverk barnaverndar er fyrst og fremst að grípa inn í þegar foreldrar bregðast barni. Tilkynningar sem berast barnaverndarstofu um einelti koma gjarna frá lögreglu. Þá eru það tilfelli sem varða líkamlegt ofbeldi. Í lögum um barnavernd er hvergi minnst á hugtakið einelti. Hugtakanotkun er önnur og þar er fjallað um ofbeldi. Á fundinum var því velt upp hvort hægt væri að auka samstarf við skóla með lagabreytingu þar sem hlutverk barnaverndar væri skilgreint víðar. Þórarinn Eyfjörð kallaði eftir betri verkfærum til að vinna með eineltismál. Nóg væri komið af greiningum, prósentutölum og kortlagningu. Algeng leið sem stjórnendur fara er að kaupa sálfræðinámskeið eða sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir þolandann til að laga vandamálið hjá honum. Fókusinn er oftast ekki á gerandanum – ekki síst ef hann er stjórnandi.“

    Þannig að ef skólayfirvöld bregðast (sem þau gera stundum) er Barnaverndarstofa máttlaus nema foreldrar eineltisþolanda hafi kært ofbeldi til lögreglu, því í máli Þórarins kemur fram að skólarnir hafi ekki samband við Barnaverndarstofu þrátt fyrir tilkynningaskyldu um ofbeldi gegn barni.

    Kynferðisbrot gegn börnum eru flokkuð í tvo mismunandi alvarlega flokka í almennum hegningarlögum. Þau ber að kæra til lögreglu sem tekur afstöðu til þess hvort vísa eigi málinu áfram.

    Þessi umræða, þ.e.a.s. um „minni háttar“ kynferðisbrot gegn börnum af hálfu aðila sem hefur með „uppfræðslu eða kennslu“ þeirra að gera hefur þegar farið fram í sb. við ótilhlýðilega háttsemi prests við fermingarstúlkur, á Selfossi. Þegar málið kom upp var presturinn umsvifalaust sendur í leyfi meðan það var rannsakað. Mig minnir að niðurstaða sýslumanns hafi verið að málsatvik væru ekki nógu alvarleg til að vera tilefni kæru en presturinn snéri ekki aftur til starfa.

    Samsvarandi mál hafa komið upp með lögreglumann og til er bréf frá menntamálaráðherra til allra skóla þar sem kemur skýrt fram að kennarar ungmenna undir 18 ára aldri skuli sendir í leyfi meðan mál þeirra eru rannsökuð … alveg burtséð frá því hvort niðurstaðan sé efni til kæru eða ekki.

    Þannig að í sb. við einelti verður að hafa í huga muninn á vinnustaðaeinelti (sem er skilgreint í reglugerð) og einelti í skólum (sem er hvergi skilgreint lagalega). Í sb. við hið síðara verður að hafa í huga hver staða gerandans er og ef um fullorðinn er að ræða er tilkynningaskylda skólans sæmilega skýr sem og leiðbeiningaskylda stjórnvalds (sveitarstjórnar/borgarstjórnar) til foreldra. Skýrast er þetta í málum þar sem fullorðinn gerandi beitir ungmenni undir 18 ára aldri kynferðislegri áreitni (sem fellur undir kynferðisbrot almennra hegningarlaga). Þ.a.l. er nánast ómögulegt að telja slíkt falla undir einelti.

    Einelti sem hópur barna beitir annað barn er illa skilgreint og skólum virðist ganga illa að uppræta slíkt. Hér á Akranesi er eitt mál í gangi þar sem foreldrar þolandans kröfðust þess að aðalgerandinn yrði fluttur í annan skóla. Foreldrar gerandans neita að hlýta því og bæjarstjórinn er ráðalaus (þetta var í fjölmiðlum um daginn og mín eina vitneskja um málið er viðtalið við bæjarstjórann sem ég las þar).

    Ég er sammála niðurstöðu þinni að fórnarlömbin neyðist yfirleitt til að víkja, hvort sem um vinnustaðaeinelti eða einelti skólabarna sé að ræða. Erlendar rannsóknir sýna nákvæmlega það sama um vinnustaðaeinelti, sérstaklega stjórnendaeinelti og raunar er það niðurstaða bandarískra og breskra rannsakenda að kennarar séu í einna mestum áhættuhópi eineltis á vinnustað.

    Það þarf sem sagt líka að huga að því hvort eigi að skoða einungis nemendaeinelti í skólum eða vinnustaðaeinelti líka.

  • Eygló Harðardóttir

    Sæl Harpa og takk kærlega fyrir þessar ítarlegu og góðu ábendingar.

    Ég held að við séum mjög sammála. Þessi punktar sem þú ert með eru mjög góðir og ég vil gjarnan fylgja þeim eftir.

    Ég skal sérstaklega skoða þetta með tenginguna á milli barnaverndarlaga og laga um skóla. Það er sérstaklega áhugaverð þessi ábending um að skólar hafa jafnvel ekki samband við Barnaverndarstofu þrátt fyrir tilkynningaskyldu um ofbeldi gegn barni.

    Er það vegna þess að við lítum ekki á andlegt ofbeldi sem raunverulegt ofbeldi? Ég hef heyrt að þolendur heimilisofbeldis tala um að andlega ofbeldið geti jafnvel verið verst, – þar sem það drepur sál þess sem fyrir verður.

    Er það ekki ágætis lýsing á einelti?

    Ég myndi vilja skoða bæði, einelti í skólum og á vinnustöðum. Þetta eru ekki bara börnin okkar, – heldur er vandamálið mun víðtækara.

  • Sæl Eygló,

    Í skólum erlendis sem mín börn hafa sótt hefur jafnan verið tekið mjög vel á einelti. Lykilatriði hefur verið að líta á gerandann/gerendur sem vandamál, ekki fórnarlambið…

    Sem dæmi má nefna að í alþjóðaskólanum í Kaupmannahöfn var börnunum kennt allt um einelti og útskýrt fyrir þeim að sá sem stæði fyrir einelti ætti bágt og það ætti að vorkenna viðkomandi. Strax ætti að láta kennara vita svo hægt væri að hjálpa honum/henni. Enda var það þannig að einelti þekktist ekki í heilu árgöngunum. Sá skóli var jafnframt miskunarlaus í því að reka gerendur úr skólanum ef því var að skipta og kalla fyrir foreldra gerendanna.

    Kveðja frá Washington

    Friðrik

  • Bara þrennt sem ég vil benda á að lokum (og svo lofa ég að hætta að skrifa á umræðuþráðinn bloggsins þíns):
    1. Árið 2001 kom út skýrslan „Niðurstöður starfshóps um tillögur um aðgerðir gegn einelti í grunnskólum“ sem er aðgengileg á vef Mrn. (langbest er að leita í útgáfuskrá, t.d. með leitarorðinu „einelti“ því skipt var um gagnagrunn ráðuneyta og upp og ofan hvort krækjur, t.d. af fréttasíðum, virka). Þessi skýrsla er mjög lituð af hugmyndum Olweus, sem sést m.a. í niðurstöðum til úrbóta. Í henni er gerð tilraun til að skilgreina nemendaeinelti, á s. 3.

    2. Verkefnisstjórnin um aðgerðir gegn einelti starfar ennþá. Til að fá upplýsingar um starf hennar, t.d. hvað af tillögum hennar frá 2010 hafi verið hrundið í framkvæmd er einfaldast að hafa sb. við t.d. verkefnisstjórann, Árna Guðmundsson (sem hlýtur að starfa í einhverju þessara þriggja ráðuneyta, eða starfsmann, t.d. Þór Þórarinsson, sem starfar í Velferðarráðuneytinu.

    3. Ástæða þess að skólar á Reykjavíkursvæðinu hafa ákveðið að taka ekki þátt í „sérstökum degi gegn einelti 8. nóvember 2011“ (sem er hugmynd verkefnisstjórnarinnar) er m.a. skýrsla eða úttekt sænska menntamálaráðuneytisins, sem sýnir sáralítinn árangur af sérstökum eineltisáætlunum skóla eða átaki í þá veru. (Svíar skoðuðu árangur af Olweus, Lion Quest o.fl.) og telur að sumar svona áætlanir geri einelti enn verra. Sjá fréttina á eftirfarandi krækju og þaðan er krækt í skýrsluna sjálfa. http://www.skolverket.se/2.3894/publicerat/2.4117/2011/skolverket-rekommenderar-inget-program-mot-mobbning-1.123154#.TqqrcoL6y3M.facebook

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Þetta er góð grein hjá þér eygló eins og vænta mátti. Einelti þrífst á meðan þeir sem beita því þrífast hefur mikil reynsla og nokkur þekking kennt mér. Hef verið kennari í 21 ár, verið Olweusverkefnisstjóri á Suðurnesjum og reynslu sem þolandi. Alþingismenn geta margt gert en þurfa margir að breytast úr gerendum í að sýna þolendum samstöðu ekki satt? Mæli með bók dr. Sans Olweus Mobbning i skolen…og því að þú komir í heimsókn á Suðurnesin, ég skal vera leiðsögumaður ef þú villt!

  • Jóhanna Aðalsteins.

    Engin opinber menntastofnun á að taka mark á
    Skólayfirvöldum Svíþjóðar.
    Engir skólar í Evrópu hafa dalað jafn hratt
    skólar þar S.l.15-20ár
    Menntamálaráðherra Svíþjóðar er mjög óhress með stöðu mála. Það er mjög skiljanlegt.

  • Siggi Jóns.

    Er það virkilega svo að það sé verið að ala upp glæpamenn í skólunum?
    Að hrekja barn til sjálfsvígs, eins og nýlegt dæmi er um, með einelti, hlýtur að teljast refsiverður glæpur.
    Og að sjálfsögðu á að fara fram lögreglurannsókn á svona málum og gerendur gerðir ábyrgir ásamt skólayfirvöldum, ef að sekt sannast.
    Að hrekja barn í dauðann er ekki minni glæpur en margt annað sem fólk er dæmt fyrir.
    Einelti á ekki að þagga niður frekar en nauðgun, hvort tveggja er ofbeldi og ef að það þrífst, þá er það á ábyrgð samfélagsins og það eruð þið alþingismenn sem setjið samfélaginu lög.
    Ykkar er ábyrgðin.
    Eitthvað hljótið þið þingmenn og þjóðin öll að hafa lært af bæði Vistheimilamálunum og Biskupsmálinu.

  • Kennarar og gangaverðir eru lykilatriði í þessum málum. Það þýðir ekkert að tala við skólastjóra sem hafa bara það svar að það sé ekkert einelti í þeirra skóla, ég þekki það allt of vel.
    Kennarar þurfa mikin stuðning til að fást við þetta. Það eru kennararnir sem þurfa að hafa bein í nefinu og sýna mikin styrk. Því miður eru allt of margir kennarar of miklar gufur til að takast á við þetta en einnig sem betur fer margir sem geta það og hafa áhuga á því.
    Hef fengið nóg af einhverjum sálfræðingum sem hafa engar lausnir en geta bara talað um hlutina og sama er með eineltisteymin sem eru aldrei til staðar þar sem eineltið á sér stað.

    Hef þurft að láta reyna á þetta frá mörgum áttum og með mörgum aðferðum sem foreldri barna sem hafa lent í einelti.
    Foreldrar gerenda þurfa líka að fá sitt verkefni og það gæti þurft að láta þá mæta með barni sínu í skólann og halda í hendina á því allan tímann til að það læri að umgangast annað fólk. Það þarf að taka hart á þessu.

    Ef skólastjórinn svarar með einhverri vitleysu þá þarf fara framhjá honum og tala við þann sem er yfir honum og áfram röðina ef með þarf. Ekki láta stöðva sig.

  • Hér með skora ég á alþingismenn og ráðherra að hringja bjöllum gegn einelti og KYNFERÐISÁREITI(ofbeldi) þann 8. nóv. kl. 13:00, fyrir ALLA aldurshópa.

    SAMLÍÐUN ER DÝRMÆTI EN ÞAÐ ER HIN ÚTRÉTTA HJÁLPARHÖND SEM VINNUR VERKIÐ !!!

    Skora á fólk að hringja öllum bjöllum
    Skúli Hansen skulih@mbl.

    http://kirkjan.is/2011/11/8-november-er-dagur-gegn-einelti/

    http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33080

    Slysavarnaskóli sjómanna mun þeyta flautu skólaskipsins Sæbjargar.

    Eimskip mun að sjálfsögðu taka þátt í þessu og láta þau skip sem verða í höfn flauta.

    Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir,
    Eineltissamtökin, (stofnsett 1998),
    Líknarfélagið Höndin 2006,
    Samstarfshópur um Vinnuvernd á Íslandi(2006) og
    Sérsveit gegn einelti(2009). https://www.facebook.com/group.php?gid=324316875533

  • http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/5528

    Hér stendur skýrum stöfum:Árlegur dagur verði helgaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni.

    30 tillögur að aðgerðum gegn einelti í skólum og á vinnustöðum í nýrri skýrslu starfshóps.
    Árlegur dagur verði helgaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni.
    Fagráði sem veitir ráðgjöf vegna erfiðra og illleysanlegra eineltismála verði komið á fót.
    Ríkisstjórnin styður sérstaklega við aðgerðir gegn einelti með 9 m.kr. framlagi af ráðstöfunarfé.

    Af hverju er ekki komið fagráð – Sannleiksnefnd. – ,,Það þarf að vera óháð Velferðarráðuneytinu og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu“. – Ég hef lagt til að það fari að hluta til í gegnum Innanríkisráðuneytið.

    Hvernig hefur 9. milljónunum verið varið ?

    Svo óska ég eftir fundi með Menntamálanefnd Alþingis, eða öllu heldur ítreka þá beiðni.
    Sem og Félagsmálanefnd Alþingis.

    Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir,
    Eineltissamtökin, (stofnsett 1998),
    Líknarfélagið Höndin 2006,
    Samstarfshópur um Vinnuvernd á Íslandi(2006) og
    Sérsveit gegn einelti(2009). https://www.facebook.com/group.php?gid=324316875533

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur