Miðvikudagur 09.11.2011 - 13:12 - 14 ummæli

Yfirlýsing frá þingflokki framsóknarmanna: Villandi og meiðandi umfjöllun

Þingflokkur Framsóknarmanna fordæmir villandi og meiðandi umfjöllun um Framsóknarflokkinn sem birt var á bls. 46 í Fréttatímanum helgina 4.-6. nóvember undir yfirskriftinni „heimurinn“, og er skrifuð af Eiríki Bergmann Einarssyni dósent við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi varaþingmanni Samfylkingarinnar. Eiríkur fjallar þar í nokkrum greinum um ýmsar þjóðernisöfgahreyfingar í Evrópu og blandar Framsóknarflokknum í þá umræðu með afar undarlegum hætti. Tilefni tengingarinnar við Framsóknarflokkinn er að á flokksþingi framsóknarmanna fyrr á þessu ári hafi íslenski fáninn og fánalitirnir verið áberandi og sýnd hafi verið íslensk glíma. Loks er því haldið fram að merki flokksþingsins (sem Eiríkur virðist telja að sé merki flokksins) hafi fasíska skírskotun. Framsóknarmenn geta ekki setið undir ósönnum aðdróttunum um þjóðernisöfgar og útlendingahatur, aðdróttunum sem settar eru fram í pólitískum tilgangi og á fráleitum forsendum. Ekkert í stefnu flokksins réttlætir slíka umfjöllun, þvert á móti, enda víkur Eiríkur ekki einu orði að stefnu flokksins í skrifum sínum. Þingflokkurinn telur mjög alvarlegt að fulltrúi háskólastofnunar leyfi sér að koma fram á þennan hát

1.       Í greininni „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“ er gefið sterklega í skyn að Framsóknarflokkurinn tengist hatursfullri öfgaþjóðernishyggju og andúð á innflytjendum sem fjallað er um í sömu grein. Gengið er svo langt að tengja Framsóknarflokkinn við fasisma beinum orðum. Þessar ósönnu aðdróttanir eru greinarhöfundi, Fréttatímanum og Háskólanum á Bifröst til minnkunnar. Óásættanlegt er að dósent við Háskólann á Bifröst skrifi á þennan hátt í nafni skólans um pólitíska andstæðinga sína. Ljóst er af umfjölluninni að ekki er unnt að líta á Eirík Bergmann Einarsson sem óháðan álitsgjafa um stjórnmálaleg álitaefni.

2.       Framsetning umfjöllunarinnar og mynda sem henni fylgja er mjög villandi og í raun með hreinum ólíkindum. Framsetningin verður ekki skilin á annan hátt en að henni sé ætlað að skapa bein hugrenningatensl hjá lesendum milli formanns Framsóknarflokksins annars vegar og öfgasamtaka og hryðjuverkamanna hins vegar. Slíkt er þekkt og ófyrirleitið áróðursbragð.

3.       Uppsetning greinarinnar „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“ er mjög  villandi. Við fyrstu sýn virðist vera um að ræða grein eftir formann Framsóknarflokksins. Engan veginn er augljóst fyrir lesendur að Eiríkur Bergmann sé höfundur greinarinnar. Kannanir sýna að stór hluti lesenda dagblaða lítur aðeins á fyrirsagnir og myndir. Því er þessi framsetning mjög skaðleg og til þess fallin að villa um fyrir lesendum hvað varðar stefnu og málflutning Framsóknarflokksins.

4.       Skrif Eiríks Bergmann um Framsóknarflokkinn í umfjölluninni gefa því miður til kynna að hann hafi litla sem enga þekkingu á stefnu Framsóknarflokksins, hvorki grunnstefnu hans né ályktunum flokksþinga. Hvergi ber Eiríkur stefnu Framsóknarflokksins saman við stefnu þeirra erlendu öfgaflokka eða innlendu öfgasamtaka sem hann fjallar um. Slíkur samanburður hlýtur að teljast hluti af eðlilegum vinnubrögðum fræðimanns í umfjöllun um fræðasvið sitt og hefði strax leitt í ljós að ekkert í stefnu Framsóknarflokksins á nokkuð skylt við þjóðernisöfgar eða stefnu öfgaflokka. Í staðinn kýs Eiríkur að leggja til grundvallar skrifum sínum ályktanir dregnar af skemmtiatriði á flokksþingi og notkun íslenska fánans, m.a. í flokksþingsmerki. Ætla mætti að fræðimaður á hans sviði þekkti áratuga löng tengsl Framsóknarflokksins við Ungmennafélag Íslands, en glíma og þjóðfáninn skipa mikilvægan sess í sögu og athöfnum UMFÍ. Stjórnmálafræðingur ætti einnig að vera kunnugur þeirri löngu hefð í starfi íslenskra stjórnmálaflokka og félagasamtaka að nota fánaliti í merkjum sínum og á fundum. Má þar t.d. benda á Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðuflokkinn. Að telja það merki um öfgafulla þjóðernishyggju er nýstárleg stjórnmálafræðikenning. Sú staðhæfing Eiríks að merki flokksþingsins vísi í „klassísk fasísk minni“ er óskiljanleg því að rísandi sól (sem merkið sýnir) er einmitt þvert á móti klassískt andfasískt tákn um framsækni og bjartar vonir. Slík merki eiga sér áratuga langa hefð á Íslandi, m.a. hjá ungmennafélögum, verkalýðsfélögum og vinstriflokkum.

Þingflokkur framsóknarmanna fordæmir þessa villandi og meiðandi umfjöllun og framsetningu. Allar aðdróttanir um öfgafulla þjóðernishyggju og andúð á innflytjendum í Framsóknarflokknum eru ósannar og eiga sér enga stoð í stefnu og málflutningi flokksins heldur þjóna pólitískum markmiðum viðkomandi. Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að Fréttatíminn og Háskólinn á Bifröst geri upp við sig til framtíðar hvað þau telja samboðið virðingu sinni að birta opinberlega í sínu nafni. Ósannar ásakanir og villandi framsetning, að því er virðist í pólitískum tilgangi, rýra verulega trúverðugleika beggja aðila.

Þingflokkur framsóknarmanna vekur athygli á Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins sem byggir á frjálslyndi, samvinnu, jöfnuði og virðingu fyrir mannréttindum.

Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks Framsóknarmanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins

Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins

Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður

Höskuldur Þórhallsson alþingismaður

Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður

Vigdís Hauksdóttir alþingismaður

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Samþykkt á 26. flokksþingi 16.-18. mars 2001

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

 • Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Fréttatíminn reynir að kasta rýrð á Framsóknarflokkinn. Strax eftir að flokksþing Framsóknar samþykkti að hagsmunum Íslands væri best borgið utan ESB þá kom fyrsta atlagan, henni beint að Sigmundi Davíð. Mér finnst líka skrýtið að enginn virðist vita hver á þetta blað. Þegar ég spurði einn kunningja minn að því þá svaraði hann að „það væri einhver maður úti í bæ“. Eins og engu skipti hver væri eigandinn. Hvers vegna er það góð fjárfesting að eiga vikulegt blað sem dreift er ókeypis til margra Íslendinga. Eitthvað hlýtur það að kosta, afhverju ætti þessi „maður úti í bæ“ að standa í þessu? Hver hefur aðgang að svo miklu fé í okkar þjóðfélagi? Tengist þetta nokkuð umsókn okkar að ESB? Hvenær var umsóknin að ESB og hvenær var Fréttatíminn stofnaður?

 • Þessi yfirlýsing er fáránleg í ljósi þess að þeta er upplifun fleiri m.a. mín á því hvert Framsóknarflokkurinn hefur veirð að stefna með hrópum um vonda útlendinga að knésetja þjóðina af hreinni illsku í gegnum Æseif, hryðjuverkalögin, AGS eða ESB, stækan þjóðrembing, landráðabrigslum o.fl. frá þingmönnum og helstu forkólfum í bland við samlíkingar formanns ykkar á ríkistjórninni við Stalín, Lenín og ógnarstjórnir Austur-Evrópu. Ef eitthvað er þá ætti flokkurinn, þingmen, forkólfar og formaðurinn að biðja þjóðina afsökunar á slíkri hegðun.

  Og stefna hefur ekkert að segja heldur hvernig þið hegðið ykkur. Frjálslyndi flokkurinn hafði t.d. fallega orðaða stefnu meðan hann sullaði í því að kynda undir fordóma og hatur í garð útlendinga.

  Manni sýnist því ekki annað en að Eiríkur Bergmann hafi hitt á hörundsáran blett og sannan í þessari grein sinni jafnvel þó Framsóknarflokkurinn geti ekki horfst í augun við það.

 • Sannleikanum verður hver sárreiðastur…….

  Þetta er bara sorglegur pistill hjá þér, Eygló.

 • Jón Skafti Gestsson

  ég veit ekki hvort mér finnst verra að senda út eitthvað svar um grein sem þú hefur ekki lesið eða að senda út svar sem er jafn gjörsamlega úr samræmi við innhald greinarinna.

 • Eitt enn, þá er hann Eiríkur búinn að svara ykkur:
  http://eyjan.is/2011/11/09/eirikur-bergmann-visar-asokunum-framsoknarthingmanna-a-bug/

  Og miðað við orðin sem þið fordæmið:

  „„Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísar til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum. Orðræða sumra þingmanna hefur í auknum mæli einkennst af hollustu við þjóðernið. Enn þó er þó ekki ljóst hvort flokkurinn ætli sér að sækja enn lengra inn í þetta mengi.“ (Fréttatíminn 04.11.2011, sjá bls 46).“

  Þá verð ég að spyrja eins og Eiríkur:

  er þetta tilraun til þöggunar?

 • Ályktun þingflokksins er í engum tengslum við það sem Eiríkur skrifar. Mikill fjöldi fólks er sammála mati hans á Framsókn.Dixi.

 • Kristján E. Guðmundsson

  Ég tek undir hvert orð í grein Eiriks. Það þarf ekki að hlusta lengi á ræður margra þingmanna Framsóknarflokksins til að komast að þeirri niðurstöðu. Með hliðsjón af því er í hæsta máta undarlegt að vísa í stefnuskrá flokksins. Stjórnarskrá Sovétríkjanna sálugu var full af fallegum greinum um mannréttindi og lýðræði þegnanna.

 • Eygló þið eigið samúð mína og alls venjulegs fólks það er alveg skelfilegt hvernig samfylkingarfólk hagar sér í sóðalegum áróðri um aðra flokka og um nafngreinda einstaklinga.
  Sjáðu svo komment hér að ofan frá mörgum þekktum ofstopa „álitsgjöfum“ Samfylkingarinnar, þeir hjakka í sama knérunn og óvandaði dósentinn á Bifröst en koma ekki með eitt einasta dæmi, sem rökstuðning fyrir afstöðu sinni.Eiríkur dósent reyndi þó að rökstyðja sóðaskrif sín með æþví að Framsóknarflokkurinn hafi verið með íslenska fánann á flokksþingi sínu. Það er mjög sorglegt til þess að vita að samfylkingarfólk hagi sér með þessum hætti en svona er bara innrætið hjá krötunum. Þegar samfylkingarfólk er uppiskroppa með rök þá leggst það í skítkast.
  Uppsetningin á síðu Fréttatímans var svo brútal og ósvífin að það tekur engu tali bara hreinlega sóðablaðamennska en nú segist Eiríkur Bergmann Einarsson dósent á Bifröst ekkert hafa með uppsetningu á skrifum sínum að gera og reynir því að vísa sóðaskapnum á Jón Kaldal ritstjóra Fréttatímans.
  Eitt enn Eygló tókstu eftir því að háskólinn á Bifröst var með auglýsingu inni á síðunni hjá Eiríki ? Er þessum krötum ekkert heilagt, nota fé háskólans til að styðja við sóðaskapinn hjá Eiríki Bergmann. Fussu svei.

 • Halldór I. Hannesson

  Eiríkur sakar Framsóknarflokkinn um að vera fasískan og vísar til merki hans.

  Þetta er rangt hjá manninum og sæmir honum ekki sem fræðimanni, hvað svo sem að vinstrisinnaðir viðhlægjendur hans segja.

  Menn slíkt gera skjóta sjálfan sig í fótinn og öll þau gildi sem þeir telja sig standa fyrir.

 • Kjartan Valgarðsson

  „Óásættanlegt er að dósent við Háskólann á Bifröst skrifi á þennan hátt í nafni skólans um pólitíska andstæðinga sína.“

  Þessi orð staðfesta fasískar tilhneiginar ykkar.
  Ef þetta er óásættanlegt, hvað mynduð þið þá taka til bragðs ef þið réðuð málum á Bifröst? Blasir það ekki við?

  Þetta er þér ekki samboðið, Eygló.

 • Halldór I. Hannesson

  Nú er ég ekki framsóknarmaður, en að kalla Framsóknarflokkinn fasískan er ekki bara rangt heldur beinlínis heimskulegt og stríðir gegn allri heilbrigðri skynsemi.

  Það er engum sæmd að gera slíkt og ei heldur að taka undir með þeim sem slíkt gerir, þó það þyki fínt í sumum kreðsum og sé beinlínis í tísku hjá ákveðnum hópi fólks.

 • Halldór I. Hannesson

  Sammála HH hér að ofan.

  Uppskera Samfylkignarfóks fyrir hatursfulla afstöðu til pólitískra andstæðinga verður bara til þess að draumur þeirra um ESB-aðild mun aldrei rætast.

 • Ásdís Jónsdóttir

  Þetta upphlaup Framsóknarmanna vegna afar kurteislegra orða Eiríks Bergmanns sem hægt er að lesa hér að ofan er svona eins og að fara að skjóta mýflugu með fallbyssu! Framsóknarflokkurinn á sér langa og merkilega sögu þar sem samvinnuhugsjónin og ungmennafélagsandinn voru mjög áberandi lengi vel, en nú er engu líkara en þær hugsjónir hafi gufað upp í gróðahyggju og græðgi og ungmennafélagsandinn orðið að allt að því hlægilegri þjóðrembu og einangrunarstefnu.

 • Ég er bara fullkomlega sammála honum Eiríki Bergmann, þið eruð búinn að missa það, því miður. Sjaldan hefur kjörþokki runnið eins hratt af flokki eins og Framsókn í síðustu kosningum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur