Fimmtudagur 10.11.2011 - 05:55 - 35 ummæli

Örvænting ESB aðildarsinna

Aþena er fallin, Róm brennur og París og Berlin vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þessar staðreyndir eru sárar fyrir þá sem vilja að Ísland gangi inn. Örvænting ESB aðildarsinna er fullkomin.

Lausnin er að tala niður Ísland og allt sem íslenskt er.

Því er ráðist á þá sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið. Á þeim dynja ásakanir um þjóðernisöfgar og hatur á útlendingum. Að vera á móti lýðræði og samvinnu.

Því eina leiðin til að koma Íslendingum inn í ESB er að berja inn í þá efasemdir um eigin getu.

Efasemdir um hæfni okkar til að vera sjálfstæð þjóð.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ómálefnaleg, ósönn eða nafnlaus ummæli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (35)

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    … og hvað með Reykjavík? Er hér allt í blóma eftir valdatímabil Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar og síðan auðvitað náðarhögg núverandi ríkisstjórnar?

    Ef hægt er að tala um að Aþena sé fallin og að Róm brenni, þá er hægt að fullyrða að Reykjavík séu efnahagslegar rústir einar!

  • Kjartan Valgarðsson

    Sæl Eygló,
    ertu til í að rifja upp kosningastefnu Framsóknarflokksins um ESB fyrir síðustu kosningar?

    Með vinsemd.

  • Leifur Björnsson

    Eygló hvað áttu við með fullyrðingum um að stuðningsmenn ESB aðildar séu að dreifa efasemdun um að Íslendingar geti eða eigi að vera sjálfstæð þjóð.
    Ég hef verið félagi í Evrópusamtökunum árum saman ég hef aldrei heyrt neinn halda því fram þar að Íslendingar eigi að gefa sjálfstæðið upp á bátinn.
    Ertu að halda því fram að ESB þjóðirnar Danmörk, Svíþjóð og Finnland séu ekki sjálfstæðar.
    Sýnir þetta ekki bara að Eíríkur Bergmann hefur nokkuð til sín máls þegar hann talar um vaxandi þjóðrembu í Framsóknarflokknum þau ofsafengnu viðbrögð flokksins að ætla að reka hann úr starfi sínu vegna kurteislegra skrifa í Fréttatímanum benda í öllu falli til þess.

  • Kjartan Valgarðsson

    Ég get kannski hjálpað þér aðeins:

    „Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið

    Markmið

    Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.
    Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal
    íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar
    umræðu.“

  • Guðsteinn Einarsson

    Sæl
    Eru enginn takmörk fyrir bullinu. Að setja samasemmerki við þá sem vilja afgreiða ESB með formlegum hætti, klára viðræður og láta fólkið í landinu kjósa við eitthvað bull sem skrifað er um Framsóknarflokkin er ekki boðlegt.
    Þá má vel benda á að Ísland féll, krónan hrundi og þúsundir heimila og fyrirtækja er í sárum. Væntanlega er staðan síst betri hjá öðrum þjóðum og að hlakka yfir því er skammarlegt af ykkar hálfu. Þið í Framsóknarflokknum megið minnast þess að það var kosningastefnuskrá flokksins sem sagði að láta ætti reyna á samninga við ESB. Ég og fleiri kusum flokkinn m.a. þess vegna og það mætti fara nokkrum orðum um þá sem segja eitt fyrir kosningar og annað eftir kosningar.

  • Eygló, þetta er þer ekki samboðið. Það eru 27 þjoðir innan esb og meirihluti þeirra hafa það alveg ágætt. Örvænting aðildarsinna er fullkomin segir þú! Í hverju birtist það? Nema að færa einhver rök fyrir því er þetta enn ein upphrópunin án nokkurs innihalds. Það er kreppa víðar en í evrópu, ég skrifa þetta frá Ameríku, þar eru nú 60 milljón manna undir fátækramörkum. Telur þú virkilega að Ísland komi til með að sleppa við að lenda í sömu vandræðum og viðskiptalönd okkar ef þar verður djúp kreppa? Telur þú í alvöru að esb sé að liðast i sundur?
    Mér hefur fundist þú Egló bera af ein og Gull af eir í þingmannahóp framsóknar. En þessi pistill hefði alveg eins geta verið skrifaður af Vigdísi Hauksdóttur? Það er varla að ég trúi þessum skrifum upp á þig.

  • Jú, það er rétt Eygló. Maður er orðinn örvæntingarfullur þegar flestir íslenskir stjórnmálaflokkar vilja halda sig utan ESB og það stefnir í enn einn áratuginn með agalausri íslenskri efnahagsstjórn. Og maður þarf að borga íbúðina sína þrefalt til baka í gegnum verðtryggð lán. En það hlakkar í þér þegar þú sérð vandamálin í Evrópu. Þau vandamál skila sér beint hingað hvort sem við eru innan eða utan ESB.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það hefur nú sýnt sig í gegnum tíðina að við sem þjóð virðumst ekki vera neitt mjög lagin við að stjórna okkur. Það má benda á ýmislegt í því sambandi en nærtækast er að benda á efnahagsmál.

    Þessvegna óttast ég að við höfum ekkert annað val en að ganga í þennan yfirstéttaklúbb ESB, því miður.

    Hinsvegar, ef við ætlum að standa á því að vera sjálfstæð þjóð skulum við bara gjöra svo vel og vera sjálfstæð þjóð og segja okkur úr öllum samtökum og samböndum sem við erum í. Svo sem SÞ, NATO. OECD o.s.frv. Við skulum ekki vera með neitt helvítis hálfkák og vera hálfsjálfstæð. Förum bara alla leið og pissum standandi.

  • Já það er merkilegt hvernig veruleikinn hringsnýst eftir vindi hjá ykkur Framsóknarmönnum. Þið mættuð taka til ykkar það sem er sagt hér að ofan hjá Kjartan og Guðsteini, þetta er geymt en ekki gleymt.

  • Mér finnst þessi þórðargleði yfir vandamálum EU undarleg hjá þjóð sem brenndi ofan af sér efnahagskerfið og reiðir sig að mestu á EU að rétta sig af.
    Sum evrulönd eiga í vandræðum – önnur spjara sig ágætlega. Það má einnig benda á að íslendingar taka ennþá við evru sem greiðslu fyrir útflutning en banna með lögum að taka við sínum eigin lögeyri.
    Evrópa er að ganga í gegnum erfiðleika – öll samfélög glíma við erfiðleika einhverntímann og koma oft sterkari úr þeim. Við sjáum hvað setur.

  • Ráðgefandi kosning, þegar búið verður að skrifa undir og fánarnir tilbúnir við stangirnar? Við vitum að esb tekur ekki NEI fyrir svar!

  • Ásdís Jónsdóttir

    Mér hafa oft fundist pistlar þínir vel skrifaðir og skynsamlegir, en í þetta skipti eru skrif þín hreint fáránleg svo að ekki sé minnst á að það er afskaplega undarlegur og ómerkilegur hugsunarháttur að hlakka yfir því að helstu viðskiptalönd Íslands eigi í fjárhagslegum erfiðleikum. Ef þú hefur enga samúð með íbúum þessara landa, hugsaðu þá um það á hverjum það bitnar ef fólk hefur t.d. ekki efni á því að kaupa fiskinn sem LÍÚ veiðir og flytur út?

  • Magnús Björgvinsson

    Eins og Eygló hefur verið málefnaleg að undanförnu þá er þetta eins og út úr kú hjá henni. Getur hún bent á eitthvað Evrópuríki sem er ekki sjálfstætt þó það sé í ESB? Og hvað á konan við með að við sem aðhyllumst ESB aðild séum að efast um að við getum verið sjálfstæð þjóð? Minni hana reyndar á að fyrir 1970 vorum við með fátækari þjóðum Vestur Evrópu. En þá gengum við inn í EFTA samninginn og eftir það hófst hér velmegun fyrir alvöru. Annað skeið uppsveiflu var 1993 þegar við gengum inn í EES og tollum hér var aflétt á útflutning til Evrópu. Þannig að flestar framfarir hér má tengja því að við gengum inn í samstarf þjóða með þeim kostum og göllum sem því fylgdu. En við fengum alltaf meira út úr þeim samningum en aðrar þjóðir.

  • Sammála þér Eygló.
    Að bera saman inngöngu í esb fyrir kosningar meðan enginn gerði sér grein fyrir brauðfótunum sem sambandið stóð á sem síðar hefur komið í ljós, er rangt. Þarna kemur líka fram að sjávarútvegur og landbúnaður skipti máli. Í dag segir Össur að það þurfi ekki að gera neinar undantekningar á sjávarútveginum.
    Þvert á samþykktir alþingis.

    Og svo eru þett ekki aðildarviðræður,heldur aðlögunarviðræður. Það er verið að breyta íslenskum lögum að lögum ESB, og ekkert verður samþykkt fyrr en búið er að ganga frá öllu þar að lútandi. Og hvað er þá eftir að kjósa um?

    Það er allt í lagi að lesa hvað felst í aðlögunarumsókninni.
    „Í sérstökum bæklingi sem Evrópusambandið hefur gefið út til að útskýra stækkunarferlið er kafli sem heitir Aðlögunarviðræður. Kaflinn hefst á þessum orðum: “Fyrst er mikilvægt að undirstrika að hugtakið „samningaviðræður“ getur verið villandi. Aðlögunarviðræður beinast að skilyrðum og tímasetningum á inngöngu umsóknarríkis, framkvæmd og beitingu ESB-reglna, sem eru upp á 90.000 blaðsíður. Og þessar reglur (líka þekktar sem „acquis“, sem er franska yfir „það sem hefur verið ákveðið“) eru ekki umsemjanlegar. Fyrir umsóknarríki er þetta í grundvallaratriðum spurning um að samþykkja hvernig og hvenær eigi að framkvæma og beita reglum ESB og starfsháttum. Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingu fyrir dagsetningu og skilvirkni innleiðingar umsóknarríkis á reglunum.““

    Sem sagt EKKI UMSEMJANLEGR.

  • Skarphéðinn Gunnarsson

    Eygló, mér finnst margt af því sem þú segir mjög gott en mér finnst það ekki „klæða þig“ þetta blaður um sjálfstæði Íslands versus inngöngu í EB. Lítur þú þá á að danir, svíar, finnar, bretar o.fl.o.fl. séu ekki sjálfstæðar þjóðir. Hvers konar bull er þetta að halda þessu fram. En þetta er eins ómálefnalegt eins og það getur verið að vera halda þessu fram.

  • rafn guðmundsson

    sælar

    það er ekkert rétt í þessum skrifum þínum núna nema að það eru vandræði í ‘eurozone’ löndunum

  • Guðsteinn er með þetta. Verið ekki hrædd við ákvörðun þjóðarinnar.
    Kveðja að norðan.

  • Kristján Kristinsson

    Þessi pistill þinn er móðgun við heilbrigða skynsemi og algjört bull. Þú ert dottinn í þann forarpytt að gera lítið úr einstaklingum andstæðum þínum skoðunum. Þau sem ég þekki til og eru hlynnt aðild Íslands að ESB eru sko alls ekki að tala niður Ísland og allt sem íslenskt er. Þau telja einfaldlega að hag sínum (og Íslandi) sé einfaldlega betur borgið innan ESB en utan. Og fyrir því færir fólk rök eins og t.d. að losna við handónýtan gjaldmiðil sem við höfum þurft að borga gríðarlega mikið að viðhalda.

    Ég veit ekki betur en innan þíns þingliðs séu einstaklingar sem vilja klára þetta ferli og láta svo kjósa um það. Kvitta þeir upp á svona bullskrif? Sumir hafa reyndar ekki gert það og gengið úr flokknum.

    Ég get ekki betur séð að í raun ertu að hlakka yfir þeim vandamálum sem steðja að ESB. Mundu bara að yfir 80% af viðskiptum Íslands er í gegnum ESB. Hrynji ESB þá hrynur Ísland – aftur.

    Og ekki fara svo að heimta að við ræðum ómálefnalegan pistil sem þennan á málefnalegan hátt. Svona pistill gerir mann öskuillan því maður ætlast pínulítið meira af þér en þetta.

  • Óðinn Þórisson

    Því hefur verið haldið fram að þessi umsókn sé andvana fædd og ráðherra í núverandi stjórn telur að hann hafi verið blekktur.
    Það er ekkert annað en að setja þetta mál til hliðar.

  • Talandi um örvæntingu. Róm brennur! París og Berlín vita ekki neitt!

    Hverslags yfirlýsingar eru þetta hjá þingmanni lýðveldisins. Þú kallar skömm yfir þig og alþingi okkar.

    Hvernig er ástandið hjá okkur, með pening sem enginn tekur við í heiminum, höft, vantraust og samdráttur. Hvað mætti segja um okkur?

  • Ég verð að viðurkenna að ég hef lengi haft vissar efasemdir um getu okkar litla samfélags til að takast á við lagasetningar og stjórnsýsluathafnir á heiðarlegan og framsýnan hátt, óháð hagsmunaaðilum. Ég nefni kvótakerfið og heimildir til veðsetningar aflaheimilda sem Alþingi veitti í þessu sambandi. Og er þetta kannski nýjasta dæmið?

    http://eyjan.is/2011/11/09/eyglo-vill-ad-thingnefnd-rannsaki-lagabreytingu-sem-olli-fravisun-mals-gegn-karli-wernerssyni/

  • Soffía Helgadóttir

    Það er svo óþolandi þegar „I told you so“ fer í umræðuna og auðvitað er lamið á þeim sem láta svoleiðis út úr sér.

    En hvort ætli samfylkingarfólk velji að vera norðan við nýja Berlínarmúrinn eða sunnan við hann? Eða jafnvel taka upp gamla þýska markið um leið og Þjóðverjar?

  • Aþena er fallin, Róm brennur, borgarvirki Madrídar molna, beðið er eftir að flóðbylgja skoli Lissabon á haf út, París og Berlín vita ekki sitt rjúkandi ráð. Reykjavík rís úr djúpinu einsog þokkadís á perluskel.

    Sem ESB aðildarviðræðusinna finnst mér þokkadísin Reykjavík fögur og myndi sóma sig vel í hvaða þjóðarsamtarfi sem er byggt á lýðræði,frelsi og jöfnuði á milli manna og þjóða.

  • Eygló Harðardóttir

    Þessi pistill virðist hafa komið við kauninn á ansi mörgum. Er það af því hann bendir á óþægilegar staðreyndir? Grikkland (Aþena) er fallið í fangið á AGS/evrópska seðlabankanum. Ríkisstjórnin á Ítalíu (Róm) er við það að falla og þarf aðstoð til að geta staðið undir ŕikisskuldunum. Leiðtogar Frakklands (París) og Þýskalands (Berlín) eru ráðalausar en sjá einna helst lausn í sameiginlegri efnahagsstjórnun fyrir evru-löndin eða Sambandsríki Evrópu.

    (Vinsamlegast skoðið tengla í pistlinum sem og umfjöllun fjölda annarra erlendra fjölmiðla)

    Eru þetta löndin sem við eigum að læra af varðandi aga í efnahagsmálum? Er það þarna sem við eigum að fá lága vexti en vextir á ríkisskuldabréf Ítalíu er núna um 7%? Er það þangað sem við eigum að sækja betri löggjöf um fjármálafyrirtæki?

    Þó að ég sé einfaldlega að benda á staðreyndir felst í því engin gleði yfir ástandinu í ESB.

    Það er mikilvægt að við horfumst í augum við staðreyndir, frekar en óskhyggju.

    Að lokum vil ég taka fram að ég er ekki stuðningsmaður þess að draga umsóknina tilbaka. Êg treysti íslensku þjóðinni fyllilega til að taka rétta ákvörðun um framtíð sína, líkt og hún hefur ítrekað sýnt og gert í öðrum málum.

  • Tek undir að þessi pistill gæti frekar verið skrifaður af Vigdísi Hauks svo kjánalegur er hann. Lísi einnig yfir frati á Þórðargleði Eyglóar yfir erfileikum nokkurra (suður)Evrópuþjóða.
    Eina ljósið í Framsóknarflokknum slökknaði núna.

  • „óþægilegar staðreyndir?“ Nei. Evrópusambandið á við tímabundna erfiðleika að etja og sambandið er komið til að vera. Okkar staður er Evrópa. Þaðan erum við kominn. Evrópa gekk í gegnum aldir ófriðar og sundrungar þar sem mannslífum var fórnað í tugmilljónatali. Nú snýst þetta um skitna peninga eða hlutabréf sem engin innstæða er fyrir nema loft. Einingu Evrópu verður ekki fórnað fyrir aura.

  • Til Kjartans Valgarðssonar. Fyrrum formaður Framsóknar Halldór Ásgrímsson barðist fyrir því að breyta áherslum flokksins gagnvart ESB. Honum tókst það og var ég því mjög mótfallinn. Sem betur fer hefur grasrót flokksins breytt aftur um stefnu á síðasta ársþingi. Einnig hefur þorri þingmanna flokksins og allir fyrri ráðherrar axlað ábyrgð og stigið til hliðar. Því er ekki að heilsa hjá öllum flokkum.

  • Kristján Kristinsson

    Staðreyndir, staðreyndir. Hvaða staðreyndir? Heldurðu að við vitum ekki að það er djúpstæð kreppa í (suður)Evrópu?

  • Örn Stefánsson

    Ókei, nokkrar staðreyndir um Ísland fyrst: Ísland er efnahagslegur sprengigígur, íslensk heimili yfirskuldsettu sig í „góðærinu“, og þeirri eignabólu sem því fylgdi, íslenskir stjórnmálamenn eru heimskir lýðskrumarar í stíl við þá í Suður-Evrópu og íslenska krónan er einhver mesti ruslgjaldmiðill norðan Suðurpólsins.

    Ég held síðan að fæstir neiti því að Evrópa, og þá aðallega Suður-Evrópa, eigi í efnahagsvanda (svona svipað og restin af hinum vestræna heim), en þá hlýtur að mega bera þann vanda saman við þann íslenska, jafnvel þótt þá sé maður að „tala niður Ísland og allt sem íslenskt er“ og „efast um hæfni okkar til að vera sjálfstæð þjóð“.

  • S. Guðmunds

    Frábær pistill hjá þér Eygló sem ýtir virkilega á auman bletta hjá mörgum ESB-aðildarsinnanum. Þeir bókstaflega froðufella af bræði!

    Þessu heiftarlegu viðbrögð hjá ESB-aðildarsinnum undirstrikar bara örvæntungu þeirra og bræði yfir því að fólk skuli voga sér að benda á hversu glatað ESB er orðið.

    Þessi ofsafengnu viðbrögð þeirra eru svona svipuð og hjá trúuðum múslímum þegar verið er að gagnrýna spámanninn þeirra, Múhammed.

    Nei, aðildarsinnar, það er enginn Þórðargleði hjá andstæðingum aðildar að ESB. Ég þekki amk. engann sem gleðst yfir þessu, þvert á móti finnst öllum þetta sorglegt.

    Þessir erfiðleikar ESB eru bara rétt að byrja og munu vara í mörg ár.
    Leiðtogar ESB-rikjanna hafa virkilega áhyggjur af þessu og vita í raun ekki sitt rjúkandi ráð.

    Það sem er að gerast í ESB núna er það sama og gerðist hér á landi í byrjun okt. 2008. Einur munurinn er sá að hrunið í ESB er eins og kvikmynd sem sýnd er hægt og mun því taka lengri tíma.

    Þetta mun leiða til þess að það ESB sem Ísland sótti um verður ekki það sama þegar aðildarsamningurinn er tilbúinn.

    Og svo veit ég ekki um nokkurn andstæðing aðildar að ESB sem heldur því fram að við missum sjálfstæðið við aðild. Ekke nokkurn.
    Þetta eru bara munnmæli sem ákafir aðildarsinnar nota til að gera lítið úr and-aðildarsinnum.

    Hinsvegar veit allt skynsamt fólk að við missum hluta af fullveldinu, því ýmis utanríkismál er snerta Ísland verða á forræði ESB.

    Það sama gilidir um milliríkjasamningu um verslun og viðskipti, slíkt verður á forræði ESB fyrir okkar hönd, þ.e. ESB semur sem ein heild fyrir öll aðildarríkin, hvort sem einstökum aðildarríkjum líkar það betur eða verr.

    Að auki mun stjórnun fiskveiða við Ísland færast til Brussel frá Íslandi.

    Þannig séð missum við forræðið yfir mikilvægum málum, en verðum að nafninu til sjálfstæð þjóð.

  • Magnús Eiríksson

    Ýmis ríki í ESB glíma við vandamál í efnahagslífinu. Hvaða áhrif hefur það á okkur Íslendinga sem stöndum utan ESB?
    Fyrst og fremst viðskiptaleg áhrif. Þ.e. hugsanlega minni tekjur af útflutningi og ferðaþjónustu og e.t.v. meiri kostnað fyrirtækja og einstaklinga á einhverjum sviðum. Hvaða áhrif hefðu vandræði þessara þjóða hér ef við værum innan sambandsins? Hvaða áhrif hafa þessi vandamál á t.d. Finna, Svía, Dani o.fl. Værum við að glíma við sömu hluti innan vébanda sambandsins og utan? Ég hef ekki séð neina greiningu á því en mig grunar að munurinn sé lítill!
    Ef ríki komast í greiðsluþrot og bankar sem við skiptum við verða gjaldþrota þá er það okkur ekki til hagsbóta hvort sem við erum innan eða utan Evrópusambandsins. M.ö.o. vandræði þessara ríkja koma aðild lítið eða ekkert við og við stæðum betur að vígi með nánari efnahags- og menningartengsl við Evrópuríki.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Góða Eygló, hættu þessari meðvirkni. Þú hefur staðið þig ákaflega vel, ólíkt félögum þínum í Framsóknarflokknum. Sú skoðun mín kemur ESB nákvæmlega ekkert við.

    Gömlu flokkarnir eru á fallanda fæti og heyra brátt sögunni til.

  • Jón Guðmundsson

    Hér er orðrétt tilvísun í Eirík Bergmann, það sem Eygló kallar árás „á þá sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið fyrir utan Evrópusambandið … ásakanir um þjóðernisöfgar og hatur á útlendingum. Að vera á móti lýðræði og samvinnu.“

    Eiríkur:
    „Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísar til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum. Orðræða sumra þingmanna hefur í auknum mæli einkennst af hollustu við þjóðernið. Enn þó er þó ekki ljóst hvort flokkurinn ætli sér að sækja enn lengra inn í þetta mengi.“

    Lesið þett:
    http://blogg.smugan.is/ingimarkarl/2011/11/10/ein-thjod-eitt-riki-ein-framsokn/

  • Leifur A. Benediktsson

    Eygló Harðadóttir alþingismaður,

    Ég vil að gefnu tilefni minna þig á að Alþingi samþykkti á sínum tíma að sækja um aðild að ESB.

    Í mínum huga og meirihluta landsmanna BER að klára þetta ferli.

    Upphlaup ykkar og þjóðernirembingur verður að víkja fyrir meirihluta Alþingis.

    Þetta er svokallað lýðræði Eygló. Meirihlutinn ræður og hættu þessu væli.

    4FLokkurinn (heyrt þetta áður?) er í mínum huga og margra annarra þegna og skattgreiðenda landsins,sem greiðir ykkar laun og ofureftirlaun DAUÐUR.

    Hann verður saltaður í næstu kosningum. Þú ert í mínum huga skynsöm kona og oft gaman að lesa hugleiðingar þínar. En þetta rembubull ykkar í FramsóknarFLokknum fer þér ekki vel.

    Komdu þér í burtu úr þessu Framsóknarlíki og taktu höndum saman við fólk sem hefur allt annað sjónarhorn til lífsins og framtíðar Íslands.

  • Hermann Ólafsson

    Sannarlega verðskulduð háðugleg útreið sem þessi dæmalausu og fordómafullu ummæli þín fá, og vart á þau bætandi. Virði þó við þig að birta svo mikið!

    Með ólíkindum hvað hlakkar í ykkur ESB andstæðingum yfir óförum nokkura vinveittra SJÁLFSTÆÐRA þjóða í evrópu. Þjóða sem hafa með óráðsíu og óstjórn yfirskuldsett sig, ekki ósvipað og við hér á Fróni.

    Það er greinilegt á flestum ykkar skrifum að þið hafið lítið sem ekkert vit á fyrir hvað ESB stendur! Má ég minna ykkur á að ESB stendur ekki á neinum brauðfótum frekar en undanfarin tugi ára. Vera má að minntbandalagið sé í hættu en það hefur akkurat ekkert með okkar umsókn okkar að ESB, sem Framsóknarflokkurinn lofaði kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar, að gera.

    Gerið það nú að reyna að ræða þessi mál út frá kostum og göllum.

    NB. Það er ekki einu sinni farið að ræða landbúnaðarkaflann sem þið virðist vera heltekin af, en þið samt virðist vera að fara á límingunum eins og sagt er!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur