Föstudagur 25.11.2011 - 10:36 - 4 ummæli

Ríkið greiði kostnað við gjaldþrotaskipti

Alþingi samþykkti í fyrra að stytta fyrningarfrest í tvö ár á þeim kröfum eða þeim hluta þeirra sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti.  Við meðferð málsins var bent á að efnaminnstu  einstaklingarnir myndu ekki geta farið fram á gjaldþrotaskipti vegna hárrar greiðslu fyrir skiptakostnað.

Því er raunveruleg hætta á að þessir einstaklingar hangi í lausu lofti í langan tíma, ófærir um að taka virkan þátt í þjóðfélaginu.

Héraðsdómara er skylt að fara fram á tryggingu fyrir skiptakostnaði áður en hægt er að samþykkja beiðni um gjaldþrotaskipti. Skiptakostnaður í dag er um 250.000 kr.

Tölur Creditinfo frá 2008 sýna að flestir lánardrottnar hætta innheimtu krafna við árangurslaust fjárnám.  Þá urðu 5.200 einstaklingar greiðsluþrota vegna árangurslauss fjárnáms en aðeins 198 einstaklingar voru teknir til gjaldþrotaskipta.  Leiða má að því líkum að ástæða þess sé að árangurslaust fjárnám hefur að mati lánardrottna samsvarandi áhrif á fjármálalíf einstaklings og gjaldþrot en sparar um leið kröfuhafa að leggja út 250.000 kr. fyrir skiptakostnaðinum.

Ég mun því leggja fram frumvarp þess efnis að ef farið hefur fram árangurslaust fjárnám hjá einstaklingi sem óskað hefur sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum og héraðsdómari telur ekki ljóst hvort eignir skuldarans muni duga fyrir skiptakostnaði skuli ríkissjóður ábyrgjast tryggingu og þar með greiðslu skiptakostnaðar.

Til að koma til móts við kostnað ríkisins væri hægt að hækka gjald vegna fjárnámsbeiðna.  Þá má gera ráð fyrir að fjármunir sparist við þetta hjá umboðsmanni skuldara. Kostnaður tilsjónarmanns við greiðsluaðlögun hefur verið svipaður og skiptakostnaður.

Verði þetta frumvarp að lögum mun það auðvelda þeim einstaklingum að hefja nýtt líf sem sjá enga leið aðra út úr fjárhagsörðugleikum en gjaldþrot, en hafa til þessa ekki haft efni á að fara fram á slíkt sjálfir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Magnus Jonsson

    Líst vel á þetta en tel af og frá að þetta verði samþykkt. Stjórnvöl nú sem fyrri ára horfa fyrst og fremst á hagsmuni fjármagnseigandans og munu gera það áfram svo lengi sem land byggist.

  • Sanngirnis- og réttlætismál og sómi að væntanlegu frumvarpi á þágu gjaldþrota einstaklinga. En þau eru fleiri sanngirnis- og réttætismálin sem Framsóknarmenn þurfa að takast á við í þinginu.
    Fimm þingmenn Framsóknarflokksins stóðu að því að ákæra Geir Haarde og senda fyrir Landsdóm. Það voru þau Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Á hverju afstaða þeirra byggðist er óljóst. Sú sannfæring að Geir hafi sannarlega brotið af sér í starfi forsætisráðherra svo óyggjandi væri út frá íslensku réttarfari og lagabókstaf? Var það þjónkun við almenningsálitið og til þess fallið að lægja öldur og þar með pólitísk afstaða byggð á tilfinningarökum eða það sem verra væri að koma höggi á pólitískan andstæðing? Síðara atriðið kemur ekki til álita; þannig vinna Framsóknarmenn ekki. Ef það var hins vegar mat þeirra að Geir hafi sannarlega brotið af sér og sakarefnin þar af leiðandi augljós þá verða þingmennirnir að færa rök fyrir þeim opinberlega. Annað er ekki boðlegt. Geti þeir það ekki eða að málið hafi þróast með þeim hætti að efasemdir um réttmæti ákærunnar hafi komið upp í þingliðinu þá væri það stórmannlegt og í samræmi við kröfuna um bætta siði í pólitík að viðurkenna mistökin; biðja Geir Haarde forláts á fljótræðinu og fylgja málinu síðan eftir í þinginu með þingályktunartillögu um að málið gegn honum verði fellt niður. Mikill meirihluti landsmanna hefur skömm á aðförinni gegn Geir og myndi fagna þeirri tillögu og samþykkt hennar.

  • Það er flott Eygló að þú ætlar að leggja fram þetta frumvarp og það er líka frábært og allt í lagi mín vegna að þú skulir nota umsögn mína um gjaldþrotalögin sem ég gerði fyrir Hagsmunasamtök heimilanna sem grunn fyrir þessu frumvarpi. Það er mjög nauðsynlegt að þetta mál nái fram að ganga eins og mér fannst á þeim tíma sem ég lagði umsögnina fram til nefndasviðs alþingis. Það er frábært hvað mikið af því sem HH hafa lagt fram í gegnum tíðina sem lausnir er að sýna sig að er nauðsynlegt samanber t.d. þetta hjá þér og líka í nýsamþykktum lausnum flokksráðsfundar Sjálfstæðismanna á skuldavanda heimilanna sem er kóperaður frá HH. En eins og ég sagði áður þá er það flott ef tillögur HH enda sem lausnir enda var það ætlun okkar í HH með því að leggja svona gífurlega mikla vinnu í þessar lausnartillögur og annað sem frá okur hefur komið. Vona bara að þú náir þessu frumvarpi í gegnum þingið og að hugur fylgi máli hjá Sjálfstæðismönnum þó ég allavega verði að viðurkenna að ég efast um bæði en verð þá bara ennþá glaðari ef það reynist rangt hjá mér. Baráttukveðja Vilhjálmur Bjarnason Ekki Fjárfestir

  • Það var snilld hvernig innanríkisráðherra plataði þetta frumvarp í gegn um þingið. Þingmenn vissu ekki að þeir væru að samþykkja fyrstu mannréttindaúrbót frá 1260 sem átti séríslenskar rætur. Þess vegna þurfti að hafa villur í frumvarpinu. Það eru engin rök fyrir því að hafa fyrninguna tvö ár og engra hagsmunir. Því styttri sem fyrningin er því fyrr kemst skuldarinn á lappir. Í Amriku er þessi frestur fjórir mánuðir frá festardegi.

    Lagabreytingin var ótvírætt „úrræði“ fyrir skuldara og er eina opinbera skuldarúrræði sem ekki fæst nein réttaraðstoð við.
    Það kemur ekki á óvart að þessi frábæra þingkona skuli gera gangskör í að laga þetta.

    Ef vel á að vera þarf að breyta:
    1. Fyrningatími byrji á festardegi.
    2. Fyrning verði eitt ár
    3. Og breyting þessarar fágætu þingkonu.

    Athygli vekur að væntanlegt frumvarp inniheldur peninga fyrir kostnaði, það er ekki bara vísað á ríkissjóð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur