Fimmtudagur 15.12.2011 - 08:50 - 10 ummæli

Nei, takk við sölu á Landsvirkjun

Lífeyrissjóðirnir bera sig aumlega þessa dagana yfir að hafa ekki fengið að kaupa hlut í Landsvirkjun, Landsneti eða Landsbankanum.  Sérfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson lögðu nýlega til að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki yrðu gerð að almenningshlutafélögum og hluti einkavæddur.  Sambærilegt ferli var viðhaft á sínum tíma þegar bankarnir voru einkavæddir.

Þessi umræða vekur upp tilfinningu af deja vu frá 2007.  Þá skrifaði ég pistil undir fyrirsögninni Hryllingssaga af raforkumarkaðnum í tilefni þess að ýmsir voru farnir að tala fyrir því að einkavæða orkufyrirtækin og horfðu þá til einkavæðingar bankanna sem ákveðinnar fyrirmyndar.

Þar benti ég á mikilvægi þess að læra af reynslu annarra.

Svíar hafa einkavætt hluta af orkufyrirtækjunum á meðan hluti er ennþá í eigu hins opinbera (sveitarfélaganna).  Skv. skýrslu sem unnin var um málið bjóða opinber raforkufyrirtæki að jafnaði 24,% lægra verð en einkarekin og 16% lægra en þrjú stærstu einkafyrirtækin.  Gildir það hvort sem litið er til einstaklinga eða fyrirtækja.  Hagnaður hinna opinberu er eitthvað lægri en þeirra einkareknu en svo sem ekkert til að fúlsa við (20-30%).

Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að styðja við einkavæðingu orkufyrirtækjanna ef árangurinn fyrir almenning á að vera hærra verð og lélegri þjónusta.

Meira að segja til  lífeyrissjóða okkar landsmanna, undir styrkri stjórn ýmissa verkalýðsfrömuða og forystumanna atvinnurekenda.

Því þakka ég stjórnvöldum kærlega fyrir að hafa ekki ljáð máls á því að selja hlut í þessum fyrirtækjum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Vissulega, en hvernig er þá að þínu mati hægt að tryggja að stjórnmálamenn noti ekki þessi tækifæri til að kaupa atkvæði á kostnað arðsemi fyrir þjóðarbúið? Væri hægt að auka sjálfstæðið án þess að einkavæða eða setja arðsemisreglur fyrir fyrirtækin etc. etc.??

  • Takk fyrir að tala máli almennings, Eygló.

    Þarna er fjöldi víta að varast, California, Nýja Sjáland, Bretland, o.fl.
    Ríki og sveitarfélög þurfa að setja fram skýra stefnu og markmið, Þar sem horft er til þess glannaskapar sem viðhafður var í rekstri OR, HS og Norðurorku.

  • Magnus Jonsson

    Einkavæðin = hærra verð til neytandans.

    Hagræðingin er alltaf á kostnað neytandans.

    Fyrst Lífeyrissjóðirnir eru svona áfjáðir að eiga orkuver mega þeir með glöði geði virkja sjálfir og standa straum af þeim kostnaði. Er ekki svo viss um að þeir hafi áhuga á því 🙂

  • Já, argumentið er nokkuð ljóst. Ef að almenningur virkjar eitthvað fyrir almenna neyslu almennings, þá má ekki einkavæða það því þá er farið að reyna að græða á þeim sem nota þjónustuna. Ef reksturinn er óhagkvæmur þá má alltaf laga það. Hinsvegar, þegar virkjað er beinlínis til þess að selja orkuna þriðja aðila, þá er viss hætta á því að misvitrir stjórnmálamenn taki þátt í að virkja, því það lítur svo vel út fyrir þá, en á kostnað þess að það sé eðlileg arðsemi af virkjunum. Ef einkaaðilar kæmu að slíku fyrirtæki myndu þeir ekki vilja selja orku á slikk né byggja óhagkvæmar virkjanir. Ef ekki má einkavæða verður að taka á því hvernig er hægt að halda upp arðsemi og hagkvæmni. Ég óska því aftur eftir svari, um hverjar eru þínar hugmyndir um hvernig sé best að gera það?

  • Valur Bjarnason

    Ég er nú ekki viss um að félagar þínir í flokknum séu sammála því um laið og þið farið í stjórn með einkavæðingar-rugludöllunum í sjálfstæðisflokknum, þá veður Sigmundur Davíð fljótur að fallast á einkavinavæðingu á öllum eignum ríkisins. Sorglegt að vita af mönnum á þingi sem hika ekki við að koma eignum þjóðarinnar í hendurnar á vinum FLokkanna.

  • Mér finnst ef þú ert með athugasemdakerfið opið, að þú ættir að svara málefnalegum fyrirspurnum sem eru settar fram þar um stefnu þína! Já eða vísa í texta þar sem þú hefur sett fram stefnu.

  • Eygló Harðardóttir

    Er kjarni spurningarinnar ekki hvernig við getum tryggt að stjórnmálamenn hugi fyrst og fremst að hagsmunum kjósenda frekar en eigin hagsmunum?

    Ég veit ekki hvort arðsemisregla geti tryggt það, frekar en einkavæðing fyrirtækja. Ekki get ég séð að einkavæðing ríkisfyrirtækja hafi komið í veg fyrir afskipti stjórnmálamanna, líkt og dæmi sýna bæði hér og erlendis.

    Það eru frekar kjósendur sem geta tryggt það. Með því að velja fulltrúa á grundvelli kröfu um heiðarleika og hugrekki. Ekki á grundvelli þess hvort viðkomandi sé frægur eða fyndinn. Að krefjast þess að stjórnmálamenn hafi hugsjónir og séu tilbúnir að standa og falla með þeim hugsjónum.

    PS. Mín síða, minn tími 😉 Gleðilega hátíð.

  • Ég held að þetta sé ekki rétt. Það er ekki hægt að treysta einstaklingum ef kerfið er sjúkt eða spillt. Í slíkum kerfum verða alltaf þeir sem að eru ekki spilltir undir. Leikregluarnar verða að vera skýrar til að árangur náist. Það er góðra gjalda vert að vera á móti einkavæðingu, en það er þá mikilvægt að hafa skilgreinda stefnu hvernig hægt sé að komast hjá því að stjórnmálamenn noti eignir almennings til að óbeint kaupa sér atkvæði (lesist: íslensk stjórnmálasaga). Ein leið til þess að er krefjast vissrar arðsemi, það er gefa ekki afslátt af eignum almennings. Kjósendur geta ekki tryggt neitt enda er jú oft verið að kaupa velvilja kjósenda (eða ntt einhverra hópa) með svona verknaði. Ein leið er að þriðji aðili bjóði í verk, en vandamálið hverfur allaveganna ekki þó að afstaða sé tekinn gegn einkavæðingu.
    Þakka þó síðbúinn svör á jólum (spurnigin var þó borinn upp 15 des).

  • Eygló Harðardóttir

    Verklagsreglur eru hluti af kerfi. Kerfi eru búin til af mönnum. Kerfi eru því aldrei verri eða betri en mennirnir sem búa þau til. Ég hef oft velt fyrir mér hvort stjórnmálamenn á hverjum tíma endurspegli ekki einfaldlega ekki samfélagið.

    Gamla sagan um eggið og hænuna.

    Þegar fólk gerir ráð fyrir að stjórnmálamenn séu spilltir eða sjúkir, að kerfið sé sjúkt eða spillt þá verður það ekki fyrir vonbrigðum. Svona svipað og með börnin okkar, ekki satt?

    Ég er ekki með eða á móti einkavæðingu frekar en ég er með eða á móti samkeppni. Ef hægt er að sýna fram á að það skili almenningi betra lífi, betri þjónustu, lægra verð, aukinni vellíðan þá er ég tilbúin að skoða það.

    Aukin arðsemi getur aldrei verið markmiðið, sérstaklega ekki á kostnað almennings.

  • Tja…. kerfið getur augljóslega verið betur en fólki sem býr það til. Við vitum öll að einstaklingar eiga til að hugsa mikið um eigin hag, hanga inn á þingi óþarfir, fá of há laun, ráða ættmenni sín og slíkt. Þó ætti þetta fólk að geta komð sér saman um kerfi sem kemur í veg fyrir alla þessa hluti. Í raun er þetta alger rökleysa hjá þér og hefur ekkert að gera með barnauppeldi!

    Það að segja stjórnmálamenn spillta og sjúka ber ekki vott um hug þess sem þeim lýsir, heldur er bara innsýn í mannlega veikleika. Þeir hverfa ekki með að tala út í vindinn. Það þarf ekkert að þýða að allir séu eitthvað ægilega vondir, margir kannast við orðatiltækið vald spillir, algert vald spillir algerlega. Þetta er bara meiður af því!
    Eins og lesa má í skrif mín, þá er ég ekki fylgjandi einkavæðingu, en ég hef áhuga á því hvað getur komið í stað markaðarins til að tryggja að almenningur njóti ávaxta af eingum sínum. Mér er það ekki enn ljóst, en mér finnst einhver arðsemiskrafa, drifinn áfram af einhverjum raunverulegum kröfum, sé ein leið til þess. Þakka góð svör annars.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur