Miðvikudagur 04.01.2012 - 15:54 - 5 ummæli

Styrkir til flokka: Einn maður, ein ávísun?

Er ástæða til að breyta, – enn á ný, fjármögnun stjórnmálaflokka á Íslandi?

Fyrir 2006 voru engar sérstakar skorður við fjárframlögum til stjórnmálaflokka og þeir fjármagnaðir fyrst og fremst með framlögum lögaðila og einstaklinga.  Árið 2006 voru sett lög um fjármál stjórnmálaflokka, nr. 162/2006.  Þar var samþykkt að allir stjórnmálaflokkar sem fengju a.m.k. 1 mann kjörinn á Alþingi eða 2,5% atkvæða í næstliðnum Alþingiskosningum ættu að fá fjárveitingu á fjárlögum. Fjárhæðinni skyldi úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Einnig gætu samtök sem byðu fram í öllum kjördæmum fengið styrk frá ríkinu til að mæta kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 milljónir kr.

Í staðinn var stjórnmálasamtökum og frambjóðendum bannað að taka við framlögum umfram 300.000 kr. frá lögráða einstaklingum og lögaðilum og gert skylt að upplýsa um fjárhag sinn og stuðningsmenn.  Það hámark var svo hækkað í 400.000 kr. í fyrra. Þak var einnig sett á kostnað frambjóðenda við kosningabaráttu.

Rökstuðningurinn fyrir lögunum var sögð samþykkt Evrópuráðsins um að aðildarríki skyldu koma sér upp sameiginlegum reglum gegn spillingu í tengslum við fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu.  Mælst var til að ríki veittu stjórnmálaflokkum stuðning og tryggðu um leið að fjárstyrkur frá hinu opinbera eða einkaaðilum truflaði ekki sjálfstæði stjórnmálaflokka.  Komið skyldi í veg fyrir hagsmunaárekstra og gagnsæi fjárframlaga tryggt. Stjórnmálaflokkar væru hornsteinn lýðræðis og forsenda heilbrigðrar og eðlilegrar þjóðmálaumræðu. Með lögum átti að treysta möguleika þeirra til að sinna þessu hlutverki, samhliða því að girða sem kostur er fyrir mögulega misnotkun á aðstöðu og spillingu.

Á fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir 295 milljónum kr. í styrki til stjórnmálasamtaka.

Þessar fjárveitingar ríkisins hafa verið gagnrýndar.  Framlög lögaðila hafa einnig verið gagnrýnd og jafnvel framlög einstaklinga. Aðrir hafa gagnrýnt að ný framboð standi höllum fæti gagnvart þeim sem fyrir eru.  Við afgreiðslu fjárlaga 2012 var lögð fram tillaga um að fella niður fjárveitingu ríkisins til stjórnmálaflokka. Tillagan var felld, en áfram stendur eftir spurningin um hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

Því vakti umfjöllun um bók lagaprófessorsins Lawrence Lessig ‘Republic, lost’ um fjármögnun stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum sérstaka athygli mína.  Hann telur að núverandi löggjöf með takmörkunum á upphæðum styrkja og upplýsingaskyldu hafi gert lítið sem ekkert gagn. Í staðinn leggur hann til að hver einstaklingur með kosningarétt fái $50 ávísun frá ríkinu (til dæmis eins og Frístundakortið í Reykjavík) og geti nýtt ávísunina til að styrkja stjórnmálaflokka.  Til að geta nýtt sér ávísanir yrðu flokkarnir að samþykkja að fjármagna sig aðeins með þeim auk framlaga frá einstaklingum, að hámarki $100 frá hverjum.

Sambærilegar upphæðir hér gætu verið um 1.500 – 2.000 kr. ávísun plús allt að 3.000-6.000 kr. í viðbót.  Kjósendur myndu sjálfir ráðstafa framlögum sínum til stjórnmálaflokka,- hugsanlega í gegnum netbankann eða Ísland.is. Nýir og gamlir stjórnmálaflokkar stæðu jafnfætis hvað framlög varðar.  Áhrif fjármagns frá lögaðilum myndu hverfa þar sem þeir fengju ekki að styrkja stjórnmálaflokka.

Einn maður, ein ávísun.

Varla er hægt að hugsa sér meiri valddreifingu en þetta.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Magnús Halldórsson

    Sæl Eygló og gleðilegt ár, fínt umræðuefni.

    Ég held að algjört gagnsæi í þessum efnum væri besta fyrirkomulagið. Þ.e. að allir styrkir til stjórnmálaflokka væru gefnir upp, og undir nafni þeirra sem veita styrkinn. Hvort sem það er upp á eina krónu eða 300 þúsund. Jafnt hjá lögaðilum sem einstaklingum. Fólk þarf ekkert að skammast sín fyrir að styrkja stjórnmálaflokka og ekki fyrirtæki heldur. Það má síðan hafa hámark á styrkjum, svo að einn maður geti ekki keypt flokksstarfið með einum styrk, eða eitthvað álíka.

    Persónulega finnst mér út í hött að láta skattgreiðendur reka þessi pólitísku grasrótarsaamtök sem stjórnmálaflokkar eru. Sjónarmiðin í Bandaríkjunum eru afar mismunandi, en flestir eru sammála um að það hafi verið til bóta þegar gagnsæið var aukið með birtingu fjárframlaga í kosningasjóði þingmanna. Það má nú fletta þeim upp á netinu, sem var alls ekki raunin áður.

    Síðan finnst mér að stjórnmálaflokkar ættu að afleggja prófkjör í þeirri mynd sem þau hafa verið í undanfarin ár, og hafa alvöru málefnabaráttufundi, þar sem kosið er milli frambjóðenda á fundum. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það er ekki gert. Opnu prófkjörin hafa skilið eftir opin sár í nánast öllum flokkum, og þar að auki hafa þau sýnt að það er ekki síst í þeim sem fjármagnið fer að ráða för. Í skjóli leyndar um hvaðan það kemur.

    Bkv. Magnús Halldórsson

  • Eygló Harðardóttir

    Sæll Magnús og gleðilegt nýtt ár. Takk fyrir góða athugasemd.

    Kjósendur eru skattgreiðendur. Með hugmynd Lawrence Lessig myndi fólk sjálft ráða því hvort það styrkir stjórnmálaflokk eða ekki, með skattpeningunum sínum og þá hvernig. T.d. með því að skipta þessu bróðurlega á milli allra, bara flokksins sem það kýs eða ári seinna einhvern annan flokk sem því líst betur á eða bara með því að gefa ekki neitt og peningarnir fara þá í önnur verkefni á vegum ríkisins. Nafnbirting myndi ekki skipta neinu máli því allir hefðu sömu upphæðina til ráðstöfunar.

    Reynsla Bandaríkjamanna (og okkar) hefur sýnt að styrkir hafa áhrif, og því miður hefur reynslan einnig sýnt að þeir sem vilja hafa áhrif á stjórnmálaflokka hafa ekki neitt skammast sín fyrir að styrkja stjórnmálaflokka. Telja það einmitt vera lýðræðislegan rétt sinn og hluti af mannréttindum sínum. Ég gleymi aldrei sögunni af viðskiptajöfrinum sem talaði glaðhlakkalega í góðra vinahóp um hvernig hann hefði styrkt alla stjórnmálaflokkana um 300 þús. kallinn og væri kominn með símanúmerin hjá forystumönnum þeirra allra. Enn spyr ég mig af hverju fyrirtæki sem er með starfsemi aðallega út á landi sá ástæðu til að styrkja fjölda frambjóðenda í einum stjórnmálaflokki í prófkjöri í Reykjavík.

    Ég er þeirrar skoðunar að það eru einstaklingar sem hafa lýðræðislegan rétt og mannréttindi, – allir, ekki bara þeir sem eiga fullt af pening og ekki fyrirtæki. Í samvinnuhugsjóninni er talað mikilvægi lýðræðis, jafnréttis, sjálfsábyrgðar og samábyrgðar. Við getum ekki verið háð einhverjum öðrum um lýðræðið. Treyst á að einhverjir aðrir sjái bara um þetta fyrir okkur. Samfélag okkar byggir á lýðræði, og sátt okkar um að taka sameiginlega þátt í lýðræðinu og rekstri samfélagsins. Því tel ég mikilvægt að það endurspeglist í fjármögnun stjórnmálaflokka. Að fólk taki sjálft ábyrgð á lýðræðinu og geri sér grein fyrir því að það kostar. Að það treysti ekki bara á að einhver annar sjái um þetta, – eins og alltof oft vill vera.

    Hér eru nokkrir góðir tenglar um fjármögnun stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum:
    http://www.rootstrikers.org
    http://www.followthemoney.org/
    http://www.maplight.org/

    Tek undir með þér varðandi prófkjörin. Bendi á að Iowa Caucus er ákveðin tegund af málefnafundum og tvöföldu kjördæmisþingin okkar Framsóknarmanna.

  • Hermann Ólafsson

    Sæl
    Finnst þessi hugmynd allra athygli verð! Hvet þig til að fara með þetta lengra.
    kv.
    Hermann

  • Eygló – mjög fín hugmynd.

    Ef þetta væri einungis beinn peningur, þá ver almenningur þessu sennilega í matarkaup.

    Svo spurning hvort unnt væri að útfæra það með þeim hætti t.d. að fólk fái sérstakar ávísanir sem ekki sé unnt að framvísa í verslunum sem dæmi, en t.d. samtök geta framvísað til ríkisins gegnt því að hver hafi verið undirrituð með nafni og kennitölu.

  • Sæl, ég var seinn að taka eftir þessu, hef bloggað um málið:

    Hugmynd að nýju fyrirkomulag á opinberjum styrkjum til stjórnmálaflokka!
    http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1216714/

    Kv.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur