Fimmtudagur 05.01.2012 - 11:27 - 5 ummæli

Evrópumet í athyglisbresti?

Notkun íslenskra barna á tauga- og geðlyfjum hefur aukist gífurlega. Þetta segja svör velferðarráðherra um þróun útgjalda ríkisins vegna tauga- og geðlyfja. Á árunum 2003-2010 hækkaði hlutfall af heildarkostnaði Sjúkratrygginga Íslands hjá börnum á aldrinum 0-9 ára úr 2,5% í 3,6% og 10-14 ára úr 7,2% í 11,9%.  Þeir lyfjaflokkar sem jukust mest á sama tímabili voru örvandi lyf, lyf notuð við ADHD (enska: attention deficit hyperactivity disorde, íslenska: athyglis- og ofvirkniröskun) og lyf sem efla heilastarfsemi, geðrofslyf og flogaveikilyf.

Í rannsókn sem Helga Zoëga, Matthías Halldórsson og fleiri unnu um notkun ADHD lyfja á Norðurlöndum árið 2007 kom fram að Íslendingar væru nær 5 sinnum líklegri en Svíar til að nota ADHD lyf. Meðalnotkunin á Norðurlöndum var 2,76/1000 íbúa á meðan hún var 12,46/1000 íbúa á Íslandi.   Drengir á aldrinum 7-15 ára voru fjórfalt líklegri en stúlkur til að vera á þessum lyfjum, en mismunur á milli kynjanna minnkaði með aldrinum. Notkun íslenskra barna á ADHD lyfjum er með mesta móti í Evrópu en líkist mjög notkun bandarískra barna, þar sem talað hefur verið um faraldur í greiningu á athyglis- og ofvirkniröskun (athyglisbresti).

Í annarri rannsókn sem unnin var af Todd E. Elder (2010) kom fram að yngstu börnin í árgangi væru nær tvöfalt líklegri til að vera greind með ADHD en elstu börnin í næsta árgangi á eftir.  Fæðingardagur barnsins virtist hafa mikil áhrif á mat kennara á líkum þess að barn væri með athyglisbrest, en lítil tengsl við mat foreldra.  Þannig virðist slæm hegðun barna í kennslustundum auka mikið líkur á greiningu barna skv. rannsókninni.

Ég vil börnunum okkar vel.  Ef lyf hjálpa þeim þá tel ég að við eigum ekki að setja fyrir okkur aukna notkun og hærri kostnað.  En af hverju eru drengir margfalt líklegri til að vera greindir með ADHD en stúlkur?  Af hverju skiptir fæðingardagur máli þegar kemur að greiningu á ADHD?  Af hverju er þessi gífurlegi munur á milli Norðurlandanna í greiningu á ADHD og þar með lyfjanotkun þar sem um er að ræða tiltölulega lík samfélög þegar litið er til uppruna, efnahagslegra, menningarlegra, og félagslegra þátta?

Og skila lyfin raunverulegum árangri?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Baldvin Jónsson

  Tek undir þessar hugleiðingar og hef þó sjálfur fengið ADD greiningu og prófað lyfjagjöf við því.
  Lyfin vissulega hjálpuðu, en þegar að ég komst að því að bætt mataræði (sérstaklega mikill samdráttur í sykurneyslu) og bættar svefnvenjur höfðu nánast jafnmikil áhrif til góðs á mig og lyfin, hætti ég samstundis við að sækja mér annan skammt. Sá síðasti hafði klárast nokkru fyrr.

  Það er vissulega auðveldara að setja okkur bara á lyf, sérstaklega í tilfellum barna þar sem að ábyrgðin á því og framkvæmdin lendir alfarið á foreldrunum.

  En er það svo langsótt markmið að ætlast til þess að við nennum að leggja það á okkur og þá sérstaklega fyrir börnin okkar?

 • Sígilda Mamman

  Förum að gefa börnunum okkar mat aftur og hættum að ala þau á krukku- og pakkafóðri.

 • Ólafur Adolfsson

  Sæl Eygló

  gætir þú skýrt frekar hvað þú ert að fara í pistli þínum…ertu að segja að íslensk börn séu oftar greind með athyglisbrest með ofvirkni en erlendir viðmiðunarhópar?
  eða ertu að segja að íslensk börn séu oftar meðhöndluð með lyfjum en erlendir viðmiðunarhópar?
  eða ertu að segja að íslensk börn séu oftar meðhöndluð með örvandi lyfjum en viðmiðunarhópar?
  eða ertu að segja að lyfjagjöf til íslenskra barna kosti miklu meira en hjá öðrum þjóðum.
  Svo mæli ég með að þú leggir til á þingi að meira fé verði varið til félagslyfjafræðirannsókna… og svona í leiðinni mætti þá leiðrétta meinlegar villur í íslenska lyfjagagnagrunninn sem Sjúkratryggingar Íslands og Velferðarráðuneytið byggja tölur sínar á

 • Hvaða árangri er lyfjunum ætlað að skila? Er fíkill – fangi markmiðið?

 • Og hættum líka að úða í þau hveitilíminu sem kallast pizza.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur