Sunnudagur 08.01.2012 - 17:23 - 16 ummæli

Vaðlaheiðargöngin galin?

Ég hef verið ein þeirra sem hafa haft efasemdir um forsendur útreikninga um að Vaðlaheiðargöngin gætu staðið undir sér. Því kom niðurstaða verkfræðingsins Pálma Kristinssonar um að framkvæmdin verði dýrari og rekstrarkostnaður ganganna meiri ekki á óvart.  Niðurstaða hans er að ríkið þurfi hugsanlega að greiða milljarða kostnað vegna ganganna.

Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að Vaðlaheiðargöngin eru með þjóðhagslega arðsemi upp á 5-10%., – þótt það komi hvergi fram í fréttum af málinu.  Það ræðst af fækkun slysa og eignatjóna, styttingu vegalengdar um 15,8 km og styttingu aksturstíma um 10 mínútur.  Hver sá sem hefur keyrt Vaðlaheiðina í snjóbyl veit af hverju.  Arðsemin liggur því í öðru en krónum og aurum í vasa einkaaðila.

Hún liggur í meiri lífsgæðum íbúanna á svæðinu.

Svæðið sem nyti góðs af Vaðlaheiðargöngunum hefur verið eitt af vaxtasvæðum landsins.  Þótt íbúum í einstökum byggðalögum hafi fækkað hefur íbúum á svæðinu fjölgað umtalsvert á undanförnum  áratugum. Stærri þéttbýliskjarnar hafa vaxið og dafnað sem miðstöðvar stjórnsýslu, atvinnulífs og menningar og bætt búsetuskilyrði fólks á stórum svæðum.  Framundan eru tækifæri til uppbyggingar í atvinnulífinu vegna mikilla orkuauðlinda á svæðinu.

Eru Vaðlaheiðargöngin sú einstaka vegaframkvæmd sem íbúar á þessu vaxtasvæði telja mikilvægasta fyrir uppbyggingu svæðisins? Sú sem styður best við atvinnulífið og bætir lífsskilyrðin á svæðinu?  Er þetta sú framkvæmd sem þeir vilja eyða skattpeningunum sínum í?  Sýna útreikningar að hún sé þjóðhagslega hagkvæm?

Ef svarið við þessum spurningum er já, –  af hverju ættum við að telja okkur umkomin til að hafa vit fyrir íbúum á Norðurlandi?

Slíkt væri fullkomlega galið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Friðrik Tryggvason

    „Af hverju ættum við að telja okkur umkomin til að hafa vit fyrir íbúum á Norðurlandi?“

    Vegna þess að við hin þurfum að borga fyrir þetta. Og að þessi göng taka pening frá öðrum framkvæmdum sem eru talin mikilvægari.

  • Drýsill

    Já, en snýst þetta ekki einmitt um forsendur ákvörðuninar þ.e. að hún sé ekki byggð á sandi eða reyk? Stjórnmál snúast að einhverju leyti um að ákveða hvaða framkvæmdir fólkið í landinu eigi að borga niður úr sameiginlegum sjóðum(t.d. hjartalækningar og menntun barna). Forsendan eru réttar upplýsingar um kostnað og hagkvæmni, ábyrgðin er þingsins. Horfumst í augu við að stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að fara út í kostnaðarsamar aðgerðir, á kostnað almennings, til að kaupa sér atkvæði.

  • Eygló Harðardóttir

    Fyrir þetta svæði?

  • Eygló Harðardóttir

    Já, ég tel mikilvægt að við förum út framkvæmdir með augun opin og trausta útreikninga. Þess vegna vildi ég gjarnan fá meiri upplýsingar auk þess sem ég hef efasemdir um svokallaða hagkvæmni einkaframkvæmda. En ef meira að segja verkfræðingurinn sem telur að umferð muni halda áfram að dragast saman telur framkvæmdina þjóðhagslega hagkvæma um 5-10% þá tel ég að við eigum að horfa til þess og mikilvægi hennar fyrir framtíðarhagsæld svæðisins.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Með svipaðri aðferðarfræði mætti eflaust færa ágæt rök fyrir því að raflestarsamgöngur á SV-horninu geti borgað sig, allavega ef menn leyfa sér nokkra bjartsýni um fjölda erlendra ferðamanna og svartsýni hvað varðar verð á bensíni.

  • Halldór Á

    Vaðlaheiðargöng eru alls ekki galin. Það er hægt að segja já við öllum spurningum þínum. Svo sannarlega eiga Norðlendingar skilið að fá Vaðlaheiðargöng, líkt og Austfirðingar Norðfjarðargöng.

    Meinið við áætlun um Vaðlaheiðargöng er sú lygi sem Steingrímur Joð og Kristján Möller bera á borð um að vegatollur muni standa undir kostnaði við göngin og því þurfi ekki að setja krónu úr ríkissjóði í gerð þeirra. Það er verið að plata þessa framkvæmd inn á tóman ríkiskassann og út á það gengur gagnrýnin á framkvæmdina.

    Hvernig eiga þingmenn eins og þú að geta tekið rétta afstöðu til Vaðlaheiðarganga ef staðreyndin er sú að ríkið mun þurfa að borga a.m.k. helminginn af kostnaðinum, en samt er fullyrt við ykkur að svo sé ekki?

  • Skynsamleg og málefnaleg skrif, hjá mjög vaxandi þingmanni.

  • Hefurðu keyrt Vaðlaheiðina nýlega….?

  • Jón B G Jónsson

    Næstu göng á NA landi sýnist mér ættu að vera Norðfjarðargöng ef Alþingi telur að til séu fjármunir. Nýlega var ákveðið að skera niður kostnað til þeirra kvenna sem þurfa aðstoð til að eignast börn , ca 30 milljónir. Þannig að sú aðstoð verður þá bara i boði fyrir ríkt fólk. Það er krafa um að opinberir aðilar kosti skemmtistað eins og NASA! Það er kominn tími til að þingmenn fari með skattféð ekki eins og þeir eigi það . það á að velta fyrir sér hverri skattkrónu. Við sem borgum skatta hljótum að gera þá kröfu þegar skattheimtan er í hámarki að ekki sé verið að sólunda fé í gæluverkefni á kostnað fjöldans. Mætti t.d ekki klára malartroðninga á vestfjörðum áður en gæluverkefnin eru sett í forgang?Mér hefur oft fundist heimtufrekja hinna ýmsu forystumanna byggða og samtaka keyra um þverbak þegar þeir eru að fara fram á að skattborgarar borgi þau verkefni sem eru í þeirra umhverfi hvort sem það eru ferjur , hafnir eða göng.

  • Eygló; þú lendir á villigötum með málið – – – eða glepst af „afvegaleiðingum“ – – við hér á NA-svæðinu viljum verja okkur eigin peningum fremur í að greiða veggjald í Vaðlaheiðargöng en í eldsneyti og annan kostnað og njóta margfalt meira öryggis á leiðinni. Við ætlum ekki að taka til okkar eigin skattpeninga eða annarra. Göngin munu ekki þurfa að reiða sig á framlög úr ríkissjóði – verða alltaf sjálfbær. ‘Ovissan um umferðarmagn og verðlag hefur einungis áhrif á endurgreiðslutímann – – á hann að verða 25-30 ár eða má hann verða lengri – með lægra gjaldi eða vegna þess að umferð vex minna en spáð er . . . . ?
    VIÐ VILJUM FÁ AÐ GREIÐA FYRIR ÞESSAR SAMGÖNGUBÆTUR SJ’ALF : : : : please

  • Eygló Harðardóttir

    Nei, engar villigötur. Lesa pistilinn til enda 😉 Ef Norðlendingar vilja greiða veggjald, njóta margfalt meira öryggis, tryggja aukna hagsæld á svæðinu og verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt þá tel ég fullkomlega galið að segja ykkur að þið megið ekki nota skattpeningana ykkar líka í frmkvæmdina. Ég vil einnig í miklu meira mæli flytja ákvörðunarvald til einstakra svæða er varðar opinbera þjónustu. Meiri valddreifingu að hætti samvinnumanna, takk 🙂

  • Eygló Harðardóttir

    Já.

  • Eygló Harðardóttir

    Vaðlaheiðargöngin eru ekki gæluverkefni, heldur samkvæmt þeim sem þekkja best til og búa á svæðinu það verkefnið sem Norðlendingar telja hvað brýnast í vegaframkvæmdum. Einnig vil ég minna á að íbúar á þessu svæði eru einnig skattgreiðendur en sjá því miður alltof stóran hluta af sínum skattpeningum fara suður í ríkisbáknið þar.

  • Drýsill

    Jæja, orðið bákn er gildishlaðið! Ertu að gera að því skónna að það sé of stórt! Ah… of mikill menntunn, of mikið heilbrigðiskerfi. Eða er hér verið að gæla við klassískt minni framsóknarmanna 🙂 við gegn þeim.

  • Jón B G Jónsson

    Meinar þú t.d að of mikið af skattpeningum landsmanna fari í Landsspítalann ? HÍ? Meinar þú að ríkisbáknið ætti að vera á öðrum stað en í Reykjavík þar sem flestir búa? Lykta þessi ummæli þín ekki af populisma?

  • Eygló Harðardóttir

    Nei, ég er að tala um meiri valddreifingu. Íbúar eiga að hafa meira um sín mál að segja. Verkefni eiga í auknu mæli að fara til sveitarfélaganna/landshlutasamtaka og íbúar eiga að hafa meira um forgangsröðun verkefna að segja. Sjá endilega grein aðeins neðar undir fyrirsögninni Samvinna um Suðurnesin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur