Mánudagur 09.01.2012 - 10:37 - 7 ummæli

Björt framtíð fyrir kröfuhafa?

Snýst hin Bjarta framtíð Besta og Guðmundar um að styðja við kröfuhafa bankanna og tryggja þeim aðgang að ofurhagnaði bankanna? Guðmundur Steingrímsson, talsmaður Bjartrar framtíðar (nýja framboð hans og Besta), sagði á Sprengisandi um helgina að hann hefði rætt að styðja ríkisstjórnina í að lækka eigið fé bankanna = hefja útgreiðslu arðs úr nýju bönkunum.  Tilgangurinn að sögn Guðmundar væri að nýta peningana til að fjárfesta í nýrri atvinnustarfsemi.

Ástæður þess að ég geri athugasemd við þetta er að ríkið hefur aðrar leiðir til að nálgast ofurhagnað bankanna en að hefja arðgreiðslur, – í gegnum skattkerfið.

Vandinn á næstunni verður heldur ekki skortur á fjármagni til fjárfestinga, heldur mun frekar skortur á fjárfestingartækifærum.  Lífeyrissjóðirnir þurfa að nýfjárfesta fyrir um 100-150 milljarða króna á ári, auk þess að endurnýja eldri fjárfestingar enda með eignasafn upp á um 2000 milljarða króna.  Eigendur krónubréfa halda á um 300-400 milljörðum króna og þegar útgreiðslur hefjast munu kröfuhafar sitja uppi með allt  að 300-400 milljarða í krónum. Til samanburðar má nefna að Framtakssjóðurinn í eigu sextán lífeyrissjóða var með 30 milljarða í eigið fé.

Einhver gæti talið það réttlætismál að kröfuhafar fái sína hlutdeild í hagnað bankanna, þar sem þeir töpuðu þúsundum milljarða króna á íslensku bönkunum.  Þeir hinir sömu gleyma að núverandi kröfuhafar eru ekki endilega þeir sömu og lánuðu bönkunum á sínum tíma.  Stór hluti núverandi kröfuhafa eru svokallaðir vogunarsjóðir, sumir hafa jafnvel kallað þá hrægammasjóði, sem keyptu kröfur á gömlu bankana á slikk, aðeins lítið brot af upprunalegu verðmæti þeirra.

Gleymum heldur ekki ástæðunni fyrir hinum mikla bókfærða hagnaði og sterkri eiginfjárstöðu bankanna.  Þegar nýju bankarnir voru settir á stofn höfðu menn ekki mikla trú á íslensku efnahagslífi og afskrifuðu stóran hluta lánasafnanna.  Íslensk heimili og fyrirtæki reyndust mun duglegri að borga en menn ætluðu.  Því jókst bjartsýni bankamanna umtalsvert og verðmæti lánasafnanna var fært upp = voða mikill hagnaður og miklu sterkari eiginfjárstaða.

Við skulum vona að talsmaður Bjartrar framtíðar hafi bara verið að grínast…svona að hætti Besta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Pétur Örn Björnsson

    Lélegt er þá grín Guðmundar, sem málatilbúnaður hans allur.

  • stefán benediktsson

    Já það væri nú ljóta vitleysan ef menn færu að njóta arðs af eigum sínum. Kannski engin furða að við skulum hafa farið á hausinn þegar sá hugsunarháttur ræður hjá fjölda stjórnmálamanna að ljótt sé að fá arð af eigum sínum.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ti viðbótar góðum og glöggum pistli Eyglóar skal bent á þessi vel mæltu orð Marinós G. Njálssonar á facebook um grín Guðmundar og allrar hans Björtu framtíðar … fyrir sér-útvalda kröfuhafa og valdhafa:

    „Loksins setur Guðmundur Steingrímsson fram hugmynd og hún á að tryggja að ekki fari fram eðlileg leiðrétting hjá þeim sem eru fórnarlömb svika, pretta, óstjórnar, lögbrota o.s.frv. Heldur á einmitt að festa hækkun lánanna í sessi!

    Ef menn vilja koma hjólum fjárfestinga aftur í gang, þá verður það best gert með því að auka getu heimilanna og lítilla og meðal stóra fyrirtækja til að fjárfesta. Slíkt verður eingöngu gert með því að draga úr skuldsetningu þeirra, þar sem ofurskuldsetning er að hamla vöxt. Sá sem á veðrými upp á 40% er í betri aðstöðu til fjárfestinga, en sá sem er með neikvætt eigið fé upp á 10, 20 eða 30% eða þaðan af meira. Færa þarf skuldir heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja niður með því að taka af mest alla hækkun höfðustóls lána frá ársbyrjun 2008. Næst þarf að afnema verðtryggingu og koma hér á heilbrigðu vaxtaumhverfi sem ýtir undir vöxt allra en ekki bara fjármagnseigenda.“

  • Eygló Harðardóttir

    Eitt er eðlilegur hagnaður af rekstri fyrirtækis, vegna góðrar afkomu af rekstri, mikillar vinnu starfsmanna, þróunar á nýrri tækni eða þjónustu,- og annað er hvalreki á borð við ofurhagnað bankanna. Hagnaðurinn byggist uppfærslu lánasafnanna í þeirri von að sem mest verði hægt að kreista úr buddu íslensks almennings.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hvað næst? Munu mis-bjartir, núverandi og fyrrverandi og dulbúnir, samfylkingarmenn mæla næst mjög með bankabónusum og kalla það eðlilegan „arð af eigum sínum“?

    Það mun vafalaust falla vel í geð gjaldkera sýndarveruleikans og mis-bjartra samfylkingarmanna og hrægamma að hoppa af kæti og leppur Deutsche Bank, Bjöggólfur iða þá allur í æti, sem maðkur í hræi.

    Það mætti halda að þetta gönuhlaup Guðmundar skýrist af illilegum misskilningi hans og samslætti í huga hans á annars vegar hvalreka/“windfall“ og hinsvegar á dæmigerðum samtryggðum hringsnúandi og ofur bjartsýnum pólitískum vindhana, sem trúir því að hér sé nú líf allra í allra besta lagi, þannig að meira segja Spinoza hefði roðnað enn meira en af háði Voltaire í Birtingi. Kannske Guðmundur vitkist seinna en venjulegt og óbreytt almúgafólk?

  • Er krafa ekki eign, Eygló?

    Njóta þessar eignir ekki verndar stjórnarskrárinnar?

    Bíddu, situr þú ekki á löggjafarsamkundu Íslendinga? Er það ekki þín skylda að starfa eftir grundvallarlögum íslenska lýðveldisins?

    Það er alltaf verið að stagla fram og til baka um þessa vogunarsjóði sem KEYPTU þessar eignir af kröfuhöfum.

    Eitt er að spjátrungar gaspri um þessa „hrægammasjóði,“ en að handhafi löggjafarvalds skuli tala jafn frjálslega um stjórnarskrárvarinn rétt er mér fyrirmunað að skilja!

    Síðan þegar skoðað er svar við fyrirspurn EKG, sem þú vitnar í, þá sést að þetta eru fjöldinn allur af sjóðum, flestir með um eða undir 1% af heildar kröfum!

    Á meðan stendur þú með hinum lýðskrumurunum á torgum, með gjallarhorn og æpið yfir lýðinn að hér séu „hrægammar“ sem stjórni bönkunum!

    Ja, ef menn hefðu nú bara kosið B!

    Þá væri hér semsagt búið að umturna stjórnarskránni og þið pólitíkusarnir farnir að stunda eignaupptöku í stórum stíl, leggjandi ykkar mælistiku á stjórnarskrárvarin réttindi, væruð semsagt útdeilandi eignum eftir ykkar mælikvörðum.

    Eða hvernig öðruvísi er hægt að lesa í þín orð, kæri þingmaður, en að þú teljir rétt að farið verði í manngreiningarálit við mat á því hversu mikla vernd menn geti búist við af höndum ríkisvaldsins þegar kemur að grundvallarréttindum?

    Síðan, að lokum: Hér er bankakerfið með rúmlega 2 sinnum hærri lögbundna eiginfjárkröfu af hendi stjórnvalda, en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Það er óeðlilegt ástand, sem komið var á í kjölfar bankahrunsins til að auka tiltrú á nýju bönkunum.
    Það mun ekki vara til eilífðarnóns, eða hvað? Er þetta ekki eitthvað sem þú þarft að taka með í myndina, þegar þú gagnrýnir hugmyndir Guðmundar.

    Eða virkar kannski betur að öskra ‘hrægammar, hrægammar’ en að taka málefnalega á hlutunum?

  • Eygló Harðardóttir

    Er eign almennings í húsnæði sínu, fyrirtækjum sínum, bílunum sínum ekki eign skv. stjórnarskránni? Eða gildir það bara fyrir ríka fólkið? Kapítalistana? Vogunarsjóðina?

    Kröfuhafar samþykktu að færa niður kröfur sínar og nýju bankarnir voru stofnaðir á þeim grunni. Síðan voru bankarnir afhentir aftur til kröfuhafanna og stjórnendur bankanna hafa eytt tíma sínum í uppfæra lánasafnið í stað þess að færa afskriftirnar áfram til almennings.

    Ef nýi rökstuðningurinn fyrir hugmynd Guðmundar á að vera nauðsyn þess að lækka lögbundna eiginfjárkröfu bankanna vegna þess að þeir séu núna í svo góðum málum þá er ég ekki sammála því. Enn þá er ekki búið að ljúka endurskipulagningu skulda fjölda viðskiptavina, bæði heimila og fyrirtækja. Enn þá eru þeir alltof stórir og ógna því fjármálalegum stöðugleika. Enn þá er til staðar ríkisábyrgð á innstæðum þeirra. Enn þá gerir bankasýslan alvarlegar athugasemdir við rekstur þeirra. Enn þá eru þeir í eigu kröfuhafa.

    Rökstuðningur þinn gengur því ekki upp frekar en rökstuðningur Guðmundar um mikilvægi þess að fá fjármagnið í fjárfestingar í atvinnulífinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur