Þriðjudagur 10.01.2012 - 12:40 - Rita ummæli

Daniel og dormandi bankareikningar = Stærra samfélag?

Pressan birti frétt um leit sýslumannsins í Keflavík að Daniel Lee Newby í tengslum við uppgjör á dánarbú móður hans.  Hann er eini erfinginn sem hefur ekki gefið sig fram í tengslum við skiptin og því eigi hann milljónir á íslenskum bankareikningi í vörslu sýslumannsins.

Ég vona að Daniel finnist og hann geti fengið arfinn sinn. En við lestur fréttarinnar fór ég að velta fyrir mér það væru fleiri svona reikningar þar sem ekki er vitað um eigendur eða þeir hafa ekki vitjað reikninganna í töluverðan tíma?

Í Bretlandi er vitað að umtalsverðar upphæðir eru á hinum svokölluðu dormandi bankareikningum (en. dormant bank accounts).  Árið 2008 voru því sett sérstök lög um þessa bankareikninga  þar sem stjórnvöldum var heimilað að taka yfir dormandi reikninga ef eigendur hefðu ekki vitjað þeirra í 15 ár.  Ef eigandinn finnst (t.d. í óbyggðum Alaska) eftir að stjórnvöld hafa tekið yfir reikninginn getur hann samt fengið peningana sína plús vexti frá ríkinu.

Árið 2011 var hægt að sækja um 5 milljónir punda á grundvelli þessara laga í gegnum Big Society Investment Fund/Big Society Capital Group.  Í lok árs var um 3,1 milljón punda úthlutað til að fjármagna m.a. viðskiptahugmyndir langtímaatvinnulausra, aðstoða ungt fólk við að fá vinnu, bæta orkusjálfbærni samfélaga og starta fyrsta samfélagslega hlutabréfamarkaðnum.

Big Society (ís: Stórt samfélag) verkefni bresku ríkisstjórnarinnar er allt mjög áhugavert.  Markmið verkefnisins er að tryggja almenningi meiri áhrif og tækifæri til að stjórna lífi sínu.  Lykilhugtök samvinnuhugsjónarinnar eru þar mjög áberandi: Samvinna, lýðræði, sjálfsábyrgð, valddreifing, samfélagsábyrgð og jafnrétti.   Samfélagið; fjölskyldur, vinir, nágrannar, frjáls félagasamtök, samfélagsrekstur og netverk, eiga að verða stærri og sterkari með valddreifingu, með því að gefa fólki og samfélögum raunveruleg áhrif og ábyrgð og tryggja þannig sanngirni og tækifæri fyrir alla.

Það ætlar breska ríkisstjórnin að gera m.a. með því að:

  1. Tryggja sveitarfélögum aukin áhrif og völd.
  2. Gera íbúum kleift að taka yfir rekstur opinberrar þjónustu á samfélagslegum grunni.
  3. Hvetja til sjálfboðavinnu og þátttöku í samfélagslegum verkefnum.
  4. Umbuna fyrir gjafir til góðgerðasamtaka.
  5. Styðja við samfélagsrekstur á borð við samvinnufélög, gagnkvæm félög og góðgerðasamtök og hvetja þau til þátttöku í rekstri opinberrar þjónustu.
  6. Gefa opinberum starfsmönnum tækifæri til að stofna samvinnufélög í þeirra eigu og bjóða í þá starfsemi sem þeir veita.
  7. Nýta fjármagnið á dormandi bankareikningum til setja á stofn samfélagsfjárfestingasjóð/-banka.

Því miður hafa íslensk stjórnvöld sýnt lítinn áhuga á sambærilegum hugmyndum.

Sorglegt.

PS: Ég hvet lesendur til að skilja eftir ummæli eða tengja inn á samskiptasíður.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það getur tekið tíma fyrir þau að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki ummæli.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur