Þriðjudagur 24.01.2012 - 13:53 - Rita ummæli

Forræðismál íslenskra barna

Fyrir nokkru barst þingmönnum tölvupóstur þar sem ungur drengur grátbað um aðstoð vegna forræðisdeilu íslenskrar móður hans og danskrar stjúpföður um systkini hans.  Forræðisdeila þeirra var hafin í október 2010 þegar móðir barnanna fór frá Danmörku og kom til Íslands með dætur þeirra þrjár, á aldrinum þriggja til sjö ára. Íslenskir dómstólar kváðu upp þann úrskurð að móðurinn bæri að fara aftur til Danmerkur með dæturnar og ljúka forsjármálinu þar. Þann nítjánda janúar féll dómur Landsréttar í Danmörku í forræðisdeilu þeirra um að foreldrarnir hefðu sameiginlegt forræði með börnunum en að börnin ættu lögheimili hjá föður sínum.

Forræðisdeilur eru alltaf erfiðar.

Forræðisdeilur í erlendu landi geta verið sérstaklega erfiðar.

Fjöldi fólks hefur flutt erlendis eftir hrun vegna atvinnuleysis og bágrar efnahagsstöðu.   Því má leiða líkum að því að forræðisdeilum milli landa muni aukast hjá íslenskum ríkisborgurum. Því vöktu athugasemdir eftirlitsnefndar um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er varða forræðismál barna athygli mína.

Þar segir:

„The Committee recommends that the State party revise its social benefits programmes with the aim to provide adequate assistance to families in vulnerable situations and increase its funding to mediation services to parents in dispute. It further recommends that the State party ratify the Convention on the Recognition and Enforcement of Decisions relating to the Maintenance Obligations, the Convention on the Law Applicable to Maintenance Obligations, and the Convention on Jurisdiction, Applicable Law, Recognition, Enforcement and Cooperation in respect of Parental Responsibility and Measures for the Protection of Children.“ (Mín þýðing: Nefndin mælir með að stjórnvöld endurskoði almannatryggingakerfið sitt með það að markmiði að bjóða upp á næga aðstoð við fjölskyldur í viðkvæmum aðstæðum og hækki framlög sín til milligönguþjónustu fyrir foreldra í ágreiningi.  Nefndin mælir jafnframt með að stjórnvöld fullgildi sáttmálann um viðurkenningu og framkvæmd dóma um meðlagsskuldbindingar, sáttmálann um lög er varða meðlagsskuldbindingar, og sáttmálann um lögsögu, beitingu laga, viðurkenningu, framkvæmd og samvinnu með tilliti til foreldrarábyrgðar og ráðstafana til verndar börnum.“)

Þarna virðist eftirlitsnefndin vera að benda á að fjölmargir alþjóðlegir sáttmálar er varða forræðismál hafa ekki verið fullgiltir hér á landi.

Ég myndi telja að þetta ætti að vera eitt af forgangsverkefnum innanríkisráðuneytisins að skýra þessi mál sem fyrst til heilla fyrir börnin.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur