Sunnudagur 22.01.2012 - 13:30 - 5 ummæli

Auðlindaákvæði A, B eða C?

Stjórnlagaráð hefur lagt til ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá.  Það gerði þingflokkur Framsóknarmanna einnig undir forystu Guðna Ágústssonar á 135. og 136. löggjafarþingi.  Það gerðu einnig forystumenn Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins á 136. löggjafarþingi fyrir kosningar 2009.

Spurning dagsins er því:  Hver er tillaga Stjórnlagaráðs, hver er tillaga Framsóknarmanna og hver er tillaga forystumanna fjögurra flokka?

A.  „Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi. Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“

B. „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

C. „Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.  Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi. Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“

Google-aðstoð er leyfileg.

PS. Ég hvet lesendur til að skilja eftir svar í ummælum, sem og biðja Facebook vini að taka þátt líka með því að deila pistlinum.  Ég samþykki inn ummæli þannig að það tekur tekið tíma fyrir ummælin að birtast. Jafnframt áskil ég mér rétt til að samþykkja ekki inn ummæli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Hér kemur svarið mitt:

  A. er tillaga Framsóknarmanna.

  B. er Stjórnlagaþing.
  http://stjornlagarad.is/starfid/frumvarp/
  34. gr. Náttúruauðlindir

  C. er tillaga forystumanna fjögurra flokka.

  Mér lýst best á B.
  Þar er afdráttarlaust tekið fram að fullt gjald skuli fást fyrir afnot.

  C. skautar framhjá því atriði.

  A. dansar eins og köttur í kringum heitan graut. Nefnir ekki næginlega skýrt fulla gjaldtöku. Þá er textinn óþarflega snúinn og með lykkur eins og „óbein eignaréttindi“.

  Niðurstaða mín er því að það væri skaðlaust að samþykkja tillögu Stjórnlagaráðs.

 • er hrifinn af B. vegna þess að það er:

  1. Ítarlegt s.s. í skilgreiningu á hvað auðlind er.

  2. Afdráttarlaust sbr. „ævarandi eign“, „má aldrei selja eða veðsetja“, „sjálfbær þróun og almannahag“, „fullu gjaldi“, „hóflegs tíma“, „jafnræðisgrundvelli“, „leiða aldrei til eignaréttar eða óafturkallanlegs forræðis“.

  3. Notar hugtök og orð sem að eru skiljanleg almenningi og óumdeilanlegt hvað þýða. Stjórnarskráin er grundvallarlögin sem að allt á að byggjast á. Það ber að varast að nota orð, sem að enginn, a.m.k. ekki almenningur, veit hvað þýða s.s. „óbein eignaréttindi“.

  Stjórnarskrá á að gefa stefnuna á afdráttarlausan og skýran hátt. Almenningur á að geta skilið hana. Lýst því vel á B.

  p.s.

  Finnst C.
  „Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“

  Gott svo langt sem það nær. Samt spurning hvort að ákvæði um þetta eiga heima í grein um auðlindir eða í einhverri annarri grein s.s. grein sem að fjallar um mannréttindi.

 • B er tillaga stjórnlagaráðs hún ein er afdráttarlaus. Þar er sagt að úthluta skuli veiðrétti á grundvelli jafnræðis og að fullt verð skuli koma fyrir. A er tillaga Guðna Ágústssonar í greinargerð með henni er eftirfarandi skýring sem segir allt um vilja flutningsmanna til að gera þessa auðlind að alvöru þjóðareign.
  Tilvitnun hefst.: Sérstaklega skal tekið fram að ekki var gert ráð fyrir í lokaskýrslu auðlindanefndar að samþykkt tillögu nefndarinnar til breytingar á stjórnarskránni mundi sjálfkrafa leiða til grundvallarbreytinga á núverandi aflahlutdeildarkerfi („kvótakerfi“) samkvæmt þágildandi lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sbr. nú lög nr. 116/2006. Þvert á móti var eitt af markmiðum tillögunnar að gera réttarstöðu þeirra, sem njóta veiðiheimilda á grundvelli 7. gr. þeirra laga, skýrari en hún er samkvæmt núgildandi lögum, auk þess sem stefnt var að því að tekið yrði upp gjald fyrir þær heimildir, eins og gert hefur verið með V. kafla laganna um veiðigjald, sbr. lög nr. 85/2002.
  Með kveðju Jóhann Ársælsson

 • Einar Gunnarsson

  Mér hugnast B sem er betri en A. C er afleitur kostur.

 • Af samanburði tillagnanna þriggja (þeim ber að miklu leyti saman, en B tekur af skarið) og einnig af viðbrögðum lesenda að framan má ráða, að góðir framsóknarmenn hljóta að styðja frumvarp Stjórnlagaráðs. Leyfi mér að hvetja til þess um leið og ég þakka Eygló fyrir allt gott, sem hún gerir, og einnig þetta.

  Með góðum kveðjum,

  Þorvaldur Gylfason.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur