Fimmtudagur 26.01.2012 - 22:41 - 2 ummæli

Lögreglustjóri vísar frá kærum v/ vörslusviptinga

Innanríkisráðherra hefur svarað fyrirspurn minni um starfsreglur lögreglunnar við kærum vegna vörslusviptinga.

Þar staðfestir hann að lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út leiðbeinandi reglur til starfsmanna sinna um að vísa frá kærum vegna vörslusviptinga þar sem þær séu einkaréttarlega eðlis.

„Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út leiðbeinandi reglur um meðferð erinda vegna vörslusviptinga meðal annars með hliðsjón af niðurstöðu ríkissaksóknara í tilefni þess að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði vísað frá kæru á hendur þeim sem staðið hafa að vörslusviptingu. Í reglunum er kveðið á um að kærum til lögreglu á hendur fjármögnunaraðila vegna vörslusviptingar fyrir þjófnað, nytjastuld, gertæki og eitthvert annað brot verði að vísa frá. Ástæða og rök fyrir slíkri afgreiðslu málsins sé að um sé að ræða einkaréttarlegan samning sem leysa beri úr í einkamáli, þar á meðal ágreiningi sem lúti að uppgjöri samnings.“

Innanríkisráðherra hefur haft töluverðar áhyggjur  á mannréttindum og talið mikilvægt að gæta réttlætis að undanförnu.  Þrátt fyrir það hafa litlar sem engar  breytingar orðið á möguleikum fátæks fólks til að höfða mál til að fá úrskurðað um lögmæti gjörða fjármálafyrirtækjanna, jafnvel í fordæmisgefandi málum.

Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi í júní varað við lögbrotum vegna vörslusviptinga.  Þar benti ráðherrann á að í lögum um aðför væri kveðið á um að ef einhver teldi sig eiga eign í vörslu annarra sem hann vildi fá í sínar hendur og ágreiningur væri með aðilum þyrfti að afla dómsúrskurðar um að taka mætti eignina úr vörslu umráðamanns.

Ekki kemur fram í svörunum hvort fjármálafyrirtækin hafi aflað dómsúrskurðs í þeim tilvikum sem kærð voru til lögreglunnar og vísað var frá né vitað hvort viðkomandi skuldarar væru komnir í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara.

Hvað svo?  Jú, ríkislögreglustjóri er víst enn að vinna leiðbeinandi reglur í ljósi áhyggja ráðherra af hugsanlegum lögbrotum í júní 2011.

Í janúar 2012 bíðum við enn spennt…

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Árni VAldimarsson

    Þá virðist liggja ljóst fyrir að það næsta sem við sjáum er löggilda handrukkara, nema mér finnst þetta raunar verra,þegar þessir pívarar eru að hirða bílana á nóttinni. Hinir geta þó ekki annað en hótað öllu illu. Auðvitað á hvorugt að þekkjast hjá þjóð sem þykist kunna boðorðin. Krafan er í öllum tilfellum úrskurð sýslumanns TAKK:

  • Eygló: Lánþegar hafa engin siðleg úrræði til að verjast þessum yfirgangi.

    Ég er búinn að eyða mörg hundruð klukkutímum í að fara „réttu leiðina“ þ.e. lesa lög til að kynna mér lagagrundvöll aðgerðanna, skrifa bréf til míns lánveitanda og mótmæla, skrifa til Fjármálaeftirlitsins, hlusta á bullið í mörgum Alþingismönnum, endurtekningarnar í fréttunum af fjárglæfrum banka og útrásarvíkinga, kæra til Neytendastofu, áfrýjunarnefndar neytendamála, umboðsmanns Alþingis og nú síðast til sérstaks saksóknara þar sem ég kærði framferði forsvarsmanna SP vegna fjársvik og tilraun til fjárdráttar ásamt fleiri atirðum. Sérstakur saksóknari vísaði kærunni frá „þar sem telja mætti hæpið að huglæg afstaða kærðu við og í kjölfar samningsgerðar uppfyllti ákvæði um saknæmi við meðferð refsimála og ásetning til brota“ þannig að skilyrði almennra hegningarlaga væru uppfyllt til að hefja lögreglurannsókn. Forsendur frávísunar eru þær sömu og lögreglustjórinn í Reykjavík notar við að vísa kærum frá: að um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða og refsinæmi almennra hegningarlaga ekki uppfyllt. Í niðurlagi bréfsins var mér bent á að ég geti kært niðurstöðu sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara. Ég hef þegar samið þá kæru.

    Það er engu líkara en skipun hafi komið að ofan að lánþegar eigi að fara í einkamál vegna lögbrota fjármálafyrirtækja því það er vitað að nánast enginn hefur bolmagn til slíks.

    Að lokum vil ég vísa í nýlega færslu mína um uppgjör og innheimtu bílasamnings:
    http://rlingr.blog.is/blog/rlingr/entry/1219499/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur