Föstudagur 27.01.2012 - 08:00 - 10 ummæli

Hvetjum til húsnæðissparnaðar

Sögulega hefur lítill sparnaður verið á Íslandi.  Því hafði það alvarlegar afleiðingar þegar lög um sparnað vegna húsnæðis voru afnumin í lok síðustu aldar.  Það unga fólk sem keypti sína fyrstu eign á árunum 2000 til 2008 átti lítið sem ekkert eigið fé.  Til að koma til móts við takmarkað eigið fé stóðu því til boða lán með allt að 100% veðsetningu.  Fáir valkostir buðust umfram séreign og eina leiðin sem margir sáu til að tryggja sér öruggt húsnæði var að taka lán og fá lánað veð hjá ættingjum og vinum.

Í dag stendur þessi hópur eftir með þunga skuldabyrði vegna mikilla hækkana á verðtryggðum lánum og lækkandi fasteignaverðs.  Búsetuformum hefur ekki fjölgað, verðtryggingin tröllríður enn bókhaldi íslenskra heimila og enginn hvati er til sparnaðar vegna húsnæðiskaupa.

Því er ekki að furða að þeir sem hafa ekki enn drekkt sér í skuldum horfa með hryllingi til þátttöku á íslenskum húsnæðismarkaði. Úr þessu verður að bæta

Undir minni forystu lagði meirihluti verðtryggingarnefndar efnahags- og viðskiptaráðherra til fjölmargar leiðir til að búa til betri húsnæðismarkað.  Þar er lagt til að innleitt verði óverðtryggt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd, í stað verðtryggðra jafngreiðslulána.  Brýnt væri að fjölga búsetuformum með því að styrkja rekstrarumhverfi leigufélaga og húsnæðissamvinnufélaga.  Það væri hægt að gera með því að styðja við fjármögnun þeirra með stofnstyrkjum, ívilnunum og tímabundnum opinberum stuðningi, breytingum á húsnæðisbótakerfinu.  Þegar er unnið að þessu.

Síðast en ekki síst þyrfti að hvetja til sparnaðar.  Það verður að gera til að hraða eignamyndun, lækka fjármagnskostnað og minnka skuldsetningu heimilanna.

Því hyggst ég leggja fram frumvarp um skattaívilnun til ungs fólks sem vill leggja til hliðar peninga til að kaupa húsnæði eða búseturétt.  Þar er lagt til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur veiti 20% skattaafslátt af innleggi hvers árs, að hámarki 200 þús. kr.  Sparnaðurinn yrði undanþeginn fjármagnstekjuskatti.

Þannig tryggjum við að börnin okkar steypi sér aldrei aftur í sömu skuldir og við.

(Greinin birtist fyrst í FBL. 27. janúar 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • „Þannig tryggjum við að börnin okkar steypi sér aldrei aftur í sömu skuldir og við.“Þetta er köld kveðja til millistéttar aulans sem safnaði upp í sinni fyrstu íbúð á íslandi og vann síðan baki brotnu og var búin að vinna sér í 50 % eignarhlut í sinni íbúð þegar íslenskir stjórnmálamenn gáfu fyrst bankanna og síðan kom hrun og síðan voru íslensk heimilli færð erlendum vogunarsjóðum á silfurfati.Miða við núverandi ástand þá er besta sem maður getur gert fyrir börnin sín er að flytja af landi brott og í eðlilegt umhverfi þar sem þau geta hafið nýtt líf án þess að eiga hættu á því að lenda í sama og milltstéttar aulin lendir í reglulega á íslandi.Ef maður hugsar um framtíð barna okkar þá er hægt að benda á að 20 ára Normaður borgar 3 sinnum minna fyrir sitt húsnæðislán heldur en 20 ára gamall íslendingur. Enda þeir Normenn sem ég þekki eru allir orðnir skuldlausir og búnir að eignast sitt húsnæði um fertugt En á Íslandi er 40000 þúsund heimilli tæknilega gjaldþrota.Þannig að ég vil útvíkka þessa hugmynd hjá þér og þessi upphæð sem þau ná að safna mega þau nota til að flytja af landi brott og kaupa sér íbúð þar og spara sér tugi milljóna.

 • Þetta er góð tillaga sem myndi hjálpa virkilega ungu fólki til að eignast þak undir höfuðið. Það þarf þó að hafa í huga í þessu verðbólgu bæli sem íslenska krónuhagkerfið er, þá er hætt við að þessi sparnaður muni brenna upp að ef verðtrygging verður afnumin.

  Einnig vegar skalltu ekki hafa þær væntingar að þetta tryggi það að ungt fólk steypi sér ekki í skuldir.
  Það var margt fullorðið fólk sem ég þekki sem var hóflega skuldsett en „endurfjármagnaði“ lánin sín fyrir 2008 og stórjók skuldsetninguna i leiðinni til að lifa flottara lífi eða fara út í verðbréfabrask sem oftar en ekki fór illa.

 • Hallur Magnússon

  Við erum sammála um að það eigi að hvetja til húsnæðissparnaðar. „Frjáls skyldusparnaður“ 🙂

  En til þess að það sé raunhæfur kostur fyrir ungt fólk að leggja til hliðar í húsnæðissparnað í 6,5% verðbólgu – þá verða húsnæðissparnaðarreikningarnir helst að vera verðtryggðir …

  … þrátt fyrir skattaívilnuna.

  En frábært mál hjá þér!

 • Eygló Harðardóttir

  Takk, Hallur.

  Já, frjáls sparnaður með hvötum, ekki lögþvingaður. Það ríkir vaxtafrelsi í landinu. Bankarnir hljóta að vilja bjóða hæstu mögulegu innlánsvexti á hverjum tíma til þeirra sem eru tilbúnir að binda peningana sína á bankareikningnum, ekki satt?

 • Bjarni K. Torfason

  Sæl Eygló,

  Ég held að þú sért að hugsa á réttum nótum varðandi það að eitt af stóru vandamálum Íslands er skortur á almennum sparnaði. Hins vegar er ég ekki sammála því að hvatana til sparnaðar skorti. Á Íslandi eru mjög háir vextir og með því að fjárfesta í verðtryggðum bréfum hefur verið hægt að fá mjög góða og örugga ávöxtun, óháð skattaafsláttum. Því finnst mér óþarfi að fara að flækja skattkerfið frekar með svona hugmyndum. Mér finnst líka skrítið að niðurgreiða sparnað svona á sama tíma og við niðurgreiðum lántöku með vaxtabótum. En svipuðum áhrifum mætti kannski ná fram að einhverju leyti með því að hafa persónuafslátt á fjármagnstekjum, þannig að þeir sem hafa frekar litlar fjármagnstekjur hefðu þær skattfrjálsar.

 • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

  Ég man nú eftir skyldusparnaðinum í gamla daga. Sá peningur rauk út í veður og vind. Stjórnmálamennirnir finna alltaf leiðir til að ljúka krumlunum í svoleiðis peninga. ALLTAF.

 • Leifur A. Benediktsson

  Langtímamarkmið okkar á að vera númer eitt tvö og þrjú að kveðja krónuhagkerfið.

  Ekki nokkur einasta ríkisstjórn frá lýðveldisstofnun 1944,hefur ekki fallið í þá freistni að fella krónuna þegar ,,illa“ áraði,á einum eða öðrum tímapunkti setu sinnar.

  Íslensk hagstjórn hefur að mínu viti verið óstjórn vitleysinga sem hafa ekki haft hundsvit á peningamálum.

  Grátkór LÍÚ Mafíunnar hefur alltaf haft góð og traust tengsl við landsfeður hverju sinni.

  Ég vona og treysti því að Íslendingar fái viðunandi samning að loknu aðildarferli að ESB.

  Upptaka Evrunnar tekur mörg ár, og hagstjórn okkar VERÐUR að taka þá áskorun alvarlega, og miða að því eina markmiði að komast í skjól alvöru myntar.

  Hamstrahagkerfið er á enda runnið,það sannaðist svo illþyrmilega 6.október 2008.

  Traust okkar á bönkum,vöxtum,stjórnmálmönnum,dómstólum,
  Alþingi,fjölmiðlum og málpípum hverskonar er EKKERT.

  Réttast væri að almenningur risi nú upp aftur, og bylti þessu ógeðssamfélagi sérhagsmuna og óréttlætis.

  Það á eftir að sjóða aftur uppúr ef ekki fer að komast einhver skriður á rannsóknir og uppgjör við hið svokallaða HRUN!

 • Það er gott og vel að fara að hugsa fyrir sparnaði. Það er hinsvegar fullreynt að langtíma sparnaður í krónum er ekki mögulegur. Ívilnanir eru afleit leið til að koma réttlæti fram til lengri tíma litið. Hvað með þá sem hafa reynt að setja fé af fúsum og frjálsum vilja í lífeyrissparnað? Þar eru núna rústir einar. Ný peningamálastefna mun aldrei verða ný nema að hún bindi sig við stærri efnahagssvæðis. Persónulega hef ég ekki efni á fleiri gengisfellingum. Það er samt það eina sem lítið hagkerfi getur boðið mér uppá til frambúðar.

 • Ég hef hvatt mín börn til að kaupa sér ALDREI íbúð á Íslandi – ALDREI. Þau hafa nú keypt sér hús í Danmörku og búin að fá þar starf enda bæði læknar.
  Fastar greiðslur í 25 ár eru ÆTÍÐ þær sömu, svo þau vita nákvæmlega hver staða þeirra verður allan tíman.
  Hér borgar almenningu svindl, sukk og þjófnað þeirra sem eru í aðstöðu til ránsins, með geðþótta ákvörðunum stjórnvalda sem hafa ekki HUNDSVIT á peningamálum. Nú er verðbólgan komin í 6,5%??!! og það ÞRÁTT fyrir ástandið í þjóðfélaginu.
  Nei – viljið þið fólki vel en getið ekki hugsað ykkur að hafa hér siðaða og mannvæna peningastefnu, þá ættuð þið frekar að styrkja unga fólkið okkar til að FLYTJA HÉÐAN!!!!

 • Það er málið Dóra, ef ESB kemur ekki til Íslands þá fer unga fólkið sem hefur menntað sig til ESB. Þeir sem fara til Noregs eru líka flestir í ökufjarðlægð frá ESB landinu Svíþjóð þar sem þeir geta verslað neysluvörur á skaplegu verði.
  Ég bara skil ekki hvernig flestir þingmenn þessa lands geta unnið gegn hagsmunum landsmanna með þessari gengdarlausu ESB andstöðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur