Þriðjudagur 14.02.2012 - 09:32 - 64 ummæli

Réttur Snorra til rangra skoðana?

Ég hef hikað við að tjá mig um orð Snorra Óskarssonar og viðbrögð bæjaryfirvalda á Akureyri við þeim.  Ástæðan er ekki að ég hafi ekki skoðanir á þeim, heldur vegna þess hversu eldfimt þetta mál er.  Ég hef verið hrædd við að skoðanir mínir séu hugsanlega ekki í samræmi við pólitískan rétttrúnað.

Ég er nefnilega ósammála bæði Snorra og bæjaryfirvöldum á Akureyri. Ég tel samkynhneigð ekki vera synd, ekki frekar en að vera með stór eyru eða stuðningsmaður L-listans.  Ég velti hins vegar fyrir mér hvort trú kennara og skoðanir þeirra eigi að vera tilefni til brottrekstrar.

Hlýtur ekki eitthvað meira að þurfa að koma til?

Inn í þetta mál blandast réttur okkar til að vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Það snertir einnig rétt okkar til að trúa og að trú okkar verði ekki til að við missum af borgaralegum og þjóðlegum réttindum sbr. 64. gr. stjórnarskrárinnar.  Í 74. gr. segir jafnframt að allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.  Hver maður á rétt að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi.  Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má ekki aldrei í lög leiða.  Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggi ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Hvar liggja mörkin?  Er nóg að hafa sagt eitthvað, tjáð sig á bloggsíðu eða Facebook, nýtt sér tjáningarfrelsið og trúfrelsið til að missa starfið?  Eða ætti maður ekki að þurfa gera eitthvað í starfi sem brýtur á réttindum eða mannorði annarra?

Einn af frambjóðendum til biskups vill ekki vígja samkynhneigða og hefur lýst því opinberlega yfir.  Er ekki ástæða til þess að víkja honum úr starfi?  Kennari í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu lýsir ítrekað yfir andúð sinni á feminístum og kvenfrelsisbaráttunni.  Er ekki rétt að vísa honum líka úr starfi? Hvað með þá sem lýsa yfir andúð sinni á börnum fæddum utan hjónabands eða þeim sem eru fráskildir? Eða Framsóknarmönnum?

Ég vil nefnilega standa vörð um mannréttindi, ekki bara sumra heldur líka þeirra sem ég er ósammála.

Rétt fólks að hafa skoðanir, rétt fólks til tjáningar og rétt fólks til að trúa.

Meira að segja tómri vitleysu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (64)

  • Andrés Valgarðsson

    Nú er enginn að tala um rétt hans eða ekki rétt til að hafa hvaða skoðanir sem hann vill.

    Það á ekki að fara á milli mála að hann mætti vera kennari þósvo hann, svona prívat og persónulega, tryði því að við værum öll komin af trúðum frá tunglinu.

    Það sem skiptir máli er hvort það sem hann trúir hafi áhrif á hans störf sem kennari og hvort hann er að misnota aðstöðu sína sem fulltrúi skólans og þarmeð bæjarins til að boða trú eða trúarafstöðu til barnanna.

    Það sem mér finnst alvarlegast er sá möguleiki, að hann sé að koma því inn hjá börnum að samkynhneigð sé synd og þarmeð rangt, að það sé í engu ólíkt því að vera bankaræningi.

    Að vera sagt svoleiðis, af yfirvaldsfígúru sem við viljum svona almennt að börn taki, eða amk geti tekið alvarlega, er ekki bara mjög skemmandi og særandi fyrir börn og unglinga sem eru á viðkvæmu skeiði og að uppgötva kynferði sitt, hvort sem það litar sjálfsmynd þeirra, eða hegðun þeirra gagnvart öðrum.

    Ef hann er að koma þessum skilaboðum til barnanna sem hann kennir, þá er hann ekki bara að gera þeim börnum sem síðar uppgötva að þau séu samkynhneigð mikinn óleik, heldur er hann einnig að innstilla fordóma í þeim börnum sem ekki eru það.

    Það hlýtur svo að teljast í meira lagi sálarskemmandi að innstilla í barni fordóma gagnvart einhverju sem kemur svo í ljós að það er sjálft, þegar fram líða stundir.

    Snorri má alveg líta á samkynhneigð sem synd, eins asnalegt og það er. En hann má ekki kenna börnum að það sé synd. Raunar á hann ekki að vera að innstilla í þeim kristni heldur, syndir og ekki syndir, svona ef út í það er farið.

    Hvað er annars synd? Ef þú ert grunnskólakennari er það í rauninni orð sem á hvergi heima utan trúarbragðafræðikennslu.

  • Snorri Óskarsson er öfgamaður í trúmálum. Varla verður deilt um það. Ef hann færir þær öfgar inn í kennsluna þ.e. ef hann nýtir sér aðtöðuna í kennslustofunni til þess að koma sínum hugðarefnum og kenningum á framfæri við nemendur þá má réttlæta brottvikningu hans.
    Ef hann gerir það ekki en boðar trúarskoðanir sínar á öðrum vettvangi þá er brottvikningin ekki réttlætanleg. Kennarar eiga að búa við sömu lýðréttindi og aðrir að mega tjá skoðanir sínar hvort heldur er í trúmálum, í pólitík eða á öðrum sviðum samfélagsmála. Í áratugi hafa kennarar tekið þátt í pólitísku starfi, setið í bæjarstjórnum, á Alþingi og tjáð sig um allt milli himins og jarðar. Þetta hafa þeir gert athugasemdalaust svo lengi sem þeir færa ekki stjórnmálaskoðanir sínar inn í kennslustofuna.
    Þeir sem harðast gagnrýna Snorra Óskarsson um þessar mundir eru yfirlýstir mannréttindarfrömuðir sem líta á tjáningarfrelsið sem hornstein lýðfrelsis. Hræsnin hjá þessu fólki er takmarkalaus.

  • Helgi Hrafn Gunnarsson

    Þú hittir naglann á höfuðið, Eygló.

    Það er eins og að Ísland hafi tekið upp „tjáningarfrelsi“ í einhverjum hálfkæringi. Þetta átti að vera komið á hreint seint á 18. öld.

  • GSS þú hefur rétt fyrir þér! Ef þetta fer fyrir dómstól eru þetta sterkustu rök Snorra og hann sigrar.

  • „Snorri má alveg líta á samkynhneigð sem synd, eins asnalegt og það er. En hann má ekki kenna börnum að það sé synd. Raunar á hann ekki að vera að innstilla í þeim kristni heldur, syndir og ekki syndir, svona ef út í það er farið.“
    En ert þú ekki núna einfaldlega búinn að gefa þér það að hann sé að auglýsa skoðanir sínar innan skólastofunnar? Vissulega á hann ekki að vera að gera það, en þangað til sannað er að hann hafi í raun verið að því hljýtur þetta að vera brot á rétti hans…

    PS. Gott að sjá opinberar manneskjur eins og Eygló skrifa um þetta, þar sem þetta hefur nagað mig seinustu daga, að fólk megi ekki sinna störfum sínum þó persónulegar skoðanir þeirra séu… misgáfaðar.

  • Baldvin Jón Sigurðsson

    Ja, þegar Snorri ýtir undir fordóma gagnvart einum minnihlutahóp sem hefur þurft að berjast fyrir tilverurétt sínum, þá er það kristaltært að það rúmast ekki fyrir í tjáningafrelsinu. L-lista menn hafa þó kjark til að taka á málinu. Sama verður ekki sagt um þjóðkirkjuna, eins og allir vita, og fleiri. Ekki mundi ég kæra mig um að persóna sem temur sér svona hugsunarhátt kæmi að uppeldi minna barna. Enda er ég ábyrgt foreldri. Kær kveðja!

  • Snorri er ekki bara að hnýta út í homma og lesbíur – hann er með langan lista yfir mál þar sem það skín í gegn hversu stórfellt afturhald hann er. Allt í nafni guðsins sem hann hefur ánetjast. Allar tilvitnanir eru sóttar á blogg Snorra.

    Hann styður sömu hugmyndir og t.d. Sara Palin um aldur lífsins á jörðinni og blæs á vísindarannsóknir sem sýna að stengervingar risaeðlanna eru margra milljóna ára gamlir.
    „ Menn eru kannski farnir að sjá að lífið hafi ekki haft jafn langan tíma og fyrr var talið, nema um afturgöngu sé að ræða?“
    Snorri kennir í grunnskóla árið 2012.

    Hann styður landvinningastríð síonista í Ísrael og reyndar styður hann nýlendustefnu og landtöku nýlenduþjóða: „Þannig eignuðust Bretar land og lýð. Þannig er háttað með sigurvegara í stríði bæði skv. gömlum og nýjum bókum.“
    Barnakennarinn Snorri kennir kanski sögu og landafræði?.

    Hann telur mannréttindi skv. okkar lögum lægra sett en þau réttindi sem hann les út úr Biblíunni. Hann skrifar: „Þannig hafa árekstrarnir við samkynhneigðina verið allsstaðar eins, milli hins Evangelíska orðs og svo „mannréttinda“.“
    Kennarinn Snorri setur mannréttindi innan gæsalappa.

    Hann er andsnúinn mannréttindum homma og lesbía, hann telur þau „ill“. Snorri vill ekki leyfa hjónaband þeirra og atyrðir presta sem eru ósammála honum. „ Svona undirstrikar Guð að hjónabandið er aðeins milli karls og konu. Lög landsins breyta þessu ekki nema til ills“.
    Snorri, fyrirmynd nemendana í Brekkuskóla.

    Hann er andsnúinn flóttamannahjálp ef flóttamennirnir eru af „rangri gerð“ Hann skrifar gegn Palestínukonunum á Akranesi: „Við á Íslandi gætum þess vegna lent í því eftir heila öld að Akranes verði gert að sjálfstæðu ríki Múslima á Íslandi ef þeir fjölga sér og neita að lúta íslenskum lögum og reglum.“
    Snorri, skólakennarinn á Akureyri þar sem nemendurnir eiga að læra um mannréttindi og umheiminn.

    Hann er á móti trúfrelsi og atyrðir önnur trúarbrögð og skrifar að: „Okkar skylda er að endurhæfa Múslima til að virða kristin gildi og kristna trú.“
    Snorri kennari í skóla þar sem umburðarlyndi og trúfrelsi er einn af grunnþáttum uppeldisins.

    Er umburðarlyndi þitt Eygló takmarkalaust? Er maður með allar þessar afturhaldshugmyndir heppilegur uppfræðari ungra nemenda? Hvað segir þú um það?

  • Arnbjörg

    Úr dómi Hæstaréttar Íslands nr. 461/2001 (um kynþáttamisrétti):
    „Andspænis tjáningarfrelsi ákærða stendur réttur manna til þess að þurfa ekki að þola árásir vegna þjóðernis þeirra, litarháttar eða kynþáttar, sem varinn er af 233. gr. a almennra hegningarlaga með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Verður þannig að meta, eins og héraðsdómari hefur gert, hvort gangi framar, frelsi hans samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að láta ummælin uppi í opinberri umræðu eða réttur þeirra sem fyrir atlögum hans verða, án þess að hafa nokkuð til þess unnið.“

  • Ég held að fólk ætti nú kannski sjálft að ala upp börnin sín, en ekki bara að básúna að það sé svo ábyrgt sjálft.Ætti ekki bara að reka alla kennara sem hafa einhverjar skoðanir.Við ættum kannski að banna lausagang allra sem hafa vafasamar skoðanir.Kannski ættum við að svifta forræði, alla foreldra sem telja hagfræði vera gáfulega.Eða þá sem ljúga til um tilveru jólasveinsins.Fasismi er á blússandi siglingu.

  • Leifur Hákonarson

    Ég skil nú satt að segja ekki af hverju þú varst hikandi – þetta er málefni sem fólk VERÐUR að þora að tjá sig um.

    Ef Snorri þessi, með sína skrítnu trú, hefði tjáð sig um málefnið Í STARFI þá væri ótvírætt tilefni til að áminna hann og reka síðan ef hann sæi ekki að sér. Ég veit hins vegar ekki til þess að hann hafi verið ásakaður um þá hegðun.

    Leifur
    Hvað hann gerir utan starfsins (og án þess að reyna að koma því á framfæri við nemendur sína – sem myndi tengja það starfinu) er alfarið hans einkamál og algerlega óþolandi að hann sé látinn líða fyrir það. Það er þá einfaldlega annað birtingarform nákvæmlega sömu kredduhugsunar og verið er að ásaka hann um.

    Voltaire mun hafa sagt „ég er algerlega ósammála þér, en mun verja með lífi mínu rétt þinn til þinnar skoðunar“ – sumir þeir sem hæst hafa haft undanfarið ættu að taka hann sér til fyrirmyndar. Málfrelsi er ekki réttur annarra til að vera sammála þér heldur þvert á móti réttur þeirra til að vera þér algerlega ósammála án þess að vera látnir gjalda þess.

    Hér virðist stefna í sovéskt skoðanafrelsi – þar máttu menn svo sem hafa hvaða skoðun sem þeir vildu en ef stjórnvöld álitu skoðunina ranga þá brugðust þau við (rökrétt að gefnum þeirra forsendum!) með því að leggja viðkomandi inn á geðveikrahæli – það hlyti að vera eitthvað að honum.

  • Ég held ekki að spurningin snúist um tjáningarfrelsi, heldur það hvort Snorri teljist hafa brotið gegn 233. grein hegningarlaga, lið a.

  • Sæl Eygló, mikið er ég sammála þér, Snorri geldur þess að vera þjóðþekktur, ég þekki Snorra vel og er hann í mínum huga góður maður.
    Kær kveðja frá Eyjum.

  • Ég vil taka það fram að ég er ósammála Snorra í festu.Málið er að ég tel mig hafa greint á milli, „sjálfur“, hvað af því sem mínir fyrrverandi kennarar hafa sagt, sé bull eða ekki.Ég spyr,hversu langt er fólk tilbúið að ganga til að afsala sér ábyrgð á uppeldi barna sinna.

  • Fínn pistill hjá þér Eygló. Ég er sammála Benna að það er kominn upp skoðanafasismi hér á landi. Ef blessuð börnin í Brekkuskóla sjá óvart blogg þar sem mektarmenn á Akureyri kalla framsóknarmenn illum nöfnum (mun verri en segja þá vera syndgara). Er það ekki líka hættulegt sálarlífi þeirra? Á þá ekki líka að reka þá presta sem ekki vilja gifta samkynhneigða? Er þannig komið í réttindabaráttu samkynhneigðra sem ég hef hingað til stutt að enginn megi hafa aðra skoðun en þeir sem styðja þá eða eru hlutlausir? Hversu langt er þá í að þeir sem hafa aðra skoðun en samkynhneigðir verði ofsóttir fyrir sínar skoðanir (og þá erum við komin hringinn) og þurfa að vera í felum með sínar skoðarnir. Gleðiganga framtíðarinnar hjá þeim sem telja samkynhneigð synd og verða grýttir af samkynhneigðum. Falleg framtíðarsýn?

  • Björn J. H.

    Hér tala allir af miklum móð um „rétt“ Snorra! Hvað um „skyldur“ hans þegar hann ræður sig sem barnakennara? Honum ber að hlúa að þeim gildum sem skólayfirvöld setja. Snorri má hafa sínar skoðanir, hversu vitlausar sem okkur hinum finnast þær. Hinsvegar eiga tugir barna „rétt“ á kennslu, sem meira að segja Snorri sjálfur neitar að viðurkenna, sem kennir þeim að við eigum öll sama tilverurétt, hvernig sem við lítum út og sama hvernig kynverur við erum. Í mínum huga er þetta afskaplega einfalt, tugir barna hafa meiri rétt en einn kennari. Gaman væri að vita hversu margir af þeim sem skrifað hafa hér á undan vildu senda sín börn eða barnabörn í kennslu til Snorra.

  • Hvað segir biblían um þetta?

  • Ég velti því fyrir mér hvort fólki þætti eðlilegt að Snorri starfaði sem grunnskólakennari ef hann skrifaði opinberlega um blökkumenn og konur á sama hátt og hann skrifar um samkynhneigða.

  • Stefán Þór Sigfinnsson

    Einn ? Mér vitandi eru frambjóðendurnir til biskups 2 sem ekki vilja vígja samkynhneigða í hjónaband.

  • „Hinsvegar eiga tugir barna „rétt“ á kennslu, sem meira að segja Snorri sjálfur neitar að viðurkenna, sem kennir þeim að við eigum öll sama tilverurétt, hvernig sem við lítum út og sama hvernig kynverur við erum.“
    Ég hef enn ekki lesið um það að hann hafi brotið á rétti barna um kennslu eða að hann hafi yfirleitt viðrar sínar skoðanir um samkynhneigð í kennslustofunni. Jafnframt myndi ég ætlast þess að ef umræða um samkynhneigð kæmi upp í bekknum hans myndi hann virða þær starfsreglur sem honum eru lagðar í þeim efnum. Ef ekki, þá er komið upp vandamál, en þangað til…

    Svo lengi sem maðurinn gegnir skyldum sínum sem kennari sé ég ekkert því til fyrirstöðu að senda barnið mitt í kennslu til hans.

  • Íma Þöll

    Ef þú átt samkynhneigt barn, þætti þér þá í lagi að senda það í tíma til kennara sem telur að vegna þessarar „syndar“ þá sé það réttdræpt. Af hverju er verið að hafa áhyggjur af mannréttindum Snorra þegar samkynhneigða barnið þitt hefur kannski ekki val um að vera ekki í tíma hjá honum. Um leið og hann er búinn að blogga um þetta hatur sitt þá er þetta EKKI hans einkamál.

  • Eygló. Ef Snorri væri yfirlýstur meðlimur rasistasamtaka og tjáði sig opinberlega um að hvítir menn væru æðri svörtum mönnum, myndir þú telja hann hæfan til að kenna barninu þínu?

  • Gunnar. Getur þú staðið á því að Snorri segi að fólk eigi ekki tilverurétt.Ef ekki þá fer ég fram á að þú verðir rekinn úr mínu samfélagi.

  • hvað með t.d. börn sem eiga samkynhneigða foreldra, eiga þau börn að sjá mann sem samfélagið velur til kennarastarfa (og eiga að vera fyrirmyndir þeirra) segja á opinberum vettvangi að foreldrar þeirra séu að fremja dauðasynd og séu ekkert ólíkir bankaræningjum? Samfélag sem gúdderar svona kennara er óbeint að gúddera hatursáróður.

  • Íma Þöll. Ég hef ekki lesið allt sem Snorri hefur skrifað, en það sem þú skrifar, er eins gott fyrir þig að sé satt. Annað hvort ertu heimsk eða hefur rétt eftir. Að samkynhneigð sé synd og dauði er ekki það sama og að segja að þeir séu réttdræpir.

  • Eygló. Þú ert „maður“ að meiri.Þú hefur eignast stuðningsmann í mér.

  • Ef nú samkynhneygð er synd, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Kannski hefur Snorri bara rétt fyrir sér..

  • Vilhjálmur Ingi

    Það ber að standa vörð um tjáningar- og trúfrelsi.

    En ég tel mig geta fullyrt að samkynhneigður einstaklingur sem hann gæti komið til með að kenna mun líða fyrir þessi ummæli, í formi andlegrar vanlíðan. Þarna er kennari og fyrirmynd að halda því fram að samkynhneigð sé synd. Mér sem samkynhneigðum einstakling líður ekki vel yfir slíkum ummælum, ég get rétt ímyndað mér hvernig ómótuðum einstakling innan veggja Brekkuskóla líður.

    “ Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggi ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna“

    Á þetta aðeins við um líkamlega heilsu eða einnig andlega heilsu?

    Hlítur ekki tjáningarfrelsi okkar að eiga þau mörk að við séum að skaða aðra? Hvað þá börn? Ætti þessi umræða sér stað ef hann væri að tala um einstaklinga af öðrum litarhætti eða af annarri trú? Væri þá spurningunni um tjáningarfrelsi velt upp? Eða væri það fordæmt án frekari tilhugsunar?

    Eitt er víst, frá mínum bæjardyrum, hann er að valda börnum vanlíðan með því að nýta sér tjáningarfrelsi sitt. Það getur ekki, má ekki vera í lagi.

    En góð grein Eygló og nauðsynlegt sjónarmið.

  • „Ef ekki þá fer ég fram á að þú verðir rekinn úr mínu samfélagi.“
    Þú ert amk samkvæmur sjálfum þér.

    Þó maðurinn sé ekki beittasti hnífurinn í skúffunni og segi einhverja dellu frá sér í sínum einkatíma(og á meðan það er ekki brot á lögum), sé ég einfaldlega ekki hvað það tengist vinnunni hans.

  • Séra Hallgrímur

    Ég ól börnin mín upp sjálfur og var ekkert að íþyngja kennurunum þeirra með því.

  • Baldvin Jón Sigurðsson

    Það ætti að vera ljóst að menntastofnun, eins og gunnskóli, er uppeldisstofnun. Það er ekki hægt að segja að foreldrar séu að reyna að henda frá sér ábyrgð þegar það gerir athugasemd við hluti sem þessa. Heldur þvert á móti. Það er skólaskilda á Íslandi og sem ábyrgt foreldri hlýtur maður að gera þá kröfu að þeir sem að sinna þessum uppeldisstöfum í skólunum séu þokkalega mótiveraðir einstaklingar. Þess vegna er það fullkomin ábyrgð hjá L-listanum að taka á þessum hlutum eins og þeir gera. Menn nefna hér þjóðkirkjuna, en það er dæmi um ábyrgðarleysi þar sem menn reyna að þagga hlutina niðu og halda bara áfram, sama hvað subbuskapur á sér þar stað. Enda er ég ekki í þjóðkirkjunni!
    Í dag, á 21. öld, er þekkingin mun meiri en á þeim tíma sem Bíblían er skrifuð og því miður kjósa margir að taka úr henni efni, túlka það eins og því sýnist, og nota beinlínis sem barefli á þá sem því sýnist. Ég meina, hvað er það? Ég, sem fatlaður einstaklingur frá fæðingu, hef sko fengið að heyra það frá fólki líku Snorra út af hverju ég er fatlaður, en ég ætla ekki að hafa það eftir hér. En segi þó að það var sárt að heyra þær skýringar, sem voru fjarri þeim skýringum sem færustu læknar á því sviði höfðu tjáð mér.
    Það gæti verið að Snorri sé ágætis kennari. En ég sem foreldri þá tæki ég ekkert sénsinn! Ég vill bara það besta fyrir barnið mitt! Og það er mín ábyrgð að sjá til þess að svo sé!
    Kær kveðja!

  • Séra Hallgrímur

    Fólk virðist halda að Biblían hafi skyndilega verið numin úr gildi.

    Svo er ekki.

    Samkynhneigð er kölluð synd í hinni helgu bók, bæði í Gamla og Nýja Testamentinu.

    Þessu voru reyndar flestir sammála fyrir svo sem þrjátíu árum.

    En þeir hafa nú skipt um skoðun og klappa sjálfum sér svo ákaft á bakið fyrir sinnaskiptin að hávaðinn er ærandi.

    Snorri er einn af þeim sem hafa ekki skipt um skoðun og heldur fast við Guðs orð.

    Hann um það.

    Þið hin, get over it.

  • Séra Hallgrímur

    Meðal annarra orða, hvenær skaut sú firra rótum á Íslandi að skóli sé uppeldisstofnun og að kennarar sinni uppeldi?

    Kennarar sinna fræðslu.

    Enginn kennari getur mengað hug barns sem fengið hefur uppeldi heima hjá sér.

  • Baldvin Jón Sigurðsson

    Bíblían hefur aldrei verið í gildi!
    Nema hjá þeim sem trúa að hún sé í gildi. En hey! Það eru líka margir sem trúa því að þeir séu Napoleon Bonaporte! Það er meira að segja stór stofnun fyrir fólk sem trúir því í Fraklandi. Séra Hallgrímur! Þú ert bara alveg með þetta! E.t.v. vantar nýja stofnun hér á Íslandi 😉
    Kær kveðja 🙂

  • Séra Hallgrímur ritar:

    „Enginn kennari getur mengað hug barns sem fengið hefur uppeldi heima hjá sér.“

    Í hvaða raunveruleika lifir þú eiginlega? Hefur þú aldrei heyrt fólk tala um hvernig hinir og þessir kennarar höfðu áhrif á það?

    Kennarar eyða tímunum saman með börnum á þeim tímum sem þau eru hvað áhrifagjörnust.

    Hvort sem kennarinn sinni uppeldi á þeim meðvitað eður ei þá getur hann haft heilmikil áhrif á þau.

  • Baldvin Jón Sigurðsson

    Hey, Hallgrímur! Hefur þú heyrt um mennta- og uppeldisstofnun? Það er komið! Og, ójú, líka hérna á Íslandi. Og þar er ég ekkert að djóka! Þetta er það sem fólk meðal annars nefna GRUNNSKÓLA! Síðan er til leikskóli ofl.
    Kær kveðja 😉

  • Reynir Þór Eggertsson

    Sæl Eygló,

    Nú er ég sammála þér í velflestu, en í þessu máli verðum við að vera ósammála. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta hið erfiðasta mál, enda met ég skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi mikils. Það eru aftur á móti til undantekningar eins og landslög gera ráð fyrir. Ekki að ég vilji svipta alla þeim rétti að tjá sig gegn réttindum okkar homma og lesbía, en ekki er allt ásættanlegt heldur, að mínu mati.

    Í fyrsta lagi hefur Snorri Óskarsson valið sér að starfa sem kennari. Það setur honum ákveðin mörk, þar sem til eru siðareglur kennara. Í þeim segir m.a.:

    „3. Sýnir nemendum virðingu, áhuga og umhyggju.“

    Gera verður ráð fyrir að ákveðinn hópur nemenda hans sé samkynhneigður, og orð hans bera vott um að hann sýni þeim ekki virðingu eða umhyggju.

    „5. Hefur jafnrétti að leiðarljósi.“

    Varla þarf að deila um að endurtekin skrif Snorra brjóta þetta ákvæði.

    „6. Vinnur gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verða fyrir.“

    Ekki er eingöngu hægt að vinna gegn fordómum, einelti og ranglæti innan kennslustofunnar. Kennarar verða að gera það líka utan hennar. Ljóst er að Snorri Óskarsson vinnur ekki gegn fordómum og ranglæti gagnvart hommum og lesbíum, sem hljóta að vera einhver í hans nemendahópi.

    „11. Sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.“

    Varla geta orð hans um að ákveðinn samfélagshópur eigi dauðann skilinn (þótt vitnað sé í Biblíuna) talist vera í samræmi við þetta ákvæði.

    Ég ítreka að mér finnst Snorri Óskarsson, og aðrir alveg eiga rétt á hvaða skoðunum sem þeir vilja hafa á mér, og öðru samkynhneigðu fólk. Aftur á móti setur það starf sem hann hefur valið sér tjáningarfrelsi hans ákveðnar skorður eins og ljóst er af siðareglum þeim sem kennarar hafa sett sér.

    Kennsla er ekki eina starfið sem setur okkur slíkar skorður. Varla myndi áfengis- og vímuefnaráðgjafar halda vinnunni sinni ef þeir blogguðu um skaðleysi vímuefna Varla þætti læknafélaginu við hæfi að meðlimir þess blogguðu um nauðsyn fyrirbæna fram yfir læknismeðferð við sjúkdómum. Og varla myndi Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra halda vinnunni ef hún bloggaði gegn launajöfnuði kynjanna. Allt þetta fólk hlýtur þó að mega hafa sínar eigin prívat skoðanir á málefnunum, ekki satt?

  • Ef það á að fara að reka alla kennara fyrir bull þá held ég að fáir verði eftir. Sem betur fer er ég ekki kennari, því ég læt stundum út úr mér algjört bull. Reyndar eru flestir það greindir að þeir taka ekki mark á mér þegar sá gállinn er á mér. Ræðið þið aldrei við börnin ykkar? Ef ekki þá er ykkur kannski engin vorkunn. Þið takið það kannski svo bókstaflega að skólinn sé uppeldisstofnun

  • Salvar Þór Sigurðarson

    Allt í lagi, tökum þessa hugsun lengra.

    – Kvenkyns kennari bloggar um að unglingsstrákar séu allir með tölu upprennandi nauðgarar.

    – Karlkyns kennari í barnaskóla bloggar um hve honum þykir börn kynæsandi.

    – Kennari sem er múslimatrúar bloggar um að allir kristnir eigi skilið að brenna í helvíti.

    Allir að nýta sér lögbundið tjáningarfrelsi sitt í frítíma sínum, ekki satt? Á ekki að hafa nein áhrif á það hvort þeir fá að kenna börnum eða ekki, eða hvað?

  • Í framhaldi af umræðunni hér á síðunni má setja fram eina mikilvæga spurningu: Hvar væri réttindabarátta samkynhneigðra á vegi stödd á Íslandi í dag ef ekki væri fyrir tjáningarfrelsið?

  • Snorri hefur sagt frá því í útvarpsviðtali að hann ræði skoðanir sínar um samkynhneigð við börnin. Svo að þetta snýst ekki bara um að hann nýti sér lögbundið tjáningarfrelsi sitt í frítíma sínum.

    Þar fyrir utan er tjáningarfrelsið ekki ótakmarkað skv. lögum.

  • Séra Hallgrímur

    Ekkert rugl sem kennari lætur útúr sér hefur þýðingu í eyrum barns sem býr við reglu heima fyrir.

    Foreldrar ættu með öðrum orðum að skeinast til að nenna að ala upp sín eigin börn og hætta að úthýsa þessu mikilvægasta allra verkefna.

    Látið verða af því að lesa upphátt einsog eina bók í barnaherberginu.

    Bróðir minn Ljónshjarta hentar vel.

    Fólk kafnar allavega ekki í sínu eigin skinheilaga kjaftæði rétt á meðan.

  • Tjáningarfrelsi er takmarkað af lögum og undir ábyrgð en sú ábyrgð er gagnvart dómstólum og ekki gagnvart atvinnurekendum. Siðareglur eru ekki lög og geta því samkvæmt stjórnarskrá ekki takmarkað tjáningarfrelsi.

  • Leifur A. Benediktsson

    Það sem veldur mér hugarangri varðandi þetta ,,stóra Snorra í Betel“ máli er þetta:

    Hér storma inn menn og konur í lange baner og láta sig þetta mál varða með langlokum og furðulegum innleggjum.

    Þetta er risavaxið fjölmiðlafár um „bloggfærslu“ forstöðumanns sértrúarsöfnuðar sem telur vart fáein hundruð sérvitringa.

    Er þetta ,,málið“ sem öllu skiptir í dag?

    Aldeilis ekki, þetta Snorra mál í Betel er svo agnarsmátt að furðu sætir að þingmenn og konur tröllríða fjölmiðlum þessa dagana og fjargviðrast út í ummæli þessa sérvitrings.

    Hér á landi á umræðan að snúast um heimilin og fjölskyldur sem berjast fyrir tilveru sinni í þjóðfélagi, sem var lagt í rúst af fávitum og ræningjum sem ekki hafa verið dregnir til ábyrgðar fyrir glæpsamlega gjörninga, sem settu Ísland á vonarvöl.

    Eygló, þú hefur aldrei fengið þvílík viðbrögð við umfjöllun þína um hið Svokallaða Hrun, og afleiðingar þess.

    Hvað veldur?

  • Síra Hallgrímur, þú ferð villur vega ef þú heldur að skólastarf miðist við börn sem búa „við reglu heima fyrir“.

    Það þarf vonandi ekki að útskýra það fyrir þér?

  • Ósanngirnin ríður ekki einteymingi hérna á blogginu. Miðað við skrif margra hérna þá beygja margir orð Snorra svo mikið að það má kalla þau helbera lygi.takk fyrir mig í bili, ég er að fara á sjóinn. Það eru ekki margir jafn ósammála Snorra og ég, en samt give me a brake!

  • AGGI (samkynhneigður einstaklingur)

    Finnst ykkur ekki verra að bensínið hækki í verði en að einn trúaði einstaklingurinn í viðbót lýsi yfir stuðandi skoðunum sínum? Siðanefnd kennarasambandsins þarf bara að taka málið fyrir og foreldrar að tala við börnin í Brekkuskóla og komast að því hvort hann er búinn að gera úr þeim homma- og lessuhatara eða hjálpa grunnskólabörnunum að hanga inni í skápnum. Ég efa það þó. Ef þessar óvinsælu skoðanir kæmu aldrei fram þá fengjum við aldrei staðfest að við teljum okkur hafa hinar réttu skoðanir. Njótum þess á meðan þær teljast enn réttar.

  • Mér er alveg sama hvað hann segir eða gerir … en ég er á þeirri skoðun að það sem grunnskólakennarar gera opinberlega utan skóla taka þeir með inn í kennslustofuna.

  • Eygló Harðardóttir

    Sæl,

    ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún staðfestir það sem ég sagði í upphafi pistilsins að málið er eldfimt, það er viðkvæmt og snertir mjög marga.

    Því verð ég að þakka sérstaklega fyrir hversu málefnaleg hún hefur verið.

    Hún hefur fengið mig til að velta fyrir mér mínum fordómum, minni afstöðu til málsins og afstöðu til skóla og trúarbragða í íslensku samfélagi.

    Takk.

  • Séra Hallgrímur

    Og einmitt þessvegna, séra Jóhann, eiga foreldrar að skeinast til þess að búa til reglu heima fyrir áður en þau mótmæla rugli annars staðar.

    Það er nú mergurinn málsins.

  • Séra Hallgrímur

    Leifur A. Benediktsson skilur ekki prinsip.

    Það er svosem ekkert nýtt á Íslandi.

  • Séra Hallgrímur

    Góður kennari getur alltaf hjálpað barni að reisa mikið og margt á þeim góða grunni sem barnið hefur að heiman.

    En aldrei hornskakkar hryllingshallir hafi grundvöllurinn verið réttlega lagður af foreldrunum.

    Gott verður að vera barn þegar foreldrar láta sér þetta skiljast.

  • Kennarar eiga að búa við sömu lýðréttindi og aðrir að mega tjá skoðanir sínar opinberlega hvort heldur er í trúmálum, í pólitík eða á öðrum sviðum samfélagsmála – svo lengi sem þeir færa ekki stjórnmálaskoðanir sínar inn í kennslustofuna. Það kallast tjáningarfrelsi og þannig hefðir viljum við flest öll lifa við.

  • Ingólfur Steinsson

    Þó að við virðum tjáningarfrelsið og berjumst fyrir því þá er ekki þar með sagt að við getum sagt hvað sem er, hvar og hvenær sem er. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð.

    Eins og Salvar sagði hér að framan með nokkrum góðum dæmum (nr.38) þá getur það aldrei gengið að kennarar tali með þeim hætti að lýsa e-n þjóðfélagshóp syndugan og laun syndarinnar sé dauði. Jafnvel þótt það standi í biblíunni. Það stendur margt í biblíunni og sumt á ekki við í dag enda nokkuð um liðið síðan hún var skráð. Það vita allir. Enda hef ég ekki orðið var við að Íslendingar hefðu þá bók í hávegum að öðru leyti, illu heilli.

    En að leggjast á einn þjóðfélagshóp með þeim hætti sem Snorri Óskarsson gerir í bloggi sínu er ekki bara ólíðandi heldur líka lögbrot.

  • Johann Gretar Kroyer Gizurarson

    Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fjallað um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þar segir i 233 gr.:

    Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, eða veldur þeim eða fjölskyldum þeirra óþarfa sársauka eða vanvirðu með háttsemi sinni, sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

  • Eygló hefur að mínu viti rétt fyrir sér. Mjög heilbrygð, höfsöm og ábyrg skoðun stjórnmálamanns. Húrra fyrir svona manneskjum.

    Hér er Hrannar, hreinræktadur fílósóf sem er annt um tjáningarfrelsið, kannski hefur enginn skrifað betur um þetta mál: http://don.blog.is/blog/don/entry/1223098/

  • Bjarni Tryggvason

    Það grípur alltaf á ca. tveggja-þriggja vikna fresti um sig múgsefjun og galdrafár hérna á skerinu sbr. hundinn Lúkas hér um árið.

    Núna er það Snorri í Betel á morgun verður það eitthvað annað.

    Annars 100% sammála þér Eygló.

    Það eru ekki bara eintómir helvítis hálfvitar í Framsókn! 🙂 Sko, málfrelsi in action, nóterið þetta niður velmeinandipólitísktrétthugsandivinstrifasistarnir ykkar. Djók. Samt ekki.

  • Ég er alveg orðlaus yfir því hve margir eru blindir fyrir fasismanum sem fólk er að kalla yfir sig. Og nú er búið að henda Snorra út af moggablogginu. Hvenær verður boðberi válegra frétta útilokaður? Ja, eða bara hengdur!

  • kannski þetta fái fólk til að hugsa aðeins http://visir.is/lifsanaegja-samkynhneigdra-unglinga-er-margfalt-minni/article/2012702159909
    Það að fólki sem er falið uppeldishlutverk níði skóinn af minnihlutahópum getur ekki leitt til að viðkomandi nemendum líði vel, þá erum við að viðurkenna að téðir fordómafullir einstaklingar séu með þóknanlega skoðun og passi í starfið.

  • Ef kennari í BNA (sem halda að þeir séu mekka tjáningarfrelsisins) stundaði það að birta níð um blökkumenn á facebook eða bloggsíðum, finnst þér líklegt að hann héldi starfi?
    Eins og margir hafa sagt þá fylgir tjáningarfrelsinu ábyrgð og sérstaklega þegar maður er í starfi eins og Snorri. Margir kennarar hafa lent illa í því að tala ógætilega um nemendur á internetinu, Snorri er langt í frá sá fyrsti.
    Það er líka eins og sumir haldi að það sé í lagi að fullyrða hluti bara af því að það stendur í Biblíunni. Einhverjir hérna halda meirað segja að hún sé „í gildi“ hvað sem það nú þýðir. Ef kennari héldi því fram á netinu að óþekk börn eigi að grýta er það þá í lagi af því að það stendur í Biblíunni?

  • Salvar Þór Sigurðarson

    Eygló, ég er mjög forvitinn að heyra svar þitt við spurningum mínum, þó að nýjabrumið sé farið af þessari umræðu. Ég skelli þeim aftur hingað:

    Allt í lagi, tökum þessa hugsun lengra.

    – Kvenkyns kennari bloggar um að unglingsstrákar séu allir með tölu upprennandi nauðgarar.

    – Karlkyns kennari í barnaskóla bloggar um hve honum þykir börn kynæsandi.

    – Kennari sem er múslimatrúar bloggar um að allir kristnir eigi skilið að brenna í helvíti.

    Myndir þú líka standa vörð um rétt þessa fólks til þess að kenna í barnaskóla? Ef ekki, hvers vegna?

  • Júlíus Þór Bess

    Kjarni málsins finnst mér vera að fólk á að kunna sig og átta sig á hvað er viðeigandi og hvað ekki í samræmi við þau hlutverk sem hin sami gegnir. Vinnuveitendur ætlast til þess af starfsmönnum sínum og ég skil ekki afhverju Akureyrarbær hefur ekki leyfi til þess eins og hver annar vinnuveitandi.

    Við höfum tjáningarfrelsi að því leyti að við erum ekki sótt til saka eða meidd fyrir að tjá skoðanir okkar en við búum samt í samfélagi þar sem skoðanir okkar gætu meitt aðra. Í því samhengi þarf stundum að velja; vill maður halda starfinu eða er það mikilvægara (eða mikilvægara fyrir þig) að koma skoðunum þínum á framfæri. Ef svo óheppilega vill til að skoðanir og starf eiga ekki alveg saman eins og í þessu tilviki. 😉

    Ekki ætlaru að saka maka þinn um að hann hefti tjáningafrelsi þitt vegna þess að hann reiðist eftir að þú segir að hann sé í slæmi formi? Er frelsið ekki algjört en valið þitt í hlutverki maka? Valið verandi: Er mikilvægara að segja hvað þér finnst og taka afleiðingunum ef hann móðgast eða þegja?

    Mér finnst að Snorri hefði einfaldlega mátt vita betur og mátt þegja, sérstaklega þar sem fólk hefur skrifað að hann sé gáfaður og virtur maður.

  • Það er mikið til í þessari Rasista umræðu. Nú er það þannig að ef einhver hefur aðra skoðun en gengur og gerist í þjóðfélaginu t.d varðandi samkynheignða þá er viðkomandi grýttur til dauða. Hvað varð um málefnalega umræðu.
    Mér finnst skrýtið að kalla kristna trú sértrú þar sem allvegna áttatíu prósent þjóðarinnar kalla sig kristna.
    Ég held að menn ættu nú lægja rostann og lesa í Bíblíunni. Þar stendur, Guð elskar alla menn. Samkynhneigð samkv Bilbíunni er synd svo og hórdómur, hræsni, sambúð fyrir utan hjónabands.
    Guð elskar alla menn þ.a.m samkynheigða.
    Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn tl að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.
    Snorri er EKKI á móti samkynheigðum eða öðrum mönnum. Hann er einfaldega að kalla svart, svart og hvítt hvítt

  • Réttast er að ítreka það sem kemur fram hér að ofan:

    Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fjallað um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þar segir i 233 gr.:

    Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, eða veldur þeim eða fjölskyldum þeirra óþarfa sársauka eða vanvirðu með háttsemi sinni, sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

    ———————-
    Einnig er rétt að minna á starfsvettvang mannsins sem fjallar á svo meiðandi hátt um mögulegt einkalíf nemenda sinna.

  • Þór Sigurðsson

    Spurning til þín Eygló: ef ég væri kennari í skóla barnanna þinna og ég lýsti því yfir (opinberlega, t.d. á Facebook, á bloggi eða í blaðapistli) að Hitler hafi verið að gera heiminum greiða, að Ku Kux Klan hafi verið til mikils sóma fyrir mannkyn eða það að hugsjónir harðlínumúslima væru hinar einu réttu og það bæri að aflífa alla trúleysingja (þ.e. alla sem ekki trúa því sem hlm trúa) – myndirðu vilja að ég kenndi þar áfram?

    Þótt ég sé ekki samkynhneigður, þá á ég samkynhneigða vini af báðum kynjum. Ég fylgist með því hvað er að gerast í réttindamálum þeirra, og minni þig á að sumsstaðar í þessum volæðisheimi sem við byggjum er ennþá farið með þá á sama hátt og farið var með svarta, gyðinga og trúleysingja fyrr á öldum.

    Það er full ásæða til þess taka á svona yfirlýsingum – hvenær sem þær falla undir 25 kafla hengingarlaga ein og Þórdís bendir á hér á undan…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur