Fimmtudagur 08.03.2012 - 10:02 - Rita ummæli

Um tillögur stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð mun á næstu dögum funda með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um drög að nýrri stjórnarskrá. Í ljósi þess vil ég tjá mig um drögin og vona að fundurinn muni svara ýmsum þeim spurningum sem ég hef haft varðandi málið.

Ég vil byrja á að taka fram að ég er  sátt við tillögur stjórnlagaráðsins varðandi m.a. auðlindaákvæðið, ákvæði um að ráðherra skuli ekki sitja á Alþingi, skýr ákvæði um bann við afturvirkni laga, tillögu um kirkjuskipan og ákvæði um sveitarfélög.  Utanríkiskaflinn er áhugaverður og ég geri engar efnislegar athugasemdir við hann. Mannréttindakaflinn er mjög ítarlegur, að mínu mati of ítarlegur, og velta má fyrir sér hvernig við ætlum okkur að ná að tryggja öll þessi réttindi.  Nógu erfitt hefur verið að fylgja eftir núverandi mannréttindakafla og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist.

Hér eru þó þau helstu atriði sem ég hef velt fyrir mér:

Beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur.  Í tillögum stjórnlagaráðsins er lagt til að forsetinn haldi sínum rétti til að synja lögum staðfestingar og vísa þannig málum í þjóðaratkvæðagreiðslu (60.gr.).  Einnig er lagt til að 10% kjósenda (65.gr.) geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt sem og að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi og 10% kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga.  Alþingi geti þá lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps, og verði frumvarp kjósenda ekki dregið til baka þá verði kosið um það í þjóðaratkvæði (66.gr.)  Takmarkanir eru settar á hvaða mál þjóðin getur óskað eftir að fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (67.gr.) en sams konar takmarkanir eru ekki lagðar til á vald forsetans.  Ég hefði viljað fella út rétt forsetans til að synja lögum staðfestingar og láta þjóðina hafa beina aðkomu að þessu sbr. ákvæði í 65. gr. og 66. gr. Því skil ég ekki rökin fyrir því að halda inni handahófskenndum rétti forsetans til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar sjálf þjóðin er komin með beina aðkomu. 

Þingsköp Alþingis.  Mjög nákvæmlega er farið í þingsköp Alþingis í frumvarpi stjórnlagaráðs.  Þar eru ákvæði um aukið vægi atkvæða til að forseta Alþingis nái kjöri (52.gr.), að frumvörp og mál skulu lögð fram til kynningar á þinginu áður en þau koma til efnislegrar meðferðar (57.-58.gr.).  Mun nákvæmari ákvæði eru komin inn um nefndir þingsins s.s. um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fjárlaganefnd.  Einnig eru komin ákvæði um undirstofnanir Alþingis (74.gr. og 75. gr.).  Spyrja má hvort aðrar stofnanir sem við kunnum að stofan síðar og heyra undir Alþingi verði áhrifaminni, eða takmarkar þetta vald Alþingis til að setja á stofn fleiri stofnanir sem heyra undir Alþingi sbr. frumvarp  mitt um Þjóðhagsstofu Alþingis eða Vigdísar Hauksdóttur um Lagaskrifstofu Alþingis?  Mér skilst að rökstuðningurinn fyrir þessu sé fyrst og fremst að hér eigi að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdavaldinu.  Mitt mat er að Alþingi eigi einfaldlega að setja sér sjálft reglur varðandi þingsköp.  Mun árangursríkari leið til að tryggja sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu hefði verið að setja ákvæði um að minnihluti Alþingis gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu (sbr.  dönsku stjórnarskrána) samhliða ákvæði um að ráðherrar sætu ekki á Alþingi.

Forseti Íslands.  Vald forsetans og hlutverk er útvíkkað mjög í tillögu stjórnlagaráðs. Forseti skal leggja fram tillögu um forsætisráðherra sem Alþingi kýs svo um (90.gr.).  Hann skal jafnframt samþykkja skipun ráðherra á dómurum og ríkissaksóknara. Hann skipar einnig formann nefndar sem leggur fram tillögur um önnur æðstu embætti ríkisins (96.gr.).  Engar sambærilegar takmarkanir eru settar á synjunarrétt forsetans líkt og á kjósendur (67.gr.).  Var hugsun stjórnlagaráðsins að styrkja þannig enn frekar vald forsetans?  Fara frekar út í forsetaræði en þingræði? Ég ítreka einnig athugasemdir mínar við synjunarrétt forsetans á lögum þrátt fyrir ákvæði um beina aðkomu þess sem veitir umboðið, þjóðarinnar sjálfrar.

Stjórnarskrárbreytingar.  Í 113. gr. er lagt til að stjórnarskrárbreytingar fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún sé bindandi.  Jafnframt að ef 5/6 hlutar Alþingis samþykki stjórnarskrárbreytinguna þá geti hún strax tekið gildi.  Ég fagna því að fyrirkomulagið sé einfaldað en er alfarið á móti því að Alþingi geti einhliða gert breytingar á stjórnarskrá án þess að bera það upp við þjóðina.  Þjóðin á alltaf að hafa aðkomu að breytingum að stjórnarskrá.  Aukinn meirihluti á Alþingi er engin trygging gegn varahugaverðum breytingum á stjórnarskránni né öðrum lögum líkt og reynslan ætti að kenna okkur.

Kosningar til Alþingis.  Í 39. gr. laganna er fjallað um Alþingiskosningar.  Ákvæðið er mjög nákvæmt. Því velti ég fyrir mér hvort ekki væri rétt að hafa ákvæðið opnara.  Krafa yrði gerð í stjórnarskrá um ákveðin almenn sjónarmið.  Dæmi um þessi sjónarmið að mínu mati eru að kosningakerfið endurspegli dreifingu í búsetu landsmanna, jafnræði kynjanna, ákveðinn fjöldi þingmanna (jafnvel hámark og lágmark), kjörtímabil,  hverjir hafi kosningarétt og að einhvers konar persónukjör yrði að vera í kosningalögum.  Einnig þyrfti einhvers konar minnihlutavernd gegn ofríki meirihlutans. Nánari reglur um framkvæmd alþingiskosninga og úthlutun þingsæta verði sett í kosningalög.  Breytingar á kosningalögum verði aðeins gerðar með auknum meirihluta t.d. ¾ hluta atkvæða og geti ekki komið til framkvæmda fyrr en sex mánuðum eftir að þau taka gildi.  Sama þyrfti hugsanlega að gilda um aðrar kosningar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur