Sunnudagur 11.03.2012 - 13:53 - 15 ummæli

Pólitískur forseti

Ýmsir hafa stigið fram og kvartað undan pólitísku framboði Ólafs Ragnars Grímssonar.  Þessa pólitík telja þeir sig sjá í yfirlýsingu forsetans þar sem hann vísar til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipun landsins og stöðu forsetans í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands.

Ég skil ekki alveg þessa umræðu.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur alltaf verið pólitískur forseti. Strax og Ólafur Ragnar gaf kost á sér í embætti forsetans lét hann vita að hann teldi synjunarrétt forsetans vera virkan.  Á sextán ára tímabili hefur hann beitt synjunarréttinum þrisvar í stórpólitískum málum.  Ég veit einnig að hann beitti sér mjög við stjórnarmyndun minnihluta stjórnar Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar.

Ég hef því aldrei efast um að hann geri sér ágætlega grein fyrir þeim pólitísku völdum sem forseti Íslands fer með samkvæmt núverandi stjórnarskrá.  Ég tel einnig að drög Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá munu stórefla vald forsetans ef þau verða að lögum.

Fyrirrennarar hans hafa einnig gert sér grein fyrir valdi sínu.  Vigdís Finnbogadóttir velti alvarlega fyrir sér að vísa EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. út frá fullveldissjónarmiðum. Kristján Eldjárn var tilbúinn með utanþingsstjórn áramótin 1979/80 þegar hann hafði beðið í hálft ár eftir að mynduð yrði starfhæf ríkisstjórn vegna umróts á vettvangi þjóðarmála og flokkakerfis. Ásgeir Ásgeirsson lét nokkuð til sín taka og Sveinn Björnsson sem ríkisstjóri skipaði einu utanþingsstjórn lýðveldisins.

Með tilliti til reynslunnar af forseta okkar er því einkennilegt að fólk sé enn þá að reyna að skikka hann til.  Að fá hann til að átta sig á að eiginlega sé ekkert að marka það mikla vald sem stjórnarskráin þó gefur forsetanum.

Það mun ekki gerast.

Nær væri að fólk liti til Ólafs Ragnars sem fyrirmynd.  Það þarf að hætta að stjórnast af hefðum og venjum þegar kemur að forsetaembættinu frekar en stjórnarskránni og hvetja hæft og áhugasamt fólk til að gefa kost á sér í eitt valdamesta embætti landsins.

Þannig fengi þjóðin eitthvað val og án raunverulegs vals virkar lýðræðið ekki.

Og varla getur einn helsti talsmaður virks lýðræðis, Ólafur Ragnar Grímsson, haft mikið á móti því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Kristján E. Guðmundsson

    Það má vel vera að ÓRG hafi ávallt verið „pólitískur forseti“ sem vissulega er skilgreiningaratriði. Stjórnarskrá okkar gefur honum vissulega „formleg“ völd sem á rætur að rekja til eldri stjórnarskrár (1849 og 1874) og áður en þingræði kom til sögunnar (sem í okkar tilfelli var ekki fyrr en eftir aldamótin 1900), en eins og kunnugt er var stjórnarskrá okkar 1944 nánast þýðing á dönsku stjórnarskránni. Framkvæmd forsetavalds („konungsvalds“)eftir að þingræði var viðurkennt, hvílir því að mestu á hefð sem skapast hefur á túlkun loðins orðalags stjórnarskrárinnar en það má aftur rekja til þess að konungur var tregur til að afsala sér öllu valdi er hann neyddist til að láta af einveldi með stjórnarskránni 1849. Sá skilningur er að hann skuli ekki hafa afskipti af pólitískum ágreiningsefnum en hafa nær eingöngu „representativt“ hlutverk og leysa úr hnútum t.d. við stjórnarkreppur. Hann skuli vera „sameiningartákn“ allrar þjóðarinnar.
    Eftir heimstyrjöldina síðari, er Hákon Noregskonungur var kominn heim úr útlegðinni í London, gengu á fund hans fulltrúar andkommúnistiskra samtaka og báðu hann um að verða verndari samtakanna. En konungur svaraði: „Men jeg er også kommunisternes konge“. Hákon konungur verður seint stimplaður em kommunisti en hann þekkti hlutverk sitt !
    Í þessu hlutverki voru Vigdís og Kristján.

    Það er svo afar sérkennilegt hjá þjóðkjörnum þingmanni að halda því fram fulltrúalýðræði okkar sé ekki „virkt“ lýðræði!!

  • Eygló Harðardóttir

    Takk Kristján fyrir athugasemdina. Ég skildi þó ekki alveg síðustu setninguna.

  • Þessi „umræða“ er bundin við Samfylkingu og Vinstri græna, sem eiga harma að hefna vegna Icesave. Ég held að það velkist enginn í vafa um það, að embættisfærslur Ólafs hafa verið kórréttar, og vel innan hlutverks forseta.

    Samfylkingu og Vinstri grænum er hinsvegar mikið í mun, að losna við forseta, sem ógnar stefnu ríkisstjórnarinnar, að þröngva málum í gegn, þvert á þjóðarvilja. Þess vegna er þessi „umræða“.

    Hitt er svo sprenghlægilegt, að þessi minnihluti sem reynir trekk í trekk að kúga meirihlutann, skuli höfða til hlutverks forseta sem „sameiningartákns“, og sem slíkur á hann að horfa aðgerðlaus á minnihlutann kúga meirihlutann.

    Persónulega þarf ég engan forseta til að sameina mig Samfylkingu og Vinstri grænum, ég hef bara ekki nokkurn áhuga á því að sameinast þeim. Ég krefst hinsvegar forseta sem virðir lýðræði og meirihlutavilja.

  • Kristján E. Guðmundsson

    Þegar ÓRG synjaði seinni Icesave samningnum staðfestingar hafði náðst að fá 70% þingmanna til að samþykkja samninginn. Gekk hann þar mjög gróflega gegn vilja þingsins. Við skulum ekki gleyma að þó forseti sé þjóðkjörinn eru þingmenn það einnig. Og þó að lögin hafi verið felld í atkvæðagreiðslu sýndu skoðanakannir, um það leiti sem þau voru samþykkt, meirihluta fyrir þeim.
    Þú talar um forsetaembættið sem valdamesta embætti landsins. Það er það að sjálfsögðu ekki samkvæmt ríkjandi stjórnskipan þar sem ríkir þingræði. Forsetaræði er allt önnur stjórnskipan !
    Þá segir þú að ÓRG sé „helsti talsmaður virks lýðræðis“. Þú átt væntanlega við „beint lýðræði“. Það er önnur umræða og mætti vísa til reynslu annarra þjóð af því, t.d. Californiu. Fulltrúalýðræði er vissulega virkt lýðræði í vestrænum löndum en eins og fram kemur hér á undan er ÓRG ekki talsmaður þess.

  • Sæl Eygló
    Ég er oft ánægður með þín störf þótt ég sé ákaflega andsnúinn flokknum sem þú bindur þitt trúss við. Það sem Kristján E. bendir á og vitnar í Noregskonung er mjög mikilvægt atriði að mínu mati. Með framferði sínu á seinni hluta embættistímans og nú með nýjum yfirlýsingum þá er ÓRG einmitt að bjóða sig fram sem fulltrúi hluta þjóðarinnar. Hann veður aldrei sameiningarafl og hann ofmetur sitt eigið mikilvægi.Og það er sameiningarafl sem þjóðin þarf núna. Svo hefur hann sýnt okkur dónaskap með þessu ómerkilega leikriti „hættur – ekki hættur“. Það er rétt hjá þér að hann hefur alltaf verið pólitískur – en nú er hann orðinn flokkspólitískur.

  • Eygló Harðardóttir

    Það er mikilvægt að hafa í huga að það er eitt það sem okkur finnst og annað það sem er í raun og veru.

    Mörgum finnst að forsetinn eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Raunin er samt að ekkert stendur um það í stjórnarskránni.

    Í stjórnarskránni má hins vegar finna ákvæði um synjunarrétt forsetans sem margir töldu ekki vera virkt, þar til Ólafur Ragnar virkjaði það.

    Kosningakerfi okkar til forseta gerir heldur engar kröfur til þess að forsetinn verði að vera forseti meirihluta þjóðarinnar, í sátt við sem flesta. Hann þarf aðeins að fá fleiri atkvæði en hinir.

    Þess vegna vildi ég óska þess að við ræddum forsetaembættið eins og það er í raun, ekki óskhyggju okkar.

  • Ómar Kristjánsson

    ÓRG talaði ekki um að 26.greinin eða ,,málskotsréttur“ væri vikur eða hann mynda beita mep þeim hætti er hnn síðan gerði. þetta var barasta almennt snakk hjá honum. Hann nefndi sem dæmi ef stjórnvöld gengju í Evrópusambandið án undangenginnar þjóðaratkvæðisgreiðslu.

    það er himinn og haf á milli þess er hann svo gerði. Himinn og haf. Annað er bara eftirársöguskýringar og fölsun.

    Næst gæti hann alveg farið að leggja lög fyrir alþingi. Hann má það samkv. skránni sem hent var uppá hlaupum upp í faðm USA hérna um árið.

    Síðan yrði næsta skref sennilega að hann samþykkti lögin bara sjálfur og leggði alþingi niður.

  • Eftir því sem Svanur Kristjánsson sagði í síðdegisútvarpinu um daginn, þá er það bara alls ekki rétt að Ólafur sé sá eini sem hefur beitt sér pólitískt, eins og þú bendir réttilega á Eygló, en hann bætti um betur og sagði að hornsteinninn í stjórnarskránni upphaflegu hafi verið málskotsrétturinn, og að það hefði einmitt verið vísvitandi haft inni ef upp kæmu mál sem þyrfti að vísa til þjóðarinnar.
    Þannig að allt sem sagt er um að stjórnarskráin sé barn síns tíma er einfaldlega ekki rétt. Hún hefur verið margendurskoðuð og breytt og bætt. En málið er að það hefur bara ekki verið farið eftir henni í mikilvægum málum. Það þarf að skerpa á því að ríkisstjórnir og einstaka ráðherrar virði stjórnarskrána og fari eftir henni að viðlagðri refsingu.

  • Kristján E. Guðmundsson

    Vissulega stendur ekkert í stjórnarskrá um að forseti eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Við búum hins vegar við þingræðisskipulag þar em framkvæmdavald styðst við meirihuta þings. Þó núgildandi stjórnarskrá sé óskýr sum staðar er eitt skýrt „forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt“. Það að gera forseta pólitískan þar sem hann getur að geðþótta neitað lögum staðfestingar, er að bjóða heim stjórnleysi! Hvaða meirihluta ríkisstjórn getur búið við það að öllum lögum sem hún fær samþykkt, jafnvel fjárlögum, getur forseti að geðþótta sínum, neitað samþykktar og sett í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það væri að gera þjóðkjörið þing marklaust fyrirbæri! Ef forseti fer fram með pólitíska stefnuskrá og setur sig í stjórnarandstöðu við meirihluta Alþingis er þingræðið úr sögunni. Því er ég á móti því að forseti haldi málskotsrétti sínum. Sá réttur á að vera hjá ákveðnu hlutfalli kjósenda (Svissneska leiðin) eða minnihluta þings (Danska leiðin)

  • Eygló Harðardóttir

    Ég tek undir að ef ætlunin er að styrkja þingræðið þá á að afnema málskotsrétt forsetans. Í staðinn, líkt og ég bendi á í athugasemdum mínum við tillögur stjórnlagaráðs hér að neðan, tel ég að ákveðið hlutfall kjósenda eigi að hafa hann og minnihluti Alþingis. Það er þó ekki staðan í dag og forseti getur samkvæmt geðþótta neitað að undirrita lög og vísað þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er skuldbindandi. Því myndi ég t.d. telja eðlilegt að forsetaframbjóðendur myndu ekki bara setja fram hvort þeir hyggist nýta málskotsréttinn heldur líka hvert yrði viðmið þeirra við nýtingu hans.

  • Magnus Björgvinsson

    Svona bara að benda á að nú hefur Ólafur beitt því að neita að skrifa undir lög í 3 skipti. Í fyrsta skipti gagnvart fjölmiðlalögunum sem þá voru dregin til baka. Og svo nú 2x varðandi Icesave samninga sem Íslenska ríkið gerði við aðarar þjóðir og Alþingi samþykkti. Og þá þann siðari með auknum meirihluta. Báðar þessar seinni ákvarðanir gerði hann vegna áskorunar með undirskriftalistum. Og nú biður hann sig að eingin sögn fram aftur vegna undirskriftalista. Hvað í ósköpunum gæti þá komið í veg fyrir að næstu fjárlög verið sett í þjóðarakvæði ef að til þess verði safnað nægum undirskriftum? Hann hefur aldrei neitað að fara eftir þeim óskum sem þannig hafa komið til hans. T.d. gætu Sjálfstæðismenn sem eru jú víst um 40 þúsund flokksbundnir óskað eftir þessu vegna óska um lækkun á sköttum. Og svo væri rétt að fólk áttaði sig á að Icesave er ekki búið. Bara alls ekki það klárast ekki nema að ESA tapi málinu fyrir EFTA dómsstólnum. Annars á það eftir að ganga í gegnum EFTA og síðan í næstu þrætur við Breta og Hollendinga og svo fyrir Íslenskum dómsstólum. Og ef við töpuðum málinu þá myndum við skulda vexti frá því 2008 með dráttarvöxtum. Ef að seinni Icesave hefði verið samþykktur væri málinu lokið og gamil Landsbankinn myndi ná að greiða hann allann.

  • Bjarni Gunnlaugur

    Kristján segir hér að ofan
    „Þegar ÓRG synjaði seinni Icesave samningnum staðfestingar hafði náðst að fá 70% þingmanna til að samþykkja samninginn. Gekk hann þar mjög gróflega gegn vilja þingsins. Við skulum ekki gleyma að þó forseti sé þjóðkjörinn eru þingmenn það einnig…..“
    Þetta eru ótrúlega þrálát órök í gagnrýni á Óaf Ragnar og málsskotsréttinn. Það er eins og menn kjósi alltaf að gleyma hvað kom út úr því þegar Ólafur skaut málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin felldi ákvörðun þingsins í bæði skiftin sem hún fékk tækifæri til og hefði nær örugglega fellt fjölmiðlalögin líka. Hefði þjóðin á hinn bóginn ekki fellt Icesave lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá hefði verið kominn einhver grunnur að því að gagnrýna ákvarðanir Ólafs, en að gagnrýna hann fyrir ákvarðanir sem góður meirihluti þeirra sem á annað borð kusu,studdi hann í, það er klár óvirðing við lýðræðið.

  • Bjarni Gunnlaugur

    Þar meina ég að út úr niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar má lesa stuðning þjóðarinnar við þá ákvörðun Ólafs að láta hana fá að kjósa. Þingið reyndist sumsé ekki vera að fara að vilja þjóðarinnar.

  • Það er ljóst hver vilji þjóðarinnar hefur verið: Kristján Eldjárn og Vigdís voru kosinn vegna þess að almenningur var á móti tilraunum Sjálfstæðisflokksins með séra Bjarna og Gunnar Thoroddsen. Ef meirihluti þjóðarinnar vill breyta þessu þá kýs hún hinn rammpólitíska ÓRG.
    Hann lýsti því árið 1996 þegar hann var fyrst í kjöri: „að þess beri að gæta að samleið þjóðar og forseta sé með eðlilegum hætti. Mér finnst 16 ár ansi langur tími þótt í því felsist engin gagnrýni á Vigdísi Finnbogadóttur né Ásgeir Ásgeirsson… Ég segi fyrir mig að við lifum á tímum þar sem samfélagsbreytingar eru miklar og hraðar. Allir lífshættir og hugmyndakerfi þjóða taka á sig nýja mynd. Það er mjög óvenjulegt að einstaklingur sem gegnir embætti forseta á slíkum tímum geti átt samleið með þjóðinni mjög lengi. Fljótt á litið eru 8 til 12 ár eðlilegri tími heldur en 16 ár.“ Hér er ég sammála ÓRG.

  • Auðvitað gremst alþjóðavæðingasinnum framboð Ólafs.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur