Miðvikudagur 04.04.2012 - 08:31 - 7 ummæli

Óhreyfð innlán til góðs?

Innlánsreikningar sem staðið hafa óhreyfðir í 15 ár eða lengur eru 100.084 með um 1,5 ma. kr. inn á þessum reikningum.  Ef eigendur vitja þeirra ekki að 20 árum liðnum fyrnast þeir og fjármálafyrirtækin eignast þessa peninga sbr. 4. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Bretar ákváðu að engin ástæða væri til að styrkja fjármálafyrirtækin sérstaklega hvað þessa reikninga varðar.  Þeir ákváðu að breyta lögum þannig að óhreyfðir innlánsreikningar skyldu fyrnast að 15 árum liðnum og fara í sérstakan sjóð til styrktar góðgerðarmálum, the Big Society Investment Fund.  Í lok árs 2011 var úthlutað úr sjóðnum m.a.  til að fjármagna viðskiptahugmyndir langtímaatvinnulausra, aðstoða ungt fólk við að fá vinnu, bæta orkusjálfbærni samfélaga og starta fyrsta samfélagslega hlutabréfamarkaðnum.

Ef eigendur óhreyfðu innlánsreikninganna vitja peninganna eftir að þeir hafa verið fluttir yfir  í sjóðinn, fá þeir peningana aftur með vöxtum.

Þessi sjóður er hluti af stærra verkefni, hinu svokallaða Big Society.  Big Society er ætlað að tryggja almenningi meiri áhrif og tækifæri til að stjórna lífi sínu.   Samfélagslegi hluti samfélagsins (fjölskyldur, vinir, nágrannar, frjáls félagasamtök, samfélagsrekstur og netverk)  á að verða  stærri og sterkari með valddreifingu, með því að fólk og samfélög fái raunveruleg áhrif og ábyrgð og tryggja þannig sanngirni og tækifæri fyrir alla.

Allt hluti af grunngildum samvinnuhugsjónarinnar um samvinnu, lýðræði, sjálfsábyrgð, valddreifingu, samfélagsábyrgð og jafnrétti.

Í þessum pakka eru hugmyndir á borð við að tryggja sveitarfélögum aukin áhrif og völd, gera íbúum og opinberum starfsmönnum kleift að taka yfir rekstur opinberrar þjónustu á samfélagslegum grunni (lesist: hagnaðarlaus samvinnufélög / coop), skattalegar ívilnanir fyrir gjafir til góðgerðasamtaka, styðja við samfélagsrekstur á borð við samvinnufélög, gagnkvæm félög og góðgerðasamtök og síðast en ekki síst nýta fjármagnið á óhreyfðum innlánsreikningum til setja á stofn samfélagsfjárfestingasjóðinn Big Society Investment Fund.

Ég hef mikinn áhuga á að sjá sambærilegt verkefni  hér á landi. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um skattaívilnanir til góðgerðasamtaka, spurst fyrir um óhreyfða innlánsreikninga og hyggst koma fram með frekari tillögur þessa efnis.

Er ekki löngu kominn tími til að styðja við samfélagið okkar og hvetja til samvinnu?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Þótt reikningar standi óhreyfðir í 20 ár eru þeir samt sem áður eign þess sem stofnaði þá eða erfingja viðkomandi. Ekki trúi ég öðru en að bankinn viti hver stofnaði til reikningsins á sínum tíma.

  Það er fullt af öðrum verðmætum sem standa óhreyfð í tuttugu ár, t.d. húsið mitt. Það að hirða eign einhvers heitir á fínu máli eignaupptaka en á venjulegri íslensku, –þjófnaður.

 • Fannar Hjálmarsson

  Þannig að ef ég stofna reikning fyrir barn t.d. til að fjármagna nám barnsins í framtíðinni. ég legg inn á reikningin við fæðingu ákveðna upphæð en læt reikningin vera kjurran að öðru leiti (þe. safna vöxtum) þá vilt þjóðnýta þetta áður en barnið nær 16 ára aldri? Væri þá ekki öruggara fyrir mig ef ég vil gera einhverjum gott að stinga peningum í koddaverið? ef þú vilt gera gott þá ættiru að flytja frumvarp þess efnis að reikningarnir fyrnist á 50 árum.

 • Eygló Harðardóttir

  Í gildandi lögum nr. 150/2007 segir þetta um fyrningu kröfuréttinda á innlánum: „Krafa vegna innláns eða verðmæta sem lögð hafa verið inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila, sem hefur heimild að lögum til að taka við innlánum frá almenningi, auk vaxta af slíkum kröfum, fyrnist á 20 árum frá þeim degi er verðmætin voru lögð inn. Nýr fyrningarfrestur byrjar að líða þegar kröfuhafi hefur fengið umráð fjármunanna með því að taka þá út eða setja fjármuni inn á reikninginn. Krafa skv. 1. mgr. fyrnist þó því aðeins að viðtakandi fjármuna veki athygli kröfuhafa eða erfingja hans, tímanlega og á sannanlegan hátt, á að krafan sé að fyrnast.“

  Þannig virðist það vera í hag bankanna að láta ekki vita af þessum reikningum ef upphæðirnar eru lágar (þetta eru rúmlega 100 þúsund reikningar) og nýta peningana í starfsemi sinni eða ef upphæðirnar eru verulegar að láta kröfuna fyrnast og þá á kröfueigandi engan rétt á að krefjast peninganna aftur að loknum frestinum ólíkt því sem þekkist í Bretlandi.

  Ég spyr því hvort hugnast ykkur betur að peningarnir nýtist bankahítinni eða til góðra málefna fyrir samfélagið? Hvort hugnast ykkur að hafa óendanlegan endurkröfurétt á fjármunina plús vexti eða tapa honum við ákveðinn tímafrest?

  Eflaust telja ýmsir að styðja þurfi vel við fjármálafyrirtækin, – en ég vil gjarnan sjá þessa peninga nýtast frekar samfélaginu til góðra verka.

 • Samkvæmt 4. gr. fyrningalaga fyrnist krafa aðeins ef að viðtakandi fjármuna veki athygli kröfuhafa eða erfingja hans, tímanlega og á sannanlegan hátt, á að krafan sé að fyrnast.

  Get ekki séð að bankinn geti þar af leiðandi látið innstæður sem eru verulega háar fyrnst.

  Það er því mikilvægt að fjámálafyrirtæki sinni skyldu sinni um tilkynningar til rétthafa í samræmi við lög. Verði fjármuna ekki vitjað eftir slíka tilkynningu væri eðlilegt að þeir rynnu í samfélagslegan sjóð en ekki til viðkomandi fjármálafyrirtækis.

 • Sviss er einnig að velta þessu fyrir sér. Ekkert nema gott um þetta að segja.

 • „Ef eigendur óhreyfðu innlánsreikninganna vitja peninganna eftir að þeir hafa verið fluttir yfir í sjóðinn, fá þeir peningana aftur með vöxtum.“

  Þar með er búið að girða fyrir allan vafa um að ekki sé hægt að fá peningana aftur ef eigandinn „allt í einu man eftir þeim“ eða ef þeir koma fram við útskiptingu arfs. Á meðan geta þeir hafa verið notaðir til að skapa mun meiri auð en þeir eru sjálfir s.s. í gegnum fjárfestingu í framleiðslufjármagni.

  Drífum í’essu!

 • Hvernig er hægt að halda því fram að þessar innistæður hafi staðið óhreyfðar í í 16 ár þegar allt bankakerfið er innan við 3 ára gamalt?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur