Sunnudagur 15.04.2012 - 20:33 - 23 ummæli

Framtíð á Íslandi?

Ég kvaddi fyrir stuttu  gamla vini.  Þau voru að selja allt sitt hafurtask og flytja af landi brott.  Stefna ekki að því að koma aftur heim.

Staðan á Íslandi barst í tal. Fleiri viðstaddir sögðu að þeir væru að íhuga að fara.  Allt barnafólk með góða menntun og í ágætis vinnu.  Allir að basla við að halda í húsnæðið, reka bílinn og borga tómstundir fyrir börnin sín. Húsnæðislánakerfið væri allt í rugli, verðtryggðu lánin hækka bara og hækka, launin duga varla til að standa undir lágmarksframfærslu og afborgunum, og áherslan virðist vera á að refsa fólki fyrir að standa í skilum, – hvað þá að eiga börn.

Samanburður við vini þeirra erlendis þegar kæmi að launum og lánum væri sláandi.

Einn dæsti og sagði: „Það er hálfeinkennilegt að flokkast sem hátekjufólk, starfandi við kennslu hjá ríkinu. Greiða aukalega í skatt, fá nánast engar vaxta- eða barnabætur með þrjú börn og ná ekki í endum saman í alltof lítilli íbúð og fimm ára gömlum fólksbíl.“

„Hvaða framtíð er eiginlega á Íslandi?“ spurði hann.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Viðar Steinarsson

    Sæl Eygló!
    Ávallt málefnaleg, haltu þínu striki:
    Kveðja Viðar á Kaldbak.

  • Já, hvaða framtíð er eiginlega á Íslandi? Mér sýnist stanslaust fjúka í flest þau skjól sem voru til staðar. Þeir sem eiga að taka af skarið, þ.e. stjórnmálamenn og atvinnulíf, taka enga ábyrgð og ýmist skemma fyrir þeim sem vilja gera eitthvað eða hugsa bara um eiginn rass. Spillingin er að versna hér, ef eitthvað er.

    Ég var að tala við fasteignasala áðan sem segir að meðan ekki er búið að leysa úr skuldamálum heimilanna, þá verði veltan á markaði í lágmarki. Meðan veltan er í lágmarki, þá koma bankarnir ekki peningunum sínum í vinnu. Þetta skilja menn ekki.

  • Eruð það ekki einmitt þið í Framsóknarflokknum sem komið í veg fyrir að það verði nokkur lífvænleg framtíð hér á Íslandi, með því að standa gegn viðræðum við ESB og ætla að halda í krónuna?

    Þið vitið jafn vel og ég að við munum aldrei taka upp Kanadadollar og að það er bara smjörklípa til að blekkja fólk.

    Með krónuna verðum við alltaf með verðbólgu og annað hvort háa vexti eða verðtryggingu. Við verðum alltaf með mikinn fjármagnskostnað og þar með háan húsnæðiskostnað. Mín kynslóð hefur tapað eigum sínum og þið ætlið að láta okkur halda áfram að tapa, með krónunni.

    Þið Framsóknarmenn eruð hluti af vandamálinu, ekki lausninni. Ég kann að meta þig sem málefnalegan einstakling, en þú ert því miður í liðinu sem sendi okkur í hrunið og sem ætlar að halda okkur áfram fátækum.

  • Spillingin er stærsti vandinn og að ekki skuli örla á viðleitni hjá þinginu að breyta þeim kerfum sem komið hafa þjóðinni illa og hafa snúist upp í andhverfu sína s.s. verðtryggingunni og kvótakerfinu.

    Nú ætlara þingið að festa ónýtt kerfi og mannréttindabrot í sessi næstu tvo áratugina.

  • Leifur A. Benediktsson

    Framtíðin er alls ekki björt fyrir meginþorra landsmanna.

    Landið er í höftum. og heimili eru gífurlega skuldsett í verðtryggðum krónum og laun greidd í óverðtryggðum krónum.

    Snjóhengjurnar í formi krónubréfa inn í Seðlabankanum eru svo yfirþyrmandi háar og óyfirstíganlegar, að höftin verða hér um ókomna framtíð.

    Davíð Oddsson og hans fylgifiskar, sem komu landinu okkar fallega í þrot 6. október 2008,ætti að draga fyrir dóm og dæma til tugthúsvistar fyrir afglöp og glæpsamlega gjörninga fyrir Hrun.

    Þetta lið ber ábyrgð á því, að þetta ágæta og vel menntaða fólk sem þú tiltekur hér í pistli þínum flýr land ásamt þúsundum annara landa okkar,sem þegar hafa farið af landi brott.

    Eimreiðasveinarnir Baldur Guðlaugsson og hugsanlega Geir Hilmar Haarde verða mögulega þeir einu, sem látnir verða axla ábyrgð á þessu svokallaða Hruni.

    Við hin sem tórum ennþá hér í höftunum,hugsum 4FLokknum þegjandi þörfina í komandi þingkosningum.

    Hreinsa verður út mútuþega og Hrunverja hverskonar sem sitja enn innan veggja Alþingis. Óværurnar sem þar dvelja, öskra hæst og gera sig breiða í umræðunni.

    Ísland á þetta lið ekki skilið sem ekki vinnur af heilindum fyrir þjóð sína.

    Það verður engin framtíð hér á landi,fyrr en við kjósum fólk sem við treystum inn á þing. Og þá helst með persónukjöri.

    Traust okkar á Alþingi er í svokölluðum ruslflokki þ.e.a.s. sama flokki og lánshæfismat Íslands.

    Framtíðin er vonandi björt ef við fáum heiðarlegt og trúverðugt fólk til þingstarfa fyrir OKKUR.

    Og vinna fyrir almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum peningaaflanna.

  • Garðar Garðarsson

    Marínó, að hvaða leiti er spillingin meiri nú en þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru við stjórn og skiptu góssinu okkar á milli bófagengja tengdum þessum flokkum?

  • Anna María

    En þrátt fyrir bankahrun virðast lífskjör skárri áÍslandi en í nágrannaríkjunum þegar rætt er við það fólk sem hefur farið.

  • framtíðin er liggur amk ekki hjá Framsókn. guð hjálpi íslandi þá

  • Grímur Sæmundsson

    Fólki hættir til að horfa bara á tekjuhliðina þegar það horfir til útlanda. Hér eru nokkur dæmi um kostnaðinn í Osló:
    • Ég skrapp í Rimi áðan til að kaupa 2 lítra af mjólk og seríóspakka. Kostnaður: 2200 IKR (100,50 NOK).
    • Ég fletti upp leiguíbúðum í hverfinu þar sem ég bý í Osló. Tvær 3ja herbergja íbúðir í boði. Sú ódýrari kostar 270 þús IKR á mánuði.
    • Æfingagjöldin í handbolta hjá Oppsal IF losa hundraðþúsundkallinn á ári fyrir 13 ára strák. Það er dýrara að æfa fótbolta. Það eru engin frístundakort í Osló.
    • Fyrsti rafmagnsreikningurinn sem ég fékk var fyrir 2 mánuði. Hann var aðeins lægri en ársnotkunin hafði kostað mig í Reykjavík árið áður (í stærra húsnæði).
    Það er eins gott að vera með þokkaleg laun til að standa undir þessu.

    Það er gott að búa og ala upp börn á Íslandi. Við þurfum að hætta að einblína á það sem aflaga fer, standa saman og komast í gegnum þetta. Ekki rækta bölmóðinn hvert í öðru.

  • Lífskjörin er alls ekki´“skárri á Íslandi“ en í nágrannaríkjunum.

    Margir Íslendingar hafa það betra erlendis. Svo verður líka að líta til þess að sem útlendingar fáum við ekki bestu störfin í öðrum löndum. Manneskja sem vann skrifstofu starf á Íslandi fær kannski bara afgreiðslu í búð í Noregi.

  • K. A. Kristjánsson

    Mjög málefnanlega innlegg hérna hjá mörgum, eða þá hitt þá heldur.

    Sýnist það þessir ´“málefnanlegu“ sé einna helst í því að skjóta sendiboðann, þ.e. Eygló.

    Sjálfskipaður áróðurspési Samfylkingarinnar, Leifur A. Benediktsson, er alltaf í því að endurskrifa söguna, Samfylkingunni í hag.

    Ég verð hinsvegar að segja það að þessi færsla Eyglóar endurspeglar raunveruleikann hjá mjög mörgu fólki í dag.

    Þeir sem afneita þessari staðreynd, gera það af sömu kvötum og þeir N-Kóreubúar sem afneita því að lífið í N-Kóreu sé slæmt.

  • Anna María, þessi ummæli þín þarfnast skýringar, allar tölur sýna það að efhahagsleg lífskjör Íslendinga eru núna verulega síðri en á hinum norðurlöndunum. Ertu að tala um einhver önnur lífsgæði?

    Reyndar ef maður vill halda úti stórum jeppa í Danmörku eða Noregi þá er ekki víst menn eigi meira eftir í buddunni en hérna. Viðkomandi ætti að flytja þá til Svíþjóðar þar sem bílaskattar eru svipaðir og hér en laun tölvert hærri.

  • Það er makalaust að lesa slíkt svartagallsraus úr penna þingmanns.Hún virðist ekkert hafa kynnt sér raunveruleg kjör fólks í Evrópu.Og hún vitnar í viðmælanda sem tekur það sem dæmi um ömurleikann að vera á 5 ára gömlum bíl.Það telst ekki gamall bíll í Skandinavíu Það ekur fólk á bæði eldri og ódýrari bílum en Íslendingar og td kaupa Danir mest tveggja dyra bíla vara vegna verðmunarins. Þingmanninum væri nær að leggja eitthvað raunverulegt til málanna.

  • Rík en fámenn þjóð, það væri hægt að koma okkur öllum undir teppi. Samt er meirihluti þjóðarinnar í eilífu basli við að ná endum saman, þrátt fyrir að vera nánast hátekjufólk. Sjálftökufólkið verdur að fara að slaka á og sjávarauðlindirnar eiga t.d. ekki að reyna óskiptar í þyrlupalla fyrir fámenni og skattarnir eiga ekki að borga undir heimsskautalandbúnað með tilheyrandi peningagjöfum. Erlend fjárfesting er óskhyggja einn ef smáþjóðin ætlar að fara Sumarhúsleiðina og sjálfstæðir Íslendingar munu þræla sér út til að vinna sér verðlausan pappír í verðlausu hagkerfi. Eru peningastjórnmálin virkilega þess virði að fara með þjóðina sína aftur í torfbæinn? Fjorflokkurinn fer um á nottunni og rænir þjóð sína meðan hún sefur fast, það að hátekjufólk sé er orðið blankt segir okkur að peningahirslurnar eru að vera tómar. Græðgin er svo gegndarlaus, vakna ríkari en ég var í gær. Af hverju þarf Sigmundur Davíð t.d. 100 milljónir þegar 30 eru nóg? Af hverju vill hann standa fyrir utan ESB svo hann geti tryggt sér kannski 200 milljónir meðan þjóðinn svitnar við að hafa það fjárhagslega af? Græðgi í bland við hreinu mannvonsku þannig að örlög litla Íslands eru ráðin.

  • Bæði samstarfssamningur Norðurlanda og EES-samningurinn auðvelda fólki að sækja vinnu erlendis. Samningarnir beinlísnis auka frelsið í þesum efnum og hafa reynst Íslendingum vel í gegnum árin og ekki síst núna eftir hrun. Ég sé ekkert nema jákvætt við það að fólk leiti sér að vinnu erlendis. Hér er enga vinnu að fá og þeir sem fara utan létta á atvinnuleysissjóði og etv fleiri útgjaldasjóðum ríkisins og þeir afla sjálfum sér og sínum dýrmæta reynslu sem getur nýst Íslendingum þegar fólkið snýr til baka. Það er ekki við ríkisstórn að sakast, sem hefur staðið í nær vonlausu verki að rétta við efnahag Íslendinga, eftir hrikalegan viðskilnað Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Sem betur fer hefur stjórninni tekist vel til og það sér til lands. Framtíð Íslands getur orðið björt ef hún verður ekki aftur eyðilögð af öfgagróðahyggju og öfgavirkjunarsinnum.

  • Þar sem ég hef búið í næstum 15 ár í Noregi langar mig aðeins að leggja orð í belg. Það er eitt nýtt varðandi fólksflutninga frá Íslandi eftir hrun, a.m.k. hingað til Bergen. Langflestir sem ég hef talað við segja nokkuð sem ég heyrði sjaldan fyrir hrun: Það ætlar ekkert tilbaka aftur.

    Ekki verða sár, þetta er ekkert persónulegt, Eygló, ég þekki þig ekki neitt en ég vil segja eitt í viðbót. Í norsku er til orðið „politikerforakt“ en það er bara ekki nógu sterkt til að lýsa því hvernig Íslendingar sem hafa flutt út á síðustu árum tala um ykkur stjórnmálamennina. Ég er oft að bíða eftir að það fari í týpíska flokkadrætti en nei. Þetta blessaða fólk virðist hata ykkur alla nokkurn veginn jafnt.

  • Þegar ég bjó í Svíþjóð (1996-2007) lækkaði húsnæðislán mitt við hver mánaðarmót. Á fimm árum á Íslandi hefur lán mitt hækkað um 7 milljónir! Takk fyrir – en þetta er gjörsamlega óboðlegt kerfi. Annað er eftir því. Svo er alltaf verið að telja okkur trú um að við séum svo rík þjóð. Ég held því miður að það sé goðsögn – en það er gott fyrir marga að við trúum því.

  • Hvaða Bölvaði Bölmóður er þetta.

    Hér þarf bara fólk með réttláta reiði til að rífa þetta land upp.
    Helvítis mafían hér er búin að rústa landinu, núna er bara hætta þessari lyddu og þrælslund, endurheimtum landið frá þjófunum og gerum Íslandi að landi fyrir fólk sem vill búa hér.. rekjum afskriftarkónga og arðræningja út á hafsauga.

  • Leifur A. Benediktsson

    K.A Kristjánsson,

    Hvað er það sem fer fyrir brjóstið á þér í færslu minni?

    Eru þarna einhverjar rangfærslur?

    Og plís,ekki hengja samfylkinguna á mig!

  • Haukur Kristinsson

    Athyglisvert. Mjög góður pistill hjá Eygló og nær undantekningarlaust góð ummæli.
    Bloggið lifi!

  • Hvernig væri að íhuga að taka upp endurgreiðslu frá sköttum vegna vaxtagreiðslna sem tengjast öllum lánum? Í Noregi er hægt að fá 28% af greiddum vöxtum dregna frá skattabyrði (sem sagt þeir sem ekki greiða skatta fá það væntanlega ekki). Á Íslandi gengur allt út á vaxtabætur vegna húsnæðislána, óháð skatttekjum viðkomandi. Þetta gæti hjálpað píndri millistétt að finnast hún eiga tilverurétt, en vera ekki bara beitt miskunnarlaust fyrir klárinn.

  • Það eru tækifæri erlendis og Noregur stendur uppúr hvað okkur varðar. Það er hinsvegar ekki skjótfenginn gróði af því að skifta um land þó vænt sé. Menn eru fyrst eftir 5 ár farnir að ná góðu efnahagslegu jafnvægi ef haldið er vel á spilunum. Eftir 10 ár er komin grundvöllur til að hugleiða að koma heim aftur en líði lengri tími er það sennilega ekki þess virði. Bæði er að tækifærin á Íslandi standa manni yfirleitt ekki opin eftir langdvalir og frami manns eykst í Noregi því lengur sem maður sinnir sínum störfum vel. Það er stöðugleikinn og áreiðanleikinn sem evrópsk nútímaþjóðfélög geta boðið uppá fram yfir okkar ástkæra íslenska. Það að „sér íslenzku lausnirnar“ eiga sér ákafa málsvara er nánast andlegt vandamál frekar en stjórnsýsluvandamál. Flestir sem eitthvað hafa nýtt til málanna að leggja telja að við eigum að þora að kasta gömlum goðum í fossinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur