Þriðjudagur 24.04.2012 - 08:55 - 1 ummæli

Landsdómur

(Ræða flutt á Alþingi 20.9.2010).

Virðulegi forseti. Ég fæ að vitna hér, með leyfi forseta:

„Hrun íslensku bankanna í byrjun október olli einstaklingum hér og erlendis miklu fjárhagslegu tjóni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir allt samfélagið, menntun og menningu, jafnt sem atvinnu og athafnalíf. Hið himinhrópandi ranglæti sem er afleiðing af hruni fjármálakerfisins er það að almennir borgarar sitja uppi með reikninginn. Afar brýnt er að skorið verði úr um ábyrgð stjórnenda og eigenda bankanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar á því sem gerðist. Réttlætiskrafan lýtur fyrst og fremst að því að sannleikurinn verði leiddur í ljós, að engum verði hlíft við að horfast í augu við mistök eða misgjörðir ef um slíkt er að ræða og að opinská umræða fari fram um þær ákvarðanir sem ýmist stuðluðu að hruninu eða dugðu ekki til að koma í veg fyrir það. Krafan um réttlæti er oft einnig krafan um makleg málagjöld þeirra sem brotið hafa af sér. En í því hruni sem orðið hefur hér á landi er erfitt að sjá fyrir sér hvers konar málagjöld eru viðeigandi. Sú spurning er samofin spurningunni um það hvernig við sem þjóð sjáum Ísland fyrir okkur sem réttarríki.“

Þessa yfirlýsingu sendu 14 heimspekingar frá sér í nóvember 2008. Mér varð hugsað til þessarar yfirlýsingar þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt og nefndarmenn upplýstu að af 147 einstaklingum sem kallaðir voru fyrir nefndina viðurkenndi enginn sök eða ábyrgð í aðdraganda hrunsins.

Mér varð aftur hugsað til þessa þegar ljóst var að þeir ráðherrar og embættismenn sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi hafa orðið uppvísa að vanrækslu í störfum sínum virtust ekki geta horfst í augu við mistök eða misgjörðir sínar. Og enn á ný hefur mér orðið hugsað til þessara orða undanfarna daga þegar ýmsir hafa spurt hvers vegna við getum ekki einfaldlega sett á stofn sátta- og sannleiksnefnd í anda þeirrar sem sett var á laggirnar í Suður-Afríku til að gera upp aðskilnaðarstefnu hvíta minni hlutans þar í landi. Það er nefnilega svo að fyrsta skrefið til að hægt sé að leita sátta er að menn horfist í augu við eigin gjörðir, viðurkenni ábyrgð sína, viðurkenni mistök sín og viðurkenni vanrækslu sína. Aðeins þannig er hægt að byrja að fyrirgefa.

Ekkert réttlæti er fólgið í því að sópa öllu undir teppið og neita að horfast í augu við þá staðreynd að bæði fólk og stefna brást í aðdraganda hrunsins. Það getur ekki verið réttlæti. Þannig getur Ísland ekki verið sem réttarríki.

Því er það sannfæring mín að hluti af endurreisn Íslands sé að skera úr hver sé ábyrgð stjórnenda og eigenda bankanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar í samræmi við leikreglur réttarríkisins.

Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar er það í höndum Alþingis að taka ákvörðun um málshöfðun á hendur ráðherra. Greinin er svohljóðandi:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Þess vegna erum við hér samankomin í dag til að ræða hvort Alþingi eigi að kæra ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra fyrir landsdómi. Í lok árs 2008 tók Alþingi ákvörðun um að setja á stofn rannsóknarnefnd Alþingis. Hlutverk hennar skyldi m.a. vera að taka saman upplýsingar svo að Alþingi gæti tekið afstöðu til hugsanlegra brota á lögum um ráðherraábyrgð. Nauðsynlegt var að skipa nefndina þar sem eitt af frumskilyrðum þess að Alþingi geti tekið afstöðu til ráðherraábyrgðar er að ítarleg rannsókn hafi farið fram á þeim sakargiftum sem bornar eru á ráðherra. Því sagði í 14. gr. laga um rannsóknarnefnd Alþingis, með leyfi forseta: „Um ábyrgð ráðherra fer samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.“

Jafnframt segir í 14. gr., með leyfi forseta:

„Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum.“

Réttarstaða einstaklinga fyrir rannsóknarnefndinni var þannig tryggð með því að þeir gátu neitað að tjá sig, þeir gátu líka haft með sér lögmann og þar að auki má ekki nota framburð þeirra fyrir nefndinni fyrir landsdómi eða öðrum dómstólum. Þingmannanefndin var svo kosin í lok árs 2009 og var falið að taka afstöðu til þeirra ítarlegu gagna sem lágu fyrir um hvort athafnir eða athafnaleysi ráðherra í fyrsta og öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vörðuðu við ráðherraábyrgðarlögin.

Ef Alþingi ákveður að samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis mun saksóknari Alþingis leggja nýjan grunn að málinu með yfirheyrslum, vitnaleiðslum o.s.frv. Landsdómur hefur einnig verulegt svigrúm til að túlka málsmeðferðarreglur laganna um landsdóm til samræmis við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Eftir að þingsályktunartillaga er samþykkt um málshöfðun og saksóknari og varamaður kosinn ásamt fimm manna þingnefnd er málið komið úr höndum Alþingis.

Mikil umræða hefur verið um hvort málsmeðferðin stangist á við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Árið 1996 reyndi á málsmeðferð danska ríkisréttarins sem er á margan hátt mjög sambærilegur landsdómi fyrir mannréttindadómstóli Evrópu. Helstu röksemdir fyrir þeirri kæru voru að málsmeðferðin fyrir rannsóknarréttinum, sem var sambærilegur rannsóknarnefndinni hér, hafi ekki verið réttlát, ríkisrétturinn hafi ekki verið óháður og óvilhallur dómstóll, sakborningur hafi ekki fengið að leiða tvö vitni fram til stuðnings frávísunarkröfu, afrit yfirheyrslna fyrir rannsóknarréttinum voru lögð fyrir ríkisréttinn sem verður ekki heimilt hér, meðferð málsins var haldið áfram þrátt fyrir slæmt heilsufar sakbornings og að málinu hafi ekki verð lokið innan hæfilegs tíma. Árið 1999 vísaði Mannréttindadómstóll Evrópu málinu frá.

Í upphafi vinnu þingmannanefndarinnar var töluverð umræða um málsmeðferðina á meðan við sátum og biðum eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Án efa vorum við eina fólkið í landinu sem þakkaði fyrir hvern dag sem skýrslan tafðist svo að við gætum undirbúið okkur sem best og tíminn var nýttur mjög vel til að grandskoða lög um landsdóm og ráðherraábyrgð. Niðurstaða þeirrar vinnu var að ekki væri nauðsynlegt að fara í breytingar á lögum um landsdóm. Sú ákvörðun var tekin áður en við vissum hver niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis yrði.

Ástæðan fyrir minni afstöðu var tvíþætt. Í fyrsta lagi vegna þess að ég sannfærðist um að lögin standist mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi ef svo ólíklega vildi til að svo væri ekki væri það mjög óeðlilegt og óréttlátt gagnvart þeim ráðherrum sem hugsanlega yrðu ákærðir að breyta lögunum um landsdóm eftir að hugsanleg brot voru framin einfaldlega til að geta neglt betur viðkomandi ráðherra. Slíkt hefði jafnvel jaðrað við afturvirkni og einstaklingsbundna lagasetningu sem Mannréttindadómstóllinn hefur tekið mjög skýra afstöðu gegn og telur vera mannréttindabrot.

Hlutverk okkar þingmanna er skýrt. Við erum ekki hér samankomin til að dæma eða útdeila refsingu. Hlutverk okkar er að meta hvort skilyrði ráðherraábyrgðarinnar eru uppfyllt eða ekki. Við erum í hlutverki ákæranda, en ekki dómara. Aldrei dómara.

Lög um ráðherraábyrgð setja tvenns konar skilyrði fyrir ábyrgð ráðherra; huglæg og hlutlæg. Huglæg skilyrði eða hin svokölluðu saknæmisskilyrði varða vilja afstöðu ráðherra til hins ólögmæta atferlis, en hin hlutlægu hið ólögmæta ferli sem ábyrgð varðar og eru tilgreind í 8.–10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna. Til að uppfylla þessi saknæmisskilyrði dugar ekki almennt gáleysi. Ráðherra verður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi að hafa framið þau brot sem um ræðir í lögunum. Ráðherraábyrgðarlögin varða embættisbrot ráðherra eða þá háttsemi sem ráðherra hefur viðhaft í krafti þess valds sem fylgir embætti hans. Í lögunum er að finna þrjár tegundir brota; stjórnarskrárbrot, brot á öðrum landslögum og brot á góðri ráðsmennsku og geta brotin verið fólgin bæði í athöfnum og athafnaleysi. Í þingsályktunartillögunum, sem við erum að fjalla hér um, er að finna tillögur um ákærur vegna brota á stjórnarskránni og brots á góðri ráðsmennsku, til vara er auk þess lagt til að ákært sé fyrir 141. gr. almennra hegningarlaga er varðar stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í opinberu starfi.

Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verður ráðið að ríkisstjórnin í heild hafi ekki fengið skýrslu eða rætt formlega málefni bankanna á ráðherrafundi frá ársbyrjun 2008 og þangað til allt var komið í óefni í lok september sama ár. Í 17. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra sem forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis og nefnist hann forsætisráðherra.“

Ganga verður út frá því að vandamál þau sem blöstu við ríkisstjórn frá febrúar fram í október 2008 varðandi aðsteðjandi hættu er þá vofði yfir fjármálastofnunum landsins og ríkissjóði hafi mátt teljast mikilvæg stjórnarmálefni í skilningi 17. gr. stjórnarskrárinnar. Vart er hægt að hugsa sér öllu mikilvægari stjórnarmálefni en þau óveðursský sem þá voru að hrannast upp.

Telja verður að til að mynda þær upplýsingar sem fram komu samandregnar á fundum 7. febrúar 2008 og ekki hvað síst yfirlýsingin frá 15. maí 2008, þar sem þrír ráðherrar samþykktu að víkja stjórnarsáttmála ríkisstjórnar til hliðar, verði að teljast mikilvæg stjórnarmálefni. Ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja að besta mögulega ákvörðun verði tekin þar sem betur sjá augu en auga. Markmiðið er að tryggja lýðræðislega aðkomu allra þeirra sem stjórna eiga landinu. Það var ekki virt. Við fáum því aldrei úr því skorið hvort samráð milli þeirra ráðherra sem málið heyrði undir sem og samráð við aðra ráðherra hefði haft áhrif á framvindu mála, til að mynda með því að auka þrýsting á forsætisráðherra og aðra ráðherra sem málið varðaði til að afla frekari upplýsinga og gagna og vinna meira í málefnum bankanna.

Þótt því hafi verið haldið fram að alvanalegt sé að ráðherrar og þá einkum forustumenn ríkisstjórnarflokka ræði saman utan formlegra ríkisstjórnarfunda og leiði óformlega til lykta ýmis vandasöm úrlausnarefni hefur slík framkvæmd ekki myndað stjórnskipunarvenju og má ekki gera það. Slíkt fyrirkomulag kann að virðast skilvirkt og hagkvæmt en það brýtur einfaldlega í bága við þá stjórnskipun sem hér ríkir. Við búum við lýðræði á Íslandi, ekki einræði og ekki oddvitaræði. Þetta fyrirkomulag ógnar lýðræðinu og ógnaði heill íslenska ríkisins.

Því er lagt til að allir fjórir ráðherrarnir verði ákærðir sérstaklega fyrir brot á 8. gr. c laga nr. 4/1963, eða hinum svokölluðu ráðherraábyrgðarlögum, sem felst í því að fyrirsjáanleg hætta er varðaði heill íslenska ríkisins, sem sífellt óx, skuli ekki hafa verið rædd á ráðherrafundi eins og skylt er skv. 17. gr. stjórnarskrárinnar.

Jafnframt er lagt til að allir fjórir ráðherrarnir verði ákærðir fyrir 10. gr. b-liðar sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum: Ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.“

Lykilatriðið sem ég bið alla þingmenn að hafa í huga hvað varðar þessa grein er hugtakið „fyrirsjáanleg hætta“ sem stofnar heill ríkisins í hættu. Hér er um að ræða hættubrot og þá gildir fyrir hv. þingmenn að skoða hættuna sjálfa. Vissu ráðherrarnir af tilvist hættunnar? Var hættan fyrirsjáanleg frá almennu sjónarmiði, þ.e. fyrir fram sýnileg manni í sporum ráðherra óháð því hvort hlutaðeigandi ráðherra hefur í raun gert sér grein fyrir hættunni eða ekki? Höfðu ráðherrarnir vitund um hættuna? Og brugðust ráðherrarnir ekki við hættunni þótt þeim hefði verið það unnt? Sé öllu þessu svarað játandi er um ásetningsbrot að ræða, en hafi ráðherra skort vitund um hættuna var vanræksla hans að líkindum stórkostlegt hirðuleysi.

Ákvörðun okkar flutningsmanna um að leggja til að fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, verði kærður fyrir brot gegn b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna og 141. gr. hegningarlaga til vara byggist á því að athafnaleysi ráðherrans falli undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. Á ráðherrunum hvíldi m.a. sú skylda að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Hann bar ábyrgð á málefnum Seðlabankans. Aðeins verður sakfellt fyrir brot framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi. Því vísum við til yfirlýsinga forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra til norrænu seðlabankanna, fyrir utan þann finnska, frá 15. maí 2008. Þar var því heitið að dregið yrði úr stærð bankanna, breytingar gerðar á Íbúðalánasjóði, gjaldeyrisvaraforðinn aukinn og sparað í ríkisrekstri, en lítið var um efndir. Ef einnig er höfð hliðsjón af fundinum 7. febrúar og af þeim viðvörunarbjöllum sem klingdu þetta vor, áhlaup á Landsbankann í London í byrjun apríl, athugasemdir Jean Claude Trichets í mars, apríl og júlí o.fl. og að forsætisráðherra undirritaði aðgerðaáætlun til að tryggja fjármögnun Seðlabankans, eru saknæmisskilyrðin uppfyllt að mínu mati.

Hvað varðar ákvörðun okkar flutningsmanna um að leggja til að fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, verði kærð fyrir brot á b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna, eru rökin eftirfarandi:

Þáverandi utanríkisráðherra skrifaði undir yfirlýsinguna gagnvart norrænu seðlabönkunum sem utanríkisráðherra. Undirritunin var embættisverk utanríkisráðherra en ekki pólitísk forusta. Að auki sat utanríkisráðherra margnefndan fund 7. febrúar 2008 auk fleiri funda, m.a. í aprílbyrjun, þegar áhlaup var gert á Landsbanka Íslands í London. Ráðherra hafði því allar forsendur til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að aðhafast vorið 2008. Telja verður að utanríkisráðherra, sem hefur skrifað undir formlega yfirlýsingu af því tagi sem hér um ræðir, beri skylda til að fylgja því eftir að unnið sé að því sem þar er tiltekið. Það er því niðurstaða flutningsmanna að ákæra beri fyrrverandi utanríkisráðherra rétt eins og hina ráðherrana sem hér er fjallað um fyrir að hafa af ásetningi, eða a.m.k. af stórkostlegu hirðuleysi, látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að ríkisvaldið brygðist við alvarlegum upplýsingum um stöðu bankanna og einkum að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, að minnsta kosti með tillögu um það til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli, vinna að því að draga úr stærð bankakerfisins og ekki hvað síst að tryggja flutning Icesave í Bretlandi í dótturfélag.

Við leggjum einnig til að fyrrverandi fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, verði kærður fyrir brot gegn b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna og 141. gr. hegningarlaga til vara — þar sem fyrrverandi fjármálaráðherra var einn þeirra ráðherra sem undirrituðu yfirlýsinguna gagnvart danska, norska og sænska seðlabankanum. Fjármálaráðherra ber að hafa almennt eftirlit á valdsviði sínu og hafa frumkvæði að nauðsynlegum aðgerðum á því sviði og við stjórn landsins almennt í samvinnu við aðra ráðherra. Honum ber að annast almennt um fjármál ríkisins og um lánsfjármál ríkissjóðs, lántökur ríkisstofnana og ríkisábyrgðir. Í krafti þessa fékk hann svipaðar eða sömu upplýsingar og forsætisráðherra. Í krafti þessa bar honum að grípa til aðgerða eða tryggja að aðrir gerðu það. Ráðherrann hafði jafnframt upplýsingar um stöðu mála er varðar Icesave-reikningana í gegnum samráðshópinn og því þykir rétt að ákæruliður um athafnaleysi í tengslum við flutning reikninganna í dótturfélag nái einnig til fyrrverandi fjármálaráðherra, sérstaklega í ljósi starfssviðs eða valdsviðs ráðherrans sem ég fór í gegnum hér áðan.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég stend að er lagt til að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, verði ákærður fyrir brot á 10. gr. b-liðar og 141. gr. hegningarlaga til vara. Þetta er þrátt fyrir að staða ráðherrans hafi að mörgu leyti verið önnur en staða fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra. En viðskiptaráðherra vissi af fundinum 7. febrúar nokkrum dögum eftir að hann átti sér stað. Hann fundaði með bönkunum í framhaldi af því. Hann átti aðkomu að samráðshópnum og það liggur algerlega skýrt fyrir að hann fékk þær upplýsingar sem hann þurfti þaðan og hann fékk upplýsingar strax í apríl um að seðlabankastjóri Evrópu teldi íslensku bankana leggja að hluta til málamyndagerninga að veði fyrir lánum hjá seðlabanka Lúxemborgar. Í gegnum fundi samráðshópsins fékk hann einnig fullnægjandi upplýsingar um starf hópsins, en þar var t.d. flutningur Icesave-reikninganna og staða tryggingarsjóðsins ítrekað rædd. Undir ráðherrann féll einnig að hafa eftirlit með Fjármálaeftirlitinu og Tryggingarsjóði innstæðueigenda.

Hvað mína afstöðu varðar réði það síðast en ekki síst ákvörðun um að leggja til ákæru á hendur fyrrverandi viðskiptaráðherra að starfssvið viðskiptaráðherra var fyrst og fremst fjármálakerfið. Það var hans verkefni að fylgjast með, greina og reyna að skilja það sem fram fór í kringum hann. Þeirri ábyrgð gat hann ekki komið á aðra né aðrir létt af honum.

Í landinu eru í gildi lög um ráðherraábyrgð og landsdóm. Hlutverk okkar þingmanna er því skýrt. Við erum ekki hér saman komin til að dæma eða útdeila refsingu. Okkar hlutverk er að meta hvort skilyrði ráðherraábyrgðarinnar eru uppfyllt eða ekki. Við höfum stjórnskipulega skyldu að leggja efnislegt mat á fyrirliggjandi gögn og málsatvik samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi og fylgja sannfæringu okkar í því mati. Grundvöllur þess mats er viðamesta rannsókn sem hefur verið farið í á Íslandi sem hefur verið birt í níu bindum rannsóknarnefndar Alþingis.

Þetta hlutverk okkar er erfitt. Þá vil ég hins vegar minna hvern og einn þingmann á að ekkert af þeim verkefnum sem við fáumst við hér á þingi er auðvelt. Þau eru öll erfið. Þau varða öll líf fólks. Við erum kosin til að sinna þessu hlutverki okkar. Við erum kosin til að sinna því af hugrekki, heiðarleika og festu. Ég vona að við munum gera nákvæmlega það í þessu máli.

Flokkar: Fjármálakerfið · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (1)

  • Í málinu er ákærði sýknaður af alvarlegustu brotunum, sem hann var borinn sökum um.

    Beint úr dómnum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur