Miðvikudagur 02.05.2012 - 17:18 - 5 ummæli

Stjórnarskrá fyrir okkur öll

Fyrir Alþingiskosningar 2009 lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll.  Því ætluðum við að ná með því að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá sem tryggði sjálfstæði Alþingis og setti framkvæmdavaldinu skorður.

Megináherslur okkar voru að ný og nútímaleg stjórnarskrá yrði samin þar sem aðskilnaður löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds yrði skerptur til muna. Því ættu ráðherrar ekki að gegna þingmennsku og ráðning hæstaréttardómara að vera aðskilin frá framkvæmdavaldinu.  Beint lýðræði yrði aukið og oftar leitað til þjóðarinnar um álit hennar á einstökum málum.  Eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum yrði tryggt í stjórnarskrá. Mannréttindi yrðu ætíð í hávegum höfð og þess gætt að allir þegnar gætu haldið reisn sinni.  Brýnt væri að tryggja sjálfstæði fjölmiðla, sem oft eru nefndir fjórða valdið.

En hvar stöndum við nú?

Löng barátta
Framsóknarmenn hafa lengi barist fyrir grundvallarbreytingum á stjórnarskránni. Í ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar gaus upp mikill ágreiningur um breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningarnar 2007.  Þá var ekki hvað síst tekist á um auðlindaákvæðið og synjunarvald forsetans.  Bitur reynsla okkar framsóknarmanna af því ferli leiddi til hugmyndarinnar um sérstakt stjórnlagaþing sem yrði skipað þjóðkjörnum fulltrúum.  Aðeins þannig sáum við fram á að hægt yrði að ná fram jafn víðtækum breytingum á stjórnarskrá Íslands í átt að auknu lýðræði og réttlæti og okkur dreymdi um.  Á flokksþingi árið 2009 var því samþykkt tillaga um sérstakt stjórnlagaþing í þeirri von að átök á milli einstaklinga, hópa og stjórnmálahreyfinga og hremmingar undanfarinna ára byrgðu ekki sýn til framtíðar.

Mjög brösuglega hefur gengið að ná þessum markmiðum og er skemmst að minnast ógildingar Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings.  Mjög skiptar skoðanir hafa verið á milli þingmanna um ferlið í framhaldinu. Niðurstaða meirihluta Alþingis var að skipa stjórnlagaráð sem hefur skilað af sér tillögum um nýja stjórnarskrá. Er nú stefnt að því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ásamt tilteknum grunnspurningum sem gætu aðstoðað þingmenn við úrvinnslu tillagna stjórnlagaráðs.

Af hverju breyta stjórnarskránni?
Í átökunum um þetta ferli getur verið auðvelt að gleyma sér og tapa sjónar á því hver markmiðin eru með breytingum á stjórnarskránni. Við breytum ekki bara breytinganna vegna. Við breytum til að ná fram ákveðnum markmiðum um betri stjórnskipun, betra samfélag, aukið lýðræði og aukið réttlæti.

Ég hef reynt að nálgast tillögur stjórnlagaráðsins á grundvelli framsóknar- og samvinnustefnunnar.  Þar legg ég annars vegar til grundvallar stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar og þau markmið með stjórnarskrárbreytingum sem þar komu fram og hins vegar grunngildi Framsóknarflokksins og samvinnuhreyfingarinnar. Þar segir að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar, að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar og að manngildi sé ætíð sett ofar auðgildi.

Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslu á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsingar til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju manna fyrir samfélaginu sem þeir starfa í. Undir þetta er svo tekið í grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins um að byggja þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.  Þar sem við berjumst fyrir mannréttindum og höfnum hvers konar mismunun.

Þessi gildi vil ég sjá endurspeglast í nýrri stjórnarskrá.

Samvinnuverkefni
Endurritun stjórnarskrár hlýtur alltaf að vera samvinnuverkefni. Líkt og einstakir meðlimir stjórnlagaráðs þurftu að láta af ítrustu kröfum sínum í einstökum málum til að ná sátt þurfa einstakir þingmenn og þingflokkar, sem og þjóðin öll að gera slíkt hið sama. Stjórnarskrá lýðveldisins getur aldrei orðið stefnuyfirlýsing einstakra flokka og hún má heldur ekki taka mið af einstökum dægurmálum, hversu brýn sem þau eru.

Hún þarf að vera rammi um samfélag okkar til framtíðar.

Fyrir okkur öll.

(Greinin birtist fyrst í DV 2. maí 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Fín grein Eygló! Og ég held að stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráðs sé stórt skref í þá átt sem þú lýsir – og samrýmist þeim gildum sem þú nefnir.

  • Varla ertu hlynnt jöfnun atkvæðavægis?

    Ertu ekki of mikill lýðræðissinni til þess?

  • Tek undir með Vilhjálmi, góð grein. Vonandi ber Alþingi gæfu til að koma þessu áfram.

  • Halldór Guðmundsson

    Held að það sé nokkuð víst, að hér breytist ekkert fyrr en þjóðin fær nýja Stjórnarskrá.
    Beint Lýðræði aukið, persónukjör, og ákvæði um auðlindirnar og fl.

    Annað óskilt.
    Fyrir þinginu liggur nýtt frumvarp til laga um Neytendalán,í frumvarpinu virðist verðtryggð lán vera heimil á Íslandi,en í ESB löndum eru verðtryggð lán óheimil, samkvæmt sömu lögum sem er verið að innleiða hér, og hafa verið innleidd hér, þannig að ég fæ þetta ekki til að ganga upp.
    Með innleiðingar MiFID tilskipunar sem var lögfest hér 1. nóv. 2007 er almenningi bannað að eiga viðskipti með afleiður, og ef eitthvað er afleiða þá er verðtryggt lán afleiða, þar sem enginn mannlegur máttur getur sagt til um greiðslubyrði á komandi árum.
    Googla: MiFID svör við algengum spurningum Glitnir.

  • Leifur A. Benediktsson

    Málefnaleg að venju Eygló!

    Mínar spurningar eru þessar:

    Munt þú styðja fyrirhugað fumvarp um þjóðaratkv.greiðslu í haust?

    Er þingflokkur þinn á sömu línu og þú?

    Gleðilegt sumar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur