Mánudagur 30.04.2012 - 17:03 - Rita ummæli

Líf og dauði

Ég dvaldi í tvo mánuði á meðgöngudeild Landspítalans sumarið 2006 vegna fyrirsætrar fylgju og blæðinga.  Yngri dóttir mín fæddist svo með keisaraskurði nokkrum vikum fyrir tímann.

Þetta var einkennilegur tími.  Erfiður tími.  Eftirminnilegur tími.

Konur komu og fóru.  Sumar stoppuðu stutt, aðrar í nokkrar vikur.

Fréttir utan deildarinnar hættu að skipta máli.  Mestu máli skipti baráttan innan dyra.  Á hverju kvöldi og hverjum morgni tékkaði ég á hreyfingum hjá dóttur minni.

Ég gleymi aldrei þegar herbergisfélagi minn kom inn eitt kvöldið og sagði: „Það var barn að deyja.“ Ég spurði: „Hvernig veistu?“  og hún svaraði: „Þær voru að kveikja á kerti.“

Starfsfólkið sagði ekki orð heldur sinnti okkur af sömu umhyggju og alltaf.

En þetta kvöld var mikil kyrrð yfir öllum á deildinni.

Við vorum allar minntar á af hverju við vorum þarna.

Að þetta snérist um líf og dauða.

———–

Ég vil því hvetja alla til að styðja við Styrktarfélag Líf sem safnar nú fyrir betri aðstöðu fyrir konur sem fæða andvana börn ásamt meistaraflokki kvenna í Val.

Hægt er að hringja í síma 9081515 og gefa 1500 kr. eða mæta á styrktarleikinn hjá Valskonum 2. maí.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur