Laugardagur 28.04.2012 - 08:24 - 6 ummæli

Framtíð á Íslandi

Fyrir stuttu kvaddi ég gamla vini.  Þau voru að flytja erlendis og höfðu ekki í hyggju að snúa aftur.  Staðan á Íslandi var rædd.  Fleiri vinir sögðu að þeir væru að íhuga að fara.  Allt barnafólk með góða menntun, í vinnu og búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Allir nefndu baslið við að halda í húsnæðið, reka bílinn og borga tómstundir fyrir börnin.  Húsnæðislánakerfið væri í rugli, verðtryggðu lánin hækka bara og hækka, launin duga varla til að standa undir lágmarksframfærslu og afborgunum, og áherslan virðist vera á að refsa fólki fyrir að standa í skilum, – hvað þá að eiga börn.

Samanburður við vini þeirra erlendis þegar kæmi að launum og lánum væri sláandi.

Einn dæsti og sagði: „Það er hálfeinkennilegt að flokkast sem hátekjufólk, starfandi við kennslu hjá ríkinu.  Greiða aukalega í skatt, fá nánast engar vaxta- eða barnabætur með þrjú börn og ná ekki endum saman í alltof lítilli íbúð og fimm ára gömlu fólksbíl.  Hvaða framtíð er eiginlega á Íslandi?“

Allt misskilningur?
Ég var mjög hugsi eftir þetta samtal og birti pistil um þetta á vefsíðu minni.  Viðbrögðin voru margvísleg.  Margir bentu á Evrópusambandið og evruna sem lausn á meðan aðrir töldu að menn ættu nú ekki að kvarta yfir 5 ára gömlum bíl.  Grasið væri ekki alltaf grænna í útlöndum og þingmaður ætti nú ekki að láta svona svartagallsraus frá sér.

Skilaboðin frá núverandi stjórnvöldum eru  mjög svipuð.  Það varð hrun, staðan sé ekkert slæm miðað við það, margir hafa það verr, fólksfækkunin sé ekkert meiri en í síðustu kreppu og þetta sé allt á réttri leið.

Hlutverk þeirra sem stjórna landinu er að hlusta, greina vandann, koma með lausnir og framkvæma þær.  Lausnir sem gera það að verkum að fólk hafi trú á framtíð hér á Íslandi.   Ég hef trú á Íslendingum og getu okkar til að vinna okkur út úr þessu.   Leiðin til þess er ekki  að veifa niðurskurðarhnífnum og hækka skatta. Við vinnum okkur út úr vandanum aðeins með því að taka á skuldavandanum og atvinnusköpun.

Án vinnu verður hvorki vöxtur né velferð og heimili og fyrirtæki sem eru að drukkna í skuldum skapa engin ný störf.  Fyrirtæki sem eru tæknilega gjaldþrota leggja ekki í fjárfestingar, rannsóknir eða þróun og ráða ekki nýja starfsmenn.  Heimili sem eru á mörkum þess að geta greitt skuldir sínar bíða með að endurnýja teketilinn, fara sjaldnar í klippingu og aka eins lengi á gömlu sumardekkjunum og mögulegt er.

Afleiðingin er engin vinna, enginn vöxtur og engin velferð.

Framsóknarlausnir
Þess vegna hefur þingflokkur Framsóknarmanna ítrekað lagt fram tillögur til lausnar á skuldavandanum.  Nú síðast með því að leggja til að skattkerfið verði nýtt til að koma til móts við vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja.  Auk þess höfum við lagt fram frumvarp um 4% þak á hækkun verðtryggingar á meðan við leitum leiða til að afnema verðtryggingu á neytendamarkaði og lækkum vexti.

Samhliða aðgerðum til lausnar skuldavandans verður að grípa til aðgerða til atvinnusköpunar.  Grunnurinn að því eru nær 50 tillögur til sköpunar 12 þúsund nýrra starfa sem þingflokkur Framsóknarmanna hefur lagt fram á Alþingi.  Sköpun meiri verðmæta með vinnu er forsenda hærri launa, betri samkeppnishæfni og aukinnar velmegunar.

Í atvinnusköpuninni verðum við að trúa á getu okkar til að vera sjálfum okkur sem mest nóg.  Við verðum að velta fyrir okkur hvað við getum framleitt hér innanlands í auknu mæli til að búa til störf og spara gjaldeyri.  Mikilvægur þáttur í því er að nýta auðlindir, landið og fólkið okkar á sem bestan máta, – til að skapa framtíð fyrir börnin okkar.

Eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar var það mikil framsýni hjá Íslendingum að beina Marshall aðstoðinni m.a. í uppbyggingu virkjana, vega og sjávarútvegsins og njótum við öll góðs af því enn í dag.  Næstu stóru skref verða að koma landbúnaðinum, sjávarútveginum, bílaflotanum og flugvélunum okkar yfir á innlenda, endurnýjanlega orkugjafa. Sama nálgun þarf að vera í uppbyggingu á innlendri matvælaframleiðslu.  Að við tryggjum að sem mest af íslenskum matvælum verði í matarkörfu okkar, á borðum erlendra ferðamanna sem sækja okkur heim og til útflutnings.

Tökum á skuldunum.  Byggjum upp atvinnu.  Tryggjum þannig velferðina.

Framtíð á Íslandi fyrir okkur öll.

(Greinin birtist fyrst í DV)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Alltaf sama rausið: Gera bara EITTHVAÐ aðferðin, asskoti er maður orðin þreyttur á þessu bjévítans þingmanna rausi, lausnin er að losna við þá alla út af alþingi og halda nýjar kostningar STRAX… Burt með fjórflokkinn.. hans tími er löngu liðinn..

    Hluti raustexta þingmansins í skrautbúningi

    „Tökum á skuldunum. Byggjum upp atvinnu. Tryggjum þannig velferðina.Framtíð á Íslandi fyrir okkur öll.“ Alveg týpikst…

  • Magnús Björgvinsson

    Svona fyrst að geta þess að Eygló er í hópi þeirra þingmanna sem ég vildi að væri meira af á þingi. Þ.e. þingmenn sem horfa til lausna og samvinnu um lausnir frekar en að láta skoðun sína mótast bara af því eingöngu að skapa vandamál.
    En svo að þessu með lausn t.d. sem byggir á því að setja þak á verðtryggingu. Nú er ég ekki klár í þessum fjármálum en: Yrði ekki raunin ef að verðbólga er umfam þessi 4% sem þau eru að tala um að vextir verða þá í staðin hækkaðir sem nemur verðbólgunni. Þ.e. að Seðlabankinn verður þá að hækka stýrivexti sem nemur verðbólgunni umfram 4% til að koma í veg fyrir þennslu. Og málið er að þá vextir verður fólk að greiða strax. Sem myndi þá ekki hjálpa þeim sem eru í vandræðum núna. Þ.e. hækkun afborgana nú þegar í staðin fyrir að vertrygging leggs á höfuðstólin og borgast á öllum tímanum?

    Nú var ég að heyra að bara 110% leiðin og skildar aðgerðir hafi lækkað lán hjá skuldugasta hópnum um upp undir 20% að meðaltali eða meira. Það væri spurning hvernig staðan væri núna ef farið hefði verið flata lækkun allra skulda? Held að þingmenn væru þá á kafi í að lækka útgjöld ríkisins enn meira. Skera niður þjónustu og bætur til að geta t.d. komið í veg fyrir hrun Íbúðalánasjóðs.
    Minni svo á að Marshall aðstoðin var styrkur sem við fengum óvænt í meira mæli en nokkur önnur þjóð. Sennilega af því að við leyfðum USA að fá aðstöðu hér. Við keyptum vissulega togara en næstu 40 árin þá héldum við þessu batteríi gangandi með því að fella gengið reglulega til að halda niður launum hér. Sem og að útgerðir flestar urðu gjaldþrota reglulega og við björgðum þeim með framlögum úr ríkissjóð.
    Held að þingmenn ættu nú fyrst að sameinast um að finna lausnir á þessum 1000 milljörðum sem við lokum nú hér inni í landinu. Eins að finna lausn á gjaldmiðilsvanda okkar. Það komi aldrei aftur svona tími eins og var hér eftir 2000 þar sem fólk horfði á gervigengi krónunar og í raun að ef það tæki ekki lán og keypti eitthvað þá væri það að tapa peningum. Og svo gerist eins og venjulega hér það verður hrun.
    Held að Ísland vilji jafnvægi og stöðugleika og hann næst aldrei með Íslenskir krónu, engri samkeppni vegna tolla og innflutningstakmörkunum, örmynt sem þolir ekki eina stóriðju án þess að fara upp og síðan langt niður með verðbólgu sem afleiðingu.

  • Ég held að 99% prósent þeirra sem styðja Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn vilja fá Eygló Harðar í burtu. Eygló er ekki boðleg enda á hún heima í Samfylkingunni enda talar hún þannig.

  • Framsóknarflokkurinn hefur engar lausnir. Enda hafnaði framsóknarflokkurinn lausnum þegar ákveðið var að hafna aðild Íslands að Evrópusambandinu. Allt tal um lausnir á öðrum grundvelli eru bara sjónbrellur sem ekki munu halda frekar en fyrri daginn.

    Íslenskir stjórnmálamenn hafa verið að tala um lægra vaxtastig á Íslandi síðan ég fæddist, það eru orðin 32 ár. Reynslan er hinsvegar sú að ekkert gengur í þeim efnum. Það er alveg pottþétt stefna sem mun ekki ganga upp á Íslandi, enda augljóslega fullreynd og prufuð.

    Þetta vandamál hefur ekkert með stjórnmálaflokkana að gera. Enda hafa allir stjórnmálaflokkar á Íslandi meira og minna verið við völd á Íslandi þennan tíma.

    Ólíkt Íslandi. Þá mun Evrópa og heimurinn allur komast útúr efnahagskreppunni. Það mun væntanlega taka áratuginn fyrir slíkt að eiga sér stað.

    Í dag er engin von til þess að íslendingar komist upp úr kreppunni á næstu árum, eða á svipuðum tíma og nágrannalöndin.

  • Gústaf Níelsson

    Hefur þú ekki komið auga á lág laun í þessu landi, skuldsett lífskjör (vegna lágra launa auðvitað) og skort á framtíðasýn stjórnmálanna, þar sem vernda þarf útsýnið af bæjarhólnum?

    Kreppan í landinu er ekki efnahagskreppa, heldur stjórnmálakreppa. Alþingi er yfirfullt af undirmálslýð, því miður.

  • Það skiptir að vísu ekki öllu máli fyrir fólk sem er að flytjast úr landi – en það er alltaf gott að skrifa góða Íslensku, jafnvel þótt skrifað sé um slæm tíðindi. Í upphafi pistilsins skrifar þú að e-h sé að „flytja erlendis“ en meinar að viðkomandi sé að flytja utan eða úr landi. Þeir sem flytja erlendis eru að færa sig á milli stað í útlöndum -eða erlendis. Fyrirgefðu svo þetta raus Eygló, þú ert vaxandi þingmaður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur