Þriðjudagur 31.07.2012 - 13:34 - 3 ummæli

Að gera ekki neitt

Slæmir hlutir gerast þegar gott fólk gerir ekki neitt.  Þessi orð komu upp í hugann eftir að ég las grein Arnar Gunnarssonar, formanns afrekssviðs ÍA á vefsíðunni fotbolti.net, þar sem hann fjallaði um málefni fótboltamannsins Mark Doninger sem spilaði áður með ÍA og nú með Stjörnunni.

Þar færir hann rök fyrir því að ástæðulaust sé fyrir íþróttafélag að grípa til aðgerða gegn hinum unga fótboltamanni þrátt fyrir að hans bíði hugsanlega dómur vegna tveggja líkamsárása gegn fyrrum kærustu sinni.  Þrátt fyrir að hann hafi þegar hlotið dóm vegna annarrar líkamsárásar, sem Örn gleymir þó af einhverri ástæðu að nefna í grein sinni.

Örn telur að íþróttafélag geti ekki fordæmt hegðun einstaklings né veitt samþykki sitt fyrir henni.  Gæta þurfi að mannréttindum þeirra ekki hvað síst er varðar rétt til atvinnu og réttlátrar málsmeðferðar og mikilvægt sé að styðja við íþróttamenn sem „lenda“ í þess háttar vanda.

Á endanum klikkir hann út með því að segja að íþróttahreyfingin sýni einmitt gott fordæmi með því að hjálpa viðkomandi einstaklingum og sleggjudómar megi ekki vera hluti af þeim skilaboðum sem hún tekur þátt í.

Gott fordæmi?

Þetta rifjaði upp gamlar óþægilegar minningar þar sem manneskja sem mér þótti vænt um þurfti að upplifa sambærilega hluti af hendi knattspyrnumanns.

Hversu jákvætt það þótti hversu aðgangsharður hann var í vörninni, kannski á grundvelli ofbeldishneigðar sinnar. Hversu mikill glamúr var yfir þessum pilti, alveg þar til vinkona mín fór ítrekað „að ganga á veggi“.  Hversu spennandi hann þótti í ljósi hæfileika sinna á knattspyrnuvellinum, alveg þar til hann sat af sér sinn fyrsta fangelsisdóm af mörgum.

Áfram hélt hann þó að spila fótbolta.

Hefði það breytt einhverju að hafa samband við íþróttafélagið? Miðað við skrif Arnar Gunnarssonar tuttugu árum seinna, virðist svarið vera nei.

Á þessum tuttugu árum virðist þó eitthvað hafa breyst.  Á vefsíðum bæði ÍA og Stjörnunnar má nú finna siðareglur félaganna sem samþykktar voru í fyrra.

Í kaflanum um eldri iðkendur má finna ákvæði um hvernig bæði eldri iðkendur og stjórnarmenn skuli haga sér innan íþróttahreyfingarinnar.  Eldri iðkendur skulu ávallt vera til fyrirmyndar varðandi framkomu, jafnt utan vallar sem innan og hafa hugfast að þeir eru fyrirmynd yngri iðkenda.  Þeir skulu aldrei samþykkja né sýna ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.  Um stjórnarmenn segir að þeir skulu standa vörð um anda og gildi félagsins og sjá um að hvort tveggja lifi áfram meðal félagsmanna og þeir skulu taka alvarlega ábyrgð sína gagnvart félaginu og iðkendum.

Ekkert segir hins vegar um hvað gerist ef menn brjóta siðareglurnar, því væntanlega telst það að fá dóm fyrir líkamsárás að hafa sýnt ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði eða hvað?

Skilaboð samfélagsins

Við getum breytt þessu.  Skilaboð samfélagsins, skilaboð íþróttahreyfingarinnar sjálfrar, skilaboð hvers og eins skipta máli.  Við getum öll sagt hingað og ekki lengra.  Þessi hegðun er ekki ásættanleg, er ekki íþróttamannsleg og við viljum hana ekki.

Ekki í íþróttahreyfingunni, ekki í samfélaginu.

Gott dæmi um þetta er forvarnarhópur ÍBV. Eftir síðustu Þjóðhátíð var samfélagið allt enn á ný í áfalli eftir fjölda tilkynninga um nauðganir og margir veltu fyrir sér hvað væri hægt að gera.  Forsvarsmenn ÍBV fengu á sig mikla gagnrýni og kröfur voru á lofti um að leggja Þjóðhátíðina af.

Nokkrir frábærir einstaklingar ákváðu svo að gera eitthvað og tryggja að ofbeldismenn myndu ekki fá neitt skjól í þögn eða aðgerðaleysi íþróttahreyfingarinnar eða samfélagsins.  Verkefnið heitir Bleiki fíllinn. Bleiki fílinn er táknmynd þessa aðgerðaleysis, vanmáttar, þöggunar og kannski „sleggjudómsleysis“ okkar allra þegar við bregðumst ekki við ofbeldi.

Talsmaður hópsins orðaði þetta vel í viðtali: „Bleiki fílinn stendur náttúrulega fyrir frasann góðkunna um vandamál sem má ekki tala um, vandamál sem er lokað á. Þetta er samfélagslegt vandamál sem þarf að berjast gegn.  Auðvitað gerist þetta ekki bara á Þjóðhátíð en einhvers staðar verður maður að byrja.“

Ábyrgðin er ekki okkar á ofbeldinu, en við berum ábyrgð á aðgerðaleysi okkar, þögguninni, með því að bregðast ekki við eða jafnvel réttlæta tilvist bleika fílsins.

Hættum að vernda ofbeldismenn.

(Birtist fyrst í DV 30. júlí 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Meðvirknin þessa formanns er átakanleg og stenst ekki samanburð við neitt nema það að konum sem ljúga naugunum upp á menn er ekki gerð refsing af því þær eiga við ,,erfiðleika að stríða og þurfa fyrst og fremst hjálp.“

  • Ofbeldi þessa vesæla manns var í boði Norðuráls meðan hann spilaði fyrir ÍA.
    Hverjir eru helstu stuðningsaðilar Stjörnunnar?
    Hvað eru stjórnendur þeirra fyrirtækja að hugsa?

  • Árni Þorsteinsson

    Sæl Eygló. Góð grein hjá þér og þörf umræða um þessi ógeðslegu mál sem taka þarf á af fullri hörku. Mig langar samt að benda á að víðar er þöggun og víða starfar fólk sem á að snúa sér að öðru en því sem það gerir í dag. Á alþingi sitja t.d. í skjóli þöggunar dæmdir þjófar, kúlulánþegar, braskarar og eiginhagsmunapotarar sem nota stjórnmálin og hagsmunatengsl út um allar koppagrundir til að auðgast á kostnað okkar sem greiðum þeim launin og öll fríðindin sem þið lædduð inn korteri fyrir þinglok. Þá vantaði nú ekki samstöðuna og þöggunina. Flokksbræður þínir ýmsir auðguðust óheyrilega og óheiðarlega í skjóli flokksins og þöggunarinnar. Í skjóli hennar stálu þeir t.d. innistæðu minni í tryggingarsjóði Samv.tr. og þöggunin var alger. Ég tek það fram að ég fylgist mikið með störfum og málflutningi einstakra þingmanna á þingi og finnst þú ein af fáum sem hlustandi og takandi er mark á, þrátt fyrir að vera í röngum flokki 🙂 Gegnsæi, heiðarleiki, virðing og samkennd eiga aðvera aðall þingsins, óflekkað mannorð, heiðarleiki, heilindi og sterk siðferðiskennd eiga að vera aðall þeirra sem véla um afkomu heillar þjóðar sem búin er að missa allt traust á þeirri starfsstétt sem þú heyrir til. Bestu kveðjur. Árni Þorsteinsson Neskaupstað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur