Mánudagur 10.09.2012 - 11:06 - 7 ummæli

Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Síðastliðinn fimmtudag skrifaði Jón Steinsson mikla lofræðu um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í Fréttablaðið. Jóni svíður að stjórnvöld skuli ekki njóta sannmælis meðal íslensks almennings og tínir til ýmis atriði sem hann telur henni til tekna. Vissulega er rétt hjá Jóni að ríkisstjórnin er ekki alslæm og ýmislegt hefur áunnist við að reisa landið úr rústum fjármálahrunsins. En heldur þótti mér sérkennilegt að telja til afreka tvö af stærstu mistökum stjórnarinnar.

Í greininni hrósar Jón stjórnvöldum fyrir vel heppnaða einkavæðingu bankanna og að hafa ekki farið í almennar aðgerðir til hjálpar skuldugum heimilum. Einmitt í þessum tveimur atriðum greinir á milli stefnu stjórnvalda og þeirra leiða sem Framsóknarflokkurinn lagði til í kjölfar hrunsins.

Við lögðum til að við uppgjör milli gömlu og nýju bankanna yrði svigrúmið sem þar myndaðist nýtt til að fara í almennar leiðréttingar á lánum heimila og fyrirtækja. Með því yrði tryggt að jafnt yrði látið yfir alla ganga og þeir sem varlega fóru fengju aðstoð, ekki síður en þeir sem spenntu bogann of hátt fyrir hrun. Tekið yrði tillit til hugsanlegs ólögmætis gengistryggingarinnar við uppgjörið og kröfuhafar látnir taka ábyrgð á óvarlegum lánveitingum til bankanna.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hunsaði þetta allt. Andlitslausum vogunarsjóðum voru afhentar skuldir heimilanna til innheimtu og aðgangsharka þeirra hefur skilað bönkunum 200 milljarða hagnaði frá hruni. Jón heldur því fram að tillögur Framsóknarmanna hefðu ?verðlaunað þá sem fóru sér að voða fjárhagslega á árunum fyrir hrun á kostnað þeirra sem fóru varlegar?. Staðreyndin er sú að það er einmitt það sem núverandi stjórnvöld hafa gert.

Helstu úrlausnir á skuldavandanum hafa ekki komið frá ríkisstjórninni, heldur með þrautseigju einstaklinga fyrir dómstólum. Aðgerðir stjórnvalda hafa nánast verið eins og að spila í rússneskri rúllettu – hending ein hefur ráðið því hvort tegund láns, orðalag samninga, tímasetning eða veð hafa orðið til þess að fólk hafi fengið úrlausn sinna mála eða skilið eftir í skuldafjötrunum.
Í aðgerðum stjórnvalda hefur ekki falist nein sanngirni, réttlæti eða jöfnuður. Afleiðingin er að aldrei hafa fleiri Íslendingar verið á vanskilaskrá og aldrei fleiri í vanskilum við Íbúðalánasjóð.
Það er spurning hvort í orðum Jóns Steinssonar endurspeglist málshátturinn að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. sept. 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Halldór Halldórsson

    Jón Steinsson er einn þeirra sem heldur því fram að það megi ekki hrófla við „fjármagnseigendum“ á heimsmarkaði og í því ljósi á að lesa allt sem hann segir og skrifar!

  • Hjálmtýr Heiðdal

    „Í aðgerðum stjórnvalda hefur ekki falist nein sanngirni, réttlæti eða jöfnuður. Afleiðingin er að aldrei hafa fleiri Íslendingar verið á vanskilaskrá og aldrei fleiri í vanskilum við Íbúðalánasjóð“.
    „Aldrei fleiri“… auðvitað – hér varð hrun.
    Þetta getur enginn skrifað í fullri alvöru og ætlast til að menn taki sig alvarlega – og kanski síst kjörinn þingmaður.

  • Það er einnig til íslenskt máltæki; „Glöggt er gests augað“.

  • Hvernig ætluðuð þið að fá kröfuhafa til að samþykkja að veita afslátt á skuldum viðskiptavina? Gæti verið um sama dómgreindarskort og þegar fromaðurinn fór til Noregs til að tryggja þjóðinni 2000 milljarða lánalínu?

    Ætluðu þið að kaupa kröfuhafa út?

    Myndu þið veita skuldurum íbúðarlánasjóðs sambærilega afslátt?

    Fannst ykkur ekki trúverðugleiki ykkar hverfa þegar þið töluðu um 20% flata afskrift yrði kosnaðar laus en síðan kom í ljós að kosnaðurinn yrði 285 milljarðar?

    Ætli að flokkurinn verði ekki skilgreindur sem flokkur innistæðulausra upphrópanna.

    1. Ríkisstjórnin hefur valdið meira tjóni heldur en hrunið.
    2. Icesave fer aldrei fyrir dómstóla
    3. Við getum veitt 20% afskrift ríkissjóði að kostnaðarlausu.

    Og svo Evrópumetið fræga sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.

    „Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 átti hallinn á rekstri ríkissjóðs að vera 36,4 milljarðar. Eftir árið komst fjármálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að hallinn hefði í raun verið 10 milljörðum hærri, eða 46,4 milljarðar. En nú hefur komið í ljós að hallinn var 89,4 milljarðar, semsagt 63 milljörðum meiri en kynnt var í fjárlögum. Það er 173% umfram áætlun og hlýtur að vera Evrópumet í skekkju í rekstri ríkis á síðasta ári, segir formaður Framsóknarflokksins.“

    En 36,4 milljarðar – 89,4 milljarðar eru 53 milljarðar ekki 63 og aukningin er 145,6% en ekki 173%.

    Ætli Evrópumetið í skekkju séu ekki fjárlög 2008 sem áttu að skila 39 milljörðum í afgang en endaði í rúmu 210 milljarða tapi.

    En svona er nú veruleikafyrringin í Framsóknarflokknum og ekki er ég enn farinn að tala um hlutverk ykkar í hruninu sjálfu.

  • Magnús Björgvinsson

    Er ekki til máltæki sem segir að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Finnst alveg undravert að Alþingismaður sem er jafn vandaður og Egló fari að taka þátt í þessu bulli. Sér í lagi um meintan ójöfnuð og óréttlæti núverandi ríkisstjórnar. Bara það að tala eins og ríkisstjórn Íslands hafi frjálsan aðgang að öllum lánum og eignum lífeyrissjóða er náttúrulega þvílíkt bull að það tekur engu tali. Minni Egló líka á því að ríkisstjórnin afhennti engum vogunarsjóðum eitt eða neitt þeir áttu gömlubankana eða þrotabú þeirra með húð og hári. Ríkisstjórnn samdi við þá að stofna nýju bankana og fella niður um 80% af skuldum sem þeir áttu hjá viðkomandi bönkum. Finnst þetta mjög barnaleg grein frá þingmanni sem ég hef haft mikla trú á

  • Eygló Harðardóttir

    Áhugaverð ummæli. Það sem kemur fram í greininni er nákvæmlega það sem við framsóknarmenn höfum sagt allt þetta kjörtímabil og ég hef margítrekað skrifað. Hvet menn til að lesa eldri greinar mínar. Mín skoðun er einfaldlega sú að stjórnarflokkarnir og stuðningsmenn þeirra skulu fara varlega í að hampa sér á því að þeir hafi afhent erlendum vogunarsjóðum bankana, 200 milljarðar króna hagnað þeirra og tapað tækifærinu til að leiðrétta skuldir heimilanna á sanngjarnan og réttlátan máta.

  • Margt hefur verið gert til að létta skuldavanda heimilanna m.a. frádráttur vegna vaxta og fl. og fl. Það skiptir miljörðum. Einhvernvegin finnst mér að aðstoða þurfi einstaklinga með tilliti til aðstæðna en ekki koma með flata 20% niðurfellingu skulda sem gagnast mest þeim sem efnameiri eru.
    Ánægjulegt að framlag stjórnvalda við að moka út úr fjósi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar skuli metið af þeim sem hafa það að atvinnu að fylgjast með uppbyggingarstarf eftir hrunið í hinum ýmsu löndum heims.
    „Glöggt er gests augað“
    En hvað um það. „Engin er spámaður í sínu föðurlandi“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur