Sunnudagur 09.09.2012 - 19:01 - 12 ummæli

Iðgjöld til lausnar skuldavandans

Landssamtök lífeyrissjóða hafa lagst alfarið gegn nauðsynlegri skuldaleiðréttingu og fært skýr rök fyrir máli sínu.  Nú síðast með álitsgerð um skattlagningu séreignasparnaðarins frá hæstaréttarlögmanninum Einari Gauti Steingrímssyni.  Þar kemst lögmaðurinn að þeirri niðurstöðu að almenn skattlagning á séreignasparnaðinum stangist á við 65., 72. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Þar er verið að tala um jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, möguleika Alþingis til að leggja á nýja skatta og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Væntanlega telja þeir þetta vera afturvirka skattheimtu.  Eignarrétturinn er einnig mun skýrari gagnvart séreignasparnaðinum en sameignarsjóðunum.

Lífeyrissjóðirnir hafa einnig haldið fram að 110% leiðin og greiðsluaðlögun á lánsveðum gangi ekki upp vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og dómstólar hafa tekið undir með þeim hvað varðar greiðsluaðlögunina.

Hvað er þá til ráða?  Ekki viljum við að lífeyrissjóðirnir eða löggjafinn brjóti stjórnarskrána.

Lífeyrissjóðir virðast hvorki geta fellt niður skuldir hjá lífeyrisþegum né leyft skattlagningu á uppsafnaðan lífeyrissparnað.  En hvað með Fagnaðarár (Jubilee) í greiðslu iðgjalda inn í lífeyrissjóðina?  Fagnaðarárið var kjarni laga Mósesbóka biblíunnar þar sem kveðið var á um að skuldir skuli felldar niður  með reglulegu millibili og þrælar leystir úr skuldaánauð. Við virðumst eiga í erfiðleikum með að gera það beint, – en hvað með að sleppa því í 1 ár að borga iðgjöld í lífeyrissjóðina og nýta fjármunina frekar í niðurfærslu skulda?  Iðgjöldin færu til ríkisins sem skattur og ríkið myndi nota peningana til að færa niður höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna?

Efnahagsleg áhrifin væru jákvæð.  Skuldsetning heimilanna myndi lækka og peningamagn í umferð minnka, – en nú þegar sitja lífeyrissjóðirnir með 160 milljarða króna í innistæðum sem þeir geta ekki fjárfest. Árleg iðgjöld lífeyrissjóðanna eru um 200 milljarðar króna og 20% af verðtryggðum skuldum Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna eru um 195 milljarðar króna.

Aðild að lífeyrissjóðum og lágmarksiðgjöld eru lögbundin og Alþingi getur breytt sínum eigin lögum.  Breytingin yrði tímabundin og framvirk, – ekki afturvirk og Alþingi er frjálst að ráðstafa skatttekjum eins og það telur best.  Iðgjaldaskatturinn myndi ganga jafnt yfir alla og því ekki stangast á við jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.  Ríkissjóðurinn myndi geta komið til móts við núverandi lífeyrisþega í gegnum tryggingakerfið, ef til skerðinga kæmi. Mótrökin væru að þetta myndi rýra sparnaðinn sem þessu nemur, hugsanlega veikja stuðninginn við sjálft lífeyriskerfið og að skoða þyrfti samspil laga og samninga um iðgjöld.

Að loknu Fagnaðarárinu færu hlutir aftur í samt horf og iðgjöldin héldu áfram að streyma inn í lífeyrissjóðina.

Hvað finnst ykkur?  Hvaða önnur með- og mótrök væru gegn þessari hugmynd?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

 • Björn Kristinsson

  „Iðgjöldin færu til ríkisins sem skattur og ríkið myndi nota peningana til að færa niður höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna?“

  Rikíð hefur ekki enn sýnt að það hafi þann þroska sem þarf til að höndla skatttekjur.

  Það eru ótalmörg dæmi um að almenningur og fyrirtæki hafi greitt og greiði gjöld sem eru eyrnarmerkt ákveðnum málaflokki. Niðurstaðan hefur orðið sú að aðeins hluti af greiddum gjöldum rennur til viðkomandi málefnis. Mismunurinn rann til ríkisins.

  Hugmyndin er góð Eygló en því miður er Alþingi ekki treystandi til að sjá um framkvæmdina.

 • Jón Ólafur

  Helstu mótrökin sem maður sér við fyrstu sýn, eru að þeir sem eiga skuldlausar íbúðir, og vita ekki hvað vertryggt lán er, myndu blása mikinn.
  En eitt er alveg kristal tært að þann Forsendubrest sem varð á verðtryggðum lánum við Hrunið, verður að leiðrétta, það voru gríðarleg mistök að taka vísitöluna ekki úr sambandi við Hrunið.
  Samk. lögum um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga Nr. 63/1985
  bar ríkistjórninni að taka vísitöluna úr sambandi strax eftir Hrun.
  1.gr „skal misgengi sem orsakast af hækkun vísitölu neysluverðs eða annarar viðmiðunarvísitölu lána, umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist“
  Síðan má minna á MiFID tilskipunina sem var lögleidd hér 1. nóv. 2007 sem bannar almenningi öll viðskipti með afleiður, síðan lög um neytendavernd frá 1994-2000 sem banna sömuleiðis verðtryggð lán.

 • Sannast það ekki enn einu sinni að íslenskir pólotíkusar kunna það eitt að fara í vasa venjulegs íslendings og taka þar peninga fyrir eigin sukki ???

  Sækið bara peningana , sem stolið var af fólki og úr sjóðum fólks, til þeirra sem það gerðu !!!

  Það eru nokkrir alþingismenn sem geta leiðbeit þér leiðina að peningunum !!

  Spurðu formannin í sjálfstæðisflokknum t.d. ???

 • Gunnar Skúli Ármannsson

  Sæl Eygló,

  athyglisverð hugmynd og ætti að kanna nánar.
  Í sögulegu samhengi þá er fagnaðarár merkilegt fyrirbæri. Megin ástæðan að hægt var að gera þetta áður fyrr var að valdhafarnir höfðu valdið sem lánadrottnar hafa í dag. Auk þess virðist sem afleiðingarnar vegna skuldanna hafi haft meiri áhrif þá en nú, þ.e. siðgæðisvitund hafi verið meiri.

  Reyndar er hugmyndin að það sé sjálfsagt og hafið yfir allan vafa að allir borgi sínar skuldir til allra alltaf mjög merkileg. Þeim skilningi að þessi hugmynd sé byggð á hagfræði hefur verið komið inn hjá almenningi. Það er rangt því í hagfræðinni er gert ráð fyrir afföllum af skuldum. Þessi hugmynd er mórölsk, snýst um siðfræði eða jafnvel trú. Hefur ekkert með hagfræði að gera en er samt meðhöndluð sem slík í umræðunni.

 • Jafnræðisreglan er brotin í þessu tilviki þar sem að sumir skulda meira en aðrir og að þú ert væntanlega að fara að borga niður skuldir eftir hlutföllum á alla línuna en ekki eftir því hvað fólk borgar í iðgjöld sem að er mismunandi?

  Með þessu ertu líka að láta þá sem að ekkert skulda borga niður skuldir þeirra sem að skulda. Þannig að þú ert í raun að verðlauna þá sem að skulda meira umfram þá sem að hafa passað sig. Eins ertu að skapa aðstæður þar sem að vinnuframlag er í engu samhengi við það sem að fólk fær þá niðurgreitt.

  Þetta er svolítil vankantur sem að enginn, þér til fyrirgefningar, hefur séð leið framhjá.

  Svo er það líka sagnfræðileg staðreynd að ríkið sleppir aldrei tekjulind þegar að það hefur fundið hana og nýtt einu sinni. Minni á bifreiðagjöldin sem að áttu að vera tímabundinn skattur fyrir hvað ca. 40-50 árum?

  Þannig að þetta er ósanngjörn leið fyrir marga og varasöm fyrir heildina.

  En þú ert þó að koma með hugmyndir, það er alveg virðingarvert.

 • Leifur A. Benediktsson

  JR,

  Vafningsfléttan kostaði almenning 4000 milljónir. En samkvæmt BB er það Steingrími að kenna.

  Þetta kallar maður að varpa skuldinni á aðra. Hvítþvottur ársins.

  En varðandi hugmynd Eyglóar um Fagnaðarárið svokallaða,þá er ég nokkuð hlynntur þessu fyrirkomulagi. En hræddur er ég um að grátkór fjármagnseigenda þessa lands muni aldrei samþykkja þetta fyrirkomulag.

  En hugmyndin er góð.

 • Eygló Harðardóttir

  Takk fyrir ummælin.

  Ég velti einmitt fyrir mér jafnræðissjónarmiðinu. Ef þetta er skattur, hef ég skilið stjórnarskránna að Alþingi er frjálst að ráðstafa þeim fjármunum eins og það telur best og til þeirra sem þurfa.

  Nú þegar borgar fjöldinn allur mikið í skatt en nýtir sér lítið af þjónustu hins opinbera. Fólk á besta aldri í fullri vinnu og með góðar tekjur, engin börn lengur í skólum, hraust þannig að það nýtir sér ekki heilbrigðiskerfið, fær engar vaxtabætur vegna þess að það skuldar lítið, ekkert úr tryggingakerfinu þar sem það er ekki á lífeyri, ferðast kannski lítið og nýtir ekki samgöngumannvirki o.s.frv.

  Fólk með hærri laun, borgar hærri skatta, og skv. núverandi fyrirkomulagi er það jafnvel með mismunandi skattprósentu eftir launum. Það er ekki talið stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

  Ég efast ekki um að sömu sjónarmið myndu koma fram við þessa hugmynd og við upprunalegu 20% tillöguna, – en við verðum að vera tilbúin til að ræða lausnir og hugmyndir.

  Annars erum við alltaf bara föst í kassanum.

  bkv. Eygló

 • Þetta væri skattur á launafólk umfram fjármagnseigendur þar sem iðgjöld í lífeyrissjóði reiknast eingöngu af launatekjum en þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur myndu sleppa.

  Einnig myndi reikningurinn lenda að hluta til á skattgreiðendum þar sem skert lífeyrisréttindi vegna þessa iðgjaldafría árs yrðu að hluta til greidd af skattgreiðendum í gegnum Tryggingastofnum vegna lægri lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum í framtíðinni.

  Sem sagt ef menn vilja hlífa fjármagnseigendum og taka þetta af launafólki þá er þetta fín leið.

  Annars eru lífeyrisréttindi eignaréttur og ég efast um að svona eignaupptaka standist stjórnarskrá.

 • Afnema á verðtryggingu af lánum afturvirkt til áramóta 2007-2008, enginn hefur fært rök fyrir því, hversvegna það er ekki hægt,svipað því og þegar verðtrygging á launum var afnumin. Stjórnendur lífeyrissjóða hóta málsókn, ef það er minnst á þetta, og vitna í eignarréttar-ákvæði stjórnarskrárinnar, hvar eru réttindi almennings gagnvart eignarréttar-ákvæðum sömu stjórnarskrár ? Eftir hrun/þjófnaðinn á þjóðinni er framin viðbótar þjófnaður í formi eignaupptöku á húsnæði almennings, sem skýrir væntanlega aukin vanskil hjá íbúðarlánasjóði, fólkið hafnar því að vera á hamsturs-hjólinu (þrælar),hvort þetta er besta lausnin, verður að koma í ljós allavega er þetta hugsun sem miðar að lausn og það er vel.

 • Andrea Jóhanna Ólafsdóttir

  Aldrei gleyma því hver ber meginábyrgð á hækkun lána hins almenna borgara – þangað á að sækja leiðréttinguna. Það á ekki að fara að snúa þessu upp á að láta hinn almenna borgara greiða fyrir leiðréttinguna, það hefur aldrei verið ætlunin með baráttunni.

  Hvalrekaskattur er ein leið áður en eigendur bankanna fara að greiða sér út arð af „hagnaðinum“ á næsta ári

  Eignarnám á lánasöfnum á nafnvirði er önnur leið (því verði sem þau fóru á á milli gömlu og nýju bankanna)

  … það sem er svo ótrúlega gaman í þessu er að leiðirnar eru margar – en leiðin sem farin verður má aldrei lenda á skattgreiðendum sjálfum, því hún á líka að vera ráðning til bankamanna

 • Leifur A. Benediktsson

  Andrea J. Ólafsdóttir,

  Vel mælt og skynsamlega.

  May the force be with you!

 • Sammála hverju orði Andreu J. Ólafsdóttur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur