Föstudagur 07.09.2012 - 18:50 - 3 ummæli

Óbreytt kerfi þegar hentar?

Magnús Kristinsson ákvað að selja fjölskyldufyrirtækið Berg – Huginn til Síldarvinnslunnar. Af því tilefni ákvað meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Vestmannaeyja að leggja til hliðar stuðning við óbreytt kerfi og frjálsan markað stundarkorn í ljósi neikvæðrar áhrifa af flutningi aflaheimilda á efnahag Vestmannaeyja.  Þeir kröfðust þess að fá að ganga inn í kaupin á grundvelli forkaupsréttarákvæðis í lögum um fiskveiðistjórnun.

Hlutverk bæjarfulltrúanna er að sjálfsögðu að gæta að hagsmunum bæjarfélagsins.

Vandinn er að ákvæðið um forkaupsrétt sveitarfélaganna er óljóst.  Í 3. mgr. 12. gr. segir: „Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu.“

Þýðir orðið fiskiskip í lagatextanum eignarhlutur í fyrirtæki eða aflaheimildir?

Af lestri lögskýringargagna með lögunum virðist forkaupsréttur að skipi ná a.m.k. til skipsins sjálfs, fylgihluta þess og í mörgum tilvikum til aflaheimilda líka.  En hvað ef sérsamningur hefur verið gerður um sölu aflaheimilda og flutning á annað skip?  Við eigendaskipti á fyrirtæki er ekki þar með sagt að fyrirtækið sjálft, eða rekstur þess fari frá byggðarlaginu og erfitt kann að vera að sannfæra dómara um annað í ljósi yfirlýsinga forráðamanna Síldarvinnslunnar.  Ekki virðist hafa reynt á þetta ákvæði fyrir dómstólum.

Því til viðbótar er nú fullyrt að eignarhaldið hafi þegar verið flutt frá sveitarfélaginu til Reykjavíkur.

Í framtíðinni kunna fleiri handhafar aflaheimilda að selja, lenda í fjárhagsörðugleikum, hætta rekstri eða falla frá í Eyjum. Því má spyrja hvort bæjarstjórnin þurfi ekki að hvetja til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun til að bæta forkaupsrétt sveitarfélaga, efla almenn byggðaákvæði, dreifðara eignarhald, takmörkun á framsali, uppboði á sjávarafla eða tryggja sveitarfélögum ákveðna hlutdeild í veiðigjaldinu til að hafa efni á að kaupa kvóta?

Í stað þess að standa áfram vörð um óbreytt kerfi?

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Anna B. Mikaelsdóttir

    Ég bý á Patreksfirði og tek hattinn ofanaf fyrir framtaki Vestmannaeyjinga!

    Loksins er óréttlæti kvótakerfisins að skína í gegn, en skrítið hvað það tók mörg ár.
    Allir vita að það þarf kvótakerfi til að veiðar séu sjálfbærar, en það blasir við hverju barni að kvótinn átti alltaf að vera á sanngjörnu uppboði.

    Hverjum finnst „eðlilegt“ að aðstendur Halldórs Ásgrímssonar „gefi“ Höfn í Hornafirði sundlaug?

    Ef svo er að nokkrum finnist það „eðlilegt“ þá skal hinn sami lesa söguna!

    kær kveðja
    anna

  • Ólafur Jónsson

    Það er svolítið skrítið að nú virðast fleirri og fleirri koma fram með hugmyndir að hægt sé að teyja og toga lögin um stjórn fiskveiða. Hagsmuna gæslan grefur sig dýpra og dýpra í umræðuna og má segja að „sumir“ útgerðaraðilar ætli sér að ráða því sem þeir vilja ráða með þessu háttarlagi. Þó lögin séu krystal tær.

    Til þess að losna úr þessari, geggjun spillingar og hagsmunapots þar sem ekki einungis fjármál eru teygð og toguð heldur ekki síður líf og afkoma sjómanna og fiskvinnslufólks um allt land, verður að afnema kvótakefið eins og það leggur sig og taka upp Sóknarmark með allan fisk á markað.

    Með afnámi einokunnar Kvótakerfisins og upptöku Sóknarmarks með allan fisk á markað verður arðurinn af auðlindinni tekinn frá bönkunum og hann fer ekki eingöngu um hendur sjómanna og fiskverkenda heldur dreifist hann um háræðar samfélagsins og mun virka sem vítamínsprauta fyrir alla þjóðina. Eftir 3 ár verður hagvöxtur fólksins á Islandi kominn á sama plan og fólks í Noregi

    Fólk verður að skilja að ekkert fiskveiðistjórnkerfi er svo slæmt og rotið að það borgi sig ekki að eyða því strax þvi vont getur bara versnað.

  • Árni Aðalsteinsson

    „Því til viðbótar er nú fullyrt að eignarhaldið hafi þegar verið flutt frá sveitarfélaginu til Reykjavíkur.“

    og finnst þér Eygló Harðardóttir,sem þingmaður á þjóðþingi Íslendinga ekkert skrýtið við þessa setningu – hér er verið að ræða um óveiddan fiskinn í sjónum sem þingheimur skreytir með orðunum „sameiginleg auðlind“ þegar henta þykir og vænlegt er til vinsælda,en einsog berlega kemur hér í ljós virðist það vera á hendi „skilanefnda“
    afhverju er útgerðum ekki gert að skila inn aflaheimildum til þjóðarinnar þegar útgerð er seld,kaupandinn fær þá skipin og getur bara greitt almenning fyrir frekari afnot til fiskveiða….
    eða er þetta allt orðið eign erlendra kröfuhafa ?
    kv.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur