Þriðjudagur 25.09.2012 - 14:18 - 13 ummæli

Ríkisendurskoðun gegn uppljóstrurum

Kastljós fjallaði um mikla framúrkeyrslu við uppsetningu á bókhaldskerfi ríkisins.  Áætlanir gerðu ráð fyrir 160 milljóna kr. kostnaði en hann virðist hafa endað í rúmum 4 miljörðum.  Umfjöllunin byggði á drögum á svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem þingmenn höfðu margítrekað reynt að fá afhenta. Helstu viðbrögð Ríkisendurskoðunar og Fjársýslunnar, – fulltrúa hins opinbera í málinu eru að stöðva þyrfti umræðuna um skýrsluna.  Ríkisendurskoðun hefur tilkynnt lögreglu um leka á skýrslunni.  Næstu skref virðast vera að fá lögbann á áframhaldandi umfjöllun.

Þessi viðbrögð eru verulegt áhyggjuefni.

Aðalatriðið virðist ekki vera upplýsingarnar í skýrslunni, heldur lekinn sjálfur.

Því á að stöðva hann.  Með öllum tiltækum ráðum.

Þetta segir einfaldlega að við verðum að setja lög um vernd uppljóstrara. Í þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis sem Birgitta Jónsdóttir var fyrsti flutningsmaður að er fjallað um hvernig við eigum að gera það.

Þar segir um vernd uppljóstrara:

„Tölfræðilegar upplýsingar benda til að afhjúpendur (e. whistleblowers) hafi komið upp um mörg spillingarmál, bæði í einkageiranum og þeim opinbera. Ýta ætti undir slíkar afhjúpanir og telja flutningsmenn rétt að íhuga hvort mögulegt sé að setja sértækar reglur sem auka hvatann til þess að afhjúpa óeðlilega starfshætti. Í því skyni kæmi m.a. til greina að veita órjúfanlegan rétt til að afhenda þingmönnum upplýsingar… Skoða ætti hvort gera eigi breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, varðandi þagnarskyldu til að almannahagsmunir varðandi upplýsingafrelsi séu sem best tryggðir. Sama gildir um ákvæði í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, varðandi sveitarstjórnarmenn. Tillögur þessa efnis hafa þrisvar verið lagðar fyrir Alþingi, á þskj. 41 á 130. löggjafarþingi, þskj. 994 á 132. löggjafarþingi og þskj. 330 á 133. löggjafarþingi. Einnig var þar lagt til að breyta 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að refsilaust yrði að greina frá leynilegum upplýsingum í þágu almannaheilla.“

Menntamálaráðherra var falið að fylgja eftir þessari ályktun Alþingis.

Ég hef því óskað eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd með fulltrúum ráðuneytisins og starfshóps sem skipaður var til að fylgja tillögunni eftir til að fá upplýsingar um hvenær við munum sjá lagafrumvarp í þessum anda frá ráðherranum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Bergsteinn

    Ólíkt hafist þið að „systurnar í Framsókn“. Reyndu að koma þinni skynsemi að hjá Vigdísi. Það verður að grafa eftir öllu í þessu máli og koma því upp á yfirborðið, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

  • Ragnar Freyr Ingvarsson

    Þið framsóknarmenn virðist nú ekki deila skoðunum á þessum leka, stalla þín í Framsókn – Vigdís kallar skýrsluna „þýfi“!

  • Sammála þessu með uppljóstrarann hann á að fá frið, þarft verk fyrir alla aðila.
    En annars, svona fer þegar á að laga bókhaldskerfi að viðskiptavininum það er aldrei gert og það vita allir sem fást við bókhald.
    Viðkomandi verður að laga sig að kerfinu annars fer svona eins og dæmið sýnir. Bókhaldskerfi eru bara svona takmörkuð af ástæðum sem liggja í möguleikum kerfisins.
    Væri ekki atriði að ræða við fagaðila um ástæðurnar fyrir þessu öllu saman og hvers vegna var ekki farið að þeirra ráðleggingum í upphafi.
    Þar liggur hundurinn grafinn, langt aftur í sögu Skyrr.
    Annars hef ég aldrei heyrt um fyrirtæki sem hefur tekið upp nýtt bókhaldskerfi án þess að kerfi hafi reynst 3 – 4 sinnum dýrara heldur en gert var ráð fyrir og samt varð fyrirtækið að laga sig að kerfinu.
    Annar kostur er ekki í boði og reyndar ekki raunhæfur af mjög mörgum ástæðum sem sjaldan er rætt um nema milli fagaðila.
    En það meiga þeir ekki ræða opinberlega.

  • Sammála þér um það Eygló að þessi tilhneiging til þess að taka hart á uppljóstruninni frekar heldur en tilefni hennar, er áhyggjuefni. Undarlegast er þó að vísa til þess að uppljóstrunin sé „ógn við almannaheill“. Ég hefði nú frekar haldið að leyndin yfir þessu máli, sem og inntak þess, sé ógnun við almannaheill.

    Og ólíku er saman að jafna framgöngu ykkar flokkssystranna, verð ég nú bara að segja, eins og fleiri hér.

  • Kári Geir

    Lagaleg vernd slíkra uppljóstrara ætti að sjálfsögðu að ná til þess að ljóstra upp um tilvist gagna á borð við þessi skýrsludrög. Að þau liggi fyrir, vinna við þau hafi dregist, þau séu gagnrýnin.

    En ekki til þess að gera opinberar upplýsingar sem geta verulega skaðað hagsmuni einstaklinga, fyrirtækja eða íslenska ríkisins.

  • Eygló – tókstu eftir eftirfarandi atriðum úr frétt RÚV?

    „Þannig kom ekki fram fyrir dómi, að Atli Arason, sem árið 1999 tók við starfi framkvæmdastjóra sölu og markaðsdeildar Skýrr og starfaði þar þegar útboðið átti sér stað, er bróðir Þórhalls Arasonar, sem var skrifstofustjóri fjárreiðuskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sem hafði innleiðingu og umsjón bókhaldskerfisins á sinni könnu.“

    „Athygli vekur að þriðji bróðirinn, Sveinn Arason, hefur undanfarin fjögur ár haft það verkefni á sínu borði að vinna sem ríkisendurskoðandi skýrslu um útboðið, kostnað þess og innleiðingu til skoðunar fyrir Alþingi. “

    „Ríkisendurskoðandi hefur semsagt undanfarin fjögur ár haft til skoðunar mál sem tengist viðskiptum þar sem bræður hans sátu hvor sínum megin við borðið.“

    Þetta eru ekkert minna en stórfelld stjórnsýsluafglöp, og ber að krefjast afsagnar Ríkisendurskoðanda, að hafa látið þetta ganga fyrir sig með þessum hætti.

    En viðbrögð hans ofan í ofangreinda afhjúpun, bæta gráu ofan á svart, þannig að ég sé ekki nema eina leið mögulega úr þessu – TAFARLAUSA AFSÖGN.

    Það sé eina leiðin fyrir embættið að vinna sig til baka í álit.

    Kv.

  • Anna María

    Það eina sem þarf að gera er að opna Ríkisbókhald og hafa gögnin opin þeim sem vilja skoða. Allt er skannað og því er auðvelt að nálgast gögnin.

    Ég fullyrði að sjálfkrafa myndi kostnaður ríkisins dragast saman um 10 – 15 % sem er sennilega verðmiðinn á spillingunni í landinu. Spilling kostar og þeir sem vilja koma í veg fyrir gegnsæi hafa eitthvað að fela.

  • Enn og aftur koma alþjóðastofnanir almennum borgurum á Íslandi til bjargar:
    http://www.osce.org/odihr/94155

    Valdaklíkur skilja auðvitað ekkert í almenningi að vera ósjaldan fyrir þeim í gulleitinni sinni eilífu. En umræðan er komin lengra víða erlendis og ekki að undra að valdaklíkur skuli fyrirlíta flestar alþjóðastofnanir, nema NATO og IMF.

  • Friðrik Yngvason

    Það verður fróðlegt að sjá flækjuna alla þegar hún verður birt.

    Mig grunar að líkt sé ástatt um annað stórt tölvuverkefni sem er SAGA

    sjúkraskrárkerfið , sem hvorki virkar vel né er fullklárað en kostar

    marga miljarða , og kostnaðurinn við það tikkar hvern dag langt umfram

    áætlanir.

  • Það virðist nú eins og fyrir mér sé búið að stela hartnær 4 milljörðum frá íslensku þjóðinni í þessu máli, og svo á að kæra þann sem kom upp um það, byrjum á byrjuninni…
    Einhverjir fundið upp nýja leið til að ræna af þjóðinni, jarðgangagerðinn er orðin of augljóst leið

  • Halldór Halldórsson

    Eygló! Mætti ekki örugglega reikna með stuðningi þínum fyrir, t.d. bókarablók á bókhalds- og endurskoðunarskrifstofu, sem er að vinna í bókhaldi og gerð ársreiknings, en ákveður að senda allt klabbið til DV eða RÚV áður en það er sent til Skattstjóra; vegna þess að viðkomandi bókarablók líkar ekki sumar úttektir og greiðslur einstaklingsins/fyrirtækisins/stofnunarinnar?

  • Hálfdán Ingólfsson

    Með þessum skrifum þínum fellur þú, í mínum huga, í flokk örfárra þingmanna sem virðast meta málefnin mikilvægari hugsanlegum þörfum flokksklíkanna. Húrra fyrir þér!
    Til samanburðar má benda á bræðiskast flokksystur þinnar, Vigdísar Hauksdóttur, sem leggur meiri áherslu á að styðja hylmingu en opinskáa umræðu. A.m.k leggur hún aðaláherslu á að skýrsludrögin séu ÞÝFI, en ekki mikilvæg uppljóstrun sem opnar glufu fyrir heiðarlega aðila í stjórnsýslunni til að ráðast gegn spillingunni sem virðis hafa gengsýrt stjórnsýsluna undanfarna áratugi.
    Í mínum huga vaknar spurningin: Hvað hefur Vigdís Hauksdótti og hennar klíka að fela þegar kemur að þessu máli?

  • Haukur Kristinsson

    Er „áhyggjuefni“, segja kellur, Eygló og Ólína, „áhyggjuefni“.

    Halló, þetta er ekki áhyggjuefni, þetta er skandall!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur