Sunnudagur 30.09.2012 - 12:00 - 3 ummæli

Kosningaloforðið efnt

Lýðræði ríkti á blogginu og Facebook á föstudag.  Lesendur og vinir ákváðu, eftir mjög spennandi kosningar, að íslenskir lambaskankar með spænsku ívafi yrðu í matinn á laugardagskvöldið.

Næsta skref var að efna kosningaloforðið og töfra fram hægeldaða lambaskanka með chorizo pylsu og hvítlauk ásamt silkimjúkri kartöflumús að hætti Lorraine Pascale.

Eftir að hafa kíkt í gott morgunkaffi hjá framsóknarmönnum í Kópavogi lág leiðin í Pylsumeistarann í Laugalæk.  Skemmtilegt hvað úrvalið af góðum pylsum hefur aukist á síðustu árum.  Flottar chorizo pylsur rötuðu í pokann auk þess sem ég stóðst ekki freistinguna og bætti líka við Bratwurst, svona í tilefni Oktoberfest.

Freistingar á hverju strái.

Lambaskankarnir voru í kjötborðinu í Melabúðinni, en flest annað var til. Lambaskankar, pipar, salt, olía, rauðvín, balsamik edik, lárviðarlauf, paprika (notaði reykta ungverska),  piparkorn, hvítlaukur, ferskt rósmarín, nautakraftur, chorizo pylsa, gulrætur, rauðlaukur og smá hunang.

Í kartöflumúsinni eru að sjálfsögðu kartöflur ásamt smjöri, rjóma, pipar og salti.   Ég er ekki enn þá búin að ákveða hvort gullauga eða rauðar eru betri í kartöflumús og skipti því reglulega á milli.

Allt tilbúið fyrir eldamennskuna.

Lambaskankarnir voru saltaðir og pipraðir og brúnaðir í olíu í stórum potti.

Skankarnir farnir að brúnast.

Ég setti lambaskankana til hliðar í eldfast form og setti rauðvínið og balsamik edikið í pottinn og sauð í 5 mínútur.  Hrærði aðeins til að ná þessu brúna úr pottinum skv. skýrum fyrirmælum frá Jamie Oliver.  Bragðið, segir hann, kemur víst frá öllu þessu brúna sem ég skrapaði áður fyrr niður í vaskinn.

Lambaskankarnir voru ekki lengi einir í forminu.  Út í var bætt heilum hvítlauk (skorin lárétt, enginn fundur á sunnudegi…), 2 lárviðarlaufum, 2 tsk af ungverskri papriku, nokkrum heilum piparkornum og 2 rósmarín sprotum ásamt rauðvíni, ediki og kjötkrafti.

Allt tilbúið fyrir ofninn.

Þetta var látið mala í tvær klukkstundir í ofninum á 140°C. Var ég búin að nefna hversu ánægð ég var með niðurstöðu kjósenda?  Cannellonið hefði þýtt hnoð á pastadegi, endalausar rúllur í gegnum pastavélina, hlaup á eftir lífrænni mjólk til að gera ricotta ostinn plús Pylsumeistarinn klikkaði aðeins á ítölsku pylsunni.

Yndislegt þegar kjósendur eru svona almennilegir við þingmennina sína 🙂

Næst chorizo, rauðlaukur og gulrætur.

Skar niður pylsurnar, rauðlaukinn og gulræturnar og skutlaði út í ásamt hunangi.  Las aðeins, braut saman þvott og heyrði í nokkrum félögum…

Næst voru það kartöflurnar.  Þessi síða segir allt sem þarf um gerð góðrar kartöflumúsar, The Reluctant Gourmet.

Takið sérstaklega eftir skilaboðunum á svuntunni...

Þarf ekki e-hv grænt með?

Eftir 1 klst í viðbót í ofninum tók ég skankana og grænmetið til hliðar og síaði vökvann og setti í pott til að láta þykkna.

Þetta var allt frekar dökkt þannig að það varð að finna eitthvað grænt með og fyrir valinu urðu ljúffengar sykurbaunir frá Coop.

Krásirnar komnar á borð.

Allt komið á borðið, vantar bara umsagnaraðila.

Ætli þetta sé gott?

 

Ég elda, þú vaskar upp!

Endirinn á öllum góðum máltíðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Takk fyrir þetta Eygló.
    Virkilega gaman að því þegar alþingismenn sýna almenningi inn í sitt hversdagslíf.
    Vonandi hefur þú átt gott kvöld 🙂

  • Hvað eyddir þú eiginlega löngu tíma í matseldina?

  • Eygló Harðardóttir

    Tíminn í ofninum var 3 klst en kannski eyddi ég sjálf um klst í eldhúsinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur