Miðvikudagur 10.10.2012 - 08:55 - 3 ummæli

Fordómar, mismunun og transfólk

Í vor samþykkti Alþingi ný lög um réttarstöðu transfólks. Við vinnslu frumvarpsins þurfti ég að horfast í augu við mína eigin fordóma og það var ekki þægilegt.

Við vinnslu málsins kom fjöldi fólks á fund velferðarnefndar og þar á meðal Anna Kristjánsdóttir. Ég hafði í gegnum tíðina fylgst með henni í fjölmiðlum, lesið bloggpistlana hennar og þótt þeir skemmtilegir. En þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hana og það var ekki auðvelt. Ég hafði áhyggjur af því að horfa of mikið á hana, nota ekki rétt kynorð og spyrja kannski of mikið. Fundurinn var erfiður og óþægilegur.

Ég fann að ég var ekki ein um að finnast það.

Fátt er nefnilega stærri hluti af okkur en kyn okkar. Fyrsta spurningin þegar við fæðumst er oftast hvort við erum strákur eða stelpa, fötin og snuðin eru í „réttum“ lit og uppeldi okkar einkennist af líffræðilegu kyni.

Eftir samþykkt laganna sat þetta allt saman í mér.

Ég hef talið mig frekar hleypidómalausa manneskju og hef ekki oft þurft að horfast í augu við mína eigin fordóma. Þó hef ég ætíð geymt með mér frásögnina frá opnun Helfararsafnsins í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna. Þar hófst sýningin á því að gestir urðu að velja á milli tveggja hurða. Yfir annarri stóð „án fordóma“ og hin „með fordóma“. Þegar fólk valdi hurðina merkt „án fordóma“ var hún læst.

Þannig var fólk minnt á að enginn er án fordóma. Ekki þú og svo sannarlega ekki ég.

Því spurði ég sjálfa mig: Ef þetta voru mín „hleypidómalausu“ viðbrögð, hvernig ætli staðan sé almennt varðandi mannréttindi transfólks? Eflaust hefði verið auðveldast að hrista þetta af sér og sökkva sér í önnur viðfangsefni. Leyfa þessu bara að liggja og leyfa mér að hunsa þessi viðbrögð mín.

Telja þau jafnvel eðlileg.

En ég gat það ekki. Ég hafði því samband við Önnu og bað um að fá að hitta hana og ræða hvað þyrfti að gera. Hvað ég gæti gert? Hvað gæti Alþingi Íslendinga gert?

Útskúfun, einelti og ofbeldi

Á síðustu áratugum hafa Íslendingar tekið stór skref í átt að bættri réttarstöðu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Staða þessara hópa er orðin með því besta sem þekkist í heiminum, en við eigum enn langt í land með að bæta stöðu transfólks. Transfólk er mun líklegra til að verða fyrir útskúfun, einelti og ofbeldi en flestir aðrir þjóðfélagshópar.

Einfaldlega fyrir að vera það sjálft.

Fáir hópar eru í jafn mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi í heiminum og transfólk. Frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2011 voru tilkynnt 816 morð á transfólki á heimsvísu. Talið er að í Bandaríkjunum sé stór hluti hatursmorða á transkonum. Eitt af nýrri dæmunum um misþyrmingar á transfólki er frá Danmörku. Þangað hafði 22 ára gömul transkona frá Guatemala flúð vegna ótta við ofbeldisverk þarlendra stjórnvalda. Þegar hún kom til Danmerkur var henni vísað í flóttamannabúðir fyrir einhleypa karla þar sem henni var margsinnis nauðgað áður en dönsk yfirvöld ákváðu að senda hana aftur til heimalandsins þar sem hennar beið ekkert nema dauðinn. Brottvísuninni var afstýrt á síðustu stundu og mál hennar tekið aftur upp. Nýlegt dæmi hér á landi er þegar transmaður var laminn á skemmtistað í Reykjavík fyrir að fara á karlasalernið.

Þann 31. mars 2010 brást ráðherranefnd Evrópuráðsins við með því að gefa út tilmæli til aðildarríkja um aðferðir til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Þar er bent á að mannréttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks þarfnist sérstakra aðgerða eigi þau að vera virk.

Lagaleg vernd
Með samþykkt laga um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda var verið að bregðast við áliti setts umboðsmanns Alþingis. Í álitinu kom fram að réttarbótar væri þörf til að tryggja grundvallarmannréttindi transfólks með vísan til 71. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndin sem samdi frumvarp það er varð að lögum um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, vakti athygli á því við velferðarráðherra og innanríkisráðherra að nauðsynlegt væri að leggja til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga er lúta annars vegar að refsiverðri mismunun í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi og hins vegar að smánun annarrar manneskju, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.

Því hef ég lagt fram frumvarp sem tryggir réttarstöðu transfólks þannig að refsivert verði fyrir aðila í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi að neita manneskju um vöru eða þjónustu vegna kynvitundar hennar og að sama skapi verði refsivert að ráðast opinberlega með háði, smánun, ógnun eða á annan hátt á manneskju vegna kynvitundar hennar. Með samþykkt þessa frumvarps yrði vernd transfólks gegn mismunun sambærileg og nú er vegna mismunar á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða og kynhneigðar.

Lagaleg vernd tekur þó aðeins á afleiðingum mismununar í garð transfólks. Til að takast á við mismununina sjálfa þurfum við, hvert og eitt, að horfast í augu við eigin fordóma og taka á þeim.

(Fyrst birt í DV 10. okt. 2012)

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hlynur Þór Magnússon

    Prýðilegt. Eykur enn traustið á Eygló Harðardóttur.

  • Þorsteinn Egilson

    Hið bezta mál, gangi þér vel með það. -Liður í að efla mannréttindi í þessu landi.

  • Ásdís Jónsdóttir

    Þarft og nauðsynlegt frumvarp, gangi þér vel Eygló.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur