Föstudagur 02.11.2012 - 13:14 - 6 ummæli

Húsnæði – fyrir okkur öll

„Af hverju er svona dýrt og erfitt að leigja eða kaupa húsnæði á Íslandi?“ spurði ung kona mig nýlega. Hún og sambýlismaðurinn hennar bjuggu þá í bílskúr á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er góð spurning,“ sagði ég. „Það er nefnilega ekkert sjálfsagt að þetta sé svona dýrt.“

Stór hluti hins svokallaða góðæris var tekinn að láni og þær þrengingar sem við göngum nú í gegn um hafa kennt okkur hversu varasamt það getur verið að skulda of mikið, – hvort sem það er ríkið, bankarnir, fyrirtækin eða heimilin. Þetta er hvað sýnilegast á húsnæðismarkaðnum, þar sem lóðaverð, byggingarkostnaður og söluverð fasteigna hefur verið slíkt, að almenningur hefur illa ráðið við að koma sér þaki yfir höfuðið án mikillar skuldsetningar. Þetta háa fasteignaverð og samspil vaxtakjara og verðtryggingar hefur svo spennt upp leiguverð íbúða, svo það er varla valkostur á mörgum svæðum að leigja, fremur en kaupa.

Of flott?

Stjórnvöld hafa svo sannarlega átt sinn þátt í þessari þróun, meðal annars með miklum kröfum til íbúðarhúsnæðis sem settar eru í byggingarreglugerð. Kröfur um lágmarksstærð húsnæðis, suðurglugga, fjölda salerna, geymslur, þvottahús og fleira hafa orðið til þess að hækka fasteignaverð og draga úr framboði ódýrs húsnæðis, hvort heldur er til kaups eða leigu. Nýlegar fréttir af auknum kostnaði við byggingu námsmannaíbúða, sem þó eru aðeins ætlaðar til skammtímaafnota fyrir námsmenn, undirstrika þennan vanda.

Í byggingarreglugerð eru settar fram kröfur vegna aðgengis fatlaðra, sem löngu voru orðnar tímabærar. Það er hins vegar umhugsunarefni að stjórnvöld skuli gera svo stífar kröfur til nýbygginga, að margir tekjulægri einstaklingar eigi ekki annan kost en að leigja sér bílskúra eða iðnaðarhúsnæði til að koma sér og fjölskyldum sínum í húsaskjól.

Raunverulegt val um húsnæði

Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2011 var samþykkt ályktun þess efnis að allir landsmenn skuli búa við öryggi í húsnæðismálum og hafa raunverulegt val um  búsetuform. Jafnframt var lögð áhersla á að auka þurfi fjölbreytni búsetuforma, meðal annars með því að endurskoða og styrkja lög  um samvinnufélög á sviði húsnæðismála. Þá hafa vinstri flokkarnir, sem mynda hina svokölluðu Norrænu velferðarstjórn einnig talað mikið fyrir nauðsyn þess að fjölga leiguíbúðum. Samt virðist lítið gerast í þeim efnum.

Á árunum eftir seinni heimsstyrjöld var mikill húsnæðisskortur á öllum Norðurlöndunum. Stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð og Noregi byggðu þúsundir íbúða og í Svíþjóð var meira að segja talað um milljónaprógrammið. Hugmyndafræðin var að byggja staðlað og vel skipulagt íbúðarhúsnæði og ná þannig niður kostnaði. Þannig var fólki gert kleift að kaupa eða leigja húsnæði á viðráðanlegu verði.

Efla blandaða byggð

Ekkert segir að staðlað húsnæði þurfi að vera einhverjir steinsteypukumbaldar eða að því þurfi öllu að hrúga niður í nýjum úthverfum. Við skipulag á eldri hverfum mætti auðveldlega taka frá hluta lóða undir slíkt húsnæði og efla þannig blandaða íbúðabyggð á grónum svæðum. Óþarfi er að einblína á rándýrar lúxusíbúðir, sem standa svo margar auðar, líkt og við sjáum dæmi um í Skuggahverfinu í Reykjavík. Lykilatriðið er að staðla, byggja í einingum og jafnvel nýta tækifærið til að þétta byggð.

Þá mætti nýta sér aðferðafræði Ikea, sem er að ákveða verð í samræmi við markhóp og hanna svo húsnæðið í samræmi við það.

Hvað varðar námsmenn og aðra tekjulága sem þurfa á tímabundnu húsnæði að halda, má hugsa sér að veita undanþágur frá byggingarreglugerð vegna byggingar húsnæðis fyrir slíka hópa. Þannig hefur AF Bostäder í Svíþjóð fengið undanþágu til að reisa í tilraunaskyni á þriðja tug smáhýsa á bilinu 10 til 37 fm fyrir allt að þrjá leigjendur. Í þeirri byggingarreglugerð sem sett var hér á landi snemma á þessu ári eru sérákvæði fyrir stúdentagarða, en þar er kveðið á um að lágmarksstærð íbúðar skuli vera 37 fm, einstaklingsíbúðar 28 fm og einstaklingsherbergis á heimavist skuli vera að lágmarki 18 fm. Með þessum kröfum er bæði verið að draga úr framboði húsnæðis fyrir námsmenn, auk þess sem leiguverð kann að verða mörgum ofviða.

Dýrt húsnæði ekkert náttúrulögmál

Það er brýnt að grípa til aðgerða til að draga úr skuldasöfnun landsmanna vegna húsnæðiskaupa. Það má gera bæði með því að leggja áherslu á annað búsetuform en séreignir, en ekki síður með því að endurskoða þær kröfur sem stjórnvöld gera til íbúðarhúsnæðis með byggingarreglugerð og lagasetningu.

Það er nefnilega ekkert náttúrulögmál að húsnæði eigi að vera dýrt á Íslandi.

(Birtist fyrst í DV 2. nóvember 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Það er vel hægt að ná íbúðakostnaði niður og bjóða upp á leigu eða kaupleigu sem er mun lægri en nú þekkist. Forsendur til að ná þannig markmiði er að opinberir aðilar standi að hönnun og byggingu. Stofni stofnun sem sjái um málið. Að lagnir verði einfaldar (það getur m.a. verið heilsusamlegra) og að íbúðafjöldi sem byggður er taki mið af hámarkshagræðingu í efniskaupum og uppbyggingu. Það er mikilvægt að mínu viti að starfsmenn slíkrar stofnunnar sjá um alla hönnun, þannig verður sá kostnaður lægri og það sem mikilvægast er, er að öll þekking og þróun verður til innan stofnunarinnar.

  • Björgvin

    Sæl, Eygló

    Góður pistill hjá þér. Það er löngu tímabært að hreinsa til í byggingareglugerðum hér á landi. Kröfur um ákveðnar lágmarksstærðir á hinum og þessum herbergjum íbúðar virðast stundum dregnar upp úr hatti af handahófi.

    Sérstaklega finnst mér krafan um geymslu af ákveðinni stærð út í hött. Þar er verið að gera kröfu um sér rými sem dregur verulega úr nýtingarmöguleikum smærri íbúða og gerir þær þar með dýrari en vera þyrfti.

    Í raun ætti ekki að þurfa sérstaka undanþágu fyrir námsmenn og lágtekjuhópa. Hér ætti að vera vitræn reglugerð sem sinnir þörf alls markaðarins.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Hingað til hefur húsnæðismarkaðurinn á Íslandi snúist um að byggja dýrt, og selja dýrara.

    Hlutverk byggingarfyrirtækja er fyrst og fremst að skila eigendum sínum arði.

    Byggingarverktakar hafa því ekki áhuga eða vilja til að byggja litlar íbúðir sem síðan má leigja eða selja á hóflegu verði.

    Þessi markaður mun því ekki af sjálfsdáðum sjá um að útvega ódýrt húsnæði. Þetta vita þeir sem vilja vita það.

    Til að byggt verði ódýrt húsnæði þarf nýja hugsun og nýja nálgun. Í dag sjá sveitarfélögin fólki fyrir grunnþörfum eins og vatni, orku, skólagöngu, heilsugæslu osfrv. Þetta þykir sjálfsagt.

    Hins vegar þykir það „Tabú “ að sama sveitarfélag sjái einnig um að útvega jafn sjálfsagðann hlut eins og húsnæði. Fólk sér strax fyrir sér „Bæjarblokk“ með tilheyrandi kumbaldavæðingu.

    Þessi hugsanavilla er hluti af þeim hnút sem húsnæðismálin eru komin í.

    Í Svíþjóð eiga sveitarfélögin víða uppundir helming af íbúðum í fjölbýli. Þetta eru yfirleitt leiguíbúðir og í þeim býr þverskurðurinn af þjóðfélaginu.

    Fyrir um hálfri öld áttuðu sænskir stjórnmálamenn sig á að Hefðbundinn húsnæðismarkaður væri ekki í stakk búinn til að útvega ódýrt húsnæði.
    Þar greip ríkið inn í og lét byggja yfir miljón íbúðir á 10 ára tímabili.

    Enn búa Svíar að þessu framsýna átaki. Það er löngu orðið tímabært að gera svipað átak á Íslandi.

    Á Íslandi er enn látið viðgangast að fólk búi í bílskúrum, iðnaðarhverfum og kjallarakompum við okurleigu.

  • Það versta er bara að þetta er kosninga“blaður“. Ekki vantar hugmyndirnar um „betra“ líf kjósendum til handa fyrir kosningar. Fæst, ef nokkuð er efnt EFTIR kosningar.

    Ekki hefur vantað hástemd loforð hjá framsókn frekar en öðrum en flokkur sem hefur formann sem sníkir aukapeninging vegna búsetu (sem eru næstum jafnhá og lægstu laun í landinu), er með Jónínu Ben innanborðs og átti eitt sinn kosningaloforð um fíkniefnalust Íslands, svo ekki sé nú talað um að „innlima“ og styðja innrás og olíu stríð Bandaríkjanna að þjóð og þingi forspurðu, er hreinlega næstum of fyndinn til að geta verið að meina það að hann ætli að bjóða fram sem góður valkostur.

    Við vitum jú betur eftir sára reynslu með flokkinn í forustu.

  • Já – ég er ekki hissa að innlegg mitt „bíði“ enn samþykktar. Hann getur stungið sannleikurinn ekki satt!
    Á ekki von á að þetta birtist fyrr en þú ert búin að setja inn einn eða tvo nýja pistla.

    Ekki að spyrja að stjórnmálamanna hjartanu!

  • Eygló Harðardóttir

    🙂 eins og kemur fram á vefnum þá samþykki ég inn athugasemdir og stundum getur tekið tíma fyrir þær að birtast þegar mikið er að gera.

    bkv. Eygló

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur