Miðvikudagur 07.11.2012 - 11:38 - 4 ummæli

Konur í stjórnmálum

Fréttir síðustu daga af því hversu margar konur hyggjast ekki sækjast eftir endurkjöri í Alþingiskosningunum í vor valda mér áhyggjum. Þó ástæður þeirra fyrir þessari ákvörðun séu eflaust jafn mismunandi og þær eru margar, hlýtur maður í kjölfarið að velta fyrir sér stöðu kvenna í íslenskum stjórnmálum. Hvers vegna kjósa konur, umfram karla að hætta fremur en „taka slaginn“? Hvers vegna leiða svo fáar konur lista sinna flokka? Er jafnréttisbylgjan, sem manni virtist vera að fara á skrið á árunum fyrir hrun að fjara út?

 Framsókn og jafnréttið

Framsóknarflokkurinn á merkilega sögu í jafnréttismálum á Íslandi. Hann skipaði fyrstu konuna í embætti viðskipta- og iðnaðarráðherra og í embætti utanríkisráðherra. Hann varð fyrstur flokka til að skipa jafnmargar konur og karla sem ráðherra í ríkisstjórn og í Alþingiskosningunum 2007 voru konur oddvitar í helmingi kjördæma.

 Eru konur ekki eins hæfar?

Hvers vegna er þá konum að fækka í stjórnmálum nú? Getur verið að þær séu ekki eins hæfir stjórnmálamenn og karlar? Ekki er það reynsla mín af samstarfi við konur í stjórnmálum síðasta áratug eða svo. Hefur aukin harka í þjóðmálaumræðunni dregið kjark úr konum? Það kann að vera. Getur verið að starfsumhverfi Alþingismanna letji konur til starfans? Ég játa að síðustu þing hafa verið óvenju strembin, sem kannski er ekki óeðlilegt í ljósi þess ástands sem ríkt hefur í þjóðfélaginu. Langir vinnudagar, lítill frítími, sem oft fer í að sinna kjördæminu og mikið áreiti utan vinnutíma setur mark sitt á fjölskyldulífið, en ætti það að bitna frekar á konum en körlum?

 Konur sem leiðtogar

Í fyrra birtist rannsókn sem nefnist „Konur, karlar og forystusæti á framboðslistum“. Rannsóknin var lokaverkefni Hrafnhildar Bjarkar Baldursdóttur  í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hrafnhildur leitaði þar svara við spurningunni hvers vegna konur sækjast í minni mæli en karlar eftir forystusætum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna.  Þegar þingkonur voru spurðar í rannsókninni hvers vegna þær hefðu ekki sóst eftir forystusætum á listum flokka sinna svöruðu þær því til að sú ákvörðun hefði verið meðvituð. Þær hefðu litið svo á að kostnaðurinn og viðveran sem framboð í oddvitasæti hefði þýtt, væri ekki þess virði ef þær gætu stefnt á öruggt sæti neðar á listanum. Staðreyndin er samt sú að staða oddvita í kjördæmi er allt önnur en þeirra sem á eftir koma.

Jafnrétti og jafnræði

Stefna Framsóknarflokksins byggir á jafnrétti og jafnræði á öllum sviðum, líka milli kynjanna. Slíkt jafnrétti næst ekki ef annað kynið vantar. Það er nefnilega staðreynd að menn geta talað sig bláa í framan um jafnrétti og stöðu kynjanna, en ef því tali er ekki fylgt eftir í verki er það bara tal.

Orðin tóm.

Bestu vinnustaðir sem ég hef unnið á hafa verið með jafnt hlutfall karla og kvenna. Ef hallað hefur á annað kynið hefur það alltaf komið niður á starfsanda, afköstum og árangri og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það sama. En jafnt hlutfall kynjanna þýðir ekki að þar með sé komið jafnræði. Hlutfall kynja í ábyrgðarstöðum skiptir máli. Ekki bara í atvinnulífinu, heldur í stjórnmálunum líka.

Er jafnréttið á undanhaldi?

Nýleg rannsókn Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur, lektors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri sýnir að viðhorf íslenskra ungmenna til verkaskiptingar kynjanna er orðin mun íhaldssamari en það var fyrir 20 árum. Þannig töldu 36% drengja að karlmenn væru hæfari til að sitja í ríkisstjórn og 14% stúlkna voru á þessari sömu skoðun. Þá töldu ungmennin konur almennt hæfari til að sinna heimilis- og umönnunarstörfum, en karlarnir væru mun hæfari til að sjá um fjármál. Það er sérstakt áhyggjuefni að þessi  viðhorf virðast einkum vera í sókn meðal stúlkna og hljóta að einhverju leiti að endurspegla viðhorf á heimilum þessara ungmenna.

Það er gríðarlega mikilvægt að bregðast skjótt við þessari þróun. Við megum ekki sætta okkur við að hér sé að alast upp kynslóð sem telur konur ekki færar um að fara með völd í samfélaginu. Ein leiðin er að tryggja að íslensk ungmenni alist upp með sterkar konur sem fyrirmyndir á öllum sviðum samfélagsins, jafnt í atvinnulífi sem stjórnmálum. Þar er ábyrgð flokkanna og kjósenda mikil.

(Birtist fyrst í DV 7. nóv. 2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Guðný Ármannsdóttir

  Já ég hef tekið eftir því að besti starfsandinn er þar sem aldur og kyn blandast. Ákefð og lífsgleði unga fólksins í bland við reynslu þeirra eldri. Sýn beggja kynja……

  Og svo vildi ég sjá þig sem formann í þínum flokki

 • Það er ekki skynsamlegt að draga víðtækar ályktanir um breyttan hugsunarhátt af einni könnun (þar sem spurningarnar eru auk þess þannig orðaðar að alls ekki er ljóst hvort svör barnanna segja eitthvað um raunverulega afstöðu þeirra).

  Og, þótt ég voni að við fáum sem fyrst umtalsverðan meirihluta kvenna bæði á þing og í valdastöður yfirleitt (svo við þurfum ekki lengur að hlusta á staðhæfingarnar um að konur í valdastöðum séu betri en karlar í valdastöðum), þá finnst mér athyglisverð þessi afstaða að það hljóti að vera eitthvað að ef konur sækjast síður en karlar eftir slikum stöðum:

  Af hverju ætti það að vera eftirsóknarvert að sitja í valdastöðu?

 • Eygló Harðardóttir

  Mín von er að við fáum sem jöfnust hlutföll inn á Alþingi. Þannig er það best, að bæði konur og karlar vinni saman og fái að njóta sín. Hvorki betri né verri, bara sömu tækifæri, jöfn, hlið við hlið 🙂

 • Ég er sammála því (við langflestar kringumstæður, og sannarlega í pólitík) að það sé best að vera með blöndu (og þá vantar t.d. sárlega innflytjendur á þing, og yfirleitt framarlega í stjórnmálin). Hins vegar held ég ekki að Alþingi muni batna við það eitt að konur verði jafn margar og karlarnir. Ég held sem sé að hlutfall þeirra sé þegar orðið nógu hátt til að koma í veg fyrir að eitthvað verði útundan sökum þess að annað kynið sé of fámennt.

  Og, af því að ég er sannfærður um þetta, en orðinn leiður á talinu um að eitthvað muni batna í valdakerfinu með fleiri konur, þá vona ég að konur verði þar fljótlega í traustum meirihluta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur