„Mamma, af hverju kemur enginn í afmælið mitt?“ Þessi orð eru greypt í huga kunningja míns frá því hann spurði móður sína að þessu fyrir meira en 30 árum síðan. Hann hafði boðið öllum bekknum í afmælið sitt, mamman eytt laugardeginum í að baka og búið að skipuleggja skemmtanir og leiki. Klukkan þrjú á sunnudegi var hann kominn í sparifötin og beið þess að bekkjarfélagarnir kæmu til að samgleðjast honum á afmælisdaginn.
Þegar klukkan var farin að ganga fimm var ljóst að enginn kæmi. Hughreystandi orð móður hans, um að krakkarnir hlytu nú bara að hafa gleymt þessu, skiptu hann litlu. Hann vissi betur. Þetta var hluti hins daglega lífs í skólanum. Félagsleg einangrun og útilokun. Þetta var birtingarmynd þess eineltis sem hann varð fyrir af hendi skólafélaganna í árgangnum. Hann var ekki laminn, enda stærri og sterkari en flestir jafnaldrar hans. Ofbeldið sem hann varð fyrir var ekki líkamlegt. Hann kom ekki heim með marbletti eða glóðaraugu. Aðeins ör á sálinni, sem aldrei mun hverfa.
Það þarf ekki að berja til að meiða
Andlegt ofbeldi í hvaða formi sem er getur verið jafnvel hættulegra en líkamlegt ofbeldi. Heimilisofbeldi eða einelti í skólum og á vinnustöðum þar sem engin líkamleg ummerki verða eftir er erfitt að kæra eða klaga. Sú tegund ofbeldis skilur þó oft eftir sig djúpstæð og langvinn áhrif. Sjálfsmynd þolenda hrynur og rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem verða fyrir einelti af þessu tagi á unglingsárunum geta átt í ævilangri baráttu við að mynda félagsleg tengsl við aðra, rækta eigin hæfileika eða bara stunda vinnu. Reiði, biturð, eftirsjá eftir glötuðum tækifærum og vonleysi hringsóla í hugum þeirra. Tíðni sjálfsvígstilrauna, áfengis- og fíkniefnaneyslu er jafnframt mun hærri hjá þessum hópi en öðrum.
Fimmta hvert barn upplifir einelti
Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að um 20% skólabarna telja sig verða fyrir einelti og þessi tala er mjög svipuð í flestum þeim löndum þar sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar. Þrátt fyrir að umræða hafi aukist um einelti í skólum á síðustu árum og fjölmargir skólar hafi tekið upp stefnu sem á að vinna gegn slíku ofbeldi, a.m.k. í orði, sýna fjölmörg dæmi síðustu missera að eitthvað meira þarf til. Þá hefur umræðan um einelti meðal fullorðinna verið lítil sem engin, þó rannsóknir sýni að það viðgangist vissulega. Þannig sýndi könnun sem gerð var á einelti meðal ríkisstarfsmanna árið 2008 að 11% starfsmanna teldu sig hafa orðið fyrir einelti síðustu 12 mánuði og fjórðungur hafði orðið vitni að einelti á sínum vinnustað.
Ef einstaklingur verður fyrir líkamlegu ofbeldi, hvort heldur er í skóla eða á vinnustað, er um lögreglumál að ræða. Slíkt kemst enginn upp með að samþykkja. En hvað með uppnefni, sífelldar háðsglósur, félagslega útilokun eða baktal? Hvernig kærir maður slíkt? Er það bara í lagi, svona innan hóflegra marka? Í SFR könnuninni sem nefnd var hér að ofan kom í ljós að þegar kvörtun var lögð fram var í 76% tilfella ekki brugðist við með viðeigandi hætti. Nær helmingur þeirra sem gripu til aðgerða vegna þess eineltis sem þeir urðu fyrir sögðu að ástandið hefði ekkert breyst, eða jafnvel versnað og fjórðungur fór í kjölfarið að leita sér að annarri vinnu.
Þarf lagasetningu til?
Í Svíþjóð hafa verið sett lög sem snúa við sönnunarbyrði í eineltismálum í skólum. Þar þurfa skólar að sýna fram á að þeir hafi brugðist við eineltinu á fullnægjandi hátt til að firra sig ábyrgð og skaðabótaskyldu og í umræðunni er að setja sambærileg lög fyrir atvinnulífið í heild. Hér á landi stendur það enn upp á fórnarlambið að sýna fram á að ekki hafi verið tekið á málum á réttan hátt og fyrir þá sem orðið hafa fyrir viðvarandi andlegu ofbeldi, hvort sem er á vinnustað eða í skóla, getur slíkt hreinlega orðið viðkomandi ofviða. Þá virðist lausnin oft vera að færa þolandann milli skóla, eða í tilfelli starfsmannanna, að leita sér að nýrri vinnu.
Hvar er réttlætið í því? Hvers vegna er ekki hægt að taka á gerendunum í stað þess að auka áþján þolandans og ýta undir þær ranghugmyndir hans að hann beri á einhvern hátt ábyrgð á ofbeldinu sem hann verður fyrir?
Þetta eru spurningar sem ég hyggst bera undir bæði menntamála- og velferðarráðherra. Andlegt ofbeldi í formi eineltis er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við.
(Birtist fyrst í DV 19. nóv. 2012)
Mikið verð ég reið að lesa svona. Þetta er svo hræðileg upplifun ekki bara fyrir barnið, heldur líka fyrir alla fjölskylduna, því hvað er hægt að segja eða gera? Barnið hefur verð sært stóru sári og þeir sem elska hann geta ekkert gert. Hvað er til ráða? Það er frekar erfitt, en þarna þarf að fara í faglega umræðu við börnin, láta þau skilja hvað þetta er grimmt og ljótt fyrir viðkomandi barn. Börn eru frekar skilningsrík, þegar þeim er bent á það sem þau gera rangt. Og ef umræðan fer fram á góðum nótum, er sennilega hægt að gera margt til að bæta ástandið.
Ég var vitni að atviki í sturtum sundlaugarinnar á Akureyri fyrir nokkrum árum síðan. Hópur drengja sem var að koma úr skólasundi lömdu á dreng með blautum handklæðum. Þetta atvik hefur sótt á mig allar götur síðan, ekki síst vegna þess að ég gerði ekkert til að stöðva þetta. Drengurinn sem var við það að bresta í grát virtist einn á báti og allgjörlega varnarlaus og augljóst var að angistin sem skein úr andliti hans var ekki bara undan höggum drengjanna, sem ein og sér hlutu að valda honum sársauka, heldur einnig hvernig kvalarar hans niðurlægðu hann með því að berja á honum þar sem hann stóð einn og nakinn í sturtunni.
Þetta var hópur drengja á aldrinum 10-12 ára í skólasundi. Það sem ég undrast mest er að það var enginn þarna sem hafði eftirlit með hópnum og hefði getað stöðvað atlöguna áður en hún komist á það stig sem ég lýsi hér að ofan. Börn eru börn og þó þau þekki muninn á réttu og röngu hafa þau ekki alltaf þroska til að skilja afleiðingar gjörða sinna. Þess vegna þarf að fylgjast með þeim og leiðbeina, bæði í frímínútum og í tíma.
Því miður held ég að margir hafi og geri eins og þú gerðir Toni að þeir standi bara hjá og geri ekkert og telji jafnvel að þeim komi þetta ekki við en með því erum við að styðja ofbeldið.
Ég er viss um að þú myndir gera þetta öðruvísi í dag og ég get sjálfur hugsað til þess þar sem ég hefði átt að láta í mér heyra og mundi taka öðruvísi á í dag.
Þetta er gott hjá þér og full ástæða að velta þessari umræðu upp Eygló og við eigum ekki að líða þessa framkomu í okkar návist og okkur kemur við það sem gerist í umhverfi okkar þó að við vitum ekki nákvæmlega ástæður þess að einhverjir telji sig þurfa að koma svona fram við aðra. Við eigum að standa fyrir því að ágreiningur, hver sem hann er og á hvaða forsendum hann er, sé leystur með öðrum hætti en að barið sé á fólki, andlega eða líkamlega.
Við höfum fullan rétt á því að krefjast þess af öðrum að haga sér sómasamlega. Þetta samfélag er okkar allra en ekki einkamál ofbeldismannsinns hvort sem um er að ræða einelti eða aðrar misgjörðir.
Ég tel að það sé full ástæða að skoða lagasettningu í þessu nánar eins og þú nefnir, eðlilega gera kröfu um að málið sé skoðað vel og jafnvel að gera kröfu til þess að gerandinn sé tekin sérstaklega fyrir og jafnvel látin fara áður en til þess kemur að þolandin þurfi að yfirgefa skólann eða vinnustaðinn.
Það verður að vinna betur í þessum málum en gert hefur verið svo fólk láti þessi mál ekki afskiptalaus og athugasemdalaus. Þetta hefur með að gera að vekja fólk betur til vitundar um ofbeldisfulla og stöðugt ógnandi hegðun gerandanns gagnvart öðrum og að taka á því þannig að skilaboðin séu skýr.
Eygló mín. Fyrirsögnin hér að ofan er sannarlega rétt.
Einelti er ofbeldi, og ofbeldi er nauðgun. Líkaminn er ekkert án sálarinnar, og sálin er ekkert án líkamans. Órjúfanleg heild.
Það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn á siðmenntaðan og kærleiksríkan hátt, og það er alveg rétt.
Það þarf ekki síður heilt þjóðarsamfélag til að stjórna þjóð á siðmenntaðan og kærleiksríkan hátt. Samfélag án kærleika er einskis virði.
Enginn einn getur breytt slæmum siðum samfélags, ef stór hluti þess samfélags lætur borga sér fyrir að sundra því samfélagi. Orðið ,,samfélag“ þýðir víst eitthvað í orðabókum sérfæðinganna. Gott samfélag byggist ekki á blekkingum, svikum, kúgunum, peningagræðgi og lygum óhæfra glæpamanna, innan fjármálakerfis æðsta valdatopps í píramídastjórnuninni. En það er kannski ekki létt að breyta því, ef fólki er jafnvel hótað, að það verði gert höfðinu styttra ef það reynir að bjarga einhverju? Það hafa ekki allir aðgang að lífvörðum á Íslandi. Bara sumir?
Börn sjá miklu betur í gegnum lygar og hræsni fullorðinna í samfélaginu, heldur en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Það eru alltaf fullornir í æðstu valdastöðum fjármálakerfisins sem bera ábyrgð á þessu ósnertanlega og þögla ofbeldi.
Ég styð þig af heilum hug í að taka á þessum málum með einhverju móti Eygló, og bið andana miklu og góðu að leiðbeina þér og aðstoða við verkefnin. Það er nefnilega við ofurefli að etja, sem mannlegur máttur einn og sér ræður ekki við.
Í jafn gráðugu og spilltu embættis-spillingarsamfélagi eins og á Íslandi stjórnar, er þeim heilögu best treystandi. ,,Bæn“ er ekki það sama og þau ofurveldis-trúarbragðahús landsins, sem ekki hafa boðið heilaga kærleiksanda velkomna í þær hismis-byggingar valdníðinga veraldar. Vilja meira að segja þagga niður mikilvægi jóga?
Ofbeldis-heimsstjórnun! Frá toppi valdapíramída græðgi og siðblindu valdníðinga heimsins!
M.b.kv.