Mánudagur 03.12.2012 - 15:28 - 5 ummæli

Vinna, vöxtur, velferð

„Því miður virðist ekki vera mikill skilningur á rekstri fyrirtækja hjá stjórnvöldum,“ stundi sjálfstæður atvinnurekandi upp við mig fyrir stuttu.  „Maður er rétt búinn að átta sig á nýjustu skatta- og lagabreytingunum, þegar þær næstu dynja yfir.“  Eftir samtalið varð mér hugsað til gamla slagorðs Framsóknarflokksins; vinna, vöxtur, velferð.  Grundvöllur öflugs samfélags byggir nefnilega á þessum þremur orðum og aðeins í þessari röð. Til þess að byggja upp velferðina verður samfélagið að vaxa og til þess að vöxtur eigi sér stað verður fólk að hafa vinnu.

En hvernig skapar maður vinnu?

Málþófsspjaldið?

Í vor kynntu stjórnvöld fjárfestingaráætlun sína fyrir árin 2013-2015.  Áherslur hennar endurspeglast nú í umræðum um fjárlög ársins 2013. Stjórnarliðar virðast helst hissa á að yfir höfuð þurfi að ræða um frumvarpið í þinginu og veifa málþófsspjöldum. Staðreyndin er þó sú að við þetta fjárlagafrumvarp er margt athugunarvert og fjölmörg atriði sem krefjast skýringa og frekari umræðu.

Því miður virðist frumvarpið halda áfram á sömu braut og fyrri fjárlög ríkisstjórnarinnar, að flækja rekstrarumhverfi atvinnulífsins í landinu með endalausum breytingum og tilfærslum í skattkerfinu og auknum kröfum á fyrirtæki í landinu, stór sem smá.

Til að taka af öll tvímæli er ég ekki á móti sköttum sem slíkum, ef þeir eru sanngjarnir, vel útfærðir og auka ekki á flækjustig kerfisins. Þvert á móti tel ég að allir, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, eigi að leggja sitt af mörkum til að við getum haldið hér uppi öflugu samfélagi sem styður þá sem minna mega sín og veitir öllum tækifæri til að mennta sig og skapa í kjölfarið verðmæti, án tillits til efnahags.

Það er bara ekki sama hvernig það er gert.

Ótrúverðug fjárfestingaráætlun.

Í ljósi þess er sérkennilegt að skoða fjárlagafrumvarpið, einkum í tengslum við fjárfestingaráætlun stjórnvalda sem kynnt var í vor.  Þannig er gert ráð fyrir miklum útgjöldum til verkefna sem ljóst er að muni vart standa undir sér og kalla á viðvarandi útgjöld til rekstrar á næstu árum og áratugum. Að skella milljarði hér og milljarðatugum þar í húsbyggingar og sýningar er vart vænlegt til að skapa ríkinu framtíðartekjur.

Til að byggja upp til framtíðar verður að leggja höfuðáherslu á að treysta stoðir atvinnulífsins í landinu. Það verður best gert með því að efla nýsköpun og auðvelda frumkvöðlum að stofna fyrirtæki í kring um hugmyndir sínar, sem í kjölfarið skapa auknar tekjur fyrir samfélagið allt.  Bæta þarf rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem þegar eru í rekstri með því að einfalda skattkerfið og löggjöf um starfsemi fyrirtækjanna. Það er einkum mikilvægt þegar kemur að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem ekki hafa efni á að halda úti sérstökum deildum lögfræðinga og endurskoðenda til að takast á við sífellt flóknara lög og reglugerðir sem stjórnvöld hafa sett þeim.

Forgangsröðun er nauðsynleg.

Forgangsraða þarf í stuðningi við nýsköpun og leggja áherslu á þau svið þar sem við höfum þegar sýnt fram á mikinn árangur, svo sem í heilbrigðisvísindum, náttúruvísindum og skapandi greinum. Einfalda þarf menntakerfið og mætti til dæmis færa menntun til 18 ára aldurs til sveitarfélaganna og eftir það taki við háskólar og verk- og iðnskólar á vegum ríkisins. Markmiðið væri að gera námið markvissara og skila nemendum fyrr út í atvinnulífið. Sérstakt átak þarf til að efla iðn- og tæknimenntun í landinu, en mörg sprotafyrirtæki kvarta sáran yfir skorti á vinnuafli með góða menntun á því sviði.

Þá er mikilvægt að auka enn frekar verðmætasköpun í stærstu útflutningsgreinum okkar. Í sjávarútvegi þarf að einblína á að afnema samkeppnishindranir í aðgangi að hráefninu, þanni g að allur fiskur sem ekki fer í eigin vinnslu útgerðanna fari á markað og markaðsverð gildi í beinum viðskiptum. Hluti veiðigjaldsins verði nýttur til að efla markaðsstarf, byggja upp fiskeldi og koma flotanum á innlenda orkugjafa.

Í ferðaþjónustunni þurfum við að einfalda skattaumhverfið og horfa fremur til efnameiri ferðamanna en þess eins að fjölga þeim sem um landið fara og orkan sem við framleiðum þarf að skila sem mestum verðmætum til íslensks samfélags á sjálfbæran máta. Tryggja þarf innlendum fyrirtækjum og heimilum hagstætt verð um leið og við leitum aukinnar arðsemi. Hugmyndir um heildsölu til útlanda eru allra góðra gjalda verðar, en lykiláherslan verður að vera á atvinnusköpun innanlands.

Einfalt og auðskilið kerfi skilar mestum tekjum. Lykilatriði í þessu öllu saman er að einfalda það umhverfi sem íslenskt atvinnulíf starfar í. Þannig eru mestar líkur á að við náum að byggja upp atvinnu, sem getur staðið undir auknum vexti og aukinni velferð til framtíðar.

(Birtist fyrst í DV 3.12.2012)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hallur Magnússon

    Ánægður með þig Eygló!

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Flott hjá þér, Eygló.

    Því miður virðast sófa-kommarnir sem hafa fengið umboð til að stjórna landinu ekki skilja hugtakið „atvinnulíf“ og virðast halda að þetta sé eitthvað sem hægt sé að blóðmjólka endalaust.

    Og Eygló, skilaður þessu frá mér til þessara elsku skinna, þeirra Jóhönnu, Steingríms og co. með hlýlegum þökkum með þessar frábæru jólagjafir frá þeim í ár sem eru enn meiri skattahækkanir á fólkið í landinu.

    Þessar gjafir klikka aldrei frá þeim frekar en fyrri daginn og eru alveg eins og „jólagjafirnar“ sem þið gáfuð þjóðinni í fyrra.

    Nú munu þessar gjalda, álögur og skattahækkanir renna beint út í verðlagið og hækka þar með allar vísitölur og þar með lán landsmanna.

    Þetta mun svo allt saman valda ólgu á vinnumarkaði með tilheyrandi átökum sem leiða til launahækkana sem leiða svo aftur til þess að fyrirtækin í landinu þurfa enn og aftur að draga saman hjá sér seglin með tilheyrandi uppsögnum og fólksflótta til Noregs.

    Takk fyrir þetta elsku Steingrímur og Jóhanna, við skulum muna eftir ykkur í kjörklefanum næsta vor.

  • Já ekki veitir af að hafa fólkið í vinnu. Þannig fær það nefnilega sjálfsvirðingu ekki satt. Með 4 – 6 ára háskólanám er hægt að paufast í vinnunni í 10 tíma á dag. Að eiga til hnífs og skeiðar er að sjálfsögðu aukaatriði og bara hrein frekja í liðinu. Þannig viljið þið stjórnmálamenn hafa þetta – það verður jú að vera vinna fyrir fólkið!!!!! Launin eru aukaatriði – það er jú sjálfsvirðingin sem gildir ekki satt?

  • Sæl Eygló. Ég er með spurningu til þín sem tengist ekki efni þessa ágæta pistils.

    Geturðu séð fyrir þér næstu skref á afgreiðslu þingskjals 587 um tímabundna úrlausn vegna gengistryggðra lána?

    Nái þetta í gegn munu fjölmargar og örvæntingafullar fjölskyldur í landinu sjá til lands í gegnum brimskaflinn.

    Kveðja, Toni.

  • Jón Ottesen

    Sæl Eygló

    3 spurningar.

    Hver er afstaða þín til þrepaskipts tekjuskattskerfis?

    Hvar telur þú flækjustigið mest í skattkerfinu.

    Hver er skoðun þín á tollum og vörugjöldum?
    Hinum raunverulega frumskógi skattkerfisins að mínu mati.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur