Fimmtudagur 13.12.2012 - 15:43 - 5 ummæli

Viltu kaupa verðbólgutryggingu með þessu?

Í gær bárust fréttir af hugmyndum velferðarráðherra um að flækja enn frekar frumskóg íslenskra húsnæðislána. Þó margt sé enn óljóst varðandi útfærslu þessara hugmynda virðast þær ganga út á að bjóða lántakendum að kaupa sér tryggingu gegn verðbólguskotum. Þannig gætu þeir samið við bankann, eða hvern þann sem byði upp á slíka tryggingu, að greiða árlegt tryggingagjald gegn því að þak væri sett á þær verðbætur sem lagst gætu á lánið.

Þetta hljómar kannski líkt því þaki á verðtrygginguna með almennum lögum sem við andstæðingar hennar höfum kallað eftir, á meðan unnið er í því af alvöru að afnema þetta þjóðarböl á neytendalánum. En við nánari skoðun er þetta bara enn einn plásturinn og vart til þess fallinn að auðvelda íslenskum heimilum að vinna sig út úr vítahring verðtryggingarinnar. Vítahring sem valdið hefur einhverri mestu eignatilfærslu milli kynslóða sem þekkst hefur í Íslandssögunni.

Allir eiga að bera ábyrgð

Hugmyndin um þak á verðtrygginguna snýst nefninlega um að koma hluta af ábyrgðinni á efnahag þjóðarinnar yfir á lánveitendur. Eins og staðan er nú hafa þeir engan sérstakan hag af því að halda verðbólgunni í skefjum og mætti jafnvel rökstyðja þá fullyrðingu að fáir hafi hagnast meira á verðbólgunni en einmitt fjármagnseigendur. Á vefsíðunni actuary.is hefur Jón Ævar Pálmason, verkfræðingur og tryggingastærðfræðingur, tekið saman upplýsingar um þróun eignastöðu mismunandi aldurshópa síðustu 18 ár. Þar má sjá hvernig sjálfhverfa kynslóðin, sem ágætur maður nefndi svo, þ.e. fólk sem fætt er eftir 1970, hefur tapað öllum eignum sínum á síðustu 2-3 árum og gott betur. Sjálfhverfa kynslóðin hefur þannig tapað um 200 milljörðum frá árinu 2008 og skuldar nú samanlagt yfir 80 milljarða króna umfram eignir.

Stór þáttur í þessari eignatilfærslu er einmitt verðtryggingin.

Lítið um aðgerðir

Nú er liðið vel á annað ár frá því nefnd á vegum stjórnvalda, sem ég veitti forstöðu, skilaði af sér ítarlegum tillögum um leiðir til að afnema verðtrygginguna. Meðal þeirra leiða sem meirihluti nefndarinnar lagði til var að setja þak á hækkun verðbóta, endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna og nýtt húsnæðislánakerfi að norrænni fyrirmynd. Enn hefur lítið frést af aðgerðum stjórnvalda til að hrinda þessum tillögum í framkvæmd, þó Íbúðalánasjóður hafi fengið lagaheimild til að bjóða upp á óverðtryggð lán í framtíðinni. Nú stekkur svo velferðarráðherra fram á sjónarsviðið í aðdraganda kosninga og leggur til að hægt verði að kaupa tryggingar til að draga úr áhrifum verðbólgunnar á afborganir lána.

Borga núna, eða borga seinna?

En hvað þýðir þessi tillaga í raun? Af þeim litlu fréttum sem borist hafa virðist sem hægt verði að semja um tryggingagjald sem ákvarðast annars vegar af verðbólguvæntingum og hins vegar af því hversu hátt þakið á að vera. Því lægra þak og því hærri verðbólguspá, því hærra gjald. Þannig væri í raun ekki verið að koma neinni ábyrgð að ráði yfir á lánveitendur, heldur væru lántakendur að greiða hluta verðbótanna fyrirfram í formi álags á lánin og hins vegar að færa hluta yfir á þá sem selja tryggingarnar, ef verðbólgan hækkar meira en spár gera ráð fyrir. Enn verri afleiðing af þessu er svo að gegnsæi lánamarkaðarins mun minnka enn frekar. Í stað þess að fólk standi frammi fyrir valkostum um verðtryggð eða óverðtryggð lán, munu lánastofnanir keppast við að fela verðbólguáhættuna á bak við fjölbreytt tilboð um ýmiss konar verðbótaþak og tryggingagjald. Hafi einhver haldið að almenningur stæði höllum fæti gagnvart bönkunum þegar kemur að því að semja um lánskjör mun ástandið aðeins versna með þessu, því vart munu þeir missa spón úr aski sínum við þetta útspil.

Þú tryggir ekki eftir á

Og hvað með þá sem þegar hafa misst allt sitt á verðbólgubálinu? Um þá gildir hið fornkveðna, þú tryggir ekki eftir á. Ekki er gert ráð fyrir að hægt verði að kaupa tryggingu á lán sem þegar hafa verið tekin, heldur aðeins ný lán. Þeir sem þegar hafa tekið lán sitja uppi með tjónið og skulu borga það upp í topp. Og hverjir munu svo hafa efni á að kaupa sér þessa tryggingu? Jú, fyrir utan þá ríku, sem hafa bolmagn til að standa undir þessum aukakostnaði gerir ráðherrann ráð fyrir að ríkið muni aðstoða þá fátæku við að greiða trygginguna í gegn um einhvers konar bótakerfi. Eftir stendur millistéttin, hin svokallaða sjálfhverfa kynslóð og heldur áfram að borga.

Er þetta norræna velferðin?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Rafn Guðmundsson

  þú segir „Allir eiga að bera ábyrgð“. þetta er bara rugl, kannski óskhyggja. eingöngu þeir sem stýra landinu geta haft áhrif á þetta vandamál og það veistu

 • Eygló, er ekki eina leiðin útúr þessum vítahring, að skipta um gjaldmiðil?
  Ég sé allavega ekki aðra leið.

 • Mjög góð grein og höfundi til sóma.

  Þakkir.
  RG

 • Eitt er víst að þeir sem hafa verið að vinna að lausn lánamála eru að reyna að gera það þannig að gerlegt sé fyrir þá sem ráða yfir fjármagni að lána og þeir sem taka lán geti staðið undir þeim.

  Meinsemdin í okkar þjóðfélagi er krónan. Hún er eins og heilög indversk kýr sem ekki má hrófla við. Á meðan svo er heldur þessi martröð áfram þar sem íslenska auðvaldið með LÍÚ í broddi fylkingar fellir gengið aftur,aftur og aftur til að auka gróðann. Á kosnað húsbyggjenda? M.a. Að sjálfsögðu.

 • kristinn geir st. briem

  held varla að krónan sé vandamálið eins og sest í irlandi þar sem er evra.
  það þar að koma á stöðugleika það tekur tima.
  mæti ekki miða hinar ýmsu vísitölur einsog byggíngaiðnaðin miða við byggíngarvísitölu. smásalan með neisluvísitölu. það eru til margar visitölur
  hef meraseigja heirt talað um sigurðarplast vísitölu þar sem þeir miða við kosnaðarhækanir á blast

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur