Mánudagur 18.02.2013 - 14:58 - 6 ummæli

Heimilisofbeldi. Íslenskur veruleiki

Kona bankar upp á hjá vinkonu sinni snemma morguns.  Hún er útgrátin og  með rautt far í andliti. Áverkar eru víða og hluti af fallega hárinu hefur verið rifinn úr með rótum. Móðir leggur barn varlega frá sér í rúmið og gengur með kvíðahnút út úr herberginu. Maðurinn fylgir henni eftir. Hún vonar með sjálfri sér að höggið komi ekki fyrr en hún er komin út úr herberginu.  Önnur kona útskýrir að rifrildin og slagsmálin séu nú ekki bara honum að kenna.  Hún eigi nú sinn hlut í þessu. Af einhverri ástæðu er það samt alltaf hún sem fær marblettina og glóðaraugað.  Kannski vegna 30 cm hæðarmunar, líkt og einn ættinginn bendir henni þurrlega á.

Allt eru þetta sannar sögur.

Þúsundir kvenna beittar ofbeldi.

Heimilisofbeldi er íslenskur veruleiki þar sem einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar. Í rannsókn Elísabetar Karlsdóttur og Ásdísar A. Arnalds frá 2008 um reynslu kvenna á aldrinum 18-80 ára af ofbeldi kom í ljós að á 12 mánuða tímabili hafði um 1% kvenna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.  Sama hlutfall hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.  Frá 16 ára aldri höfðu um 20% kvenna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.  Algengast var að ofbeldismaðurinn væri eiginmaður, sambýlismaður eða kærasti, núverandi eða fyrrverandi og að ofbeldið ætti sér stað innan veggja heimilisins.  Þrátt fyrir þetta er ofbeldi í nánum samböndum mjög falið.  Aðeins 22% kvennanna leituðu til samtaka eða stofnana sem aðstoða konur og 13% tilkynntu síðasta ofbeldisatvik til lögreglu, jafnvel í þeim tilvikum sem konan hlaut líkamlegt mein eða þurfti á læknishjálp að halda.

Í 24% tilvika urðu börn vitni að ofbeldinu.

Af hverju beita menn ofbeldi?

Rannsóknir hafa talað um tvenns konar tegundir af heimilisofbeldi, annars vegar ógnarstjórn og hins vegar makadeilur.  Í Ógnarstjórnin felur í sér gamlar hugmyndir um eignarrétt, þar sem karlinn á konuna og henni ber að hlýða vilja hans.  Þar er alvarleiki ofbeldisins yfirleitt meiri og tilhneiging til að það aukist og verði alvarlegra eftir því sem á líður.  Með makadeilum er átt við þegar deilur pars fara úr böndunum.  Þá getur hvort kynið sem er gripið til ofbeldis til að koma fram vilja sínum, án þess að um frekari átök um völd sé að ræða.  Ofbeldið er ekki jafn alvarlegt, lítil sem engin tilhneiging til aukningar og ofbeldið er ekki einhliða kúgunartæki.

Heimilisofbeldi er alvarlegt þjóðfélagsmein.  Enginn á að þurfa að þola ofbeldi. Það skaðar þann sem fyrir verður, en eitrar líka út frá sér til mun stærri hóps, samfélagsins alls.  Það jákvæða er að við sem einstaklingar og samfélag getum dregið verulega úr þeim skaða sem einstaklingar sem beittir hafa verið ofbeldi verða fyrir.

Árið 2006 samþykkti ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, að tillögu þáverandi félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra, aðgerðaáætlun um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem náði til áranna 2006-2011.  Að verkefninu komu auk þess heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Áfram er unnið að verkefninu með sérstakri nefnd um aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi árin 2011-2015.

Aðgerðaáætlunin hjálpaði til við að koma þessu samfélagsmeini meira upp á yfirborðið og leiddi einnig í ljós að margt er ógert.  Kvennaathvarfið hefur staðið sig frábærlega í að styðja við konur í ofbeldissamböndum og börn þeirra.  Það endurspeglast í að Kvennaathvarfið er talið mikilvægasti samstarfsaðilinn í málum sem tengjast ofbeldi á heimilum.  En betur má ef duga skal. Ekki er hægt að vísa ábyrgðinni á þessum vanda yfir á frjáls félagasamtök.  Mikilvægt er að fleiri aðilar, svo sem félagsþjónusta og barnavernd, líti á þennan málaflokk sem „sinn“ og taki ábyrgð á honum.  Ríkið og sveitarfélög þurfa að gera sitt.  Skrá þarf betur tilvik heimilisofbeldis og fylgjast sérstaklega með aðstæðum og fjölda kvenna í viðkvæmum hópum. Einnig þarf að bæta samræmdar verklagsreglur vegna heimilisofbeldis og samskipti lögreglu, félagsþjónustu og skóla í málum sem tengjast heimilisofbeldi.

Við Framsóknarmenn munum aldrei sætta okkur við heimilisofbeldi.  Tryggja þarf að baráttan gegn því sé hluti af heildstæðri fjölskyldustefnu stjórnvalda.

Saman verðum við að taka á þessum vanda.

(Birtist fyrst í DV 18. febrúar 2013)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Eyjólfur

    http://www.csulb.edu/~mfiebert/assault.htm

    Ætli íslenskur veruleiki í þessum hryggilega málaflokki sé eitthvað allt annar en þarna kemur fram? Þ.e. nokkurn veginn jafnvægi milli kynja í beitingu ofbeldis í samböndum?

  • Beita konur ekki ógnarstjórn? Er ástæða til að ætla að þær geri það í teljandi minni mæli en karlar? Gæti jafnvel verið að þær beiti slíku meira en karlar?:

    „Ógnarstjórnin felur í sér gamlar hugmyndir um eignarrétt, þar sem karlinn á konuna og henni ber að hlýða vilja hans.“

    (Að gefnu tilefni: Vinsamlegast athugið að ég efast ekki um að ofbeldi gegn konum sé (allt of) algengt, og að þær verði trúlega oftar fyrir líkamlegu ofbeldi í parsamböndum en karlar, og alveg sérstaklega að þær verði fyrir fái alvarlegri líkamlega áverka eftir slíkt.)

  • Eygló Harðardóttir

    Miðað við það sem ég hef kynnt mér sýna rannsóknir að í svokölluðum makadeilum eru konur og karlar jafn líkleg til að beita ofbeldi, en þá er ekki um að ræða jafn alvarleg tilvik ofbeldis, frekar einstök tilvik og eykst ekki. Í ofbeldi sem er skilgreint sem ógnarstjórn þá eru það karlar sem beita ofbeldinu, og það er alvarlegra og eykst með tímanum.

  • Einar Steingrimsson

    Hvaða rannsóknir hefurðu kynnt þér um þetta, Eygló, og telurðu það sem Eyjólfur bendir á vera óáreiðanlegt?

  • Jens Ívar

    Einar og Eyjólfur: Þessi samansetning af greinum frá Fiebert er áhugaverður en það hefur komið gagnrýni á hann. Ef þið kíkið á

    http://en.wikipedia.org/wiki/Domestic_violence

    Og þá stendur að Micheal Kimmel hafi kannað þetta og komist að eftirfarandi niðurstöðu:

    „He points out that most of the empirical studies that Fiebert reviewed used the same empirical measure of family conflict, i.e., the Conflict Tactics Scale (CTS) as the sole measure of domestic violence and that many of the studies noted by Fiebert discussed samples composed entirely of single people younger than 30, not married couples.[172] Kimmel argues that among various other flaws, the CTS is particularly vulnerable to reporting bias because it depends on asking people to accurately remember and report what happened during the past year. Men tend to underestimate their use of violence, while women tend to overestimate their use of violence. Simultaneously men tend to overestimate their partner’s use of violence while women tend to underestimate their partner’s use of violence. Thus, men will likely overestimate their victimization, while women tend to underestimate theirs.[173]“

    Og hérna er frumheimildinn (abstract)
    https://www.ncjrs.gov/App/Publications/abstract.aspx?ID=198004

    Þannig að já þetta eru óáreiðanlegar upplýsingar sem er verið að vitna þarna í.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur