Fimmtudagur 14.03.2013 - 11:15 - 1 ummæli

Eldhúsdagsumræða 2013

Frú forseti, góðir Íslendingar.

Það dýrmætasta sem nokkur maður getur átt er vonin. Vonin um betra líf, betra samfélag, betri heim. Það versta sem nokkur getur gert er að taka frá manninum þessa von. Þegar vonin er brostin er einnig horfin getan til að breyta, til að bæta, til að byggja upp.

Þegar ég hóf afskipti af stjórnmálum átti ég mér von. Von sem byggði á grunngildum samvinnustefnunnar um lýðræði, persónufrelsi, jafnræði og samfélagslega ábyrgð. Von um að ég gæti lagt mitt af mörkum við að byggja upp samfélag sem byggði á þessum gildum. Þegar efnahagur landsins hrundi blossaði upp hjá mér vonin um að nú væri tækifæri til að gera róttækar breytingar. Hjálpa íslenskum almenningi til að brjótast úr hlekkjum verðtryggingar, skulda og vonleysis.

Þessi von lifir enn og ég finn að hún lifir enn hjá stórum hluta landsmanna. Þeim sem enn hafa ekki misst vonina á að við getum byggt upp nýtt og betra samfélag á rústum hins gamla.

En úrtölumenn eru á hverju strái. Úrtölumenn sem gera sitt besta til að slökkva vonarglætuna í brjósti almennings. Úrtölumenn sem vita það eitt að ekkert er hægt að gera. Engu er hægt að breyta. Þar eru verðtrygging, skuldir og höft meitluð í stein. Lögmál sem ekki má brjóta.

En við framsóknarmenn höldum enn í vonina. Við látum ekki segja okkur að ekkert sé frekar hægt að gera fyrir heimilin í landinu. Við látum ekki segja okkur að ekkert sé frekar hægt að gera til að efla hér atvinnulífið. Við látum ekki segja okkur að Íslendingar geti ekki haft stjórn á sínum eigin efnahag.

Við eigum okkur von um betra samfélag fyrir Ísland og Íslendinga. Og það sem meira er, við höfum marg oft sýnt fram á hvernig þessi von okkar getur orðið að veruleika.

Til þess að sú von megi rætast þurfum við að hafa kjark og þor til að takast á við þann þríhöfða þurs sem ógnar íslenskum heimilum. Við höfum sett upp margþætta sóknaráætlun sem miðar að því að leggja þennan þurs sem hamlar okkur för inn í framtíðina.

Við þurfum að taka á uppsafnaða skuldavandanum. Þeim gríðarlega forsendubresti sem haldið hefur heimilunum í herkví. Þeim forsendubresti sem ekki var leiðréttur eftir hrun og haldið hefur áfram að hlaðast upp svo heimilin standa vart undir honum.

Við þurfum að taka á verðtryggingunni til að rjúfa þann vítahring verðbólgu og skuldasöfnunar sem sligar heimilin í landinu. Við þurfum að vinda ofan af sjálfvirkum vísitöluhækkunum og koma í veg fyrir að fortíðarvandinn verði að framtíðarvanda.

Við þurfum að byggja til framtíðar. Til þess þurfum við að efla atvinnulífið, því besta leiðin til að tryggja vöxt og velferð til frambúðar er að tryggja næga atvinnu.  Án atvinnu verður hvorki vöxtur, né velferð.

Stefna Framsóknarmanna er einföld. Takist okkur að leggja þennan þurs eru okkur allir vegir færir. Við höfum von, en við höfum líka áætlun um hvernig þessi von getur orðið að veruleika. Hafi einhver betri hugmyndir að þessu marki, erum við opin fyrir þeim. En markmiðið er skýrt. Þursinn verður að fella.

Fyrir þessu höfum við talað í fjögur ár. Fyrir þessu munum við tala áfram næstu fjögur ár. Og þessu munum við hrinda í framkvæmd fáum við til þess styrk í næstu kosningum.

Við finnum traust og við finnum stuðning meðal þjóðarinnar. Við sjáum vonina kvikna í augum fólks þegar við kynnum stefnu okkar og áætlanir til framtíðar. Við munum ekki láta úrtölumenn slökkva þessa von.

Úrtölumenn sem telja okkur óvin númer 1 því við þorum að taka okkur stöðu með heimilunum í landinu, gegn auðvaldinu. Úrtölumenn sem líta á skuldaklafa og verðtryggingu sem óbreytanlegan hluta íslensks samfélags. Úrtölumenn sem hafa það svar eitt fyrir fjölskyldurnar, sem um hver mánaðamót þurfa að velta fyrir sér hverri krónu, að svona hafi það alltaf verið og svona muni það alltaf verða. Úrtölumenn sem yppa öxlum þegar enn eitt fyrirtækið leggur upp laupana og enn einn hjúkrunarfræðingurinn pakkar búslóðinni í gám og flytur til Noregs.

Við Framsóknarmenn vitum að slagurinn er ekki auðveldur. Hann hefur ekki verið auðveldur. Hann verður ekki auðveldur.  En við höfum von og sú von getur ræst. Með markvissri sókn gegn skuldavanda heimilanna, gegn vítahring verðtryggingar og gegn stöðnun í atvinnulífi getum við brotist út úr þeirri herkví sem íslensk heimili og fyrirtæki hafa verið í.

Kannski finnst einhverjum við of bjartsýn. Og vissulega erum við bjartsýn. En við höfum líka trú á íslenskt samfélag og getu þjóðarinnar til að vinna sig út úr vandanum, fái hún til þess tækifæri. Til þess þarf þjóðin að hafa von. Og hún þarf að hafa trú á að vonin geti ræst. Við Framsóknarmenn teljum að við höfum enn tækifæri til að láta þessa von rætast. Tækifæri sem við megum ekki láta ganga okkur úr greipum.

Í kosningunum í vor höfum við tækifæri til að kjósa um þessa von. Von um betra Ísland. Von um aðgerðir fyrir heimilin. Von um afnám verðtryggingarinnar. Von um öflugra atvinnulíf til hagsbóta fyrir okkur öll.

Von um Framsókn í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Það er lágmarkskrafa til frambjóðenda Framsóknarflokksins, að þeir hafi markaða stefnu flokksins á hreinu og séu þess umkomnir að útskýra hana og fylgja henni eftir. Það er ólíðandi af reyndum þingmanni að fipast svo rækilega í þingsal, að hann gat ekki skammlaust útskýrt stefnu flokksins í sambandi við verðtrygginguna og skuldamál heimilanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur