Skipta ódýrari getnaðarvarnir máli? Þetta er spurning sem fræðimennirnir Andreas Madestam og Emilia Simeonova leituðu svara við rannsókn sinni á áhrifum ódýrari getnaðarvarnarpillu á líf kvenna og fjallað erum í frétt á Dagens Nyheter.
Ódýrari pillur þýddu ekki bara færri fóstureyðingar hjá ungum stúlkum, heldur virtust börn þeirra þegar þau fæddust vera hraustari og ólíklegri til að fæðast fyrir tímann eða með lága fæðingarþyngd. Konurnar sem fengu ódýrari pillur voru einnig líklegri til að ljúka langskólanámi og þar af leiðandi hafa hærri laun yfir starfsævina. Börn þeirra virtust einnig standa sig betur í skóla seinna meir.
Landsþingið Gävle, í Norður Svíþjóð, byrjaði fyrst að bjóða konum undir tvítugu ódýrari getnaðarvarnarpillu fyrir um tuttugu árum síðan á sérstakri móttöku fyrir ungt fólk. Ástæðan var sú að kostnaðurinn við pilluna var talinn geta verið hindrun fyrir reglubundna notkun og að niðurgreiðslan gæti því dregið úr ótímabærum þungunum og fóstureyðingum. Mörg önnur landsþing fylgdu svo í fótspor Gävle, og réttlættu það með því að þar með myndi draga úr kostnaði við fóstureyðingar. Niðurgreiðslan er ólík á milli landshluta. Landstinget Västmanland niðurgreiðir allar hormónagetnaðarvarnir til kvenna upp að 25 ára aldri. Sjúklingur greiðir 25 SEK fyrir þriggja mánaða skammt eða 490 kr. Í Stokkhólmi eru ákveðnar tegundir hormónagetnaðarvarna niðurgreiddar til kvenna upp að 22 ára aldri. Sjúklingur greiðir 30 SEK fyrir sex mánaða skammt eða 590 kr.
Rannsóknin svaraði ekki af hverju þessi munur er til staðar, – aðeins að hann er til staðar.
Madestam sjálfur svaraði því til að væntanlega hefði þetta með möguleika kvenna á að velja, að velja að eiga börn seinna á ævinni.
Í skýrslu starfshóps velferðarráðherra um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14-23 ára kom fram að Ísland rekur lestina í notkun á hormónagetnaðarvörnum á Norðurlöndunum. Notkunin hjá konum á aldrinum 15-49 ára hefði minnkað. Eina undantekningin væri notkun á neyðargetnaðarvarnarpillunni, en þar væri notkunin hvað mest. Fóstureyðingum hefði þó fækkað umtalsvert, og eru færri hér en á Norðurlöndunum (fyrir utan Finnland).
Ég myndi telja að þetta væri ábending til okkar, – um þörf á breytingu er varðar niðurgreiðslu og notkun á pillunni hjá ungum konum.
Rita ummæli