Miðvikudagur 03.04.2013 - 14:25 - 22 ummæli

Ertu til í slaginn?

Umræðan um uppgjör hinna föllnu banka og afnám gjaldeyrishaftanna, samhliða skuldaleiðréttingu er ekki einföld eða auðskiljanleg.

Þá sást greinilega á síðasta pistli hagfræðingsins Gunnars Tómassonar.

Þar talar hann um að leiðrétting á lánum Íbúðalánasjóðs verður „…ekki mætt með vanskilalánum/froðu í efnahagsreikningum Íslandsbanka og Arionbanka.“  Og dregur þar að leiðandi þá ályktun að Íbúðalánasjóður, ríkissjóður eða lífeyrissjóðirnir myndu því þurfa að bera stóran hluta af 20% afskriftum húsnæðislána í boði okkar Framsóknarmanna.

Ég þekki Gunnar af góðu einu, en hér hefur hann aðeins hlaupið á sig.

Því vil ég benda honum á lesefni frá ágætlega talnaglöggum mönnum sem hafa þó hingað til ekki talist til framsóknarmanna þar sem þeir útskýra hvað við erum að tala um.

Í fyrsta lagi nokkuð skilmerkilegan pistil frá Vilhjálmi Þorsteinssyni þar sem hann útskýrir vandann við uppgjör föllnu bankana og hvar svigrúm gæti hugsanlega myndast.  Vilhjálmur er að vísu ekki viss um að rétt sé að nýta hugsanlegt svigrúm til handa heimilunum, og svo hefur hann áhyggjur af alþjóðlegum skuldbindingum okkar.

Skilja þar leiðir með okkur Vilhjálmi.  Ég er nefnilega sannfærð um að fátt sé skynsamlegra en að koma til móts við heimilin.

Hér er einnig ágætur pistill frá Stefáni Ólafssyni, þar sem hann spyr hvor Framsókn hafi rétt fyrir sér.  Þar skrifar hann: „Seðlabankastjóri hefur sagt að eigendur þessara fjármuna geti þurft að sætta sig við allt að 75% afskriftir af þeim við samninga um losun erlendra eigna þrotabúanna, eða með beitingu skattlagningarvalds ríkisins. Þetta væru um 300 milljarðar, meira en nóg fyrir 20% afskriftum á skuldum heimilanna. Reikningurinn félli ekki á skattgreiðendur.

Spurningin er þá hvort það sé rétt að þetta fé geti komið til ráðstöfunar stjórnvalda, sem myndu síðan nota það til að lækka skuldir heimilanna?

Framsókn heitir heimilunum því. Það er mikilvægt.“

Í þriðja lagi er ágæt umfjöllun á Eyjunni um snjóhengjuna.  Þar segir t.d. Róbert Wessman: „Við eigum möguleika á að afskrifa með beinum eða óbeinum hætti þessa 800 milljarða snjóhengju og megum því ekki fara aðrar leiðir né skapa væntingar um að erlendir aðilar fái þessa fjárhæðir greiddar að fullu í erlendri mynt.  Slíkt væri gert á kostnað heimilanna í landinu og myndi skerða lífskjör í landinu um ókomna tíð.“

Þannig er fólk ótengt Framsóknarflokknum, jafnvel harðir andstæðingar okkar í stjórnmálum, að rökstyðja að þetta sé hægt.

Eftir að þeir kynntu sér málið.

Við erum tilbúin að taka slaginn fyrir Ísland.

Vonandi aðrir líka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Marinó G. Njálsson

    Þetta er ekki bara hægt, Eygló, þetta er auðvelt í framkvæmd. Þú gætir síðan bætt in hugmynd Hægri grænna, sem ganga ennþá lengra, og þar er sýnt hvernig ennfrekar er hægt að nota Seðlabankann til verksins.

    Ég sagði í september 2009: „Leiðrétting strax eða afskriftir síðar.“ Því miður báru menn ekki gæfu til að hlusta þá. Það sem gerst hefur frá þeim tíma er að bankarnir fengu gengistrygginguna í hausinn, en það olli þeim hvílíkum hausverk að þeir hafa ekki náð að leiðrétta lánin rétt enn sem komið er. Einnig er búið að leiðrétta önnur lán um ca. 60 milljarða og svo lán auðkýfinga og starfsmanna bankanna um hundruð milljarða. Loks er búið að hirða húsnæðið af um 3 fjölskyldum á dag hvern einasta virkan dag frá september byrjun 2009. Það eitt hefur kallað á milljarða tugi í afskriftir. Ég hef aldrei geta skilið hvers vegna var ekki hægt að lækka skuldir þeirra sem bornir voru út, en hægt er að selja íbúðirnar til nýrra aðila með slíkri lækkun (með eða án útborgunar).

  • Ætlarðu að stela 300 milljörðum af kröfuhöfum? Eru þetta ásættanleg stjórnmál? Það er kannski allt í lagi vegna þess að stór hluti kröfuhafa er erlendur! Við munum hvort sem er einangra okkur og forðast viðskipti við önnur lönd.
    Það væri mjög ábyrgt af ykkur Framsóknarmönnum að birta listann yfir þá sem fá 20% niðurfellingu húsnæðismála, upplýsa um upphæð og persónu hvers og eins. Það er gagnsæi og þjóðin krefst þess.

  • Peningar sem afskrifast vegna þess að við getum ekki borgað eru ekki raunverulegir. Mætti ekki lækka hlutabréfavísitölun um helming og útdeila tapinu til fólksins. Eða nota peningana sem spöruðust við gengislánadómana til útdeilingar handa nauðstöddum eða til þróunarhjálpar. Held að framsókn skilji ekki sjálft sig.

  • Mig langar til að spyrja ykkur Framskóknarfólk, hvernig þið ætlið að leiðrétta á sanngjarnann hátt?
    Þið talið bara um að leiðrétta verðtryggðu lánin.
    Núna er ég búin að breyta lánunum mínum yfir í óverðtryggt lán og nota allan séreignasparnaðinn minn til að lækka lánið. Semsagt, farin frá íbúðarlánasjóði yfir í bankann með okkar íbúðarlán.
    Verðum við sem höfum reynt að bjarga okkur, skilin úti í kuldanum, á meðan allir aðrir fá leiðréttingu?? Hvernig ætlið þið að framkvæma þetta?

  • Á næstu vikum mun heyrast hátt í fjölmiðlafulltrúum kröfuhafanna og öðrum hagsmunaaðilum.

    Ekki láta deigan síga!

  • kristin geir st briem

    hefur eykló hugmin um hvort ríkisstjórninn eða seðlabankinn seu búin að ráðstafa þessum aflætti eithvert því þetta er mikið fé á pappírunum

  • Þú skrifar, „Þetta væru um 300 milljarðar, meira en nóg fyrir 20% afskriftum á skuldum heimilanna. Reikningurinn félli ekki á skattgreiðendur.“
    Allir eru sammála að það væri gott mál ef ríkissjóður gæti náð í 300 miljarða. Það er ekkert nýtt í því að þarna er möguleiki sem ber að nýta að því marki sem hægt er.

    Segjum að ríkissjóður fá þessa 300 miljarða.
    Framsókn vill nota þessa peninga til að lækka skuldir heimila vegna íbúðarkaupa um 20%.
    Ætlar Framsókn að lækka verðtryggt lán á íbúð sem keypt var á lægra raunvirði en hægt er að selja íbúðina á í dag ?
    (Íbúðin hefur sem sagt hækkað meira en verðtryggingunni nemur.)
    Ætlar Framsókn að lækka verðtryggð námslán ?

    Framsókn ætlar sem sagt ekki að nota þessa peninga t.d. til að:
    – Lækka skuldir ríkisins og þar með skatta í framtíðinni.
    – Leggja meira fé til heilbrigðismála og annarra velferðarmála.
    – Hækka persónuafslátt sem nýtist best þeim tekjulægstu.
    Svona væri lengi hægt að telja. Ef ríkissjóði áskotnast þessir 300 miljarðar er spurning hver forgangsröðunin er.
    Þegar upp er staðið þarf ríkið alltaf að ná í þessa 300 miljarða til skattgreiðenda með einum eða öðrum hætti. Ef þessir 300 miljarðar eru notaðir til að lækka skuldir heimilana kostar það ríkissjóð 300 miljarða.
    Vissulega hefði það jákvæð áhrif á efnahagslífið að lækka skuldir heimilanna (nú ætlaðir þú sennilega að fara með þá „spólu“) en að nota peninginn til að lækka skuldir ríkissjóðs hefði ekki síður jákvæð áhrif. Það myndi lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs og skatta í framtíðinni og þar með hefðu heimilin meira milli handanna.

    Reikningurinn félli á skattgreiðendur !

  • Gunnar Tómasson

    Sæl Eygló.

    Í grein sinni nefnir Vilhjálmur ýmsa möguleika í sambandi við heildaruppgjör við kröfuhafa sem eiga 87-95% af Íslandsbanka og Arion banka, og er þar ekki um tæmandi upptalningu að ræða. En það verður ekkert um það sagt fyrirfram hvernig endanlegt heildaruppgjör kann að líta út.

    Það er því ekki sjálfgefið hvort, og að hvaða marki, slíkt uppgjör kann að skapa möguleika á leiðréttingu húsnæðisskulda, en um mikilvægi slíkrar leiðréttingar er ég algjörlega sammála XB.

    Á þessu stigi málsins hlýt ég þó að taka undir varnaðarorð Vilhjálms í svari við athugasemd lesanda við grein hans:

    „Í fyrsta lagi er ávinningurinn [af mögulegu heildaruppgjöri – innskot mitt] ekki í hendi og því óábyrgt að lofa honum núna og láta kjósa sig út á hann.“

  • Ég á íbúðarhúsnæði sem ég hef kauptilboð í sem er kr. 2.400.000 hærra framreiknað samkv. lánskjaravísitölu en ég keypti húsnæðið á.
    Ég skulda enn kr. 10.000.000 vegna þessara kaupa.

    Eygló, get ég treyst því að Framsókn lækki skuldina um kr. 2.000.000 ?
    Ef svo er eflaust betra fyrir mig að bíða með að selja þar til ég fæ þessar 2 millur.
    Ég missti af verulegum hagnaði þar sem ég seldi ekki 2007. Það hefði ég átt að gera og leggja söluverðmætið inná gjaldeyrisreikninginn. Það er auðvelt að vera vitur eftirá. Aftur á móti hafði ég vit á því að hreyfa ekki við gjaldeyrisreikningnum mínum til að borga húsnæðislánið Nú stendur gjaldeyrisreikningurinn í rúmlega 30 millum.
    Ekki dónalegt að fá 2 millur fyrir að kjósa Framsókn.

    Ég á eftir að reikna út hvort Sjálfstæðisflokkurinn býður mér ekki betur. Mér skilst að hann bjóði mér að nota lífeyrissparnað til borga þessa skuld án þess að borga skatt af upphæðinni ásamt því að ég fái skattalækkun. Þetta er flóknara hjá Sjálfstæðisflokknum en í fljótu bragði sýnist mér hann bjóða mér betur en Framsókn.

    Svo kemur ansi hörð samkeppni frá Hægri grænum. Ef ég fæ 45% lækkun bjóða Hægri grænir mér 4,5 millur. Það er erfitt að jafna það.

    Ég þarf greinilega að reikna ýmislegt áður en ég fer í kjörklefann.

    Kv.
    Skúli

  • HaukurHauks

    Afhverju ekki að nota þennan pening til að borga erlendar skuldir?

    Vaxtagjöld er næststærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á eftir velferðarmálum. Jafnvægið í ríkisbókhaldinu er mjög mikilvægt og ætti að vera fyrsta stefnumál flokkanna í kostiningabaráttunni.

    http://gallery.datamarket.com/fjarlagafrumvarp_2013/

    Vaxtagjödl er 88 milljarða á ári.

    Væri ekki betra að borga niður skuldir og nota þá þessa 88milljarða Á ÁRI til þess að koma til móts við almennings?

    Ef hrunið kenndi okkur eitthvað var það að við verðum að kunna ráðdeild og ekki spandera öllum peningum sem við fáum gefins.

  • Mín er ánægjan, Eygló, að geta hjálpað Framsókn við að svara því hvernig hægt sé að standa við kosningaloforð flokksins. Svörin hafa nefnilega verið afar óljós hingað til; sumir frambjóðendur flokksins hafa talað um skattahækkanir og aðrir um að kostnaðurinn lendi óhjákvæmilega á lífeyrisþegum, fyrr eða síðar.

    En ég bendi jafnframt á athugasemdirnar við bloggpistilinn minn, sem eru fróðleg lesning. Þar er m.a. spurt: „Núverandi stjórnvöld kalla þessar hugmyndir framsóknarmanna töfralausnir. Það virðist ekki vera mikill baráttuvilji á þeim bænum fyrir að kýla á þetta. Hvernig stendur á því?“

    Svar mitt er eftirfarandi:

    Í fyrsta lagi er ávinningurinn ekki í hendi og því óábyrgt að lofa honum núna og láta kjósa sig út á hann.

    Í öðru lagi er sú leið að taka allan ávinninginn (eða langstærstan hluta hans) og verja í almenna höfuðstólslækkun verðtryggðra lána ekki skynsamleg. Þar með væru skuldir ríkissjóðs ekki lækkaðar eins og þarf til að reka hér gott velferðarkerfi og lækka skatta. Margir fengju þar mikla peninga í hendur sem eiga stórar eignir og ráða vel við sínar skuldbindingar. Það er óskynsamleg forgangsröðun þegar margar aðrar mikilvægar þarfir eru fyrir hendi.

    Í þriðja lagi hefur Samfylkingin (sem ég er í) ítrekað lýst vilja sínum til að koma til móts við þá sem á þurfa að halda, um leið og svigrúm skapast. Síðast í ályktunum landsfundar í vor.

  • Benedikt

    Margir eru reiðir sem sjá leiðréttingu í bígerð.

    Hvers vegna skildi það vera.

    Er silfrið að flækjast fyrir samlöndum okkar ?

    Er réttlát samfélag slæmt ?

  • Halldór Guðmundsson

    Mestu efnahagsmistök sem gerð hafa verið, eru að vísitalan hafi ekki verið tekin úr sambandi strax eftir Hrun, allavega tímabundið, hvaða Shipansar ættli hafi komið í veg fyrir að það var ekki gert? Og nú er þessi veslings ríkistjórn að gjalda það dýru verði, og eru búin að valda heimilum og fyrirtækjum meiri skaða, en sjálft Hrunið olli landsmönnum.
    Þann Forsendubrest sem varð á verðtryggðum lánum við Hrunið, verður að leiðrétta, og til þess eru margar leiðir, og það er orðið besta skemtiefni, hvernig sótt er að floknum og Formanninum úr öllum áttum,jafnverl af mikilsmetnum hagfræðingum. Alltaf er spurt hvar á að taka peningana, hvaða peningar voru notaðir þegar gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg, og allt bendir til að verðtryggðu lánin fari sömu leið.
    Snjóhengjan verður ekki leyst nema taka upp nýkrónu, ríkisdal, bundin myntkörfu,þýskaleiðin ,og gamla krónan höfð í gjaldeyrishöftum næstu 20-30 árin,og sá sem vill út verði skattlagður upp í topp,
    En til að leiðrétta verðtryggðu lánin eru margar leiðir, t.d.að setja þak á vísitöluna 2.5% og festa breytilega vexti þessara lána í 2% næstu 5-7 árin meðan verið er að leiðrétta Forsendubrestin frá Hruni, og gaman væri að hgfræðingurinn svari því hver borgi það, að leiðrétta froðu hækunina.svo eru Hægri grænir og Lilja með ágætis lausn, og Júlíus Sólnes með góða grein um verðtrygginguna.

  • Jens Jónsson

    Ein leið til að leiðrétta verðtryggðu lánin er að nota verðtrygginguna til þess það setja lög sem bana verðtryggð lán til almennra neytenda og afnema svo öll vörugjöld og tolla við það myndu öll verðtryggð lán lækka með vísitölunni og verslaunarferðir til útlanda myndu hætta en hugsanlega þyrftum við að skammta aðgengi útlendinga að landinu.

    Þá er líka alveg ljóst hver þyrfti að borga en enginn þorir að nefna, fjármagnseigendur eru nefnilega eins og Voldemort í þessari umræðu um skuldir heimilana.
    Þetta er ekki spurningin um hver á að borga heldur hvort þeir sem skulda peninga á Íslandi eigi að taka á sig þyngri byrðar af efnahagshruninu en aðrir

  • Arnlín Óladóttir

    Einu sinni voru samvinnutryggingar. Þar lögðu menn í sjóð og gerðust um leið sameigendur að félaginu. Ef félaginu yrði einhvern tímann slitið skyldi sjóðurinn renna hlutfallslega til þeirra sem tóku þátt í að byggja félagið upp s.s. tryggingartakar. Félagslegt og fallegt.
    En svo fór sjóðurinn á flakk og lenti í höndunum á (framsókna) rmönnum og allir vita hvernig fór…. úpps allt tapað en (framsóknar) mennirnir urðu skyndilega ríkir.
    Hvernig verður með þessar afskriftir? Ef þetta eru raunverulegir peningar, verðum við þá ekki sannfærð á ábyrgan hátt um gagnsemi þess að biðja einhverja klára (framsóknar) menn að ávaxta þá?
    Mér finnst fínt að kroppa peningana af fjárglæframönnum, En annars vegar vil ég vita hvernig á að lækka skuldir og hvað heimila og hins vegar er kannski best að lækka skuldir ríkisins svo skattpeningurinn okkar fari ekki að stóðrum hluta í vexti.

  • Arnlín Óladóttir

    Ekki pissa í skóinn sinn og lenda í vítahring

  • Eygló, ætlar Framsókn að lækka verðtryggðu námslánin ?

  • kristin geir st briem

    að fara í 20% flatta lækkun skulda hjálpar ekki þeim sem er í greiðslvanda en auððvitað er sama hvaða leið er farin í öllum eru gallar menn þurfa að fynna þessa galla og ef hægt er að laga en ef ekki er hægt að laga þurfa menn að þekkja gallana

  • Hvaða heimili er alltaf verið að tala um? Þessi 15% sem eru í vanda eða öll heimili einnig heimili þeirra sem leigja og svo heimili þeirra sem ekki skulda?

    Hvernig er hægt að draga 300 milljarða upp úr hatti í uppgjöri vegna bankanna án þess að það snerti alla landsmenn.

    Enn eru Íslendingar skuldum vafðir vegna viðskilnaðar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Ef við finnum fé einhversstaðar er þá ekki ráð að nota það til að greiða heildarskuldir þannig að það komi öllum landsmönnum til góða. Þar með er ég ekki að segja að ekki eigi að halda áfram að hjálpa þeim sem verst fóru út úr 90% lánafátæktargildru Framsóknarflokksins.

  • Getu maður treyst því að húsnæðiskuldir lækki hjá manni ef maður kýs ykkur og þið komist í ríkisstjórn?

  • Jonas Kr

    Hvaðan eiga þessir 300 milljarðar að koma? Þó að skuldareigandi þurfi að lækka verðmatið á eignasafninu, þá kemur það ekki skuldara til góða. Það afskrifar enginn innheimtanlegar skuld.

  • Ex Sjalli

    Fór og kaus X-B treysti því að þið lokið Evrópustofu og rekið Evrópusinna úr landi.Verða 20 % lögð inná reikning eða höfuðstóll lækkaður hvenær kemur þetta til frmkvæmdar?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur