Ýmsir hafa áhyggjur af Framsóknarflokknum og stefnu hans, einkum nú fyrir kosningar. Nú virðast áhyggjurnar einkum vera tvíþættar. Annars vegar að þeir sem skulda eigi að fá skuldaleiðréttingu og hins vegar að flokkurinn hyggist „þjóðnýta“ hagnað erlendra vogunarsjóða.
Svo virðist nú líka vera sérstakt áhyggjuefni að allt stefnir í að framsóknarmenn verði í stöðu til að hrinda þessari stefnu sinni í framkvæmd eftir kosningar.
Afstaða okkar framsóknarmanna er skýr. Við viljum að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Heimili þessa lands skulu ekki sitja ein uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns. Ýmsir sjá ofsjónum yfir þessu loforði. Í þessum hópi kann nefnilega að vera fólk sem getur vel greitt af lánunum sínum eða fólk sem leyfði sér að kaupa of stórt heimili, eða bara ekki „rétt“ fólk.
Í huga okkar framsóknarmanna snýst þetta ekki um að velja út einstaka hópa. Það er ekki okkar að ákveða hverjir „eiga skilið“ að fá lán sín leiðrétt. Þeir sem voru með verðtryggð húsnæðislán urðu fyrir skaða í hruninu. Hann þarf að bæta.
Hverjum dettur í hug að eftir jarðskjálfta myndu fulltrúar Viðlagatryggingar ganga á milli húsa í sömu götu, safna upplýsingum um tekjur og þjóðfélagsstöðu eigenda þeirra – og handvelja svo þá sem ættu rétt á bótum. Segja: „Nei, nei, – húsið þitt er allt of stórt og þú ert með allt of háar tekjur. Þú getur nú vel borgað þennan skaða sjálfur, þú færð engar bætur.“
Ljóst er að við höfum ekki gjaldeyri til að greiða út hinar svokölluðu krónueignir hinna föllnu banka. Ekki heldur hina svokölluðu snjóhengju. Þess vegna erum við með gjaldeyrishöft. Í mínum huga, í huga okkar framsóknarmanna kemur einfaldlega ekki til greina að drekkja okkur, börnunum okkar, barnabörnunum okkar, íslenskum ríkissjóði um ókomna framtíð í skuldum í erlendri mynt til að borga út kröfur þessara aðila.
Kröfur sem byggjast á gengi sem búið er til í Seðlabanka Íslands, gengi sem byggist á gjaldeyrishöftunum.
Menn þurfa einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir.
Einhverjir kunna að kalla það þjóðnýtingu. Ef ríkissjóður tæki þennan ávinning til eigin nota, án þess að skila honum áfram til heimilanna væri fyrst hægt að tala um þjóðnýtingu. Við köllum þetta raunsæi, – við veljum einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir og að standa með þjóð okkar. Það höfum við alltaf gert og munum alltaf gera.
Langflestir, fyrir utan einstaka öfgamenn, eru sammála um mikilvægi þess að gæta að hagsmunum Íslands við uppgjör föllnu bankanna og afnám gjaldeyrishaftanna. Ágreiningurinn liggur hins vegar í því hvernig eigi að nýta svigrúmið sem skapast við uppgjörið. Afstaða framsóknarmanna er enn á ný skýr. Heimilin eru gangverk efnahagslífsins. Þau munu alltaf á endanum standa undir útgjöldum ríkissjóðs í gegnum skattgreiðslur sínar. Ef heimilin eru að drukkna í skuldum, kaupa þau ekki vöru og þjónustu. Fyrirtæki hækka þá ekki laun starfsmanna, ráða ekki nýtt fólk, fara ekki í nýjar fjárfestingar. Tekjur ríkissjóðs standa þá í stað eða dragast saman.
Þetta er ástæða þess að fjárfestingar hafa verið í sögulegu lágmarki, þetta er ástæða þess að hagvaxtaspár ganga ekki eftir.
Með því að leiðrétta skuldirnar fer gangverkið aftur af stað.
Þetta er ekki aðeins hugmyndafræði okkar framsóknarmanna. Þetta er sú hugmyndafræði sem Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur talað fyrir og byggir á kenningum John Maynard Keynes. Krugman hefur jafnvel réttlætt að ríki með eigin gjaldmiðil skuldsetji sig til að koma gangverki efnahagslífsins í gang. Hann bendir einnig á að fjárfestar hafa sýnt að þeim er nokk sama hvort halli sé á ríkissjóðum, svo lengi sem ríkissjóðir standa í skilum með erlendar skuldir sínar.
Hann segir það ekki forgangsmál að skera samfélög inn að beini til að greiða upp skuldir ríkissjóðs.
Forgangsmálið er að gera heimilum og fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna. Það gerum við með því að létta af þeim skuldafjötrunum. Þannig aukum við skatttekjur ríkissjóðs og gerum honum kleift að greiða niður skuldir sínar.
Þess vegna eru heimilin í forgangi hjá Framsókn.
Áhyggjurnar ganga út á að það eigi að sólunda fé, sem er af skornum skammti, til að létta skuldum af auðmönnum sem vel geta greitt skuldir sínar sjálfir.
Nær væri að auka framlög til Landsspítalans, hækka öryrkja- og ellilífeyrisbætur, auka framlög til menntamála og síðast en ekki síst greiða niður himinháar skuldir ríkissjóðs.
Það eru heldur engin rök fyrir því að lækka skuldir sem voru teknar fyrr 2006. Kreppur eiga ekki að vera tækifæri hinna betur settu til að hagnast á kostnað hinna verr settu.
Kjósendur gera sér almennt ekki grein fyrir að hlutdeild flestra í kostnaði ríkisins vegna almennra skuldalækkana verður, ef tillögur Framsóknarflokksins ná fram að ganga, miklu meiri en þeirra eigin skuldalækkun.
Það væri ágætis byrjun að þið kölluðuð hlutina réttum nöfnum. þið talið um skuldamál heimilinna en eruð i raun bara að tala um skuldamál fasteignareigenda. Eins er óskiljanlegt að þið studduð ekki að lánsveðin gætu fallið undir 110% leiðina og né þéttingu laga um gjaldeyrishöftin.
Þarna talar Eigló eins og það séu Framsóknarmenn sem hafi forgöngu um það að þjóðnýta hagnað vogunarsjóðanna. Því fer fjarri. Þeir voru í mars á móti því að setja lög sem sköpuðu stjórnvöldum þá samningsstöðu sem gerir þeim mögulegt að fá hagnað út úr uppgjöri þrogabua gömlu bankanna. Þetta er hugsað sem lið í því að afnema gjaldeyrishöftin og hefur mögulegur hagnaður af þessu verið ljós allan tíman og var honum ætlað annað hlutverk sem lið í því að afnema gjaldeyrishöftin. Ég geri fastlega ráð fyrir því að sá liður hafi snúist um það að lækka skuldir ríkisins því hætt er við að við losin gjaldeyrishaftanna hækki vextir hér á landi og þá er ekki gott að ríkissjóður skuldi það mikið að nærri fimmtungur ríkisútgjalda séu vextir.
Það eina sem Framsóknarmenn hafa boðað er að mögulegur hagnaður af aðgerðum sem þeir voru ekki tilbúnir til að styðja á sínum tíma verði tekin úr þeim farvegi sem áætlað var að nota hann og setja hann í staðinn í það að greiða niður skuldir heimilanna. Þá þurfa væntanlega skattgreiðendur að greiða fyrir það sem væntum hagnaði var ætlað að greiða.
Það stendur því eftir sú staðreynd að það verða skattgreiðendur sem bera byrgðarnar af þessum lækkunum skulda. Sá pakki verður sennilega á bilinu ein til ein og hálf milljón á hvern skattgreiðanda að meðaltali. Svo er bara spurningin hvernig því verður dreift.
Ofan í kaupið eru síðan Framsóknarmenn að gera skemmdarverk á möguleikunum til að ná í þennan hagnað með þessum yfirlýsingum. Staðan er nefnilega sú að til að ríkissjóður geti náð í pening út úr þessu þarf hann að geta keypt Arion banka og Íslandsbanka á undiverði og síðan selt þá á fullu verði. Ef það á að vera hægt að hámarka hagnðinn getur þurft að setja mörg ár í þetta ferli. Það styrkir líka samningsstöðuna að andstæðingurinn telji að viðsemjandinn geti alveg lifað við það að ekki verði af neinum samningum eða beðið lengi með að klára málið. Þegar búið er að setja tímapressu á það að klára málið er sú staða frá.
Þetta á við báða aðila. Bæði vogunarsjóðina sem ríkið vill kaupa bankana af á undirverði og vænta kaupendur af bönkunum eftir það. Báðir aðilar munu verða harðari í samningaviðræðum vitandi að leiðandi flokkur í ríksstjórninni verður að klára málið á kjörtímabilinu til að halda andlitinu í næstu kosningum. Því er hætt við að þessi yfirlýsing Framsóknarmanna leiði til þess að hagnaðurinn af þessu verði mun minni en annars væri til mikils skaða fyrir heimilin í landinu sem skattgreiðendur.
Það er því alveg á tæru að með þessu er Framsóknarflokkurinn ekki að hugsa um hag heimilanna. Þetta útspil sem getur reynst ríkissjóði og þar með skattgreiðendum dýkreypt er ekkert annað en blekkingarleikur til að telja kjósendum trú um að hægt sé að lækka skudlir heimilanna án þess að heimilin sjálf þurfi að bera byrgðarnar sem skattgreiðensdur. Þetta er blekking til að fá kjósendur til að halda að lækkun skuldanna sé eitthvað annað en það að hluti af byrðum sumra heimila séu færðar yfir á önnur heimili. Og það sem verra er mun straumurinn í þeim tilflutningum fjárhagslegra byrgða vera frá betur stæðum heimilum til verr stæðra heimila.
Þarna er því Framsóknarflokkurinn að vinna skemmdarverk á fjárhag íslenskra heimila til þess eins að ná í fleiri atkvæði þann 27. apríl. Það segir allt sem segja þarf um áhuga þeirra á hag heimilanna. Þeir sýndu líka sitt rétta andlit þegar þeir stóðu gegn því að heimilum með lánsveð væri hjálpað með viðbótar vaxtabótum. Þetta var viðleytni til að koma til móts við heimili með lánsveð sem eru í vanda vegna þess að Hæstiréttur dæmdi að það væri brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að taka lánsveð með í 110% leiðina.
Vissulega er þar ekki um að ræða tórkostlega niðurgreiðslu en þó upphæð sem þessum heimilum munar um. Af hverju ætli Framsóknarflokkurinn hafi veirð á móti því? Það blasir við að þeir hafa ekki áhuga á að heimilum sé hjálpað nema þeir geti eignað sér heiðurinn af því. Þess vegna voru þeir ekki tilbúnir að styðja aðstoð við heimili í vanda sem ríksstjórnin stendur fyrir.
Fullyrðingar um að Framsóknarflokknum sé annt um heimili í vanda stenst því enga skoðun. Þetta er bara útspil til að ná í atkvæði fólks sem ekki sér í gegnum lýskrumið í þeim.
Líkingin um viðlagatryggingar er réttara að leggja út á annan veg.
Hús eru misjafnlega vel byggð. Sum standa betur af sér áraun en önnur en tryggingin á hins vegar að gilda jafnt yfir alla. Eigendur þeirra húsa sem þarfnast bóta eru þeir sem keyptu hús á þeim tíma sem fasteignabólan sem Framsókn bjó til varði, þ.e. á árunum 2004 til 2008. Þeirra hús voru reist á sandi.
Jöfn niðurfærsla lána, eins Framsókn hefur talað fyrir, er af sömu ástæðu rökleysa.
En Eygló, afhverju á ég að borga aukalega tæpa milljón(300.000.000.000/320.000) í skuldum ríkissjóðs + vexti, sem ég samþykkti aldrei og skrifaði aldrei undir, á meðan fólk, sem skrifaði með fullri meðvitund undir lánasamninga, fær einhverjar milljónir til baka?
Haldiði í alvörunni að þið séuð að senda góð skilaboð til framtíðar? Skuldsettu þig og ríkið mun hjálpa þér ef það verður eitthvað sjokk eða vesen, ekki satt?
Af hverju bara sum heimili og alltaf sömu heimilin?
„Lán með veði í íbúðarhúsnæði eru ekki öll tekin til kaupa á húsnæði. Samkvæmt staðtölum á heimasíðu RSK voru lán til kaupa á húsnæði í árslok 2011 um 400 milljörðum lægri en húsnæðisveðlán sbr. framangreint. Má því ætla að um þriðjungur fasteignaveðslána sé vegna annars en íbúðarhúsnæðis, bíla, sumarhúsa, hjólhýsa, hlutabréfa o.s.fr. Þeir sem óvarlega fóru í þessum efnum myndu nú fá það borið upp af þeim sem neituðu sér um það góss. Þannig mætti lengi telja atriði sem mismuna borgurunum gróflega.“
http://blog.pressan.is/indridih/2013/04/07/nidurfaersla-skulda-a-la-framsokn/
Leitt að menn skulu ekki hafa meiri áhuga á hugmyndafræðinni á bakvið skuldaleiðréttingunni.
En nokkur atriði. Við höfum ekki lagst gegn 110% leiðinni fyrir þá sem eru með lánsveð. Við töldum hins vegar til lítils fyrir þann hóp að fá enn einn plásturinn með svokölluðum lánsveðsvaxtabótum þegar ekki lægi fyrir hvernig ætti að taka á höfuðstól lánsveðanna. Fulltrúar lánsveðshópsins kölluðu þessar bætur „grín“ og skattayfirvöld svitnuðu yfir útfærslu ráðherra á bótunum. Vonandi tókst þinginu að sníða af flesta vankantana af frumvarpinu.
Í gildi er áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna frá mars 2011. Hana kynntu Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. http://eyjan.pressan.is/frettir/2011/03/25/aaetlun-um-afnam-gjaldeyrishafta-tilbuin-kynnt-siddegis/
Hér er áætlunin, http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8672
Engin önnur áætlun liggur fyrir.
Mér þætti vænt um ef einhver gæti bent mér á hvar er rætt um heildstæða áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna í áætluninni þar sem tekið er á bæði uppgjöri föllnu bankanna og snjóhengjunni. Ef eitthvað er þá virðast menn telja að fendurfjármögnun gömlu bankanna sé afstaðin, sem og fyrirtækja og heimila.
SA voru ekki alveg sammála áætluninni, og kynntu sína eigin áætlun í maí 2012. Við það tilefni nefndi Árni Páll Árnason ekki einu orði vandann við uppgjör föllnu bankanna, heldur að eina leiðin til afnema gjaldeyrishöftin væri upptaka evru. http://www.ruv.is/frett/vill-satt-um-afnam-gjaldeyrishafta.
Það var ekki fyrr en nefnd um fulltrúum þingflokka um afnám gjaldeyrishaftanna sem stjórnarandstaðan barði í gegn að byrjað var að tala um heildstæða áætlun um afnám haftanna. Í bréfi dagssettu 20. desember 2012 komu þeir á framfæri áhyggjum sínum af fréttum af fyrirhugðum nauðsamningum þrotabúanna og skipulagðri útgreiðslu gjaldeyris til kröfuhafanna í kjölfarið. http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/skjal/Til_formanna_stjornmalaflokkanna_20122012_.pdf
En í ljósi þess að menn sáu þetta allt fyrir er áhugavert að kíkja á ályktanir flokkanna um þessi mál á flokksþingum þeirra árið 2013. Hér er okkar, http://blog.pressan.is/eyglohardar/2013/04/12/heildstaed-aaetlun-um-afnam-haftanna/
Þetta er það sem ég fann hjá stjórnarflokkunum.
VG: „Verkefnin framundan í efnahagsmálum eru ærin og
meðal annars þarf að losa um aflandskrónur samkvæmt þeirri áætlun sem samþykkt hefur verið og gerir ráð fyrir útgönguskatti á þá fjármuni.“
XS: „Samfylkingin vill að unnið verði áfram með Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að lausn á vanda krónunnar og útskiptingu hennar fyrir evru. Trúverðugleiki áætlunarinnar, sem unnið er eftir, skiptir einn og sér miklu máli. Því trúverðugri og gegnheilli sem áætlunin og framtíðarsýnin er, því minni verður hvati til að selja krónueignir við fyrsta tækifæri og valda þar með því að krónan veikist hratt. Áætlun sem unnin er í samvinnu við ESB, Evrópska seðlabankanna og Al- þjóða gjaldeyrissjóðinn með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu sem miðar að upp- töku evru hefur þann trúverðugleika sem til þarf svo áætlunin skili árangri.“
Nokkur orð um samningsstöðu ríkisins gagnvart vogunarsjóðum
ESB og AGS asamt seðlabanka evrópu gerðu bannakinnistæður á Kýpur upptækar.
Þetta ásamt hinum mikilvæga Icesafe dómi gefur okkur hreint fordæmi til þess að meðhöndla vogunarsjóði nánast að vild.
Við hljótum að líta svo á að framtíðarþörf ríkissjóðs á gjaldeyri sé svo mikil að vart verði við unað
Af þessum ástæðum er rökrétt að skatt leggja vogunarsjóði og /eða gera fé þeirra upptækt ef þurfa þykir.
Hér er um að ræða umþb 2000 milljarði í gjaldeyri og 400 milljarði í krónum.
Þetta gæti gjörbreytt stöðu landsins til hins betra.