Sunnudagur 14.04.2013 - 11:42 - 3 ummæli

Stjórnarliðar og peran

Af hverju eru við framsóknarmenn að kalla eftir heildstæðri áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna?  Ástæðan er einföld.  Í gildi er áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri kynntu sem sína.

Í þeirri áætlun er aðeins fjallað um hvernig eigi að aflétta snjóhengjunni.  Nánast ekkert er fjallað um uppgjör föllnu bankanna, – með smá undantekningu.

Þar segir: „ Endurfjármögnun gömlu bankanna er afstaðin og aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja liggja nú fyrir í endanlegri mynd.“ Þar segir einnig: „Gjaldeyrisforði Seðlabankans er nú í sögulegu hámarki og nemur 47% af landsframleiðslu ársins 2010, en búast má við að forðinn dragist saman þegar slitastjórnir gömlu bankanna hefja greiðslur til kröfuhafa.“

Engin önnur áætlun liggur fyrir.

Hvergi er talað um heildstæða áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna þar sem tekið er á bæði uppgjöri föllnu bankanna og snjóhengjunni.

Samtök atvinnulífsins voru ekki alveg sátt við þessa áætlun og  kynntu því sína eigin í maí 2012.  Við það tilefni sagði Árni Páll Árnason að eina leiðin til að afnema gjaldeyrishöftin væri upptaka evru. Friðrik Már Baldursson talaði hins vegar við sama tækifæri um mikilvægi trúverðugra hótana og þrýsting gagnvart eigendum erlends gjaldeyris.

Í millitíðinni hafði nefnd um afnám gjaldeyrishaftanna, skipuð fulltrúum þingflokkanna, verið að störfum, en stjórnarandstaðan hafði krafist þess að hún yrði skipuð til að fá betri heildarsýn á vandann.  Niðurstaða þeirrar vinnu var meðal annars að í bréfi dagsettu 20. desember 2012 komu þeir á framfæri áhyggjum sínum af fréttum af fyrirhugðum nauðsamningum hinna föllnu banka og skipulagðri útgreiðslu gjaldeyris til kröfuhafanna í kjölfarið.

En í ljósi þess að menn sáu þetta allt fyrir er áhugavert að kíkja á ályktanir nokkurra flokka um afnám gjaldeyrishaftanna árið 2013.

Flokksþing framsóknarmanna 2013: „“Afnám fjármagnshafta er mikilvægt til að ná fram heilbrigði í efnahagsmálum og innleiða  markaðsskráningu íslensku krónunnar. Heildstæð áætlun um afnám fjármagnshafta er nauðsynleg í ljósi þess að vandinn er mun stærri en áætlað hefur verið. Lausnir varðandi skuldaskil gömlu bankanna, „snjóhengjuna“ og ýmis önnur atriði þurfa að vera hluti af slíkri  áætlun. Tryggja þarf að þrotabú gömlu bankanna fái ekki heimildir til gjaldeyrisútflæðis fyrr en heildstæð áætlun um losun hafta liggur fyrir. Slík áætlun þarf að taka tillit til þess að kröfuhafar gömlu bankanna hafa hagnast mjög á sínum viðskiptum og eðlilegt er að þeim ávinningi sé skipt á milli þjóðarinnar og kröfuhafa. Við afnám hafta er brýnt að traust umgjörð sé um gjaldeyrismarkaðinn til framtíðar og að fyrir liggi trúverðug peningastefna. Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að hugsanleg skammtíma veiking íslensku krónunnar í kjölfar haftaafnáms leiði til sjálfvirkrar hækkunar lána í landinu og þar með skuldaaukningar heimila og fyrirtækja.”

Vinstri Grænir landsfundur 2013: „Verkefnin framundan í efnahagsmálum eru ærin og meðal annars þarf að losa um aflandskrónur samkvæmt þeirri áætlun sem samþykkt hefur verið og gerir ráð fyrir útgönguskatti á þá fjármuni.“

Samfylkingin landsfundur 2013: „Samfylkingin vill að unnið verði áfram með Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að lausn á vanda krónunnar og útskiptingu hennar fyrir evru. Trúverðugleiki áætlunarinnar, sem unnið er eftir, skiptir einn og  sér miklu máli. Því trúverðugri og gegnheilli sem áætlunin og framtíðarsýnin er, því  minni verður hvati til að selja krónueignir við fyrsta tækifæri og valda þar með því að krónan veikist hratt. Áætlun sem unnin er í samvinnu við ESB, Evrópska seðlabankanna og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu sem miðar að upptöku evru hefur þann trúverðugleika sem til þarf svo áætlunin skili árangri.“

Svo mörg voru þau orð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Magnús Björgvinsson

    Ekki málefnaleg núna. Minni á að Framsókn er búin að eyða hagnði af krónueignum kröfuhafa löngu áður en rætt hefur verið við þá. Finnst það ekki gáfulegt að gera lítið úr öðrum áður en flokkur pistla höfundar kemst til valda að og þarf að standa við stóru orðinn. Af hverju talar fólk sem vill ný vinnubrögð ekki um sínar leiðir án þess að gera lítið úr bæði örðrum flokkum, embættismönum og öðrum starfsmönnum ríkisins. Hef að tilfinningunn þegar maður hlustar t.d. á formann framsóknar að til standi að reka flesta embættismenn og æðstu starfsmenn ríkisins því þeir skv. honum hafa bara gert mistök. Og svo ætlar hann að koma með sínar lausnir sem hvergi hafa verið reyndar og taka áhættu hér með t.d. að dæla inn mögulega um 2 til 400 milljörðum frá kröfuhöfum og vera áfram með krónu.Það er meira en kom við virkjun Kárahnjúka og Reyðarál og var þá talið skapa tímabundið verðbólguskot upp á um 3 til 4%. Flokkurinn ekkert talað um það. En líklega myndi það éta upp hugsanlega lækkun verðtryggðra lána á kannski 2 árum

  • Ég get ekki kosið Framsóknarflokkinn. Ég kann samt vel við þig og þú ert í mínu kjördæmi. Mér finnst Framsóknarflokkurinn velja ósanngjarna leið til að fara með þessa peninga. Það hefði verið sanngjarnt að nota þetta í það sem allir eiga saman, heilbrigðiskerfið.

  • Jörundur

    Magnús! Eygló er alltaf málefnaleg. Hún er ekkert að gera lítið úr öðrum (stjórnarflokkunum). Þeir sjá um það sjálfir. Sannleikurinn er sá að ekkert liggur eftir þessa ríkisstjórn. Hún hefur ekkert gert, ekki komist að samkomulagi um neitt. Fjöldi frumvarpa um sjávarútveg daga uppi vegna þess að stjórnarflokkarnir komast ekki að samkomulagi um lausnir.
    Seðlabankinn byggir enn á úreltum verðbólgumarkmiðum (sama aðferð og Alan Greenspan fyrrum seðlabankastjóri USA notaði þar til hann áttaði sig og sagði af sér vegna þess).
    Þeir voru sammála um innleiðingu reglugerða ESB. Þeir voru sammála um gjörbreyta öllum ráðuneytum.
    Þeir voru sammála um hátt í 200 skattbreytingar.
    Komu sér ekki saman um neitt í sambandi við verðtryggingu, málefni ÍLS.
    Núna í lokin samþykkir þessi ríkisstjórn fjöldan allan af kostnaðarsömum framkvæmdum sem næsta ríkisstjórn þarf að fjármagna: Tannlæknaþjónusta fyrir alla, Vaðlaheiðargöng, Hús íslenskra Fræða, Fræðasetur á Kirkjubæjarklaustri, Vigdísarstofnun, virkjun í Bjarnarflagi, kísilver á Bakka o.s.frv.
    Enginn niðurskurður hefur verið gerður í ríkisbákninu. Stór halli hefur verið á ríkisrekstrinum öll árin. Meira að segja síðasta árið klikkaði líka með meira en 40 milljarða halla, sem hækkar enn skuldabaggann.
    Hrikaleg skuldaóreiðustjórn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur