Sunnudagur 21.04.2013 - 18:36 - 8 ummæli

Hagsmunir úrtölumanna?

Síðustu vikur hafa öll spjót staðið á okkur framsóknarmönnum vegna þeirrar stefnu okkar að bæta heimilunum að hluta þann forsendubrest sem þau urðu fyrir við hrunið. Í upphafi voru áætlanir okkar um að ganga fram af hörku gagnvart vogunarsjóðunum úthrópaðar sem ómögulegar og óframkvæmanlegar. Nú snýst umræðan ekki um hvort svigrúmið sé til staðar, heldur hvað eigi að gera við peningana.

Enn hljóma þó úrtöluraddir og einna háværastar eru þær í nokkrum dagblöðum.

Þar hafa leiðarasíður verið undirlagðar, dag eftir dag, af hamfaralýsingum sem virðast hafa það eina markmið að telja almenningi trú um að hér muni allt fara á versta veg ef vogunarsjóðunum verði ekki tryggður hámarkshagnaður af eignum sínum.

Nú síðast var vitnað í Lars Christensen, forstöðumann greiningardeildar Danske Bank, sem varar við því sem hann kallar „upptöku ríkisins á eignum þrotabúa gömlu bankanna“. Orð hans fá aukið vægi þegar bent er á að hann hafi varað við stöðu íslensks efnahagslífs fyrir hrun, án þess að á hann væri hlustað.

Ekki ætla ég að gera lítið úr Lars, en þó má benda á að annar hagfræðingur, sem einnig varaði við ósjálfbærri skuldasöfnun fjármálakerfisins, hefur einmitt hvatt til þess að gengið verði hart fram gegn vogunarsjóðunum og gangverki efnahagslífs sé komið af stað með því að létta byrðum af heimilum og fyrirtækjum. Sá hagfræðingur er Paul Krugman, sem jafnframt hefur nóbelsverðlaun í hagfræði umfram Lars.

Helstu rök Lars eru þau að uppgjör við kröfuhafa, þar sem þeir þyrftu að gefa eftir hluta hagnaðar síns eftir hrun, myndi kalla á harkaleg viðbrögð alþjóðlegra fjárfesta. Þessi sömu rök voru hávær í Icesave deilunni, en reyndust rökleysa þegar á reyndi. Einnig má velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að bera vogunarsjóði saman við hefðbundna fjárfesta, líkt og þá sem við teljum æskilegt að fjárfesti í íslensku atvinnulífi.

Vogunarsjóðir byggjast upp á gríðarlegum sveiflum hagnaðar og taps, þar sem áherslan er á skammtímahagnað. Þar er um miklar fjárhæðir að tefla og til samanburðar má nefna að laun stjórnenda 15 stærstu vogunarsjóða Bandaríkjanna voru árið 2006 þreföld heildarlaun allra 80.000 kennara New York borgar. Því er ljóst að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi.

Því veltir maður óneitanlega fyrir sér hverra hagsmuna úrtölumenn eru að gæta.

Tæplega íslensks almennings.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Þegar ríkið nær í aur er spurningin hvað skal gera við hann. Skiptir þá ekki máli hvort um skatttekjur eða annan aur er að ræða
    Ég á íbúðarhúsnæði sem hefur hækkað um 2,4 milj. umfram lánskjaravísitölu. Launavísitalan hefur hækkað meira en lánskjaravísutalan. Ég skulda 10 milj. verðtryggt lán en á yfir 30 milj. á gjaldeyrisreikningi síðan fyrir hrun.

    Eygló, finnst þér réttlæti felast í því að ríkið lækki lánið hjá mér um 2 milj. ?
    Hvað þarf að „leiðrétta“ í mínu tilfelli ?
    Hvaða „forsendubrest“ hef ég lent í ?

  • Eygló, ætlar Framsókn að lækka námslánin hjá unga fólkinu ?

  • Sæl Eygló 🙂
    Við skulum velta fyrir okkur tveim stöðum:

    A)Við förum eftir ráðum Lars, og semjum mjúklega við kröfuhafa. Skv. greiningu á gögnum, þá er peningurinn í þrotabúunum yfir 1000ma.kr. samtals. Skv. mjúkri meðferð, værum við væntanlega að tryggja að þessir aðilar fái sem mest af þessu greitt – sem næst núverandi virði. Með öðrum orðum, að landið skuldsetti sig „hressilega“ til viðbótar ofan á núverandi skuldsetningu. Skv. útleggingu Lars ætti þetta að skapa aukið traust og lægri vexti til framtíðar 🙂

    B)Eða við göngum hart fram gegn kröfuhöfum, fáum t.d. á bilinu helming til 2/3 af núverandi andvirði afskrifað. Nú ímyndum okkur að við síðan skuldsetjum okkur til að greiða þeim þetta niðurfærða andvirði. Sem leiðir til verulega lægri skuldsetningar þjóðarbúsins miðað við sviðsmynd A. Skv. Lars leiðir þetta til minna trausts á landi og þjóð af hálfu erlendra aðila almennt 🙂

    Við kaupum þetta auðvitað að hærri skuldsetning auki traust – eða hvað 🙂

    Ágætt að nefna í samhenginu meðferð ESB á kröfuhöfum Grikklands á sl. ári, þegar þeir neyddur þá til að afskrifa þ.s. í dag er áætlað að hafi verið um 70% af framreiknuðu raunvirði skulda Grikklands í eigu einkaaðila. Skv. Lars hlýtur sú aðgerð, að hafa skaðað traust aðila á Grikklandi 🙂

    Kv.

  • Hvaða heimili eru þetta og hvernig lán eru þetta sem verða bætt?

    Þið talið alltaf eins og þið séuð að fara að hjálpa öllum heimilum í landinu. Verða það öll heimili í landinu sem fá hjálp frá Framsóknarflokknum?

  • Ásmundur

    Krugman styður skuldalækkanir. Hans hugmyndir eru þó meira í anda þess sem stjórnarflokkarnir hafa staðið að og munu halda áfram með eftir kosningar.

    Hann styður ekki skuldalækkanir sem koma þeim helst til góða sem ráða vel við sínar skuldir. Stefán Ólafsson hefur einfaldlega rangt fyrir sér eins og samstarfsmaður Krugman, Gauti Eggertsson, hefur bent á.

    Tilgangur skuldalækkana er að örva efnahagslífið með því að auka neyslu. Bestur árangur i þeim efnum er að bæta hag þeirra sem eru í erfiðleikum með að greiða sínar skuldir.

    Það er þó engin sanngirni í því að lækka skuldabyrði lána heimilanna án þess að leigjendur, sem hafa oft þyngri greiðslubyrði, njóti einnig fyrirgreiðslu. Húsnæðisbætur er því sanngjarnari leið.

    20% lækkun skulda, eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt til, leiðir til að mikill meiri hluti lækkunarinnar fer til þeirra sem hafa góðar tekjur og ráða vel við sínar skuldir.

    Það er ekki í anda Krugman.

  • Ég er úrtölurödd, fyrst og fremst vegna þess að þessar áætlanir ykkar munu kosta óheyrilegar fjárhæðir og 80% af þeim fara til hátekjufólks sem á ekki í neinum fjárhagsvandræðum. Ef tekst að ræna lífeyrishrægammasjóði og aðra þá sem Framsóknarflokkurinn kallar hrægamma þá á að nota það fé til að greiða niður skuldir ríkisins, svo hægt verði að efla t.d. heilbrigðiskerfið, skólakerfið og greiða mikið hærri barna- og vaxtabætur. Þetta síðast talda er það mikilvægasta, vegna þess að það er fyrst og fremst barnafjölskyldur sem eru illa staddar í þessu þjóðfélagi.

  • Þorlákur Axel Jónsson

    Hvaða hlutverki á kylfan að gegna í hagstjórninni? Sjálf hefur þú boðað notkun kylfunnar – sé heimilt að nota kylfur á einn aðila hver eru þá takmörkin fyrir því að nota þær á aðra sem ekki vilja semja eins og Framsóknarflokkurinn ætlast til? Verður almenningur undanþeginn kylfuhagstjórn? Sérðu fyrir þér að Framsóknarkylfan muni best tryggja hagsmuni almennings?

  • Hvenær verða 20% af lánunum greidd til okkar verður þetta lækkun á höfuðstól eða beingreiðsla?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur