Ný skýrsla OECD sýnir að fá OECD ríki græða jafnmikið á innflytjendum og Ísland. Þeir auka landsframleiðslu hér um tæpt eitt prósent.
Ég tel þetta staðfesta enn á ný mikilvægi virkrar þátttöku innflytjenda í atvinnulífinu og samfélaginu í heild. Að vinna er og verður forsenda vaxtar og velferðar í samfélaginu, óháð uppruna.
Þessu til viðbótar er ég þeirrar skoðunar að dvöl í öðru landi við nám eða störf er eitt af því mest gefandi sem nokkur einstaklingur getur upplifað. Það er eitthvað sem væntanlega nánast öll ríkisstjórnin getur tekið undir en við höfum mörg dvalið langtímum erlendis við nám eða störf.
Ég var sjálf tvisvar skiptinemi í Bandaríkjunum og stundaði mitt háskólanám við Stokkhólmsháskóla auk þess sem ég starfaði í Svíþjóð um tíma. Ég var innflytjandi, – þótt ég hafi sjaldan hugsað út í það að ég væri slíkur.
Í Svíþjóð kynntist ég fjölda annarra erlendra nema og sumir af þeim ílengdust í Svíþjóð á meðan aðrir snéru aftur til síns heima, – reynslunni ríkari.
Þessi reynsla hefur sannarlega nýst mér vel. Rétt áður en ég kom heim aðstoðaði ég móður mína við að stofna fyrirtæki sem hefur boðið ungu fólki af EES-svæðinu að koma til landsins og starfa tímabundið í landbúnaði, ferðaþjónustu og öðrum tilfallandi störfum. Hundruð ef ekki þúsundir ungmenna hafa því komið til landsins á hennar vegum, flestir snúið aftur heim en einhverjir ílengst, farið í nám eða kynnst sínum maka hér. Árið 2007 vann ég svo með henni að því að bjóða ungum Íslendingum að fara erlendis til vinnu eða sjálfboðastarfa víðs vegar um heim.
Fátt hefur sannfært mig betur en þetta hversu mikinn þátt snerting við aðra menningarheima, önnur lönd á í að auka víðsýni og umburðarlyndi, – sem og veitt mér innsýn í hversu mikill Íslendingur ég er.
Því tel ég að við eigum að vinna að því að ungir Íslendingar geti farið sem víðast til að kynnast öðrum löndum og sömuleiðis að taka vel á móti innflytjendum hér á landi.
Við njótum öll góðs af því.
Góð grein Eygló og ég get tekið undir allt sem þú segir, nema þetta;
„….sem og veitt mér innsýn í hversu mikill Íslendingur ég er.“
Hjá mér var þessu öfugt farið. Eftir því sem ég kynntist fleiri menningarheimum og fleira fólki af ýmissu þjóðerni varð ég minn Íslendingur, en meiri heimsborgari.
Góð hugvekja og sannleikanum samkvæm. Um langan aldur hafa innflytjendur sett sterkt svipmót á íslenskt þjóðlíf og á það við um atvinnurekstur og listir og menningarlíf almennt. Auðvitað slæðast með miður æskilegir einstaklingar sem eiga erfitt með að halda sig á beinu brautinni. Það er fórnarkostnaður frjálsa flæðisins sem er stjórnvalda að leysa úr.
Það er hetjulegt og lýsir æðruleysi hjá ráðherranum Eygló Harðardóttur að halda úti bloggsíðu hér á Eyjunni og leyfa athugasemdir nær hindrunarlaust. Það er ekki áhættulaust eins og athugasemdirnar margar hverjar bera með sér. Þó að ný ríkisstjórn hafi sterka stöðu á þingi og meirihluta þjóðarinnar á bak við sig eru óvildarmennirnir margir og neita ríkisstjórninni um nokkurs konar friðhelgi fyrstu hundrað dagana eða hveitibrauðsdagana títtnefndu meðan stjórnin er að festa sig í sessi og undirbúa málatilbúnað sinn.
Þetta kemur glögglega fram á sumarþinginu og er kannski ekki óeðlileg framkoma hjá talsmönnum fráfarandi stjórnarflokka og raunar skiljanleg í ljósi fylgishruns í síðustu kosningum og nístandi sársaukans sem því fylgdi.
Afstaða og framkoma flestra fjölmiðla er hins vegar athyglisverð og er RUV þar engin undantekning. Hverri einustu frétt um aðgerðir ríkisstjórnarinnar er fylgt eftir með viðtali við sérvalda dósenta og spekinga sem fjölmiðlinum til þægðar finnur verkum stjórnarinnar allt til foráttu. Það er eitthvað meira en lítið að þegar forsætisráðherra sér sig knúinn hvað eftir annað til þess að leiðrétta fréttaflutning RUV sem er útvarp allra landsmanna og hefur skyldum að gegna í samræmi við það. Látum vera með einkastöðvarnar og dagblöðin sum hver. Þar eiga ekki við sömu kröfurnar um hlutlægni og gera flestir hlustendur og lesendur sér grein fyrir því og meta fréttirnar út frá því. Og nýjustu tíðindin er undirskriftarsöfnun valinkunnra manna og ljóst að aðgerðarsveit VG er vöknuð til lífsins og stutt í að Hörður Torfason verði kallaður heim.
Það er því ljóst, að ríkisstjórnin verður að vera samhent og sýna styrk í aðgerðum sínum. Hún skákar í því skjólinu að hafa dágóðan meirihluta þjóðarinnar á bak við sig og þar með ríflegt lýðræðislegt umboð en á móti róa sterk öfl og flestir fjölmiðlarnir og er RUV þar í fararbroddi.
Mig langar að biðja þig Eygló að beita þér fyrir því að laun kvennastétta í opinberri stjórnsýslu hækki.
Í opinberri stjórnsýslu er konurnar í láglauna störfunum. Ritarar, símadömur, skrifstofu „konur“, bókarar , skjalaverði osl. – bara nefndu það.
Einstæðar konur sem starfa í þessum störfum hjá hinu opinbera hafa varla til hnífs og skeiðar . Við erum orðnar alveg hundleiðar á röfli um jafnlaunastefnu þetta og jafnlaunastefnu hitt.
Skoðaðu laun þessara kvenna bara hjá þínu ráðuneyti og þú munt sjá að laun þeirra eru ykkur til háborinnar skammar. Vonandi nær jafnréttisáhuginn jafn langt í orði og á borði.
Ég er iðnaðarmaður og hef reynt að vinna sem slíkur síðustu árin. Launin sem í boði eru fyrir faglærða iðnaðarmenn hér á landi eru ekki há, raunar frekar lág ef við berum okkur saman við nágrannalöndin. Fyrir ekki löngu síðan gafst ég upp á að vinna við þá iðn sem ég lærði til vegna þess að ég gat ekki framfært fjölskyldu minni af þeim launum sem í boði voru og fór að vinna við aðra starfsgrein þar sem skylirði er að geta talað íslensku. Það er nefnilega svo að atvinnurekendur ráða ekki íslendinga sem krefjast þess jafnvel að fá 2000 kall á tímann þegar hægt er að ráða Austur Evrópskan starfskraft fyrir 1400 kall á tímann fyrir að vinna sömu vinnu.
Hér á landi höfum við starfsgrein sem hefur vaxið gríðarlega síðustu árin sem er ferðaþjónustan. Samt eru tekjurnar sem ferðaiðnaðurinn skilar í ríkiskassann ekki í neinu samræmi við vöxtinn. Gæti það verið vegna þess að hér eru fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki s.s. hótel og veitingastaðir reknir með erlendu starsliði sem kemur hingað sem ferðamenn, eru hér yfir sumartímann fá örlitla vasapeninga, mat og fá að ríða út í þeim litla frítíma sem þeim gefst.
Ég gæti nefnt mörg önnur dæmi en læt þessi duga.
Ég nefnilega skil ekki alveg hvernig hægt að réttlæta það að flytja inn erlent vinnuafl í ótakmörkuðum magni sem vissulega skilar góðu starfi en þarf í mörgum tilvikum ekki að sjá fyrir neinu nema fjölskyldu sem býr erlendis og borga húsaleigu af herbergi sem leigt er út á svarta markaðnum. En við þetta þurfum við að keppa sem þurfum að borga af verðtryggðu íbúðalánunum okkar, borga fulla skatta og koma börnunum okkar til manns.
Býsna oft held ég að þessar fjölþjóðlegu kannanir sem eiga að sýna hversu ómetanlegt erlent vinnuafl er séu pantaðar og sniðnar að þörfum þeirra sem „þurfa“ að láta hlutina líta vel út, á blaði amk.