Laugardagur 29.06.2013 - 11:16 - 4 ummæli

Konur og peningar

Nýlega fjallaði ég um hvað kyn virðist hafa mikið með gildi okkar og verðmætamat að gera.  Þetta virðist endurspeglast m.a. í því hvaða nefndir Alþingis eru taldar eftirsóknaverðar af körlum og hverjar af konum og hversu mikið við borgum fyrir stjórnarsetur í velferðarmálum annars vegar og fjármálum hins vegar.

Í samtali fyrir stuttu var mér bent á að þetta ætti hugsanlega ekki aðeins við um nefndir og stjórnir.  Kyn og gildismat gæti líka spilað inn í viðbrögð við ummælum karla og kvenna þegar kæmi að fjármálum.

Fyrir nokkru stoppaði Kauphöll Íslands viðskipti með skuldabréf Íbúðalánsjóðs vegna ummæla formanns velferðarnefndar.  Virtust stjórnendur Kauphallarinnar telja að formaðurinn, kona, hafi verið full yfirlýsingaglöð varðandi málefni sjóðsins.

Efnislega sagði hún þó fátt annað en þegar hafði komið fram í umræðum á Alþingi.

Fjármálageirinn stóð þó á öndinni í sólarhring eða svo.

Stuttu eftir að ég settist í ráðherrastólinn var ég spurð um málefni sjóðsins.  Í ljósi reynslunnar var ég gætin í orðvali.  Lagði ég áherslu á ríkisábyrgð á skuldabréfum sjóðsins, að vandinn væri mikill og þá pólitík sem ég vil standa fyrir um samráð og samvinnu við alla hagsmunaaðila. Fréttin var varla farin í loftið þegar menn fóru á límingunum. Kauphöllin fór með stækkunargleri yfir orð nýja ráðherrans og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert nýtt kæmi fram í orðum mínum.

Föðursýkin virtist þó til staðar og greiningardeild Arionbanka fékk eilitla útrás fyrir hana í stuttum pistli.

Stuttu síðar tjáði fjármálaráðherra sig um málefni Íbúðarlánasjóðs.

Viðbrögðin voru nánast engin.

Af hverju er það?  Eru konur taldar líklegri til að missa eitthvað út úr sér?  Eða er okkur einfaldlega ekki treystandi fyrir fjármálum?

Hugsanlega kunna viðbrögð markaðsaðila að endurspegla ákveðin sjónarmið gagnvart konum og peningum.  Enda kannski ekki skrítið.  Þegar ég sat í efnahags- og viðskiptanefnd var mjög áberandi að oft mættu bara karlar fyrir nefndina.  Langar raðir af yfirleitt jakkafataklæddum körlum.   Iðulega frekar stressuðum körlum.

Ég tel því rétt að menn slaki aðeins á þótt konur komi að ákvörðunum um fjármál.

Við þurfum að gera ansi stór mistök til að komast með tærnar þar sem karlar hafa hælana hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Snilldarpistill, takk fyrir að vekja athygli à þessu.

 • Ragnar Thorisson

  Er ekki ekki sama svarið við spurningunni um hvort KONUM sé síður treystandi fyrir fjármálum, heldur en KÖRLUM.
  Sumum EINSTAKLINGUM er tretystandi, öðrum ekki.

 • Þess vegna þurfum við konur eins og þig sem þola að farið sé yfir þeirra verk með stækkunargleri. kv. ÞÞ

 • HaukurHauks

  Rannsóknarnefnd Alþingis er sönnun þess að þessi kenning er bara rökleysa.
  Þar vor þrír í nefndinni. Tveir karlar sem sáu um all nema fjármálahlutann og svo ein kona sem sá um fjármálahlutann uppá sitt einsdæmi.
  Og þetta var rannsóknarnefnd um fjármálahrun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur