Sunnudagur 08.09.2013 - 14:58 - 6 ummæli

Að reyna á eigin skinni

Hjón komu til mín fyrir stuttu.  Þau vildu deila með mér sögu sinni af samskiptum við fjármálafyrirtæki í slitum.  Í lok samtalsins ræddum við um hversu miklu máli oft skiptir að hafa upplifað hlutina, til þess að öðlast betri skilning.

Ég gæti ekki verið meira sammála. Þetta er ástæða þess að ég tel fátt mikilvægara en að á Alþingi setjist fólk með fjölbreyttan og ólikan bakgrunn, ungir sem aldnir, mikið og lítið menntaðir, ríkir sem fátækir, konur og karlar.  Aðeins þannig fáum við löggjöf sem endurspeglar fjölbreytni samfélagsins.

Áhugi minn á lána- og húsnæðismálum endurspeglar þetta ágætlega.  Ég hef verið vel upp alin í íslenskum lánamálum.  Mitt fyrsta lán var tekið í kringum tvítugt þegar ég fékk mitt fyrsta kreditkort.  Fyrsta verðtryggða lánið (og yfirdráttur) var í boði Lánasjóðs íslenskra námsmanna og viðskiptabankans, svo Íbúðalánasjóðs við kaup á fyrstu fasteigninni.  Seinna meir voru það gengistryggð lán í boði bankans og fjármögnunarfyrirtækjanna.

Þar af leiðandi upplifði ég líkt og stór hluti Íslendinga bæði forsendubrestinn og gengishrunið og þá rússíbanareið sem hefur fylgt því að vera fasteignaeigandi á Íslandi.

En ég hef líka verið leigjandi. Um nokkurt skeið bjuggum við í 40 fm2 bílskúr,  stækkuðum svo við okkur í 50 fm2 tveggja herbergja íbúð og fengum því létt víðáttubrjálæði þegar við vorum komin í fjögurra herbergja íbúð, – vildum helst öll fjögur vera í sama herbergi fyrstu dagana.  Þetta hefur kennt mér margt um íslenskan leigumarkað.  Eitt er óöryggið sem getur fylgt því að leigja, þegar aðstæður eiganda breytast skyndilega og þarf að losa húsnæðið.  Annað er hvers konar ferill það er fyrir húsnæðiseiganda að breyta húsnæði sínu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Það er ekki einfalt, hvorki fyrir eigandann né sveitarfélagið þótt góður vilji sé til staðar.

Og það þótt skortur sé á leiguhúsnæði.

Eflaust telja einhverjir að ráðherrar geti ekki hafa upplifað það sama og stærstur hluti almennings.  Hafi aldrei þurft að velta fyrir sér hvernig eigi að borga næsta gjalddaga eða leiguna eða láta matarpeningana duga út mánuðinn.

Aldrei hafað skuldað.  Aldrei stressað sig yfir því hvar fjölskyldan ætti að búa.  Aldrei legið vakandi og velt fyrir sér hvort við héldum húsinu eða íbúðinni.

En á hverjum degi þakka ég fyrir þessa reynslu.

Hún er hvatinn, trúin og hugrekkið til að breyta, til að gera betur.  Hún og þær reynslusögur sem hjónin og fjöldi annarra hafa deilt með mér.

Og fyrir það þakka ég daglega.

PS. Ég samþykki inn athugasemdir.  Því getur tekið tíma fyrir athugasemdir að birtast.  Áskil ég mér rétt til að birta ekki athugasemdir sem eru ómálefnalegar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Kæra Eygló,

    Það eru nú margir sem hafa sem víðtækasta reynsluna. Og mjög mismunandi getur hún verið, eins og aðstæður sem líkamleg er, eins og fötlun tildæmis og aðgerðir vegna hennar.

    Sumir ganga í gegnum lífið án þess að geta nokkurn tímann keypt sér íbúð og verða alltaf að leigja. Eins hryllilegt sem það er eins og leigumarkaðurinn er okurvæddur vegna ástandsins í þjóðfélaginu.

    Það er svo sannarlega kominn tími til að breyta þessu leigumarkaðskerfi!

    Ein hugsunin væri sú (eins og hugmynd sem einn maður sendi mér) að færa einhverjar prósentur útsvar innkomu frá ríkinu yfir á sveitarfélögin og auka þannig tekjur þeirra. Þannig gæti sveitarfélag hugsanlega notað þær tekjur beint til að koma betur að breytingum að húsaleigukerfinu. Eins og tildæmis gera samning við Íbúðalánasjóð með það fyrir huga að leigja út lausar íbúðir sem íbúðarlaunasjóður á og eru tómar.

    Ég er með vefsíðu sem ég kalla:
    Hvetjandi og snýst um hvatningu og jákvæðni.
    Ég hvet þig til að taka hér sem skrifa til athugunar.

    Bestu kveðjur,
    Guðni Karl Harðarson

  • Halldór Gunnarsson

    Sæl

    Gott er að vita til þess að þú hafir tekist á við þennan vanda og áttar þig því á hvernig það er að vera leigjandi. Einnig sérðu í hendi þér hvernig það er að vera húsnæðiseigandi.

    Bæði þessi form má laga og leiðrétta með því að lækka vexti í okkar ágæta landi.

    Þér til ábendingar þá ættir þú að skoða hversu lítið vaxtabreytingar seðlabankans hafa haft til að draga úr ýmindaðri þenslu.

    Vandinn er að hækkun stýrivaxta eykur verðbólgu og býr til þenslu.

    þetta er hægt að útskýra með nokkrum orðum sem er samt ekki hægt að setja á blað á opnu bloggi en ég er alveg tilbúinn til að útskýra þetta ef þú hefur áhuga.

    Kveðja Halldór

  • kristinn geir st. briem

    vonangi nídist reinslan vel hjá eyklo. utan dagskrár . var að lesa grein eftir hannes hólmstein. um greinarskrif wades, að eina afrek davíðs oddsonar hafi verið að fara langt framyfir á tékkheftinu í sambandi við tröppurnar þjóðmeníngarhúsið ef það var eina afrek hans í öll þessi ár því sem forsetisráðherra hafi hann lítil völd á pappírunum í seðlabankanum var hann að virðis aðallega skrauts ef marka má hannes.og sjálfstæðisflokkurinn var ekki með fjárveitínga valdið í öll þessi ár en bið eykló afsökunar að fara út fyrir efnið en hafði gaman af skrifum hannesar ef rétt er þá géttur framsókn leit sjálfstæðisflokkin í hvaða forarpitt sem er sama hversu djúpur hann er svo eykló hefur yfir mörgu að gleðjast miðað við upplýsíngar hannesar

  • Eygló, á meðan við búum við ísl. krónu munu aðstæður almennings vera óbreyttar. Afnám verđtryggingar mun engu breyta fyrir almenning nema því að gengið verður óstöðugra, þ. e. mun falla hraðar. Það þarf heiðarleika til að viðurkenna þetta. Þau öfl í samfélagi okkar sem vilja halda í núverandi stöðu mála og vilja getað nànast með einu pennastriki flutt fjármagn á milli þjóðfélagshópa eru ekki að hugsa um almannahag. Ert þú í þeim hópi?

  • Hlynur Jörundsson

    Það er alltaf í tísku að finna sökudólga … hvort sem er krónan, fjármálafyrirtæki eða vondi karlinn.

    En ef við skoðum staðreyndir í formi talna frá Hagstofu varðandi mannfjölda, skiftingu og íbúðafjölda og gerð ásamt verðum á lóðum og byggingarkostnað og afleidd áhrif … þá er kannski hætt við sjáum að sökudólgurinn erum við sjálf og vandamálið var heimatilbúið. Því allir þurfa þak yfir höfuðið og ef sveitarfélög hækka lóðarverð í stað þess að líta til lengri tíma tekna og ríkið skattleggur í stað þess að skattleysa og binda lágmarksverð í álagnirngarferlinum. Og ef við byggjum of lítið og rangar stærðir og gætum þess ekki að verðleggja þannig fólk geti keypt … þá endum við með þá stöðu að kröfhafar .. seðlabankinn, lífeyrirssjóðir, íbúðarlánasjóður og aðrir halda bókfærðu mati í toppi … en fólk getur ekki sloppið … ekki vegna þess það geti ekki reddar 250 000 til að fara í gjaldþrot … heldur vegna þess að það getur ekki búið í tjaldi.

    Og skýrsla Varasjóðs húsnæðismála … Könnun á leiguíbúðum sveitarfélaga 2011 …. segir okkur að vandamálin séu skuggalegri en menn halda.

    Því ef sveitarfélög þurfa að selja íbúðir vegna fjármögnunar og rekstrarkostnaðs …. hvernig á almenningur að ráða við svipuð dæmi ?

  • Agnes Lára

    ég eignaðist mína fyrstu íbúð árið 1996. Verkamanna íbúð í kópavogi. eftir að vera búin að veltast milli leiguíb. í mörg ár.ég hefði aldrei getað keypt mér íbúð á þeim tíma á frjálsum markaði.
    ég hefði viljað sjá verkamanna kerfið aftur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur