Sunnudagur 09.02.2014 - 20:03 - 8 ummæli

Óvönduð vinna RÚV

RÚV fjallaði um breytingar á lögum um almannatryggingar í kvöldfréttum.  Þar var birt sérstaklega mynd af einni grein laganna er varðar sjúkraskrár sem dæmi um hertar eftirlitsheimildir.

Þetta er eilítið vandræðalegt fyrir fréttastofuna.

Ef fréttamaður RÚV hefði unnið heimavinnuna sína, leitað frumheimilda en ekki treyst á einstaka bloggara úti í bæ hefði hún tekið eftir að þessi grein er nánast samhljóða grein nr. 52 í eldri lögum. Þessi grein er því ekki ný, heldur hefur verið í gildi nær óbreytt frá árinu 2001 .

52. gr. í eldri lögum er svohljóðandi:

„Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum],1) Tryggingastofnunar ríkisins [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar]1) þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar],1) eða [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum]1) þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um [sjúkraskrár]2) eftir því sem við á.“

2. gr. j í nýju lögunum (sem varð gr. 42) er svohljóðandi:

„Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.

Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.“

Ástæða þess að hún var í frumvarpinu var fyrst og fremst lagatiltekt og til að tryggja betra samræmi í lögunum varðandi þá þætti sem snúa að eftirlitsheimildum stofnunarinnar.

Ákvæði í gömlu greininni um persónuvernd er fært inn í nýja grein um vernd persónuupplýsinga, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga til að tryggja betri meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá TR, sem ég tel til bóta frá eldri lögum sbr.:

„Vernd persónuupplýsinga.

Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.

Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.
Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.
Upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits á grundvelli ákvæða þessa kafla skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er og skal þeim eytt að lokinni tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits.“

Það er sérkennilegt að þessi umræða komi upp fyrst núna þegar þetta ákvæði hefur verið í gildi í 13 ár.

En kannski las bara enginn gömlu lögin?

(Athuga: RÚV birti aðra frétt um breytingarnar á lögunum til skýringar kvöldið eftir.  Ég fjallaði jafnframt um lögin og fleira í Kastljósviðtali sama kvöld.  )

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Sigrún Jóna Sigurðardóttir

    Tryggingastofnun fær auknar heimildir til eftirlits með umækjendum bóta, eftir breytingu Alþingis á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra. Þá þurfa þeir sem hafa áunnið sér réttindi hjá lífeyrissjóðum að sækja um þau áður en sótt er um hjá TR.
    Þá er Tryggingastofnun heimilt að krefja bótaþega um endurgreiðslu auk 15 prósenta álags, ef í ljós kemur að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi ekki veitt nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur.
    Aukin upplýsingaskylda annarra stofnanna
    Ennfremur kveður á um upplýsingaskyldu annarra stofnana í lögunum, en skattyfirvöld, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður Íslenskra námsmanna, og viðurkenndar menntastofnanir skulu veita Tryggingastofnun upplýsingar um bótaþega. Þá skulu Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum nauðsynlegum upplýsingum. Ennfremur fá læknar og heilbrigðisstarfsmenn Tryggingastofnunar aðgang að sjúkraskrám umsækjenda.
    Jafnframt er umsækjendum eða greiðsluþegum og maka þeirra skylt að taka þátt í meðferð málsins meðal annars með því að koma til viðtals, ef óskað er, og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem teljast nauðsynlegar til að meta bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.
    Samkvæmt lögunum skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á.
    Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, var flutningsmaður laganna. Samkvæmt tilkynnginu frá velferðarráðuneytinu eiga lögin að stuðla að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og dregið verði úr bótasvikum.

    Ofanritað er tekið af vefnum um þetta nýsamþykkta frumvarp v.TR

    Var þetta líka í fyrri reglum?

    Ég man ekki eftir þessu.
    Óska vinsamlegast eftir svari
    sjs

  • „Það er sérkennilegt að þessi umræða komi upp fyrst núna þegar þetta ákvæði hefur verið í gildi í 13 ár.“

    Bara ef manni finnst sérkennilegt að önnur lög verði fyrir umræðu eftir að hafa verið lengi í gildi, eins og t.d. hefur gerst með lög hvað varðar mannréttindi annara þjóðfélagshópa.
    Þessi röksemdarfærsluvila heitir „appeal to tradition“ og er sama röksemdarfærsluvilla eins og allir forréttindahópar hafa beitt til að færa rök fyrir því að afneita öðrum jafnrétti.

    Af hverju breyta þessu núna, þetta er hefð.

  • Guðný Ármannsdóttir

    Satt að segja vissi ég ekkert um gömlu lögin, ég viðurkenni það. Mér bara krossbrá þegar ég las um þau nýju og uppgötvaði að veikt fólk sé niðurlægt þannig að það sé látið afsala sér persónuréttindum sem okkur hinum finnst sjálfsögð ef það þarf að sækja um framfærslu því það ræður ekki við launavinnu. Það hlýtur að vera hægt að hafa þetta mannúðlegra.

    Þeir sem á annaðborð svindla eru nógu klókir til kynna sér lögin og fara í kringum allar skráningar hvort eð er, fá greitt í seðlum ef þau vinna svart, læra á kerfið hversu flókið sem það er gert. Þetta bitnar bara á þeim veiku.

    Ellilífeyrisþegar ættu einungis að þurfa að sýna skilríki til að staðfesta aldur, Þeir eiga rétt á sínum lífeyri þó þeir séu við fulla heilsu, þeir eru búnir að vinna fyrir þessu með ævistarfinu og byggja upp velferðina, skil ekki þörf á öllu þessu pappírsbákni þar

  • Sæl Eygló, gerir þetta þá ekki ráð fyrir greiðsluþáttöku Tryggingarstofnunar?
    Á Norðurlöndum sér maður að áhrif hins opinbera á heilbrigðiskerfið fara dvínandi þar sem hið opinbera annar ekki eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu og minnkar eða fjarlægir greiðsluþáttöku sína eins og td. í lýtaaðgerðum.
    Í norrænu nágrannalöndum okkar er þetta vaxandi og í Noregi eru td. yfir 400 þús með einkatryggingu. Fyrverandi heilbrigðisráðherra Noregs, jafnaðarmaðurinn Støre sjálfur og fjölskylda hans nýtti sér td. þjónustu Volvat meðan hann gegndi því starfi og þótti ekkert tiltökumál.
    Ég veit ekki hverjar eru væntingar íslenskra stjórnmálamanna í þeim efnum. Þarna á ég ekki við það sem er talað um sem stofurekstur sérfræðinga á Íslandi þar sem ríkið greiðir niður að stórum hluta. Þarna er alvöru einkarekstur þar sem ríkið og hið opinbera greiðir ekki neitt. Augljóslega Tryggingarstofnun eða ríkið ekki þá hafa meira að segja en td. en um tannlæknaþjónustu fullorðinna þar sem ríkið greiðir ekki neitt. Þar koma augljóslega skattayfirvöld til að fylgja eftirliti með skattgreiðslum og Landlæknisembættið fylgist með faglegum hluta þessa. Með niðurskurði í heilbrigðiskerfinu enda mun þurfa að stórauka útgjöld til að standa í stað vegna gríðarlegs fjölda sem fer yfir 60tugt á næstu örfáu árum sem mun leiða til gríðalegs álags á heilbrigðiskerfinu og mun sprengja utan af sér alla ramma. Þrátt fyrir smæð íslensks samfélags mun augljóslega koma fram alvöru einkarekið heilbrigðiskerfi við hliðina á hinu opinbera eins og í norrænu nágrannalöndum okkur hvort sem okkur líkar sú þróun eða ekki.
    Ef hlutfallið er svipað og í nágrannalöndum okkar eru um 10% Íslendinga sem hafa efni á og vilja fjárfesta í sjúkratryggingu til viðbótar það sem hið opinbera veitir fyrir sig og fjölskyldur sínar og þetta væri þá yfir 30 þúsund manns.
    Á norðurlöndum er einkarekna (alvöru prívat) heilbrigðiskerfið í bullandi samkeppni við hið opinbera um fagfólk og núverandi hægristjórn hefur þar að markmiði að auka útboð og hlúa að einkarekstri. Td. er öll heimilislæknaþjónusta einkarekin (en greidd af ríkinu) og það hefur verið frá 2001 og í 8 ára valdatíma síðustu vinstristjórnar í Noregi var þetta látið aldeilis ósnert. Sama á einnig við í Svíþjóð og Danmörku.
    Það finnst einnig alvöru einkarekin heimilislæknisþjónusta fyrir þá sem borga.
    Það kostar milli 2500 og 5000 Nkr að fara til sérfræðings utan við kerfið og fleiri stórar keðjur eru ráðandi sem reka bæði hjúkrunarheimili og sjúkrahús.
    Volvat, Aleris, Teres Colleseum og Capio bæði í Noregi, Svíþjóð og Danmörku enda flæðir fagfólk hindrunarlaust á milli. Síðan eru atvinnumiðlanir sem sjá um að skaffa fagfólk fyrir hið opinbera.
    Má geta þess að stór fjöldi íslenskra lækna vinnur þarna sumir alfluttir, aðrir hafa aldrei flust tilbaka og síðan er stækkandi hópur sem fer frá Íslandi. Þegar heilbrigðiskerfi norrænu landanna getur ekki staðist samkeppnina við einkaaðila getur alls ekki hið íslenska staðist hana.

  • kristinn geir st. briem

    skilst að það séu ekki bara læknaskyrslur sem á að skoða heldur líka ymislegt annað því ef það væri bara læknaskyrslur þá eru það læknar sem fara yfir það því hlítur trúnaður líka að hvíla á læknum tryggíngastofnunar það eina sem þeir géta gert er að leiðréta matið aðrir heilbrigðistarfsmenn eiga ekkert með að glugga í sjúkraskrár án leifis sjúklíngs

  • Jón Bragi Sigurðsson

    Sæl,
    Er þetta virkilega svona orðrétt í lögunum, og ef svo er, hvað þýðir þetta: „Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á.“

  • Guðný Ármannsdóttir

    Var að hlusta á viðtal við þig í bítinu. Þar kemur fram að mikið af bótasvikum sé því fólk sé vitlaust skráð til heimilis. Þar hlýtur líka að koma inní að húsnæðiskerfið er í tómu tjóni. Ég er með 200 þúsund í útborguð laun (fyrir laun á vinnumarkaði, ekki hjá TR) og borga 140.000 í húsaleigu. Ég á ekki rétt á húsaleigubótum því krakkarnir mínir þrír eru öll með skráð lögheimili hjá mér án þess að búa þar og við með of háar tekjur til samans. Þau búa öll í ósamþykktu húsnæði þar sem ekki er hægt að skrá sig til heimilis. Vinir þeirra búa líka þannig skráð með lögheimili hjá foreldrum eða öðrum. Það er orðið eina leiðin fyrir ungt fólk til að flytja að heiman. Til að fá lögheimilisskráningar réttar þarf þá að fara í það að fólk geti skráð sig þar sem það raunverulega býr, jafnvel þó það sé í óíbúðarhæfu húsnæði. Þannig fengjuð þið ráðamenn líka raunverulega mynd af því hvernig staðan í húsnæðismálum er. Á meðan lög koma í veg fyrir að fólk geti skráð sig þar sem það býr hlýtur að vera ómögulegt að fá þessar skráningar réttar.

  • Eitt atriði sem er afskaplega fáránlegt er, að þetta svokallaða „eftirlit“ sem er verið að herða á öryrkjum, núna hengir það saman að sumir/flestir/markir öryrkjar, eru varanlega veikir og enginn von á að Jesús kíki við og framkvæmi kraftaverk right?,. þ.e.a.s. að TR er að FULVISSA sig á 3. ára fresti eða hvað veit ég, hvort fólk hafi óvart rekist á Jesús sem einfaldlega hafi heilbrigt dúddan á staðnum ha?

    Smá til umhugsunar: Er það réttlátt gagnvart t.d. einhverjum krimma, að booka hann í réttinn á hverju 3-4 ári, til að dæma í sama málinu út frá sömu gögnunum, en því nú eru kominn ný lög, þarf að skoða málið hans aftur? NEI, hann fær bara einn dóm, samsvarandi er það ekkert „réttlæti“ í því að halda fárveiku fólki úti á ystu nöf með reglulegu millibili, og fjarleiga þeirra lífsgrunvöll.

    Hefði það ekki verið aðeins betra úthugsað ef allir ríku kallarnir sem sluppu í burtu með fleiri milljarða eftir hrun, hefðu verið látnir borga 10-15% af milljarða skuldum þeirra, en að plokka HVERJA EINUSTU KRÓNU ÚT ÚR NÍÐFÁTÆKUM ALMENNINGI OG HENDA FÓLKI Á GÖTUNA?, það er hér verið að búa til einhverja krimmatýpur úr öryrkjum, og by the way: Ef þessir blessuðu öryrkjar sem voru „oooohhhh so smart“ að þeir kunna öll löginn utan af og nota þau til að svindla á TR með?, ef viðkomandi einstaklingar eru virkilega svo góðir, gæptu þeir fengið vinnu hjá TR á 2X – 3X hvað öryrkjar fá útborgað,.. hljómar ekki sérlega smart, af svo smart liði sem var lýst á þennan hátt, maður veit ekki hvort maður á að hlægja eða gráta ha?

    Ein spurning hérna í lokinn: Voru það öryrkjarnir eða bankarnir sem settu Ísland á hausainn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur