Föstudagur 22.05.2015 - 14:28 - 2 ummæli

Pappakassar á 63 milljónir

Við fjölskyldan höfum flutt æði oft í gegn um árin og í hvert sinn hefur búslóðinni verið pakkað í kassa og tekin upp á nýjum stað. Alltaf voru þó nokkrir kassar sem fóru óopnaðir úr geymslu í flutningabílinn og úr honum inn í nýju geymsluna. Í þeim mátti finna ýmsa hluti sem okkur fannst við tengd nánum tilfinningaböndum.  Það voru einkunnablöð úr grunnskóla, gömul handavinna og ritgerðir sem við höfðum verið sérstaklega stolt af, uppáhalds kjólarnir af stelpunum þegar þær voru litlar, tónleikamiðar með uppáhaldshljómsveitinni og fleira.  Þeir voru aldrei opnaðir, heldur fluttir, tryggilega lokaðir, milli íverustaða, aftur og aftur.

Pappakassarnir okkar þurftu sína fermetra og um tíma leigðum við jafnvel sérstaka geymslu undir þá því ekki var nægt pláss í íbúðinni sem við bjuggum í þá stundina.

Ég fór að hugsa um pappakassana mína þegar ég las frétt í Morgunblaðinu um hvað verktaki í Garðabæ hafði gert til að lækka kostnað við íbúðarblokk sem hann var að byggja.  Leiðin sem hann fór var að minnka íbúðirnar en halda herbergjafjölda.  Þannig voru íbúðirnar áfram tveggja, þriggja, fjögurra og fimm herbergja en fermetrum var fækkað í eldhúsum, stofum og baðherbergjum og þvottahús og baðherbergi sameinuð til að gera íbúðirnar minni og ódýrari.

Með því lækkaði verðið á 3-4 herbergja íbúðum á tiltölulega dýru svæði úr um 40 milljónum króna í um 30-35 milljónir króna.  Tíu milljónir króna sem teknar eru að láni undir pappakassa og annað mikilvægt dót verða að tæplega 63 milljónum króna yfir 30 ára tímabil skv. reiknivél Íslandsbanka (verðtryggt húsnæðislán með vaxtaendurskoðun, 3,95% vöxtum og miðað við meðaltals ársverðbolgu s.l. 10 ár).

Er þess virði að borga allt að 63 milljónir undir pappakassa með gömlu dóti?

Svarið mitt er nei, – ekki hvað síst eftir að ég var minnt á hvað það er sem raunverulega skiptir máli þegar kviknaði í heimili mínu fyrir síðustu jól.

Þar voru einu tilfinningaböndin sem skiptu máli þau sem snéru að manninum mínum, dætrum mínum, kettinum og þeim góðu ættingjum og vinum sem voru tilbúin að hjálpa okkur á allan mögulegan máta.

Ekki hvað síst hvað varðaði húsaskjól.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Nú ert þú búin að vera í stöðu til að gera einhvað síðustu 2 ár.þú hefur ekki gert neitt nema að skrifa svona pistla á eyjunni..hvað er það sem að tefur þig í að gera einhvað af því sem að þú ert svo dugleg að skrifa pistla um?Er Bjarni erfiður eða Doktorinn?
    Eða er þetta bara ógisslega þægilegt innidjobb?

  • Eyþór: Hún er með „steinvölur í skónum sínum“ (sem þyngja þá og skrefin sem hún er að reyna að taka.)

    p.s.
    „steinvölur í skónum“
    Tilvitnum: The Godfather 3

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur