Fimmtudagur 09.07.2015 - 13:15 - 2 ummæli

Þakviðgerðir í þjóðarhúsinu

Að búa við öruggt húsnæði er grunnþörf hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu. Ísland er velferðarsamfélag og það er beinlínis skylda stjórnvalda að tryggja að fólk hafi þak yfir höfuðið.

Til að tryggja að fólk geti komið sér upp húsnæði höfum við byggt upp ýmis stuðningskerfi. Við höfum haft vaxtabætur sem er niðurgreiðsla ríkisins á vöxtum af lánum teknum til húsnæðiskaupa -en upptaka þess kerfis var aðferð til að jafna aðstöðu fólks gagnvart þessari mikilvægu grunnþörf hvers Íslendings.

Við höfum síðan haft húsaleigubætur til að styðja við þann hóp sem er á leigumarkaði. Sá munur hefur hins vegar verið á þessum tveimur kerfum að mun fleiri hafa notið vaxtabóta en húsaleigubóta. Það er samdóma álit allra sem þetta hafa skoðað að ólíkur stuðningur við leigjendur og fasteignareigendur hafi valdið skekkju á markaðnum. Fyrir utan mismununina sem í því felst þá hefur þetta hamlað uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar og aðgang að fjölbreyttari valkostum fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

Þverpólitísk sátt hefur verið um að þessu þurfi að breyta. Vinna við það hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar en hún náði ekki að koma saman frumvarpi þess efnis. Ég lagði áherslu á að hraða vinnu við þetta mál þegar ég tók við sem ráðherra húsnæðismála enda löngu tímabært að taka næsta stóra skref í húsnæðismálum þjóðarinnar. Það er sá áfangi sem við erum nú að ná og munum ljúka með framlagningu frumvarpa minna sem vonandi taka gildi um næstu áramót.

Af hverju hærri húsnæðisbætur?
Þetta er stór áfangi og hann felur í sér að við bætum kjör allra. Þær fregnir að fleiri eigi von á húsnæðisstuðning hafa hins vegar orðið tilefni leiðs misskilnings. Spurt hefur verið hvort hygla eigi tekjuháum sérstaklega með þessum breytingum. Vissulega mun jafnari réttur til húsnæðisbóta styrkja öll heimili, ekki síst millitekjufólk á leigumarkaði. Tekjutengingar munu hins vegar, líkt og ávallt þegar við tölum um slík jöfnunartæki, tryggja að þeir sem hafa minnst fá hlutfallslega mestan stuðning.

Ég vil biðja þá sem gripið hafa þennan misskilning á lofti að staldra við og velta fyrir sér hvaðan sú gagnrýni kunni að vera komin. Kann að vera að hún eigi heimilisfesti hjá þeim sem vilja helst engan opinberan stuðning til húsnæðismála? Hjá þeim sem vilja að einkaaðilar geti einir gert út á erfiða stöðu heimilanna að þessu leyti? Er hún að koma frá þeim sem vilja alls ekki sjá hækkun húsnæðisbóta verða að veruleika?

Fólk á hrakhólum nær ekki að blómstra
Eftir hrun höfum við séð að húsnæðiskostnaður sem hlutfall af tekjum heimilanna hefur hækkað á leigumarkaði. Það er mikið áhyggjuefni. Af því að við viljum samfélag þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og þar sem börn efnaminni foreldra búa við öryggi þá þurfum við að passa upp á þessi stuðningskerfi. Þau hafa verið byggð upp á löngum tíma í mikilli sátt og samstöðu allra Íslendinga.

Ef við líkjum samfélaginu okkar við hús þá mætti segja að opinber húsnæðisstuðningur sé þakið. Það var hins vegar kominn tími á viðgerð á þakinu og líkt og þegar gert er við þak í fjölbýlishúsi þá er það bæði skylda og hagur allra að leggja í púkkið. Öflug öryggisnet er undirstaða velferðar og hagsældar. Fólk á hrakhólum nær ekki að blómstra svo að þjóðfélagið fái notið góðs af. Uppbygging öryggisnets sem tryggir fólki húsnæði óháð tekjum eða stöðu í lífinu er fjárfesting sem borgar sig, um leið og hún er siðferðisleg skylda okkar.

Húsnæðisbætur eru jafnréttismál, þær eru sanngirnismál og þær eru stórt skref í átt til aukinnar velferðar. Þökk sé styrkri efnahagsstjórn og réttum ákvörðunum er nú loks fjárhagslegt svigrúm til að stíga þetta skref. Því veit að ég við fögnum – íbúarnir í því trausta fjölbýli sem kalla má þjóðarhúsið Ísland, þar sem allir geta hallað höfði og þakið lekur ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Hlynur Jörundsson

    Ja … sei sei

    Liðið er bara ekki að ná þessu.

    Það eru of fáar íbúðir á viðráðanlegum verðum … og því skiptir þetta útspil öngvu í dæminu.

    Afleiðingarnar verða hærra húsnæðisverð og hærri leiga.

    Er virkilega svona erfitt að fletta upp Hagstofunni … fjölda íbúða og fjölda íbúðarþurfa ? Þá og nú ?

    Íbúðir í byggingu er ómarktæk tala líkt og íbúðir sem byrjað er á líka … eina sem gildir eru kláraðar íbúðir.

    50 % rýrnun á íbúðum í byggingu hefði átt að sparka í einhverja … en þeir sem búa í fílabeinsturnum umkringdir blaðrandi „fræðingum“ … eru greinilega ekki læsir.

    Flettu þessu upp Eygló .. þetta er mjög einfalt og allir með grunnþekkingu á stærðfræði sjá hvernig landið liggur.

    Nema þú auðvitað viljir að allir búi á hótel pabba og mömmu til þrítugs ?

  • Ásmundur

    Húsaleigubætur til flestra eða allra ganga ekki upp því að þær lenda hjá húseigandanum sem sér í þeim tækifæri til að hækka leiguna.

    Húsaleigubætur þar sem tekjuhærri einstaklingar fá hærri bætur en þeir tekjulægri eru auk þess tl þess fallnar að auka ójöfnuð og eiga því engan rétt á sér.

    62% skuldaleiðréttingarinnar fór til þess helmings skuldara sem hafði hærri tekjur. Hér virðast menn vera að endurtaka sama leikinn.

    Til að húsaleigubætur hafi ekki áhrif á leiguverð mega þær aðeins ná til þess minnihluta sem verst er settur. Þannig eru þær einnig það jöfnunartæki sem þær eiga að vera.

    Að réttlæta frumvarpið með því að hinir tekjulægri fái hlutfallslega meira er rökleysa sem breytir engu um að verið er að færa fé frá hinum verr settu til hinna betur settu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur