Sunnudagur 12.07.2015 - 19:35 - 14 ummæli

Er lán lukka?

„Það er ekki hægt að spara á Íslandi,“ hef ég oft heyrt frá fólki í kringum mig og mér sjálfri.  Ég var lengi vel alveg sannfærð um þetta og gerðist því í staðinn sérfræðingur í að taka lán.

Lán varð nánast að lukku í mínum huga.

Ef það var eitthvað sem mig langaði í, þá rölti ég í næstu lánastofnun og viðkunnanlegi þjónustufulltrúinn bjargaði því fyrir mig.  Yfirdráttarlán brúaði bilið þar til LÍN borgaði út námslánin, bankalán dekkaði það sem upp á vantaði, 90% verðtryggt íbúðalán hjálpaði til við fyrstu kaupin og 100% gengistryggður bílasamningur reddaði bílnum.  Í fæstum tilvikum átti ég eitthvað sparifé upp í fjárfestingar mínar, hvort sem um var að ræða menntunina, bílinn eða íbúðakaupin.

Enda ekki hægt að spara á Íslandi.

Ég átti að vísu vini sem settu alltaf 10 til 20% af launum sínum um hver mánaðarmót inn á bankabók áður en nokkuð annað var borgað, sama reikning og fermingargjafirnar fóru inn á nokkrum árum fyrr, sem fóru hægar í gegnum háskólanámið til að þurfa ekki að taka námslán, bjuggu lengur heima til að geta sparað fyrir húsnæði eða tóku strætó í vinnuna til að geta borgað hraðar niður íbúðalánið.  Eftir hrun voru þessir vinir mínir yfirleitt mun betur staddir en ég.  Þeir áttu smá aur í bankanum ef þeir misstu vinnuna og gylliboð um meiri lán þegar fasteignabólan fór á flug höfðuðu lítið til þeirra.

Í dag þegar ég heyri enn á ný talað um að ekki sé hægt að spara og fyrir auknum lántökum þá hugsa ég til þessara vina, – sem trúðu ekki að lukkan fælist í lánum heldur eigin hagsýni og ráðdeild.

Þetta er fólkið sem ég vil gjarnan læra af og kenna mínum börnum að það er til önnur leið en sú sem ég valdi.

Þess vegna hef ég talað fyrir húsnæðissparnaði.  Þess vegna hef ég stutt séreignasparnaðarleiðina.  Þess vegna tel ég ekki neikvætt að börnin okkar hætti að vera með þeim yngri í Evrópu til að steypa sér í skuldir vegna fasteignakaupa.  Þess vegna hrekk ég við þegar aftur er byrjað að tala um 90% plús lán við fyrstu kaup.

Hvernig þá?

Lítum á tvö dæmi.  Fyrir utan flesta framhaldsskóla og háskóla má finna mikinn fjölda bíla, sem flestir kosta á bilinu 0,5 til 3 milljónir króna.  Í einum framhaldsskólabekk er ekki ólíklegt að hver nemandi sé með síma og tölvur að verðmæti 100 til 250 þúsund krónur í fórum sínum. Í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins er þannig miðað við að kostnaður vegna ökutækja sé um 73 þúsund krónur og fjarskipta um 12 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu eða samtals um 85 þúsund krónur á mánuði.

Yfir fjögurra ára tímabil eru þetta fjórar milljónir króna.

Fyrir stuttu voru auglýstar íbúðir á 322 þúsund krónur á fermetrann. Byggingarreglugerð hefur verið breytt til að hægt sé að byggja minni íbúðir og sveitarfélög vinna að því að minnka íbúðir samkvæmt skipulagi.  Tveggja herbergja, sextíu fermetra íbúð á þessu verði kostar þannig rétt tæpar 20 milljónir króna.

Fjórar milljónir króna myndu duga fyrir 20% útborgun í þannig íbúð og hana mætti jafnvel leigja út meðan farið er í frekara nám.

Einhverjir af mínum skynsömu og ráðdeildarsömu vinum höfðu reiknað þetta út fyrir löngu, keypt sér strætókort, þakkað fyrir að geta búið heima aðeins lengur og fengið sér Frelsi fyrir gamla Nokia símann.

Við gætum vel lært af þeim, nema við viljum bara hverfa aftur til ársins 2007.

Við höfum valið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Spartacus

    @Eygló Harðardóttir: ,,Fjórar milljónir króna myndu duga fyrir 20% útborgun í þannig íbúð og hana mætti jafnvel leigja út meðan farið er í frekara nám.“

    Ráðdeild hins ráðdeildarsama Íslendings gerir sem sagt ráð fyrir því að aðrir séu ekki eins ráðdeildarsamir og hann sjálfur.

    Eða svo heppnir að geta búið hjá mömmu meðan eyðslusamir leigjendur borga fyrir hann íbúðina.

  • Sverrir Kristjánsson

    Skv. ofanrituðu. Ungt fólk ætti að spara fyrir 15-20% útborgun í íbúð og taka bestu lán í lífeyrissjóði eða Íbúðalánasjóði ( verðtryggð) og kaupa íbúð…..Það á síðan að bíða þar til gengið verður fellt til að bjarga bankastertum…. Þeirra sparnaður hverfur.

    Gengið hefur verið fellt yfir 2200% frá því að Danir voru kvaddir og það eitt sýnir að okkur og börnum okkar er sýnd ótrúleg lítilsvirðing.

    Foreldrar hjálpið börnum ykkar til að mennta sig þannig að þau geti gengið inní vel launuð störf erlendis og búið þar við öryggi sem ekki er hægt að bjóða þeim hér á Íslandi.

  • Það þarf tvo til.

    Framleiðanda og neytanda.

    Framleiðandinn þarf að framleiða það sem að neytandinn getur keypt (agað framboð og öguð eftirspurn).

    Það sem aftur á móti gerist er að auglýsingar fá fólk til að gera hluti sem það þarf ekki að gera, neyta hluta sem það þarf ekki þá sem og að setja sér óraunhæf markmið. Slíkt er almennt kallað „draumórar“.

    Það sem að framleiðendur og neytendur hafa almennt ekki tamið sér er það sem þá vantar þó mest, nefnilega AGI.

    Aga framleiðandans til að byggja það sem að agaður neytandi þarf, en N.B. ekki það sem hann langar mest í.

    Án aga er einvörðungu verið að fóðra þegar ofvaxtið bankakerfi.

  • Steinþór

    Hvernig er hægt að fara hægar en 22 einingar á önn og samt fengið lín lán?

  • Ágæta Eygló.
    Ég vil fyrir alla muni gera ráð fyrir að þú viljir vel með þessum skrifum þínum, þess vegna vil ég benda þér vinsamlega á ákveðna hluti sem mér sýnist þér yfirsjást, hluti sem tilheyra veruleika venjulegra Íslendinga dagsins í dag.
    Þú vilt meina að það sé vel hægt að spara á Íslandi með skynsemi og ráðdeildarsemi og bendir á að þú og margir aðrir hafi ekki sýnt slíka skynsemi, heldur tekið lán til að borga íbúð, bíl og fjármagna nám.
    Þú bendir á ráðdeildarsama vini sem hafi gert hlutina öðruvísi. Hafi búið heima hjá foreldrum sínum, líklega frítt þá, þar til háskólanámi lauk, notað strætó og haft Frelsi í símanum. Þeir vinir hafi náð að spara 10-20% af laununum sínum fyrir framfærslu meðan á námi stóð (sem var teygt um lengri tíma til að þurfa ekki að taka námslán) og safnað fyrir innborgun á íbúð.
    Þú vilt læra af þessu fólki og benda börnunum þínum á að gera það líka.
    Mig langar að benda á nokkra punkta varðandi þetta.
    Í fyrsta lagi þarf ansi góð laun til að 10-20% af þeim geti fjármagnað allt þetta á annan hátt en þann að ungu vinirnir þínir ráðdeildarsömu hafi haft mjög góð laun og fulla framfærslu foreldra sinna fram yfir þann tíma að háskólanámi lauk.
    ———————
    Til að eignast 4 000 000 króna þarf einstaklingur að safna í 9 ár samfleytt 20% af 200 000 króna mánaðarlaunum.
    Algeng útborguð laun verkamanna fyrir 100% vinnu eru 200 000 kr á mánuði, lægri hjá mörgum. Það er sem sé frá 17 ára til 26 ára aldurs og það má engan mánuð missa.
    Gera þarf ráð fyrir að þessi ungmenni hafi þá unnið 200% vinnu.
    Þ.e nætur og daga við bæði skóla og launað starf í þessi 9 ár, foreldrar ungmennanna + þessi 170 000 kall á mánuði sem er afgangs hefði átt að duga fyrir strætó, bílprófi, ef þess var þörf í strætóumhverfinu, skólabókum, skólagjöldum því jafnvel í ríkisskólunum eru skólagjöld, tölvum og jafnvel forritum til að geta nýtt sér skólanámið, fatnaði, síma, nettengingu, heilbrigðisþjónustu, húsgögnum því eftir því sem unga fólkið eldist þarf það kannski að haga hlutum öðruvísi, jafnvel stækka rúmið sitt. Já og kannski einhverri afþreyjinu. Jafnvel ungt fólk þarf á menningu að halda.
    Flest ungmenni þurfa líka að borga fyrir fæði sitt í það minnsta, þó foreldrar deili með þeim svefnherbergi fram á fullorðinsár.
    Af því þú nefnir ákveðin dæmi vil ég benda þér á eitt mér nærtækt, þ.e. stöðuna heima hjá mér og mínum.
    27 ára dóttir mín býr ásamt dóttur sinni hjá mér, til að reyna að spara fyrir námi. Það er að vísu búið að skemma það fyrir henni að hún geti klárað þessar einingar sem hún á eftir í stúdentsprófið af því félagi þinn Illugi lokaði á svona háaldraða einstaklinga í framhaldsskóla. Hún þarf því að spara enn meira til að komast í einkaskóla eftir þessum fáu einingum sem eftir eru.
    Hún nefnilega eignaðist barn.
    Ég á ekki stórt húsnæði, enda bara kennarablók með 5 ára nám að baki og námslán.
    En ég keypti Billy hillur í Ikea til að búa til skilrúm í svefnherbergið mitt. Hún og barnið sofa saman í bóli í innra rýminu og ég í því ytra. Heppnar við að herbergið er þokkalega stórt svo við getum smokrað okkur meðfram þeim og í bólið. Erfiðara að skúra undir þeim.
    Hún hefur sætt sig við að næstu árin muni hún ekki eignast kærasta, nema hann eigi efnaða foreldra sem deila ekki svefnherbergi með foreldrum sínum einsog hún.
    Hún er nefnilega frekar feimin við ástarleiki við hliðina á mömmu sinni eða foreldrum einhvers elskhuga og kann ekki við að vísa mér út á meðan, þó ég hafi bent henni á möguleikann að ég gæti tjaldað í Laugardalnum á meðan eða reynt að koma mér fyrir í sófadruslunni í stofunni.
    Og já ég vil benda þér á að hún hefur reynt að lifa sem sjálfstæður einstaklingur en réð ekki við það, starfandi í vaktavinnu á sambýli og kom því til mín aftur. Hún hefur samt ekki náð að eignast bíl og notar Frelsi. Hún á ekki tölvu, notar mína þegar þörf er á.
    Kjarni málsins er mín ágæta Eygló að þínir ráðdeildarsömu vinir hafa líklega átt efnaða foreldra sem gátu séð þeim farborða á allan hátt fram á miðaldur. Nema auðvitað þeir hafi deilt svo dásamlega öllu með foreldrum sínum.
    Læt ég nú þessu lokið í bili og vona innilega að þú hafir orðið einhvers vísari.

  • Steinþór, hún bendir á að fara hægar í gegnum námið til að þurfa ekki að taka námslán. Er þá líklega meina til að geta unnið með náminu.

    En ég er sammála þessu, allur sparnaður er af hinu góða alveg óháð því hvað mönnum finnst um það sem hér er sett fram.

  • Eygló Harðardóttir

    Viðbrögð mín í gegnum tíðina hafa einmitt verið að þetta sé ekki hægt. Það er ekki hægt að spara á Íslandi og ég hef orðið ansi reið og pirruð gagnvart þeim sem reyndu að telja mér trú um eitthvað annað. Vinir sem voru ekki börn efnaðra foreldra, eða jafnvel börn einstæðra foreldra líkt og ég sjálf.

    En sú fékk mig til að endurhugsa málið hvað mest var náin ættingi sem var einstæð móðir á lágum launum, sem hjólaði daglega í vinnuna þvert yfir Reykjavík, sem sýndi ótrúlega hagsýni í matarinnkaupum og notaði hvern einasta 100 kall sem var eftir í hverjum mánuði til að borga niður bankalán sem hún hafði tekið til að kaupa tveggja herbergja íbúð fyrir sig og barnið sitt. Þegar það var uppgreitt, voru 100 kallarnir settir í að spara fyrir bíl.

    Ég var svo sem kominn fyrr á bíl en hún, en hún átti sinn þegar hún keypti hann loksins. Ekki SP Fjármögnun, líkt og kom í ljós með minn bíl 😉

    ——————–
    „Whether you think you can or you think you can’t you’re right.“ Henry Ford

  • Takk Eygló.
    Getur þú sagt okkur hvað íbúð þessarar hjólandi konu kostaði marga hundrað kalla og hvað hún var orðin gömul þegar hún fór að íhuga sparnað fyrir bílakaupum?
    Og hvaða banki gaf greiðslumat fyrir íbúðaláni fyrir lágt launaða einstæða móður?

  • Ég velti líka fyrir mér hvernig var með leikskóla barnsins og fatnað barnsins því börn stækka og þurfa stærri skó á hverju einasta ári þó við sem höfum náð fullum líkamsvexti reynum að káta okkar endast í einhverja áratugi.

  • Ekki má gleyma því Eygló að ungt fólk utan að landi flytur til Reykjavíkur og hefur ekki annara kosta völ heldur en að leigja og geta ekki búið hjá foreldrum. Einnig er leigan oft dýr hér og erfitt að komast að á stúdentagörðunum. Því næst er ekki skynsamlegt að bíða með að klára námið. Heldur eins og við sjáum er mest vit í að klára grunnmenntun og drífa sig út og koma ekki aftur fyrr en þú átt pening.
    Enda er háskólamenntað fólk að fara að verða „útflutningsvara“ íslendinga. Ómenntaður aðili er með um 88% af ráðstöfunartekjun háskólamenntaðra. Svo háskólamenntun er að verða álíka slæm fjárfesting og bíll. Hún virðist bara falla í verði frá ári til árs.
    Staða allra er mismunandi og hugsun félagsmálaráðherra má ekki enda við Mosfellsbæinn, það er fleira ungt fólk í þessu landi.

  • Eygló Harðardóttir

    Já, það er alveg rétt að við verðum að huga að öllum heimilum, út um allt land með fjölbreyttum aðgerðum.

    Skuldaleiðréttingin var fyrsta aðgerðin, húsnæðissparnaður ásamt höfuðstólslækkun fasteignalána, óháð búsetu. Með skuldaleiðréttingunni vildum við létta skuldabyrði heimilanna og með séreignasparnaðarleiðinni vildum við gera fólki kleift að borga niður fasteignaskuldir hraðar eða eignast húsnæði á nýjan leik. Við höfum þegar séð áhrifin af þessu, en fyrstu kaupendur hafa farið úr því að vera 7,4% árið 2009 í tæp 17,8% árið 2014. Tölur það sem af er þessu ári benda til þess að hlutfall fyrstu kaupenda haldi áfram að hækka.

    Við erum jafnframt að vinna að því að gera húsnæðissparnað varanlegan þannig að þeir sem hafa sparað tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn skattfrjálst út til framtíðar við fyrstu kaup.

    En við vitum að það væru ekki allir sem gætu sparað eða myndu nokkurn tímann vilja kaupa húsnæði, og þyrftu að vera á leigumarkaðnum.
    Þess vegna var það hluti af samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins að hefja uppbyggingu á nýju félagslegu leiguíbúðakerfi og auka verulega húsnæðisstuðning við leigjendur í gegnum húsnæðisbótakerfið. Við ætlum líka að breyta skattlagningu tekna af leiguíbúðum í eigu einstaklinga til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða. Þessi aðgerð mun einnig nýtast út um allt land.

    Áfram verður svo unnið að breytingum á fyrirkomulagi almennra húsnæðislána, þar með talið að lánveitendum verði veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lántöku. Þar svo að horfa sérstaklega til þess hvernig megi tryggja jafnræði til lántöku út um allt land miðað við greiðslumat.

    Íslensk heimili eru jafn ólík og þau eru mörg. Því verða lausnirnar að vera fjölbreyttar líkt og kemur fram hér að ofan. Hvet ég sem flesta til að kynna sér yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga og tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.

    http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/adgerdir-rikisstjornarinnar-til-ad-greida-fyrir-gerd-kjarasamninga-a-almennum-vinnumarkadi#ibuda

  • Góð grein og vonandi nýta sér sem flestir þessi úrræði

  • Ég er ekki að saka þig um að eiga sök á ástandinu Eygló, heldur að búa til þessa fráleitu glansmynd sem á sér enga stoð, bara til að verja eitthvað sem er óverjandi.
    Þú beinlínis lýgur með orðum þínum og það er þér ekki samboðið.

  • Hafþór Baldvinsson

    Allt í lagi að spara ef það væri raunverulegur valkostur. En það er einfaldlega ekki í boði á Íslandi.
    Sparnaður er með neikvæðum vöxtum þ.e. hann lækkar að raunvirði hvern einasta dag ársins.
    Eygló skilur þetta ekki úr því að hún talar um sparnað sem valkost. Allt tal þitt um fátækt fólk er skrifað af skilningsleysi á kjörum fátækra.
    Sýndu þetta raunverulega dæmi um fátæka einstæða móður sem tókst að leggja hundrað kall til hliðar um hver mánaðamót.
    Hversu lengi var hún að „spara“ fyrir íbúð með þessum 1200 krónum á ári á verðbólgutímum?
    Fólk á í miklum erfiðleikum með íbúðarkaup eftir að sparimerkjakerfið var lagt af. Þótt það hafi haft sína galla þá var vel hægt að sníða þá af. En nei, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vildu að bankarnir fengju peningana til sín á sparnaðarreikninga með neikvæðum vöxtum sem bankarnir lánuðu svo út á miklu hærri vöxtum.
    Þannig hafa tveir flokkar gersamlega rústað húsnæðiskerfinu sem þeir „ætla“ að byggja upp aftur fyrir fátækt fólk.
    Nú á að endurtaka leikinn frá því um 1940 þar sem byggðar voru íbúðir á Hringbraut og víðar með mjög litlum íbúðum í lokuðu kerfi félagslega.
    Félagslegar leiguíbúðir. Halló. Er einhver heima?’
    Má ekki bara byggja leiguíbúðir hér og þar sem fólk hvar í stétt sem það er getur leigt? Þurfa leiguíbúðir að vera félagslegar? Líkt og Breiðholt og víðar. Ódýrt húsnæði? Af hverju má leiguhúsnnæði ekki vera valkostur fyrir alla? Er það tabú innan flokksins að leigja
    Mikið vildi ég Eygló að þú hefðir meiri skilning á viðfangsefni þínu í ráðuneytinu en þú virðist hafa ef marka má þessi skrif þín.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur