Föstudagur 23.10.2015 - 12:32 - 2 ummæli

Hagkvæmt húsnæði: Verkmannabústaðir

Á fundi um hvernig við byggjum vandað, hagkvæmt og hratt íbúðarhúsnæði hélt Pétur Ármannsson, arkitekt, erindi um sögu hagkvæmra byggingalausna á Íslandi.  Erindið var einkar áhugavert og sýndi að við getum vel lært af fortíðinni.

Þar sýndi hann ljósmyndir og teikningar af nokkrum af vinsælustu íbúðum borgarinnar: Verkamannabústaðir við Hringbraut, vestan Hofsvallagötu.

Hringbraut_ljosmynd

Verkamannabústaðir 1931-1937 – Guðjón Samúelsson

Saga þeirra er merkileg þegar litið er til hagkvæmra byggingalausna á samfélagslegum forsendum. Árið 1930 hóf Byggingarfélag alþýðu undirbúning að byggingu þeirra.  Á svæðinu átti að byggja 100 íbúðir og efnt var til samkeppni um hönnun húsanna, sem var þá nýjung.  Á endanum var þó húsameistara ríkisins falið að hanna húsin, og voru þau í meginatriðum í samræmi við grein sem Guðjón Samúelsson skrifaði nokkrum árum áður um byggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis.

Í bókinni Hæg breytileg átt (2015) segir svo um grein Guðjóns: „Guðjón leggur til að bærinn láti vinna vandaða uppdrætti af sambyggingum, ekki síst fyrir efnaminni hópa og sýnir teikningar af þremur mismunandi gerðum.  Sú teikning sem hann taldi henta best gerði ráð fyrir sambyggðum húsum, hver íbúð á tveimur hæðum með sérinngangi bæði frá götu og bakgarði, auk geymslu og þvottahúss í kjallara.  Í annarri tillögu lætur hann misstórar húsagerðir fléttast saman í eina lengju, annað hvert hús með burst fram á götu, og minnir þessi lausn á Bankahúsin svonefndu við Framnesveg, sem Guðjón teiknaði stuttu síðar og Landsbankinn kostaði í því skyni að opna augu fólks fyrir kostum bygginga af þessari gerð.  Þriðja teikningin sýnir tvílyft hús með fjórum íbúðum með aðkomu um sameiginlegan stigagang.  Þetta fyrirkomulag segir Guðjón vera ódýrast og henti best fyrir leiguíbúðir.“

Þessi lausn er í aðalatriðum fyrirmyndin af Hringbrautarhúsunum, sem hann teiknaði 1931.“

„Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru samfelld tveggja hæða húsaröð sem mynda hring umhverfis reitinn með 110 íbúðum og sameiginlegum húsagarði í miðju. Sambyggingin skiptist upp í sjálfstæð stigahús með fjórum íbúðum.  Forgarðar í sólarátt voru götumegin meðfram Hringbraut, en annars eru húsin byggð þétt við gangstétt.  Framkvæmdir við húsin hófust í júlí 1931 og var flutt inn í fyrstu íbúðirnar í maí 1932.“ (Hæg breytileg átt, 2015)

Í lok umfjöllunar bókarinnar Hæg breytileg átt (2015) um þátt félagslegra íbúða í húsagerðarsögu 20. aldar er nefnt að áratugum seinna er enn bent á verkamannabústaðina við Hringbraut sem „…frábærlega vel heppnað dæmi um borgarbyggð sem er manneskjuleg og vistvæn í nútímaskilningi, augljóslega mótuð að íslensku veðurfari og byggingarháttum.“ af erlendum sérfræðingum í borgarskipulagi og arkitektúr.

Hringbrautin var jafnframt ein fyrirmynd að nýrri íbúðabyggð í neðra-Breiðholti og Árbæ á 7. áratugnum og það sama má segja um næsta áfanga sem Gunnlaugur Halldórsson hannaði fyrir Byggingarfélag alþýðu á árunum 1936-1937 við Hringbrautina.

Er þetta ekki það sem við eigum að gera núna?  Byggja íbúðir sem eru hagkvæmar, vandaðar, manneskjulegar, vistvænar og íslenskar.

PS. Hér eru svo verkamannabústaðir sem byggður voru við Hafnarfjörð (1934) og Rauðárholti (1939).

Hafnarfjordur_Raudarholt

 

Flokkar: Húsnæðismál

«
»

Ummæli (2)

  • -Húsnæðisnefnd Reykjavíkur var í framkvæmdum fram til 1997 -(hét upprunalega Framkvæmdanefnd byggingaáætlunar)

    Það var í grunninn nánast notast við sama mannskapinn, krana og steypumót sem notuð voru til að byggja allar svokallaðar verkamannaíbúðir frá fellahverfi,seljahverfi,ártúnsholti og grafarholti.

    Síðasta hverfið sem var byggt er Dísar – og Álfaborgir í Grafarvogi með 140 íbúðum. Þar á undan voru sömu fjölbýlishús byggð við Dverga-Goða og Hulduborgir.
    Þessar íbúðir voru á sínum tíma seldar á ca.60% af almennu söluverði sambærilegrar íbúða árið 1995-97

    Sambærilegt batterí má að sjálfsögðu koma á fót aftur- Spurningin er hvernig bæði lagaumhverfið og fjármögnunarumhverfið er-
    Ásamt því að skoða þarf skipulag hverfa til að koma svona þyrpingum fyrir

  • Einnig má benda á að svona íbúðir verða alltaf byggðar í útjaðri byggðar, einfaldlega vegna þess að þar er lóðarverð lægst.

    Sem dæmi þá er til sölu íbúð við Lindargötu (skuggahverfinu) 53 fm á tæp 600þ fermetrinn ( 31,9 milljón)

    http://fasteignir.visir.is/property/166337

    Og hér er önnur í sömu stærð en í óvinsælu hverfi, og er þess vegna mun ódýrari 53,7 fm á tæp á 330 þ fm (18,9 milljón)

    http://fasteignir.visir.is/property/162768

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur